Ferðamönnum fjölgaði í fyrra eins og önnur ár. Þeir koma í auknum mæli, þótt talsmenn ferðaþjónustu kvarti yfir genginu með grátkór útgerðarinnar. Samt er krónan bara einn tíundi af gengi danskrar krónu eins og verið hefur frá ómunatíð. Staðreyndin er, að gengi krónunnar er ekki of hátt. Það er gott gengi, hæfilegt til að góð fyrirtæki dafni og vond fyrirtæki hætti. Þannig á þróunin að vera. Ekki er atvinnuleysinu fyrir að fara. Við getum sleppt áhyggjum af genginu meðan ferðamenn hvers árs eru fleiri en þeir voru árið áður. Nú koma hingað jafn margir í kuldanum í október og komu í júní fyrir fjórum árum.