Jónas Kristjánsson:
Þegar við hjónin vorum hestlítil í upphafi hestamennsku okkar, fórum við eina eða tvær vikuferðir á hverju sumri með hestaferðafyrirtækjum, einkum Eldhestum og Íshestum. Við gátum lagt með okkur tvo hesta hvort og fengum viðbót úr hrossahópi ferðarinnar. Þetta reyndist okkur afar vel. Við lærðum mikið í nokkur sumur og enduðum sem starfsmenn. Í seinni tíð höfum við hins vegar hallast að ferðalögum með vinum og kunningjum, enda höfum við núna nóg af hestum og þekkjum vel til verka.
Ástæða er að benda fólki á leið fyrirtækjanna til að kynnast á mjúklegan hátt einu af því, sem er mest töfrandi við íslenzka hestamennsku, löngum ferðalögum í fögru landslagi. Fólk þarf ekki að bíða eftir að eignast nógu marga hesta, sem hafa úthald til langferða, sníkja sér lélega hesta hér og þar eða þekkja fólk, sem máli skiptir. Það dugar að hringja í hestaferðafyrirtæki eða senda tölvupóst og panta far. Gott getur verið fyrir kunningjafólk að taka sig saman um pöntunina, því að þá hafa menn góðan félagsskap á leiðinni.
Algengt er, að dagurinn í löngum hestaferðum kosti 16.000 krónur hjá fyrirtækjum og er þá allt innifalið, þar á meðal bílferðin frá Reykjavík fram og til baka. Þeir, sem aka á staðinn og leggja með sér eigin hesta, geta ekki vænzt að fá mikinn afslátt út á það, því að fyrirtækið þarf að borga fyrir þessa hesta hey og gistingu til viðbótar við aðra ferðahesta. Mikið umstang og mikill kostnaður fylgir hestaferðum, til dæmis er trúss fyrirhafnarmikið.
Þessi aðferð hentar ekki bara óvönum og hestlitlum eða þeim, sem koma frá útlöndum. Hún hentar til dæmis fólki, sem ekki er vant rekstri eða er vegna aldurs ekki fullfært um að taka þátt í allri vinnu, sem fylgir rekstri í langferðum, svo sem fyrirstöðum á hættulegum stöðum og þverleiðum, svo og varðstöðu í áningu, járningum og heygjöfum. Sá sem fer með hestaferðafyrirtæki er fyrst og fremst viðskiptavinur, sem hefur þá eina skyldu að reyna að hanga sem mest á baki. Hann getur síðan fikrað sig áfram með að fá að taka þátt í rekstrinum.
Til samanburðar má nefna, að félag eins og Fákur tekur um 10.000 krónur á daginn í árvissri langferð, enda eru þar sjálfboðaliðar að verki, sem taka að sér undirbúning og skipulag og ætlast jafnframt til að meðreiðarfólk taki fullan þátt í allri vinnu við hrossin meðan á ferðinni stendur. Fáksferðirnar eru sennilega í dýrari kantinum af ferðum hestamannafélaga, enda hefur viðurgerningur þar lengi verið hafður í hávegum.
Gífurlegt framboð er af löngum hestaferðum um byggðir og óbyggðir landsins. Fyrirferðarmestir eru Eldhestar og Íshestar, sem að mestu leyti eru á sömu slóðum, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Austurlandi, Mývatni, Kili og Landmannalaugum. Þetta eru auðvitað vinsælustu reiðleiðir landsins. Eldhestar eru þar að auki á slóðum Njálu og á Sprengisandi. Þessi tvö fyrirtæki eru í rauninni ferðaskrifstofur með undirverktaka á sínum snærum í flestum landshlutum.
Aðrir öflugir aðilar með nokkrar ferðaleiðir eru Pólarhestar, sem mest eru í ferðum í Þingeyjarsýslum, Brekkulækur, sem mest er í ferðum í Húnaþingi vestra og í Dölum, svo og Hestasport, sem er í ferðum á Kili og Sprengisandi. Aðilar, sem eru á einni leið eða tveimur, eru Steinsholt, Hekluhestar, Snæhestar og Gæðingaferðir, svo að þekkt dæmi séu tekin, sem hafa verið í auglýsingum eða á vefnum og hafa fastar ferðir, eins konar rútur.
