Markaðurinn hafnar heiðursverðlaunum

Hestar

Af fjórum heiðursverðlaunahestum sumarsins er aðeins einn í svo mikilli almennri notkun, að hann annar ekki eftirspurn. Hinir þrír eru heimahestar, sem hafa ekki mikið að gera á almennum markaði. Þessi þverstæða vakti athygli margra á landsmótinu og vekur spurning um lögmál markaðarins annars vegar og um lögmál ræktunarstefnunnar hins vegar.

Gott er taka þessa fjóra verðlaunahesta til athugunar, því að þeir fengu titil sinn ekki fyrir verðleika foreldra eða forfeðra og ekki heldur fyrir eigin verðleika á sýningum, heldur beinlínis fyrir verðleika afkvæma og afkomenda á sýningum. Þetta eru hestar, sem eiga nógu marga góða afkomendur til að verða tilnefndir til Sleipnisbikars sem heiðursverðlaunahestar. Þetta eiga því örugglega að vera mjög góðir og eftirsóttir ræktunarhestar.

Andvari frá Ey nýtur einn þessara hesta mikilla vinsælda. Hins vegar kemur á óvart, að hinir þrír, Óður frá Brún, Galsi frá Sauðárkróki og sjálfur bikarhesturinn Kraflar frá Miðsitju hafa af ýmsum ástæðum dalað í vinsældum markaðarins. Kraflar hefur lengi verið slasaður, sem vafalaust hefur áhrif á frjósemina, enda er hann nánast ekki lengur notaður heima á Feti. Galsi er helzt notaður út á folatolla frá gömlum tíma og Óður er mest notaður af eigendunum sjálfum.

Andvari

Andvari einn nýtur gífurlegra vinsælda. Þær hafa aukizt jafnt og þétt með árunum. Það segir okkur, að hann gefi markaðshæf hross. Eiginlega eru allir sammála um, að Andvari gefi góð hross, er standa sig vel sem reiðhross, kynbótahross, keppnishross og söluhross.

Andvari var fyrsti Orrasonurinn sem fékk háan dóm fimm vetra gamall. Þá fékk hann 8,36 í aðaleinkunn og þar af 9,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir háls og herðar, brokk og fegurð í reið. Andvari er klárhestur, sem gefur alhliða hross með vel vökrum hryssum. Það er aðallega frjósemin, sem hefur staðið honum fyrir þrifum upp á síðkastið. Annars væri hann að mala eigendum sínum gull, því að alltaf virðist vera fullt hjá honum. Raunar gildir um Andvara eins og ýmsa fleiri stóðhesta, að traustari upplýsingar þarf um frjósemina.

Eins og segir í dómsorðum Andvara gefur hann stórmyndarleg og traust reiðhross með góðum fótaburði og fallegri framgöngu. Stundum vantar aðeins meiri vilja til að fylgja öllum hæfileikunum eftir. En hann gefur hross, sem eru góð söluvara og flest allir geta riðið og notið. Þó vantar oft, að þau séu nógu prúð á fax og tagl. Og ekki teljast þau léttbyggð hross þó þau stigist vel í byggingadómi.

Galsi

Andvari naut í fyrstu ekki eins mikilla vinsælda og jafnaldri hans Galsi frá Sauðárkróki, sem sló í gegn strax fjögurra vetra gamall og fékk 8,25 í aðaleinkunn, þar af 8,63 fyrir hæfileika. Sex vetra fékk hann hvorki meira en minna en 9,01 fyrir hæfileika, þar af 9,8 fyrir skeið, 9,5 fyrir vilja, 9,3 fyrir brokk, 9,0 fyrir fegurð í reið og 8,5 fyrir tölt.

Galsi fékk þá mikið af hryssum og var mikið notaður af hryssueigendum, enda var hann ímynd hins íslenska alhliða gæðings, þótt sumir settu út á töltið og kölluðu skeiðborið. Á landsmótinu 1998 á Melgerðismelum toppaði Galsi svo feril sinn og sigraði í A-flokki gæðinga. Þá keyptu nokkur hrossaræktarsambönd hlut í honum á háu verði.

Þótt hann hafi ekki verið auglýstur, vilja þessi sambönd trúlega selja hann, ef einhver vildi kaupa, því að vinsældir hans sem stóðhests hafa dalað umtalsvert. Í dómsorðum Galsa segir, að hann gefi fjölhæf og rúm ganghross með létta byggingu – með öðrum orðum alhliða hross, sem eru skeiðmegin í tölti og bundin í bógum.

Þessi hestgerð, skeiðmegin í tölti, hentar ekki almennum hestamönnum og fer oft í binding hjá lítið vönum reiðmönnum. Þegar lítil fótlyfta er samfara, eru þetta léleg söluhross og ekki vænleg ræktunarhross frá sjónarhóli markaðarins. Þó hafa komið fram ýmis hross undan Galsa, sem eru mjög góð, en markaðurinn telur mörg hin vera of lélega söluvöru.

