Abbast upp á fólk

Punktar

EKKI ER FYRR búinn slagurinn um Vatnsmýrina en hafinn er nýr slagur um Sundabraut. Íbúar í Grafarvogi telja vera litið framhjá hagsmunum sínum í ráðagerðum Reykjavíkurlistans um framtíðarbaut norður sund og vestur á land. Þeir mótmæla hástöfum á fundum og skrifa blaðagreinar gegn útfærslunni.

REYKJAVÍKURLISTINN abbast í andarslitrunum í auknum mæli upp á borgarana. Sífellt hrannast upp andmæli gegn ráðagerðum listans, sem borgurunum finnst beinast gegn sér og nágrönnum sínum. Listinn hefur tapað tilfinningunni fyrir veruleikanum og rambar áfram í graut af blindu og hroka einræðisherrans.

STÓRI GALLINN við Reykjavíkurlistann eftir allt of langa stjórn á borginni er, að hann hefur lítil tengsl við fólkið og ráfar með byrðar af margs konar hugmyndafræði, sem fólkið hafnar. Af fundum með borgarbúum má til dæmis ráða, að þétting byggðar sé stefna, sem menn vilja allra sízt kyngja.

UM ALLA BORG á Reykjavíkurlistinn í útistöðum við borgarbúa út af nýbyggingum ofan í gömlu þéttbýli. Þessi mannvirki skerða útsýni og svigrúm þeirra, sem fyrir eru og auka álag á samgönguæðar. Listinn virðist vera að kvelja fólk til að nálgast draumóra um þéttbýli evrópskra kastalaborga.

LISTINN VARÐ fyrir léttum aðhlátri, þegar Íslenzkir aðalverktakar buðust til að leggja Miklubrautina í stokk frá Grensásvegi að Snorrabraut og gera það frítt, gegn því að fá að byggja á yfirborði stokksins. Þessi hugmynd er auðvitað svo sjálfsögð, að hún rúmast ekki í hugmyndafræði listans.

MIKLABRAUT Í STOKKI á þessum kafla er lykilatriði í að koma á fót viðstöðulausri umferð um allt Reykjavíkursvæðið, allt frá Mosfellssveit vestur að Umferðarmiðstöð, frá Sundum og til Hafnarfjarðar. Reykjavíkurlistinn er hins vegar lokaður í hugmyndafræði strætódýrkunar og haturs á einkabílisma.

NÚ ER LISTINN búinn að uppgötva, að bílastæði séu ekki heppileg á götuhæð. Þá má hann kannski muna eftir bílastæðum ofan á Faxaskála og Tollstöð, sem raunar er búið að loka. Það er eitt dæmið um, að veruleiki og ímyndun eiga litla samleið í Reykjavík á útmánuðum Reykjavíkurlistans.

DV