Opnaður hefur verið reiðleiðavefurinn, sem sagt var frá í síðasta tölublaði Eiðfaxa. Að honum standa Landmælingar Íslands, sem hýsa vefinn á síðu sinni, lmi.is, Vegagerðin og Landssamband hestamannafélaga.
Á þessari kynningarútgáfu vefsins eru einkum leiðir á Reykjanesskaga og Vesturlandi og slæðingur leiða í öðrum landshlutum. Ekki eru á vefnum leiðir, sem bárust samstarfsverkefninu umsvifalaust, þegar það kallaði eftir ferilpunktum ferðamanna á hestum. Væntanlega verður bætt úr því fljótlega, svo að menn haldi áfram að safna leiðum í sarpinn.
Kortin á vefnum gefa kost á mikilli stækkun, allt upp í stærðina á gömlu herforingjaráðskortunum, 1:100.000, er birtast á vefnum sem samfelld heild án áberandi skila milli korta. Menn eiga að geta prentað út kort af svæðum, sem þeir ætla að fara um, þannig að reiðleiðirnar sjáist á kortunum. Ennfremur er hægt að fá reiknaðar vegalengdir milli staða á kortinu.
Þetta er að sjálfsögðu til mikilla þæginda og öryggis fyrir hestaferðamenn. Enn betra hefði verið að geta merkt reiðleið á kortinu og tekið sjálfkrafa upp hnit hennar í einu handaki til að flytja stafrænt yfir í GPS-tæki. Því miður gerir vefurinn þetta ekki kleift enn sem komið er. Það er raunar ekki heldur kleift á kortadiski með reiðleiðum, sem landmælingarnar hafa gefið út og er til sölu í helztu bókabúðum.
Þetta er næsta furðulegur annmarki í ljósi þess, að hnitin eru að baki kortanna. Mikilvægt er, að hestaferðamenn bendi aðstandendum vefssins á þennan annmarka, svo að úr honum verði bætt eins fljótt og auðið er. Kortaskjárinn þarf að verða GPS-vænn, fyrr nær hann ekki fullum tilgangi sínum.
Ýmsir aðrir annmarkar eru á reiðleiðavefnum. Sérstaklega er brýnt að birta skýringatexta og skrár yfir lágmarks tölvubúnað og hugbúnað, sem þarf til að geta opnað vefinn með öllum hans eiginleikum, svo að menn séu ekki að berjast um á hæl og hnakka við að ná sambandi, ef ytri aðstæður leyfa þeim það ekki.
Mörgum hefur gengið illa að ná sambandi við kortaskjáinn á vefnum vegna gamalla tölva, gamalla stýrikerfa, gamalla vafra og gamalla útgáfna af Java-forritinu. Menn gefast upp á vefnum, ef þeir fá ekki leiðbeiningar um, hvað þurfi að hafa við hendina til að geta nýtt sér hann.
Aðstandendur vefsins hafa tekið fram, að þetta sé kynningarútgáfa. Þeir hafa hvatt hestamenn til að senda athugasemdir og ábendingar. Rétt er að verða við þeirri ósk, svo að kortaskjárinn á vefnum verði sem fyrst að vel þróuðu hjálpartæki hestaferða.
Ætlunin er að byggja ekki aðeins upp reiðleiðir, heldur einnig reiðleiðagagnasafn af öllu landinu. Safnið á meðal annars að fela í sér upplýsingar um vöð, brýr, girðingarhlið, reiðgöng, áningarstaði, beitarhólf, heysölu, réttir, hindranir og hesthúsahverfi.
Hér er farið af stað viðfangsefni, sem fyrr eða síðar kemur hestaferðamönnum að ómetanlegu gagni.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 6.tbl. 2004