Í þessu tölublaði Eiðfaxa mæla nokkrir þekktir hestamenn, sem þekkja vel til kostnaðar við ræktun, einum rómi um, að ræktun sé ekki atvinnuvegur, sem skili arði, heldur lífsstíll eða hugsjón, sem skili ánægju. Þeir telja, að ekkert sé fjárhagslega upp úr ræktun sem slíkri að hafa. Tekjur ræktenda komi úr öðrum þáttum hestamennskunnar eða jafnvel frá allt öðrum atvinnugreinum.
Samt fjölgar ræktendum stöðugt. Lélegar afkomuhorfur virðast ekki fæla fólk frá ræktun sér til ánægju og upplyftingar. Raunar einkennist íslenzk hrossarækt í auknum mæli af þátttöku aðila, sem hafa engar sérstakar væntingar um fjárhagslega afkomu og búast sumir hverjir ekki einu sinni við, að neinn hluti fjárfestingarinnar skili sér til baka.
Þetta er óneitanlega sérkennileg staða. Heill atvinnuvegur tamningamanna, þjálfara, sýningarmanna, kennara, kaupmanna, flutningamanna, útflytjenda, járningamanna, dýralækna og ýmissa annarra hér á landi og í fjölmörgum öðrum löndum lifir, að vísu misjafnlega góðu lífi, á því að í bakgrunninum sé til fólk, sem er reiðubúið að gefa vinnuna sína, svo að íslenzk hross séu ræktuð.
Þetta er bæði kostur og galli. Markaðshagfræðin segir, að ótraustur sé atvinnuvegur, sem hvílir á arðlausum grunni. Reynslan sýnir samt, að þessi atvinnuvegur blómstrar í trássi við fræðibækurnar. Markaðshagfræðin segir, að áhugamenn hljóti að skaða atvinnumenn með því að halda niðri verðgildi ræktunar. Reynslan sýnir samt, að fremur eru það óskipulagðir fjöldaframleiðendur í hefðbundnum stíl, sem halda niðri verðinu.
Um allt þetta má lesa hér í Eiðfaxa. Veltið því fyrir ykkur og sendið okkur línu.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi, 1.tbl. 2004