Hrossaræktarfundir

Hestar

Arfgengi lita í WorldFeng

Forustumenn hrossaræktarinnar hafa verið með fundaherferð um landið undanfarnar vikur. Þetta eru Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda, Guðlaugur V. Antonsson hrossaræktarráðunautur og Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir hrossasjúkdóma. Eiðfaxi mætti á fundinn á Hvolsvelli.

Fundarmenn spurðu mest um fyrirhugaðar aðgerðir gegn spatti í stóðhestum og voru almennt sáttir við útskýringarnar.

Útflutningur á uppleið

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Útflutningur er að taka við sér aftur eftir lágmarkið árið 2003. Það, sem af er þessu ári hafa 100 fleiri hross verið flutt út en á sama tíma í fyrra. Bandaríkin hafa valdið vonbrigðum, en Þýzkalandsmarkaður er aftur kominn í gang.

Freistandi er að stefna að ætternisgreiningu allra mera, sem eru í ræktun og ætternisgreina þannig virka ræktunarstofninn. Þótt þetta kosti dálítið af peningum, eru þær tölur yfirstíganlegar.

Gagnrýnir reiðmennsku

Guðlaugur V. Antonsson hrossaræktarráðunautur:

Það er sláandi, að fjórðungur hrossa er með áverka í dómi. Þar skipta máli miklar kröfur knapa og eigenda. Hófhlífar voru ekki til fyrir 1970, en samt gripu hross ekki á sig þá. Nú eru öll hross með hófhlífar í sýningu, en slasast samt. Hér þarf að koma til skjalanna betri reiðmennska, enda er nefnd innan Félags tamningamanna að kanna, hvernig eigi að taka á grófri reiðmennsku.

90% ásettra folalda væru nú komin í skýrsluhaldið. Þriðjungurinn er á Suðurlandi, sjötti hluti í Húnavatnssýslum og annar sjötti hluti í Skagafirði. Helmingur allra dóma var á Hellu í sumar.

Gæðamatið hefur farið af stað. 40 bú hafa náð árangri í skýrsluhaldi og landnýtingu, en aðeins 16 bú hafa náð öllum pakkanum, þar á meðal umhirðu.
WorldFengur er að verða gífurlega mikilvægur gagnabanki með 210.000 hrossum. Nú er rætt um að bæta við DNA-skráningu ætternis og verið er að sameina MótaFeng og WorldFeng.

Sjúkdómaskráning er farin í gang og er þar fyrst spattið. Mælingar á spatti í fimm og sex vetra stóðhestum fara inn í WorldFeng og verður þar öllum aðgengilegt.

Verið er að búa til reiknilíkan fyrir arfgerðamat lita í WorldFeng. Með því verður unnt að vakta sjaldgæfa liti, hjálpa ræktendum og villuprófa í skýrsluhaldi. Þetta líkan ætti að verða tilbúið á næstu mánuðum.

Tíðni lita er þessi: Brúnn 32%, rauður 29%, jarpur 16%, skjótt 10%, bleikálótt 6%, grár 6%, mósótt 5%, vindótt 3%, leirljós 2%, moldótt 1,5% og litförótt 0,5%.

Við þurfum að að halda vöku okkar og ekki tapa litum. Það væri til dæmis skaði að missa litförótta litinn. Sem betur fer eru sumir litir í lágu hlutfalli komnir aftur á uppleið, það er að segja vindóttur, grár og skjóttur litur.

Því miður stendur ekki í reglugerð um kynbótasýningar, að knapar hafi hjálma spennta. Því miður haga margir knapar sér heimskulega á þessu sviði. Ég mun mæla með því við Fagráð í hrossarækt, að reglugerðinni verði breytt þannig að hjálmar verði spenntir í dómi.

Arfgengur öldrunarsjúkdómur

Sigríður Björnsdóttir, yfirlæknir hrossasjúkdóma, lýsti rannsóknum og athugunum, sem hafa leitt til þeirrar niðurstöðu, að spatt, það er að segja slitgigt í hæklum, sé arfgengur veikleiki, öldrunarsjúkdómur, sem hefur göngu sína snemma og er að miklu leyti arfgengur. Notkun og vinnuálag er ekki áhrifavaldur og ekki heldur tölt.

Með því að mæla fyrir spatti fimm og sex vetra stóðhesta, áður en þeir koma í dóm, verður hægt að draga verulega úr spatti í íslenzka hrossastofninum. Ekki mega vera neinar leiðir fyrir sýnda stóðhesta framhjá þessari mælingu. Röntgenmyndataka er öruggari en beygjuprófun. Aflestur röntgenmynda verður samræmdur á einum stað. Niðurstöðurnar verða birtar í WorldFeng. Sömu reglur verða teknar upp um allan Íslandshestaheiminn.

Vænta má þess, að 10-12% stóðhesta mælist með spatt, 5-10 sýndir stóðhestar á ári. Ekki verður hins vegar bannað að nota spattaða stóðhesta. Rækilega hefur verið fjallað um þetta efni nýlega í Eiðfaxa, þar á meðal sagt frá alþjóðlegri ráðstefnu dýralækna á Selfossi í fyrrasumar og frá niðurstöðu Fagráðs um þetta efni.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2005