Að lenda utan þjónustusvæðis stafræns síma er eins og að detta út af sólkerfinu. Ég er á Melrakkasléttu í eyðibýli og hestarnir eru í girðingu á öðru eyðibýli. Ég þarf að ríða til Kópaskers eða Raufarhafnar til að ná sambandi við umheiminn. Bílasími næst hér, en hann er ekki stafrænn og kemur mér því ekki á veraldarvefinn. Af þessum sökum kann tilvera mín á vefnum að verða stopul næstu daga. Ferðinni er heitið frá Leirhöfn norður og austur meðfram rekaviðnum á ströndinnni. Síðan inn á Blikalónsheiði til bæjanna sunnan Raufarhafnar. Framundan eru rúmar tvær vikur í heiðasælu.