Löngufjörur
Jón Sólmundarson, formaður Dreyra, Akranesi:
Við höfum í fjögur ár farið einhesta í eins dags vorferðir í heimsóknir til annarra hestamannafélaga, fyrst til Sörla í Hafnarfirði, síðan Gusts í Kópavogi og loks Harðar í Mosfellssveit. Höfum við þá tekið hestana í tvo flutningabíla og farið sjálfir í rútu.
Við höfum stefnt að því að geta farið í 3-4 tíma reiðtúr með heimamönnum. Þetta hefur gefizt vel og er vinsælt, enda gaman að hitta nýtt fólk í reiðtúrum. Þessar ferðir hafa kostað um 3.000 krónur á mann í flutningi og um 2.000 krónur í mat. Harðarmenn voru hér um daginn að endurgjalda heimsóknina frá í fyrra.
Nú ætlum við að breyta aðeins til og fara ekki í heimsóknarferð, heldur stutta sumarferð með sama hætti á Löngufjörur. Í því tilviki gerum við ráð fyrir, að matur verði ekki innifalinn, heldur komi hver fyrir sig með það, sem hann vill fá á grillið. Ferðin hefur ekki verið tímasett nákvæmlega, en verður um miðjan júní.
Reykjanesskagi
Jónas Ragnarsson, formaður ferðanefndar Mána:
Við förum ekki sumarferðir, en eina helgarferð förum við á hverju vori til Grindavíkur, tveggja eða þriggja daga ferð, og njótum þá gestrisni hestamanna þar í bæ. Við fórum þessa ferð 22-23.maí í vor og vorum þá 45 í miklu rigningarveðri. Í fyrra var gott veður og þá fóru 100 manns eða þriðjungur félagsmanna.
Við förum í skipulagðar ferðir af og til allan veturinn hér um nágrennið á Reykjanesskaga, til dæmis í Voga. Almennt má segja um ferðir Mána, hvort sem er til Grindavíkur eða annað, að vín er nánast ekki haft um hönd og hefur verið svo árum saman.
Fjallabaksleiðir
Jónas Kristjánsson, formaður ferðanefndar Fáks:
Að þessu sinni förum við átta daga hringferð réttsælis um Fjallabak, byrjum á Leirubakka og endum á sama stað. Eins og venjulega er þetta ferð með rekstur. Flestir ferðadagar eru stuttir, um og innan við 30 km, en tveir eru um 45 km. Gert er ráð fyrir, að menn séu með fjóra hesta hver. Sennilega verður fullt hús í ferðinni, um 35 manns.
Frá Leirubakka er fyrst farið í Áfangagil, síðan í Landmannahelli, Lambaskarðshóla (Hólaskjól), Hvanngil, Einhyrning (Bólstað), Goðaland og Gunnarsholt áður en komið er til baka á Leirubakka. Fjallabakið er með fegurstu svæðum landsins, ákaflega vinsælt meðal hestaferðamanna. Landslag á þessum slóðum er afar sérstætt, með því fjölbreyttasta, sem til er á landinu.
Öðrum þræði er þetta lúxusferð samkvæmt hefðum Fáks. Rósa Valdimarsdóttir og Ómar Jóhannsson eru með trússið og sjá að venju um þríréttaðan veizlumat á hverju kvöldi. Einnig verðum við með kaffijeppa, sem fylgir hópnum, og bílstjórinn setur upp skiptigerði, þar sem því verður við komið.
Kostnaður á mann verður 65.000 krónur á mann og er þá allt innifalið fyrir menn og hesta, nema flutningur á hestum til Leirubakka og frá Leirubakka. Við höfum samið við Guðbrand Óla og Kristján um að tína upp hross í sumarhögum og skila þeim aftur. Margir hafa þó þann sið að koma ríðandi í ferðina og úr henni. Svo verður einnig að þessu sinni.
