Skýrsla sendiherrans

Hestar

Samkvæmt fyrstu skýrslu umboðsmannsins eða sendiherrans, sem nær yfir síðari hluta ársins 2003 og árið 2004, hefur hann látið gera sýningarbás, sem hafa má á sýningum, þar sem íslenzki hesturinn kemur fram. Ennfremur hefur hann aðstoðað lögfræðing Félags hrossabænda í tollamálinu í Þýzkalandi, sem fékk farsælan enda. Loks hefur hann komið á sýningum flokks reyndra reiðmanna á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og í Birmingham í Bretlandi. Fleira en þetta þrennt er ekki nefnt um árangur í skýrslunni.

Tilraunir til að auðvelda reiðkennurum og sýningarmönnum að fá tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum hafa ekki enn gengið upp. Er nú þriðji bandaríski lögfræðingurinn kominn í málið. Ekki hefur enn fundizt leið til lausnar þessa máls, er getur verið hættulegt einstaklingum, sem hugsanlega verða settir inn og síðan gerðir varanlega brottrækir frá Bandaríkjunum. Ekki bætir úr skák, að við stjórn þar vestra eru valdhafar, sem ekki eru gefnir fyrir að gera útlendingum greiða.

Að mestu hefur tími sendiherrans farið í að kynna sér stöðu mála. Hefur hann í því skyni ferðast vítt og breitt um heim íslenzka hestsins og talað við menn um markaðsmál. Árangurinn er sá, að hann er kominn með svipaða þekkingu og sumir einkaaðilar, sem hafa verið að flækjast í markaðsmálum upp á sitt eindæmi. Greinargerð hans um þau mál og tillögur til úrbóta segja fátt eða ekkert nýtt, sem menn vissu ekki áður.

Sem dæmi um fyrirliggjandi markaðsþekkingu má nefna viðtöl og greinar, sem hafa birzt í nánast hverju tölublaði Eiðfaxa og Eiðfaxa International síðustu tvö árin. Umboðsmaðurinn hefði komizt langt í þekkingu með því að lesa þessi viðtöl, vera kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast. Raunar hefur Eiðfaxi International síðustu misseri verið hafsjór af gagnlegum upplýsingum, sem fara í þúsundatali sex sinnum á ári til erlendra hestamanna, án þess að umboðsmaðurinn virðist vita mikið um það. Ekki heldur um örar fréttir frá Íslandi á ensku og þýzku á fréttarásinni: eidfaxi.is.

Sem dæmi um þetta efni má nefna viðtöl Eiðfaxa International við sýnendur á Equitana og Equine Affaire, viðtöl við sölumenn á Bandaríkjamarkaði, viðtöl um traust í hrossaviðskiptum, um hestapassann í útflutningi, margar greinar um spatt og sumarexem, ótal viðtöl við forustumenn í erlendum hrossasamböndum, umfangsmiklar kynningar á hestaferðum á Íslandi, svo og umræðu um samræmingu á dómum milli landa. Þá hefur Eiðfaxi International flutt gífurlega mikið efni frá fjölþjóðlegum mótum, ekki bara heimsleikum, heldur líka frá Norðurlandamóti og Miðevrópumóti.

Að mestu leyti felur skýrsla sendiherrans í sér ýmsar tillögur um aðgerðir, sem kosta peninga. Það mun vera eitt hlutverk umboðsmannsins að afla slíkra peninga. Fjárlög ríkisins fyrir árið 2005 benda ekki til, að mikið hafi fengizt frá ríkinu, en einkaaðilar kunna að geta komið til hjálpar. Það kemur í ljós á fyrstu mánuðum þessa árs. Ekki gengur heldur lengur, að kostnaður við embættið felist einkum í launum og ferðakostnaði sendiherrans.

Fljótlega eftir að sendiherrann tók við störfum, fór að bera á gagnrýni á hann í spjallrásum. Eiðfaxi hvatti þá til að menn hefðu þolinmæði og biðu átekta um sinn.

Upp á síðkastið hefur gagnrýnin einkum beinzt að tillögum hans um sýningarflokk atvinnumanna, því að áður hafði komið í ljós við sýningar á vegum einkaframtaksins, að menn kaupa ekki hesta, þótt þeir hrífist á sýningum. Samband sýninga og sölu er ekki beint. Hins vegar getur þetta samband verið óbeint. Þannig geta dýrar sýningar hugsanlega verið verk fyrir sendiherra, sem er þá orðinn eins konar sirkusstjóri.

Alténd er biðtímanum lokið og embættisverkin verða að fara að tala.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 1.tbl. 2005