Ábyrgðartrygging

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Ábyrgðartrygging

Síðan lausaganga búfjár var bönnuð víða um land er brýnasta trygging hestamannsins að tryggja sig fyrir tjóni, sem hross hans geta valdið öðrum aðilum, eignum eða fólki. Þeir geta ekki bara rispað bíla og nagað tréverk eða valdið öðru eignatjóni, heldur getur hreinlega orðið manntjón með milljónatjóni eða jafnvel tugmilljón króna tjóni, ef fullur bíll af fólki veltur, þegar bílstjórinn reynir að forðast árekstur við hest, sem hefur sloppið úr gerði eða girðingu, sem ekki hefur verið tryggilega lokuð.

Þetta eru miklu hærri fjárhæðir en þær, sem liggja í einstökum hestum. Því er ábyrgðartrygging mikilvægasta trygging hestamannsins, hvort sem hún er tekin eins sér eða samtvinnuð öðrum tryggingum. Tryggingafélögin bjóða yfirleitt 74 milljón króna ábyrgð með 10% sjálfsábyrgð, sem nær þó hámarki í 134.000-170.000 krónum. Þegar þessi nýja ábyrgð hestamannsins varð ljós í fréttum af slysum vegna lausagöngu hesta tók ég mér umsvifalaust sérstaka ábyrgðartryggingu á alla mína hesta. Þar með yrði ég ekki gjaldþrota, þótt illa færi.

Með öðrum tryggingum

Sumar tryggingar fela í sér hluta af hestatryggingum. Þannig er til landbúnaðartrygging, sem gerð er eftir forðagæzluskýrslum. Einnig nær hesthústrygging oft til brunatryggingar og innbrotstrygginar á hestum eins og öðru því, sem er í húsinu, ef óskað er. Síðan hitaveita kom í hesthús er einnig hægt að tryggja hesta eins og innbú fyrir tjóni af völdum heits vatns. Hesthúsið, þar sem hestarnir mínir eru síðari hluta vetrar, er tryggt á þennan hátt og hestarnir þar með bruna- og innbrotstryggðir.

Þegar menn eru farnir að brunatryggja og innbrotstryggja hesta og jafnvel hitaveitutryggja, kemur auðvitað að því að hagkvæmara sé að tryggja hestinn fyrir tjóni á honum, hvort sem það er í hesthúsi eða annars staðar og einnig fyrir sjúkdómum. Það eru einkum slíkar tryggingar, sem nú eru seldar og fela þær þá einnig í sér ábyrgðartryggingu á tjóni, sem hesturinn veldur öðrum aðila. Það er svona trygging, sem ég eins og margir aðrir er að velta fyrir mér um þessar mundir. Dæmið er flóknast á þessu sviði og því er niðurstaðan ekki einföld.

Heildartrygging

Í gamla daga, það er fyrir tæpum tveimur áratugum, var hægt að tryggja hesta eftir nafni og lit. Menn tryggðu þá einn brúnan hest og einn rauðan hest og komust upp með það. Úr þessu varð greinilegt svindl, sem þýddi, að tryggingin var alltof dýr á hvern hest. Ég spurði þá tryggingafélögin, hvort ég gæti fengið afslátt af tryggingu út á, að öll mín hross væru ekki bara brún og rauð, heldur frostmerkt, þannig að tryggingafélagið gat sannreynt, hvaða hross hefði orðið fyrir tjóni. Þessu var neitað í þá daga, svo að ég hætti við að tryggja í það skiptið.

Nú er öldin önnur. Hestar þurfa að vera örmerktir eða frostmerktir og jafnvel hafa farið í læknisskoðun til að fá tryggingu, svo að möguleikar á svindli eru hverfandi. Kostnaður við að gera hvern hest kláran fyrir tryggingu er 7.000-10.000 krónur fyrir dýralæknisvottorð og 1.500-3.000 krónur fyrir örmerkingu eða frostmerkingu, ef hesturinn hefur ekki áður verið merktur. Þetta er kostnaður, sem fellur til einu sinni, en kemur í veg fyrir, að iðgjaldið sjálft þurfi að vera eins hátt og það var í gamla daga.

Hestamenn geta haft margs konar sjónarmið, þegar þeir tryggja hesta. Hugsanlega eru þeir atvinnumenn og vilja tryggja sig fyrir tjóni, sem atvinnurekstur þeirra getur orðið fyrir. Það er mjög nærtækt fyrir atvinnumann að láta ekki ófyrirséða atburði leiða til mikilla fjárhagsvandræða, sem setja reksturinn úr skorðum. Slíkir aðilar eiga kost á margvíslegu tryggingamynztri, sem fela til dæmis í sér afnotamissistryggingu hryssa og ófrjósemistryggingu stóðhesta.

Svo er hægt að slysatryggja og sjúkdómatryggja öll hross, svo og líftryggja þau, bæði fyllilega og með takmörkuðum hætti. Þegar hestamaður, sem ekki er atvinnumaður, velur sér tryggingu, þarf hann að gera sér grein fyrir verðgildi hesta sinna og hvort hann vill líta á það, sem örlög, ef eitthvað kemur fyrir einhvern þeirra eða hvort hann telur ástæðu til að tryggja sig fyrir þeim. Hann getur kosið að tryggja hjá sjálfum sér, sem er annað orðalag yfir að tryggja sig ekki, eða tryggt hjá tryggingafélagi.

Þetta er auðvitað spurning fyrir hestamann, sem á hesta, sem metnir væru á 150.000 krónur hver, hvort hann eigi að gera eitthvað annað en að bíta á jaxlinn, ef hann verður fyrir óhappi. Dæmið lítur öðru vísi út, þegar hver hestur er metinn á 400.000 krónur. Þetta er semsagt spurningin um, hvort menn eigi fortakslaust að tryggja sig fyrir öllu eða byrja að tryggja sig, þegar í húfi er einhver lágmarkstala fyrir hvern hest.

Það er auðvitað einstaklingsbundið, hvar menn setja mörkin. Sumir vilja taka meiri áhættu en aðrir vilja. Sumir vilja taka alla áhættuna og aðrir vilja enga áhættu taka. Þegar menn hafa gefið sér forsendur, er rétt að tala við tryggingafélög og leita samninga um einhverja þá tryggingu, sem þeir telja henta sér í sinni stöðu.

Þrjú félög auglýsa

Þrjú tryggingafélög hafa auglýst tryggingar fyrir hestamenn. Það eru Tryggingamiðstöðin, Sjóvá-Almennar og Vátryggingafélag Íslands í samstarfi við sænska tryggingafélagið Agria, sem sérhæfir sig í dýratryggingum. Það er ekki markmið þessarar greinar að gera upp á milli þeirra eða velta vöngum yfir mismunandi aðferðafræði fyrirtækjanna við samsetningu trygginga og því síður að gera fjárhagslegan samanburð. Það verður hver hestaeigandi að gera fyrir sig. Hér á opnunni má sjá ýmis sjónarmið fulltrúa þessara fyrirtækja.

Markmið greinarinnar er að vekja athygli á mikilvægum atriðum, sem gott er að hafa í huga, áður en gengið er til samninga um tryggingar og vekja athygli á þeirri staðreynd, að breyttir þjóðfélagshættir á borð við bann við lausagöngu búfjár geta haft geigvænlegar afleiðingar fyrir hestamanninn, án þess að hann fái nokkra aðra rönd við reist en að gæta þess að vera tryggður.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2004