Fákur hefur langa og farsæla reynslu af löngum og fjölmennum hestaferðum. Undanfarin á hefur verið farið um Hreppaafréttir, um Borgarfjörð og Mýrar, hringferð umhverfis Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul, um heiðar og strendur Vestur-Skaftafellssýslu, um Dalasýslu, að Arnarfelli í Hofsjökli, um Kjöl og Arnarvatnsheiði til baka. Hestafjöldi í þessum ferðum hefur verið á bilinu 120-180 hestar og margur stólpagripurinn með í för.
Fákur býr að langri hefð hestaferða, sem hafa verið minnst 7 daga og mest 12 daga, oftast að nokkru eða mestu leyti um óbyggðir. Hver ferðanefnd á fætur annarri hefur byggt á fyrri reynslu og bætt í sarpinn eftir föngum. Allir taka virkan þátt í rekstrinum og vinna saman að góðri ferð. Að töluverðu leyti er þetta sama fólkið, sem ferðast með Fáki ár eftir ár og kann vel til verka.
Hjálmaskylda hefur lengi verið í þessum ferðum og vínbann á daginn, unz komið er í áfangastað. Eigi að síður hafa miklir gleðimenn verið í hópnum, mikið um hljóðfæraslátt og söng. Ferðinni í sumar lýkur með miklu hófi í söngskálanum á Leirubakka.
Húnaþing
Margrét Friðriksdóttir, formaður ferðanefndar Sörla:
Við förum að þessu sinni fjögurra daga ferð um Vatnsnes og Þingeyrar. Við höldum allan tímann til á Hótel Hópi á Þorfinnsstöðum, þar sem aðstaða er góð, og ríðum þaðan fyrir nesið í Saurbæ, síðan yfir Vatnsnesfjall til baka annan dag. Þriðja daginn ríðum við yfir Hópið til Þingeyra og fjórða daginn til baka aðra leið.
Þetta er ferð með rekstur, eins og við reynum venjulega. Við stefnum að því að hafa dagleiðir ekki mikið lengri en 30 km og reiknum með tveimur-þremur hestum á mann. Við vorum áður fyrr í lengri og erfiðari ferðum og lágum meira við í fjallaskálum, en höfum áttað okkur á, að með því að leggja áherzlu á meiri þægindi og lúxus fáum við mun betri þáttöku.
Hrossin fara á flutningabíl úr Hafnarfirði fram og til baka. Á Þorfinnstöðum gista menn ýmist í herbergjum eða á tjaldstæði við húsið. Hestahólfið er einnig við hliðina. Ferðin kostar 28.750 kr, ef gist er í húsinu, en 24.750, ef gist er í tjaldi eða fellihýsum. Allt er innifalið í þessu verði nema flutningur á hestum, sem kostar 6.000 kr á hest fram og til baka.
Við reiknum með um 50 manns í þessa ferð eins og í fyrra. Það er orðinn stór hópur, sem fer með Sörla á hverju sumri. Allir taka virkan þátt í ferðinni og þeirri vinnu, sem fylgir henni. Við skiptum í þrjá hópa á hverjum degi, þar sem einn sér um þrif, annar um eldamennsku og sá þriðji um hestana.
Sú staðreynd, að meira en tíundi hver félagsmaður Sörla fer í þessar ferðir, segir þá sögu, að ferðaformið hentar mönnum almennt vel, það er að segja léttari ferðir og betri aðstaða í náttstað en áður var. Eins virðist það hafa talsverð áhrif á þátttökuna að fara snemma eða meðan hross eru í góðu formi eftir veturinn.
Í fyrra fórum við í Þórsmörk fjögurra daga ferð og gistum annars vegar í Skálakoti og hins vegar í Þórsmörk. Sumarið áður fórum við Löngufjörur á Snæfellsnesi og sumarið þar áður fórum við út frá Leirubakka.
Einarsstaðir
Pétur Haraldsson, formaður ferðanefndar Léttis:
Síðustu árin hefur myndazt sú hefð, að Léttismenn fara eina langa helgarferð á hverju sumri til Einarsstaða í Reykjadal á hestamannamótið, sem þar er jafnan helgina eftir frídag verzlunarmanna.
