Kristín gerir grín að mér fyrir að horfa á Morse, Frost og Barnaby, jafnvel á Lewis. Brezku sakamálaþættirnir eru orðnir að skrípamynd af sjálfum sér. Þeir gerast í gömlum bindingshúsum í fallega grónum þorpum að hætti Agatha Christie. Munurinn er sá, að mannfall er núna orðið meira en í Bagdað. Morðóðu piparjúnkurnar slátra fleirum áður en upp um þær kemst. Hetjurnar eru gamlir og feitir og afar þreyttir lögreglumenn, þrútnir í framan af óhóflegri viskí- og bjórneyzlu. Var ekki Músagildran hjá Agatha Christie skárri en eftirlíkingar nútímans? Ég veit ekki, af hverju ég horfi enn.