Össur og Ögmundur slúðra

Punktar

ÖSSUR OG ÖGMUNDUR slúðra um DV í fjölmiðlum vegna skrifa blaðsins um náið samband Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Jónínu Benediktsdóttur dálkahöfundar blaðsins. Þeir eru ósáttir við, að DV skuli segja frá slíku einkamáli. Tilræði við siðað lýðræði, segir Ögmundur.

EKKI EFAST ÞEIR SJÁLFIR frekar en aðrir um, að gagnkvæmur tölvupóstur milli Styrmis og Jónínu staðfesti frétt DV. Þeir neita hins vegar að láta sér detta í hug, að málarekstur Styrmis í þágu Jónínu eigi upptök í þessu sambandi. Þannig gerði Styrmir einmitt þetta einkamál að opinberu máli..

FRÉTT DV AF MÁLINU var ekki slúður, heldur sannleikanum samkvæm. Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson eru hins vegar pólitíkusar að reyna að slá ódýrar pólitískar keilur með því að slúðra um DV í von um, að fjölmennur minnihluti hræsnara í þjóðfélaginu minnist þeirra með hlýju..

ÞJÓÐFÉLAGIÐ ER HÉR Á LANDI meira eða minna gegnsýrt af samráði og spillingu, þar sem mikilvægara er talið að þegja yfir málum með tilvísun til friðhelgi einkalífs, heldur en að segja dónalegan sannleika. Þessi hræsni mun sízt minnka, ef þeir Össur og Ögmundur komast einhvern tíma til áhrifa..

VONANDI KOMAST SLÚÐRARARNIR Össur og Ögmundur ekki til valda og fá ekki tækifæri til að leggja lóð á þá vogarskál, að yfir þjóðfélaginu ríki biskup, sem ákveði, hvenær eigi að segja fréttir og hvenær eigi að þegja fréttir. Þeir félagar eru gamlingjar með úrelt viðhorf frá valdaskeiði hræsninnar.

DV