Að vísitelja gengið.

Greinar

Fjárhirðirinn í sögunni var búinn að hrópa “úlfur, úlfur” ótal sinnum. Menn voru hættir að trúa honum, þegar úlfurinn birtist svo loks í rauninni. Svo virðist sem frystihúsasamtökin séu að lenda í svipuðum vanda.

Eins og Listahátíð hélt upp á sjómannadaginn, þá fór menntamálaráðherrann í síðustu viku með sjávarútvegsmál. Hann sagðist taka gengislækkunarkröfum frystihúsamanna með varúð. Yrði gengið fellt, þá yrði það gert hægt og sígandi.

Seðlabankastjórinn var í útlöndum þá dagana. Þess vegna bárust ríkisstjórninni ekki neinar tillögur frá bankanum um lækkun eða sig gengis. Sumum gæti dottið í hug, að ráð gegn gengislækkunum væri að geyma bankastjórann erlendis.

Sennilega var fjárhirðirinn í sögunni sjaldnast að segja verulega ósatt. Þegar þorpsbúar, þ.e. ráðherrar og bankastjórar, ruku upp með óhljóðum, þ.e. gengislækkunum, fældu þeir úlfinn, svo að hann át ekki lömbin, þ.e. frystihúsin.

Úr því að úlfurinn fældist og sást ekki, er hætt við, að sumir telji hann ekki hafa verið til, að minnsta kosti ekki á þessum slóðum. Þetta virðist nú vera eitt af vandamálum fjárhirðisins, þ.e. frystihúsasamtakanna.

Að vísu viðurkenna viðsemjendur frystihúsa, útgerðarmenn og sjómenn, að hækkun fiskverðsins 1. júní hafi verið út í hött. Hún hafi aðeins verið gerð til að sjómenn fengju sömu prósentuhækkun og aðrir landsmenn fengu.

Það ætti að vera ábyrgðarhluti að knýja fram hækkun og viðurkenna svo nokkrum dögum síðar, að kaupandinn geti ekki greitt hana. Að þessu ábyrgðarleysi stóðu formenn samtaka útgerðar og sjómanna og oddamaður ríkisstjórnarinnar.

Hvað er þá til ráða? Formaður Sjómannasambandsins segist vera andvígur gengislækkun. Hann talar óljóst um “viðeigandi ráðstafanir” ríkisstjórnarinnar. Óneitanlega væri fróðlegt að vita, hvað hann á í rauninni við.

Líklega eru menn orðnir leiðir á að trúa, að krukk í hliðaratriði á borð við vexti geti hindrað vanda af þessari stærð. Það væri þá frekar, að landbúnaðarstefna með “viðeigandi” útflutningsuppbótum fái bjargað frystihúsunum!

En hver vill ganga fram fyrir skjöldu og óska eftir sjálfvirku landbúnaðarkerfi í sjávarútveginum? Hver vill gera útgerðarmenn, sjómenn og frystihúsafólk að ríkisstarfsmönnum? Er eitt kvígildi í atvinnulífinu ekki nóg?

Staðreyndin er sú, að ekki dugir að hafna gengislækkun og tala út í loftið um “viðeigandi ráðstafanir” hins opinbera. Það er ekki hægt að vísitölubinda alla hluti í þjóðfélaginu aðra en gengi íslenzku krónunnar.

Stigið hefur verið skref í átt vísitölubindingar kjara sjómanna eins og annarra landsmanna. Fjárskuldbindingar eru smátt og smátt að verða vísitölubundnar. Þetta kerfi kallar á, að gengi krónunnar verði líka vísitölubundið.

Þar með væri búið að koma verðbólgunni fyrir á hliðarspori, þar sem hún getur hamazt án tímabundinnar uppákomu á borð við gjaldþrot frystihúsa. Þar með væri búið að sníða verstu vankantana af verðbólgunni.

Enn betra væri raunar að játa, að sjálfstæði okkar byggist ekki á eigin gjaldmiðli fremur en sumra annarra smáþjóða. Hví ekki hafna alveg heimatilbúinni verðbólgu og taka upp svissneska franka sem gjaldmiðil í stað krónunnar?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið