Sjá má í frásögn þessa Eiðfaxa á bls. 46 af rifrildi um aðgengi að ættbókarfærslum í WorldFeng, að alþjóðasambandi íslenzkra hestamannafélaga, FEIF, tókst að setja landbúnaðarráðuneytinu stólinn fyrir dyrnar, þegar veita átti Skotum aðgang að kerfinu. Í ráðuneytinu óttuðust menn, að útlönd gengju úr WorldFeng, ef kröfum FEIF yrði ekki hlýtt.
Skotar, sem urðu undir í slagnum, benda á, að Evrópusambandið hafi gefið út reglugerð um ættbækur hrossa, sem WorldFengur standist ekki. Ennfremur hefur skozka sambandið fengið viðurkenningu þarlendra stjórnvalda og Evrópusambandsins, sem hvorki FEIF né WorldFengur hafa fengið. Liggur munurinn í, að Evrópusambandið viðurkennir ekki aðild lokaðra klúbba að slíkum ættbókum. Er þá vísað til þess, að FEIF hefur ekki veitt Skotum aðild.
Af þessu má ráða, að staða Íslands sem upprunalands íslenzka hestsins hefur veikzt og getur enn veikzt vegna merkilega harðrar andstöðu FEIF við sjálfstæðistilburði í Skotlandi og vegna stuðnings Landssambands hestamannafélaga við þessa hörðu andstöðu FEIF. Ráðuneytið og Bændasamtökin verða að hlýða FEIF.
Íslenzkir hestamenn og reiðmenn íslenzkra hesta eru nú orðnir fjölmennari erlendis en hér á landi og geta í auknum mæli farið að segja heimalandinu fyrir verkum. Kannski er það bara málefninu til góðs. En bezt er þá, að Íslendingar hafi meðvitund á undanhaldinu.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 6.tbl. 2004