Er þá farið á tveimur dögum austur, fyrst um Bíldsárskarð í Sörlastaði og síðan um Eyjadal niður í Bárðardal. Til baka er farið á einum degi eða tveimur. Hrossin eru rekin laus í þessum ferðum. Farangur ferðamanna er í trússbíl og sér hver um sig sjálfan í nesti. Góð þáttaka er í þessum ferðum og vænti ég, að svo verði einnig að þessu sinni.
Fyrr á árum var farið í aðrar sveitir, svo sem á Flateyjardal. Síðan varð lægð í þessum ferðum, en þær hafa nú verið endurvaktar í formi Einarsstaðaferðanna. Auk þess förum við stundum dagsferðir og kvöldferðir eftir stemmningu hverju sinni.
Eina ferð höfum við farið umhverfis Kerlingu. Fórum við þá inn Eyjafjörð, upp Skjóldal og um Kambsskarð niður í Öxnadal og heim um Moldhaugaháls.
Rangárvallasýsla
Sigurður Grímsson, formaður ferðanefndar Sleipnis:
Sumarferðin verður að þessu sinni um Rangárvelli, Landeyjar og Fljótshlíð. Þetta er fimm daga ferð, sem hefst 16. júní og lýkur 20. júní, byrjar og endar á Selfossi.
Fyrsta daginn er farið í Þjóðólfshaga, annan daginn um Gunnarsholt í Hellishóla í Fljótshlíð, þriðja daginn um Aurasel, niður með Markarfljóti að Gunnarshólma, fjórða daginn vestur Landeyjar að Hellu og loks fimmta daginn heim á Selfoss.
Kostnaður hvers þáttakenda er 10.000 krónur og felur í sér rútuferðir, kvöldverð og gistingu á tveimur stöðum. Menn greiða hagabeit sérstaklega og sjá sjálfir um morgunmat og nesti.
Sleipnir hefur farið í sumarferð á hverju sumri, áður styttri ferðir, en lengri ferðir hófust í fyrra. Þá var farin fimm daga ferð fram og til baka frá Selfossi að Leirubakka og riðið um Skarfanes. Í ferðinni voru 44 manns og yfir hundrað hestar.
Áður fórum við helgarferðir, í hittifyrra upp með Þjórsá í Þjórsárdal. Í öllum þessum ferðum höfum við haft tvo-þrjá til reiðar og teymt allan tímann. Dagleiðirnar í ferðum okkar hafa verið á bilinu frá 35 km upp í 50 km.
Norðausturland
Baltasar Samper:
Við verðum átta saman og förum þriggja vikna ferð, að þessu sinni frá Kópaskeri til Breiðdals. Við förum frá Kópaskeri yfir Kerlingahraun að Þjófaklettum við Hermundarfell, um Svalbarðstungu að Gunnarsstöðum í Þistilfirði, Langanesströnd, Viðvíkurheiði, Vopnafjarðarströnd, Selárdal, Vesturárdal að Burstafelli í Vopnafirði, Smjörvatnsheiði, Lágheiði, Hjaltastaðaþing yfir í Ósnes, þaðan í Bakkagerði í Borgarfirði eystra, ríðum um víkur í Útnyrðingsstaði um Eiðaþinghá við Lagarfljót, um Svínadal að Búðareyri til Þingmúla að Geitdal, suður Norðurdal og Öxina niður í Breiðdal.
Í fyrra fórum við um Strandir. 2002 riðum við Vatnsnesið. Þar áður fórum við frá Mývatni til Hjallalands í Vatnsdal í Húnaþingi. Þá fórum við um Eilífsvötn, Jökulsá á Fjöllum, Ásbyrgi, Þórseyri, Þeistareyki, Hraun í Aðaldal, Flateyjardal, í Fjörðum, Akureyri, Þorvaldsdal, Árskógsströnd, Svarfaðardal, Heljardalsheiði, Fjall í Kolbeinsdal, Kolkuós, Glæsibær, Víðidalur, Litla Vatnsskarð, Laxárdalur og Húnsstaðir, Þingeyrar, Hópið og Hjallaland.
