Elzta ferja á Jökulsá á Fjöllum var á reginöræfum sunnan við Ferjufjall, um tíu km sunnan við Möðrudal. Biskupaleið úr Skálholti lá þar um garða og áfram Langadal austur í Vopnafjörð. Langt var milli bæja á þeirri leið, yfir þrjátíu km til efstu heiðarbýla. Önnur leið lá suður á Hérað um Rangalón eða Sænautasel. Á þeim slóðum voru áður bæir í allt að 600 metra hæð. Þriðja leiðin lá norður í Víðidal og Grímsstaði á Fjöllum. Á þessu hálenda, afskekkta svæði voru margar heiðajarðir fyrr á öldum, frægust Veturhús af Halldóri Laxness. Frá Ferjufjalli í Vopnafjörð eru 90 km.