Woodward er fallinn

Punktar

BOB WOODWARD, blaðamaðurinn mikli frá Watergate, er fallinn af stalli. Umboðsmaður lesenda hjá Washington Post hefur áminnt hann og hann hefur beðist afsökunar. Hann lét spunameistara forsetans ljúga að sér og breiddi út lygar.

FYRIR TVEIMUR árum vissi Woodward um ýmis atriði um hjónin Joseph Wilson sendiherra, sem komst að raun um, að Írak hafði ekki keypt úraníum í Afríku, og Valerie Plame, sem var njósnari fyrir CIA og var opinberuð sem slík í hefndarskyni.

WOODWARD HÉLT vitneskju sinni leyndri fyrir ritstjórum Post, en notaði hana í skrifum og fullyrðingum í kjaftaþáttum í sjónvarpi, þar sem hann varði stjórnvöld og lýsti frati á skoðun Patrick Fitzgerald saksóknara á svonefndu Plamegate.

WOODWARD VAR átrúnaðargoð blaðamanna í lok Nixonstímans, en hefur nú sjálfur sogast inn í svartholið, þar sem söfnun auðs og frægðar hefur gert hann að hluta yfirstéttarinnar, sem hefur sameiginlegra hagsmuna að gæta gegn þjóðinni.

JUDITH MILLER var á endanum rekin frá New York Times fyrir svipað afbrot, vera í samkrulli með spunameisturum stjórnvalda til að koma spunanum á síður virtra dagblaða. Washington Post hefur hins vegar ekki rekið Woodward enn.

TRÚNAÐARBRESTUR New York Times við lesendur var hrikalegur og nú stefnir í enn meiri trúnaðarbrest hjá Washington Post. Benjamin Bradlee er fyrir löngu hættur þar sem ritstjóri fyrir aldurs sakir og aðrir bógar minni teknir við völdum.

ÞAÐ SEM ER að gerast hjá stórblöðum Bandaríkjanna er, að stjörnublaðamenn sturlast og hverfa inn í hringiðu kjaftaþátta í sjónvarpi og bókafrægðar og verða eins og hverjir aðrir fegurðarkóngar fréttamennsku í sjónvarpi.

ÞEIR LENDA Í hagsmunabandalagi frægðarfólks í pólitík, viðskiptum og sjónvarpi. Fall Woodward er mesta áfall, sem blaðamennska í heiminum hefur orðið fyrir um áratuga skeið.

DV