Á næstu síðu er birt kort af Íslandi, þar sem teiknaðar eru inn slóðir þessara fyrirtækja, eins og þær eru fyrirhugaðar á næsta sumri. Af kortinu má sjá, að Kjölur er vinsælasta leiðin og síðan koma Landmannalaugar og Löngufjörur. Á Kili má segja, að þrjár ferðir af þessu tagi séu í gangi í viku hverri á sumrin.
Hér að neðan eru netföng og vefslóðir fyrirtækjanna, þar sem sjá má nánari upplýsingar:
Íshestar: info@ishestar.is, http://www.ishestar.is/
Eldhestar: info@eldhestar.is, http://www.eldhestar.is/
Hestasport: hestaact@isholf.is, http://www.hestasport.is/
Pólarhestar: polarhestar@polarhestar.is, http://www.polarhestar.is/
Gæðingaferðir: gaedingatours@simnet.is, http://www.gaedingatours.is/
Hekluhestar: hekluhestar@islandia.is, http://www.randburg.com/is/hekluhestar/
Snæhestar: info@lysuholl.is, http://www.lysuholl.is/
Brekkulækur: brekka@nett.is, http://www.geysir.com/Brekkulaekur/
Steinsholt: steinsholt@steinsholt.is, http://www.steinsholt.is/
Fjallafákar: leirubakki@leirubakki.is, http://www.leirubakki.is/
Þetta eru þau fyrirtæki, sem mest hafa kynnt starfsemi sína í áætlunarferðum með hestamenn. Fyrirtæki á þessu sviði eru sennilega fleiri, yfirleitt þó annað hvort verktakar ofangreindra fyrirtækja eða þá með lítil umsvif.
Vinsælustu ferðaleiðirnar
Kjölur
Þrjú fyrirtæki eru í föstum ferðum yfir Kjöl, allar svipaðar og allar telja þær sex reiðdaga.
Biskupstungur eru önnur endastöðin í öllum tilvikum. Íshestar og Hestasport enda fyrir norðan nálægt Mælifelli í Skagafirði, en Eldhestar í Blöndudal í Húnaþingi. Eldhestar hafa tvo leggi fyrir sunnan Fremstaver undir Bláfelli, en hin hafa einn. Þau hafa aftur á móti þrjá leggi fyrir norðan Hverafelli, en Eldhestar tvo.
Sameiginleg með öllum ferðunum er gisting í Fremstaveri, Árbúðum og Hvítárvöllum. Íshestar og Hestasport hafa sameiginlega gistingu í Ströngukvísl og Galtará fyrir norðan.
Raunar eru tilhögun Kjalarferða þessara tveggja fyrirtækja nokkurn veginn alveg eins. Eldhestar hafa aftur á móti gistingu í Áfanga á leiðinni til Bollastaða í Blöndudal.
Fyrirtækin eru stanzlaust í þessum ferðum allt sumarið meðan fært er. Skálarnir eru góðir, dagleiðir milli þeirra eru hæfilegar, náttúran tignarleg, einkum þegar fjallasýn er góð á Kili. Kjalarleiðin er ein af þremur vinsælustu reiðleiðum landsins.
Fjallabak
Önnur af þremur vinsælustu reiðleiðum landsins er Fjallabak, það er landmannaleið og fjallabak syðra. Hún er sú þeirra, sem gefur flest ljósmyndurum flest mótíf. Einkum er það landmannaleið norður fyrir Heklu og austur að sýslumótum austan við Landmannalalaugar. Á syðri leiðinni er minnisstæðastur Mælifellssandur annars vegar og hins vegar leiðin milli Hvanngils og Einhyrnings um Krók.
Fjögur fyrirtæki hafa fastar ferðir á þessum slóðum, sex-átta reiðdagar. Tvö fyrirtæki hafa ferðir, sem ná hringinn um nyrðri og syðri fjallabaksleið, en hinar ferðirnar eru eingöngu um nyrðri leiðina.
