Útreiðar

Hestar

Fagur og faxprúður

Bjarni E. Sigurðsson:

Óskahestur útreiðamannsins hentar misjafnlega vönum knöpum, því að menn þurfa að geta boðið minna hestfærum vinum áhættulaust í reiðtúr. Hann er fagurlitur og faxprúður, vel hirtur og tekur sig vel út. Hann veitir ánægju, unað og skemmtun. Hann er mannelskur og tekur vel umstangi. Hann er ganglipur og fangreistur, má vera dáltítið montinn, en ekki endilega hágengur. Helzta og mest notaða gangtegundin er tölt, en hann þarf að kunna gangskiptingar og geta gefið tilfinningu fyrir brokki og jafnvel skeiði. Hann er taumhlýðinn sem teygjuband. Taumstífni mundi oft leiða til reiptogs. Hann er ljúfur og þjáll, mjúkur og þægur, ekki styggur í gerði. Hann má vera dúllari, en ekki letingi eða lullari. Oft er hann minna þjálfaður en hestar, sem notaðir eru til annarra þarfa, af því að útreiðar krefjast ekki markvissrar þjálfunar, en getur með þjálfun nýzt á öðrum sviðum hestamennskunnar.

Göngur:

Fótfimur og brekkufær

Kristinn Guðnason:

Óskahestur gangnamannsins er sterkur hestur, sem er óvenjulega fótfimur og þolir álag í brekkum, hefur úthald og seiglu. Hann getur farið hratt yfir í ósléttu landi og á alltaf einn sprett eftir. Brokk og tölt er mest notað, en gott er, að hann kunni líka að valhoppa, sem er ofsalega þægilegur gangur fyrir mann og hest. Sumir gangnahestar geta farið ágætlega á skeiði eingöngu. Mikið álag í göngum getur tekið það fínasta úr keppnishesti og skemmir hægaganginn, en að öðru leyti er gott fyrir keppnishest að fara í göngur. Með þjálfun má laga hann aftur að keppni. Eindregnir keppnishestar með mikilli fótlyftu og miklu svifi á brokki geta þá átt erfitt með að laga sig að göngum, þar sem kröfurnar eru talsvert ólíkar. Slíkir hestar henta síður í göngur en aðrir hestar. Kröfur um seiglu eru harðari en hjá langferðahestum og kröfur um mýkt eru mildari.

Langferðir:

Mjúkur og langstígur

Jónas Kristjánsson:

Óskahestur ferðamannsins er ganggóður og mjúkur hestur, fer vel á feti og tölti, en sækir lítið í brokk og ekkert í skeið. Hann er viljugur, getur hlaupið allan daginn og tekið knapa í svo sem tíu kílómetra í senn einu sinni eða tvisvar á dag. Hann fer yfirleitt á góðgangi, en er fús að taka torfæruspretti á brokki í veg fyrir óþæga hesta. Hann er ekki styggur í áningu. Hann liggur hátt í vatni á sundi. Keppnishestur, sem fer í ferðalag, lækkar fótlyftu og verður langstígari, en nær fyrra horfi með nýrri þjálfun fyrir keppni. Langferðamenn forðast hátt dæmda fjórgangshesta, sem hoppa mikið upp í loftið og þreytast fljótt. Mýkt og fjaðurmagn er í miklum metum, en mikill fótaburður á tölti og svif á brokki hins vegar lítils metin. Álagið á hestinn er minna en í göngum og í stað þess lögð meiri áherzla á mýktina.

Keppni:

Fyllir knapann stolti

Sigurbjörn Bárðarson

Óskahestur keppnismannsins er alhliða hestur eða klárhestur, stór og fallegur, hálslangur, með mjúkt hnakkaband og á auðvelt með alla eftirgjöf. Hann er léttbyggður og bolgrannur hestur, um 140-143 sentimetrar á stöng. Hann hefur trausta og góða fótagerð með lofthæð og góðu hófskeggi. Hann er fax- og taglprúður, litfagur hestur með liti sem hrífa, t.d. brúnn( svartur), brúnskjóttur eða hvítur, dökkrauður og ljóst fax og tagl. Fagurlitaðir hestar höfða til dómara við einkunnagjöf. Þessi hestur er viljugur og hefur frábært geð, þar sem hann er ávallt tilbúinn, spennulaus með mjög trausta lund og hlustar ávallt á beiðni knapans og leggur sig fram. Allar gangtegundir eru takthreinar og rúmar með háum fótaburði. Hesturinn er skrefastór, hraustur og úthaldsmikill. Hann leggur mikið land undir sig á öllum gangtegundum og gengur dansandi mjúkt hægatölt. Þetta er hestur sem fyllir knapann stolti og sælutilfinningu bæði við þjálfun og í keppni.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2004