Vesturþýzk stjórnvöld hafa ekki hætt sér út í herskipavernd á Íslandsmiðum. Það stafar ekki eingöngu af því, að þau kunni betri mannasiði en lafðir þær og lávarðar, sem stjórna þorskastríði Breta. Vestur-Þjóðverjar hafa á undanförnum árum haft betra lag en Bretar á samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Meðan Bretar hafa klúðrað Rhodesíumálinu og Norður-Írlandsmálinu hafa Vestur-Þjóðverjar rekið skynsamlega austurstefnu og stuðlað að friði í heiminum.
Hitt er ljóst, að vesturþýzk stjórnvöld hafa ekki vandað sig sérstaklega í landhelgisdeilunni. Ráðamönnum landsins hefur þótt málið svo óverulegt, að það taki því ekki að sinna því. Þröngsýnir embættismenn hafa fengið að ráða ferðinni og gera Vestur-Þýzkaland að næstum því sama skálki og Bretland. Það munar að vísu herskipaverndinni. En í öllu öðru hafa Vestur-Þjóðverjar fylgt Bretum dyggilega í landhelgismálinu.
Brezkir og vesturþýzkir embættismenn hafa verið saman um að etja Efnahagsbandalagi Evrópu út á skákborð landhelgisdeilunnar. Þeir hafa frumkvæði að því að láta bandalagið fresta því að láta fríðindi fyrir íslenzkar fiskafurðir taka gildi í samræmi við viðskiptasamning Íslands og bandalagsins. Þeir eru nógu skammsýnir til að telja þessa hótun munu gera Íslendinga meðfærilegri í landhelgismálinu.,Slíkt er fjarri nokkrum sanni og gerir Efnahagsbandalagið aðeins að þriðja skálkinum í þorskastríðinu.
Nú eru Vestur-Þjóðverjar að koma til viðræðna við Íslendinga og þykjast áreiðanlega vera snöggtum skárri viðskiptis en Bretar. Þeir vilja að við heiðrum einn skálkinn fyrir það, að annar skálkur sé enn ófyrirleitnari. Spurningin er bara sú, hvort ekki sé réttara fyrir okkur, úr því sem komið er, að bíða eftir niðurstöðu hafréttarráðstefnunnar, fremur en heiðra skálkana með samningum.
Allténd hlýtur það að vera forsenda fyrir alvarlegum viðræðum við vesturþýzk stjórnvöld, að þau færi sjónarmið sín af þriðja flokks embættismannasviði, þar sem hinar stóru línur týnast innan um smáatriði illa skilgreindra sérhagsmuna og þar sem enginn þorir að taka af skarið og rétta höndina fram til sátta. Það er búið að vera nóg af marklausu þjarki í samningaviðræðum til þessa
Við biðjum ekki um greiðasemi af hálfu vesturþýzkra stjórnvalda. Við viljum hins vegar telja, að það sé í þeirra eigin þágu, að hinir raunverulegu ráðamenn þeirra taki í taumana. Þeir hafa þá yfirsýn, sem embættismennina skortir. Þeir sjá hið alþjóðlega samhengi. Þeir hljóta að sjá, hve stríður straumur er í átt til 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Þeir hljóta að gera sér grein fyrir því, að slík landhelgi er um það bil að verða að alþjóðalögum. Þeir hljóta að sjá, að það er gagnstætt hagsmunum Vestur-Þýzkalands í samfélagi þjóða heims að vera með bolabrögð hér norður í höfum í trássi við hraðfara þróun alþjóðaréttar, aðeins til að verja illa skilgreinda sérhagsmuni um ákaflega skamman tíma.
Það er þetta víðsýna og framsýna viðhorf, sem er forsenda þess, að frekari viðræður hafi hagnýtt gildi.
Jónas Kristjánsson
Vísir