Landsfeður okkar björguðu sér undan á flótta í eftirlaunamálinu. Þeir sömdu við formenn stjórnarandstöðunnar um að fresta því fram yfir þingslit. Svo eiga formenn flokkanna að stinga saman nefjum í sumar. Þetta er auðvitað alls engin niðurstaða, þótt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir haldi slíku fram. Þetta er bara biðleikur. Hann tekur málið af dagskrá og stöðvar leiðinlegar umræður um svik stjórnmálamanna. Kannski verður þrýstingur frá fólki minni í sumar. Kannski hættir Stöð 2 að leggja utanríkisráðherra “í einelti”, svo að notað séu orð forsætisráðherra. Kannski komast þeir hjá því að breyta.