Eldhestar fara frá Eyvindarmúla upp úr Fljótshlíð og enda þar aftur, fara fyrst syðri leiðina og síðan þá nyrðri að Landmannahelli, þaðan sem þeir fara aftur yfir á syðri leiðina í Hvanngili. Fyrri ferðatilögun Hekluhesta er svipuð, nema að ekki er komið tvisvar við í Hvanngili, heldur liggur önnur leiðin niður um Áfangagil í Austvaðsholt á Landi.
Íshestar fara nyrðri leiðina frá Hestheimum á Landi og enda austur í Búlandi í Skaftársveit. Síðari ferðatilhögun Hekluhesta fer fram og til baka frá Austvaðsholti yfir í Landmannalaugar. Svipaða sögu er að segja frá Steinsholti, þeirra ferð fer þaðan fram og til baka í Landmannalaugar.
Löngufjörur
Fjögur fyrirtæki fara um Löngufjörur, þriðju stóru hestaferðaleið landsins. Þessar ferðir eru mismunandi, yfirleitt um ein vika að lengd, en spanna misjafnan hluta af fjörunum, sem ná frá Ökrum á Mýrum vestur að Sölvahamri við Arnarstapa. Austan Stakkhamars eru fjörurnar á leirum, en vestan hans eru þær á skeljasandi.
Snæhestar á Lýsuhóli fara um fjörurnar austan frá Haffjarðará vestur á Sölvahamar við Arnarstapa og hafa þá sérstöðu að fara krók út í eyjar vestan Skógarness. Íshestar fara frá Stóra-Kálfalæk á Mýrum vestur í Traðir í Staðarsveit. Eldhestar fara frá Oddsstöðum í Lundareykjadal vestur um Mýrar yfir á Löngufjörur á Snorrastöðum og síðan alla leið vestur á Arnarstapa. Fjórða fyrirtækið er Brekkulækur, sem fer fram og til baka úr Húnaþingi vestra um Dali vestur í Skógarnes.
Mývatn
Þrjú fyrirtæki eru með fastar ferðir til Mývatns. Þær eru misjafnar, yfirleitt tæp vika að lengd.
Pólarhestar fara fram og til baka frá Grýtubakka hjá Grenivík og fara um Ljósavatnsskarð og Bárðardal. Eldhestar fara fram og til baka frá Eyjafirði og fara um Fnjóskadal og Bárðardal. Íshestar fara fram og til baka frá Húsavík og fara aðra leiðina um Þeistareyki og hina um Breiðumýri.
Yfirleitt fela þessar ferðir í sér útsýnisferð á bíl um Mývatnssveit, enda er ekki hægt um vik að ríða sveitina, því að malbikaður bílvegurinn einn liggur umhverfis vatnið.
Pólarhestar eru líka með ferð áfram austur um Þeistareyki í Öxarfjörð og síðan upp að Grímsstöðum á Fjöllum.
Austurland
Þrjú fyrirtæki eru með fastar ferðir á þessum slóðum, yfirleitt vikuferðir. Þau hafa hvert sína sérgrein á svæðinu.
Gæðingahestar á Útnyrðingsstöðum fara um firði og víkur, Borgarfjörð og Breiðuvík, svo og fjallvegi milli strandar og Héraðs. Íshestar fara frá Lagarfljóti upp á heiðar umhverfis Snæfell. Eldhestar eru norðar með sína starfsemi, fara frá Héraði yfir í Vopnafjörð, um heiðar þar og síðan aftur niður á Hérað.
Til þess að kynnast Austfjörðum á hestbaki, þurfa menn eiginlega að fara í allar þessar ferðir, því að þær skerast hvergi.
Gullni hringurinn
Þrjú fyrirtæki eru með ferðir umhverfis Geysi og Gullfoss, yfirleitt kallaðar Gullni hringurinn, en eru að öðru leyti ólíkar.
Eldhestar fara úr Hveragerði um Skógarhóla og Hlöðufell til Geysis. Pólarhestar fara sömu leið í samstarfi við Eldhesta. Íshestar fara frá Fossnesi í Hreppum um Brúarhlöð til Geysis fram og til baka, svo og í Þjórsárdal.