Rangur markaður?

Hér er ekki verið að segja, að markaðurinn hafi rétt fyrir sér og ræktunarstefnan ekki. Verið getur, að markaðurinn mæli skammtíma hagnað, en ræktunarstefnan miðist við lengri tíma. Það getur til dæmis verið hlutverk ræktunarstefnu að varðveita skeið, svo að íslenzka hestakynið verði ekki að klárhestakyni á löngum tíma. Það er líka spurning, hvort kröfur markaðarins um fótaburð séu ekki bara komnar út í öfgar, heldur hreint rugl. Brekkan rugli saman hugtökunum bezt og mest, en dómar séu raunsærri.

Kraflar

Svipað má segja um frænda hans Kraflar, sem er undan Hervari, en Galsi er undan Hervarsdóttur. Raunar er Kraflari ekki haldið fram á markaði, enda mikið fyrir honum haft vegna slyssins, sem varð, þegar hryssa braut undan honum. Einnig heldur lítið sem ekkert við honum. Áhugi á honum hefur minnkað, einnig heima fyrir.

Hinn almenni ræktandi telur, að hann gefi oft afkvæmi með brothættan gang. Þau eru liðleg á tölti, en skeið þarf að þjálfa og brokkið er ekki rúmt. Samfara þessu eru þau ekki hágeng svo það er lítið í Kraflar að sækja fyrir ýkta fótlyftumarkaðinn. Hann gefur hins vegar falleg stóðhross og nýtist þar sem góður höfuðburður og mikill vilji er talinn meira aðalsmerki en firna fótaburður og heilsteyptur gangur.

Óður

Óður frá Brún er í eigu hlutafélagsins Óðs sf. Margir eigendur koma að honum. Stóðhestar með marga eigendur, sem hafa borgað folatollinn fyrirfram, dala síður í vinsældum, því að menn nota áfram það, sem þeir hafa þegar keypt.

Óður fékk sjálfur 8,90 fyrir hæfileika í kynbótadómi. Var hann með skörulegri hestum á brautinni og fékk hann 9,7 fyrir skeið, 9,0 fyrir tölt, vilja og fegurð í reið. Óður var snillingur á gangi, hágengur og vel vakur og gekk honum vel í keppni, þótt lundgalli eða heimþrá, eins og eigendur kölluðu það, hafi staðið honum fyrir þrifum, þegar hann var kominn með fyrsta sætið í sjónmál á Hellu, en ákvað þá að verða kargur.

Flestir sem hafa notað Óð eru sammála um að hann gefi stundum miður fögur hross og miður lundgóð. Þótt þau séu oft getuhross á gangi með góðum fótaburði, sé ekki hægt að horfa framhjá útlits- og skapgöllum.

25% samræmi

Tölvubókhald ræktunarstefnunnar segir okkur þá ráðgjöf reynslunnar, að hryssueigendur eigi að vera í biðröð til að leiða undir hestana, sem hér hefur nokkuð verið lýst og voru tilnefndir af stærðfræðinni til heiðursverðlauna á landsmótinu á Hellu í sumar.

Markaðurinn hefur kveðið upp allt annan dóm og nánast afskrifað alla hestana nema Andvara, sem þó er tæpur í frjósemi. Samræmið milli stærðfræðinnar og markaðarins er ekki nema 25%. Hér er ekki verið að fullyrða, að markaðurinn hafi réttar fyrir sér en stærðfræðin, aðeins að samræmi þessara tveggja mælingaraðferða mætti vera meira.

Stóðhestaúrvarlið er mikið og bætast við nýir og rosahátt dæmdir stóðhestar á hverju ári. Hryssueigendur eru oft í vanda, þegar velja skal stóðhest handa hryssu eða jafnvel nokkrum hryssum. Valið hlýtur að ráðast af markmiði hrossaræktarinnar, sem hann er að stofna til. Oftast er markið sett hátt og stefnt að ræktun hrossa, sem geti skipað sér í fremstu röð sem kynbótahross eða keppnishross.

Til að ná markmiðinu er oftast leitað til stóðhesta, sem eru hæst dæmdir í kynbótadómum, einkum í afkvæmadómum, sem eiga að vera nákvæmastir. En eru þeir að gefa bestu hrossin? Spurningin er stór, en svarið kann að finnast í þróuninni í notkun hryssueigenda á stóðhestunum. Að vísu geta spilað margir ytri þættir inn, svo sem misjafnlega víðtækt eignarhald.

Fyrsta spurningin er, hvor sé betri mælikvarði á gæði stóðhesta, stærðfræðilegur útreikningur á árangri afkomenda þeirra eða vinsældir stóðhestsins, hversu margir hryssueigendur vilja nota hann, þegar reynsla þeirra er komin á afkvæmin.

Síðari spurningin er, hvort hægt sé að koma betra samræmi á þessa tvo mælikvarða. Að minnsta kosti betra samræmi en 25%.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2004.