Gengisfellt nám

Greinar

Stytting menntaskólanáms úr fjórum árum í þrjú felur í sér fækkun kennslustunda úr 2707 í 2170. Þessi 20% gengislækkun námsins felur í sér 1,7 milljarða króna árlegan sparnað ríkissjóðs. Það er mergurinn málsins. Ríkið tímir ekki að leggja eins mikið fé til skóla og hingað til.

Aukin andleg fátækt ríkisins á tímum aukins veraldarauðs getur haft þá skemmtilegu hliðarverkun, að ýmsir, sem áður hefðu talið sig vera tossa, muni treysta sér til að reyna við gengislækkað stúdentspróf. Þá mun hækka hlutfall stúdenta af þjóðinni í heild.

Hingað til hafa Íslendingar ekki verið mikið upp á bókina. Aðeins 55% þjóðarinnar hefur lokið framhaldsmenntun, en 79% af þjóðum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í heild. Þarna má greinilega slá tvær flugur í einu höggi, spara peninga og ná í fegurri samanburðartölur við útlönd.

Spurningin er þá bara, hvort ekki megi ganga þessa götu á leiðarenda, spara enn meiri peninga með því að hætta við menntaskólanám og komast upp í 100% hlutdeild með því að senda heilum árangi þjóðarinnar stúdentsskírteini í pósti 17. júní á hverju ári.

Því miður er þjóðin ekki svo eðlisgáfuð, að þetta dæmi gangi upp. Raunar gengur henni fremur illa að stauta sig gegnum kverið á öllum stigum skólakerfisins í samanburði við aðrar þjóðir. Það kom í ljós í miklum fjölþjóðarannsóknum á síðasta áratug.

Þar fóru Íslendingar halloka fyrir fátækum þjóðum á borð við Tékka, jafnt sem miðlungsþjóðum á borð við Austurríkismenn og ríkum þjóðum á borð við Hollendinga. Sérstaklega virtust stærðfræði og raunvísindi vera okkur lokuð bók, stoðgreinar atvinnuvega nýrrar aldar.

Í ljósi þessara válegu tíðinda er ekki skynsamlegt að gengisfella gengislágt stúdentspróf um 20% í viðbót. Miklu nær er að finna leiðir til að gengishækka prófið, jafnvel þótt fjandmönnum ríkisrekstrar muni þykja blóðugt að sjá aukinn skólakostnað.

Íslenzka skólaárið er of stutt í samanburði við önnur lönd og skólatíminn of mikið slitinn sundur af hugmyndaríkum aðferðum við að draga úr vinnuálagi kennara. Vafalaust mikla menn fyrir sér, hvað muni kosta að koma hér á landi upp skólaári af erlendri lengd.

Fleira er athugavert en fjárskorturinn einn, enda sýndi fjölþjóðlega rannsóknin ekkert samband milli kostnaðar og árangurs menntakerfa. Raunar er sárt, að íslenzkir skólamenn skuli hjakka í metnaðarsnauðu fari og ekki læra af samanburði við útlönd.

Tillögur kerfisins um stytt menntaskólanám benda til, að ráðamenn skólamála geri sér litla grein fyrir dapurri stöðu þess.

Jónas Kristjánsson

DV