Sprengisandur
Tvö fyrirtæki fara á Sprengisand, þar af annað fyrirtækið alla leiðina.
Það eru Eldhestar, sem fara frá Fellsmúla á Landi norður í Halldórsstaði í Eyjafirði. Það er eina ferðin, sem raunverulega liggur um Sprengisand. Hitt fyrirtækið er Hestasport, sem fer upp úr Skagafirði í Laugafell og þaðan niður að Mývatni. Það er eina ferðin, sem fer upp inndali Skagafjarðar í Laugafell
Dalir
Brekkulækur í Húnaþingi vestra er með tvær leiðir í Dali, aðra stutta og hina langa, sem nær alla leið á Löngufjörur.
Önnur er hringferð um Húsafell, Svarfhól og Stað í Hrútafirði. Hin fer báðar leiðir um Hrútafjörð og fer alla leið í Skógarnes sem fyrr segir.
Ferðir Brekkulækjar hafa nokkra sérstöðu á svæðinu um Húnaþing vestra og Dali.
Aðrar leiðir
Pólarhestar eru með ferðir frá Grýtubakka í Fjörður og aðrar ferðir í Öxarfjörð. Brekkulækur er með ferðir frá Brekkulæk um Hóp í Þingeyrar. Hestasport er með ferðir í nágrenni Hóla í Hjaltadal. Steinsholt er með ferðir um Þjórsárdal og hluti af Gullna hring Íshesta er einnig um Þjórsárdal.
Athugasemd
Fleiri fyrirtæki eru með fastar hestaferðir með reglubundnu sniði og föstum tímasetningum. Hér hafa verið valin þau fyrirtæki, sem þekktust eru vegna umfangs þeirra, auglýsinga og kynningarefnis, eða þá vegna opinberra réttinda, sem þau hafa aflað sér á sviði hestaferða. Aðrar ferðir kunna að vera jafngóðar.
Tvö fyrirtækin, Eldhestar og Íshestar, hafa þá sérstöðu, að þau eru ferðaskrifstofur með fasta undirverktaka, sem sjá um ákveðnar leiðir. Þannig starfar Sigurður á Oddstöðum í Lundareykjadal fyrir Eldhesta á Snæfellsnesi og þannig starfa Sigurður á Stóra-Kálfalæk á Mýrum fyrir Íshesta á Snæfellsnesi, Hjalti í Fossnesi í Gnúpverjahreppi fyrir Íshesta á Gullna hringnum og á Kili, svo og Bjarni Þór í Saltvík við Húsavík fyrir Íshesta á Mývatnsleið.
Í sumum ferðunum eru hvíldardagar og er þá í sumum tilvikum farið í bíl í skoðunarferðir.
Útundan
Svokölluð Hálsaleið var einu sinni á dagskrá fyrirtækja í hestaferðum, farin um Skógarhóla og Uxahryggi niður í Lundareykjadal og síðan um hálsa til Húsafells og endað með því að fara kringum Strútinn. Hún er ekki farin lengur.
Mér finnst líka vanta leiðir í Þórsmörk, leiðir um Hreppaafréttir inn í Arnarfell og Kerlingafjöll, leiðir upp af Þistilfirði, til dæmis góða reiðvegi um Sléttu, svo og um risavaxna Búfellsheiði. Einnig vantar leiðir austan Vatnajökuls, til dæmis um Víðidal.
Mest finnst mér vanta leiðir um afréttir Mýrdals, austan frá Höfðabrekku að fjallabaki vestur í Mýrdal. Það er eitthvert fegursta reiðsvæði, sem ég hef séð.
Í Vestur-Skaftafellssýslu er mikið reiðland á heiðum og grónu hrauni. Svo eru Vestfirðir eyðimörk á landakorti fyrirtækja í hestaferðum.
Á næstu opnu er kort af Íslandi, þar sem ofangreindar leiðir eru merktar. Taka ber fram, að næturstaðir hrossa eru tengdir með beinum strikum, sem fylgja ekki krókaleiðum veruleikans.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 1.tbl. 2005