Við gistum ekki í skálum, heldur tjöldum og getum því haldið kyrru fyrir, ef veður spillast. Við höfum eldhústjald meðferðis í trússbíl og matreiðum sjálf í ferðinni. Trússbílnum fylgir upphækkuð og styrkt hestakerra.
Við notum alltaf GPS-tæki og setjum inn helztu punkta, áður en við leggjum í hann, svo að við villumst ekki í þokum. Við ríðum oft um 15-18 daga og tökum þrjá til fjóra daga í hvíld inn á milli, þar á meðal oftast þriðja ferðadaginn.
Óskadagleiðir eru um þingmannaleið, 40 km og höfum við þá níu eða tíu hesta hjónin saman. Mér finnst gott að nota fjóra hesta á dag og hvíla einn, ef aðstæður leyfa. Hestarnir eru allir vel þjálfaðir um veturinn og vorið, en hvíla sig síðan frá miðjum júní og fram í júlí, þegar ferðir okkar hefjast venjulega.
Þingeyjarsýslur
Hólmgrímur Þorsteinsson:
Þessi ferðahópur á uppruna sinn í Fjárborgarfélaginu í Reykjavík og hefur ferðazt á hverju sumri í nokkur ár. Að þessu sinni er ferðinni heitið um Þingeyjarsýslur.
Þetta er níu daga ferð, sem hefst 9. júlí við Mývatn og koma sumir ríðandi þangað. Sumir ætla að ríða suður aftur og verður þá ferðin fram og til baka orðin mánuður.
Fyrst verður farið austur á Grímsstaði og síðan um Búrfellsheiði og norður Melrakkasléttu í Voga, þaðan sem farinn verður Hólsstígur að Kópaskeri. Áfram liggur leiðin um Kelduhverfi og Þeistareyki á endastöðina við Einarsstaði í Reykjadal. Sumir ætla að ríða suður aftur.
Þetta verður 20 manna hópur með um 80 hross. Við rekum allan tímann og lengstu dagleiðirnar eru um 50 km, sv o að menn þurfa fjóra hesta hver. Mér sýnist aksturinn með hrossin fram og til baka muni kosta um 7.000 krónur á hest, það er að segja um 30.000 á úthald eins manns. Við verðum með tvo trússbíla og kokk.
Rangárvellir
Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formaður ferðanefndar Geysis:
Í sumar verður reynt að endurvekja sumarferðir Geysis, sem tíðkuðust fyrr á árum. Þá var fyrst riðið inn í Þórsmörk og síðan umhverfi Leirubakka, eftir að ferðaþjónusta kom þar til sögunnar. Að þessu sinni verður riðið frá Hvolsvelli að Fossi á Rangárvöllum og riðið um nágrenni Foss.
Þetta er helgarferð, sem stendur yfir 23.-25. júlí. Á föstudagskvöldið koma menn og hestar til Hvolsvallar, þaðan sem riðið er morguninn eftir inn Vallarkrók og upp Krappa, gegnum Reynifellsland að Fossi. Eftir hádegi verður riðið upp Fosshaga inn fyrir afréttarmörk og yfir Ytri-Rangá til baka.
Á sunnudaginn verður riðið niður að Reynifellsbrú, Reyðarvatnsréttum og Strönd, þar sem austanmenn ríða til Hvolsvallar og vestanmenn til Hellu.
Kostnaður verður 5.500 krónur á fullorðna og 3.000 krónur á börn. Innifalin er þjónusta trússbíls, léttur hádegisverður á laugardag og grillveizla á laugardagskvöld, gisting og aðstaða á Fossi, morgunverður og léttur hádegisverður á sunnudeginum.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 5.tbl. 2004.