Alcoa er betra

Greinar

Alcoa vill borga sjálft fyrir álverið á Reyðarfirði, en ekki vera milliliður, sem á minnihluta og borgar með þekkingu, viðskiptavild og hlýju handtaki eins og Norsk Hydro vildi gera. Þess vegna eru viðræður við Alcoa miklu áhugaverðari en viðræðurnar við Norsk Hydro voru á sínum tíma.

Samkvæmt hugmyndum Alcoa verður ekki reynt að soga upp innlent fé til að fjármagna álverið. Það þýðir, að meira verður aflögu af peningum innlendra lífeyrissjóða og annarra fésýsluaðila til að byggja upp landið og atvinnuvegi þess og til að treysta framtíð þjóðarinnar.

Reynslan sýnir, að álver eru sérstök fyrirbæri, sem fléttast ekki inn í annað atvinnulíf. Þau eru fullþroskuð og raunar nýtízkuleg útgáfa af gamaldags atvinnuvegi, þar sem stofnkostnaður á hvert starf er margfalt meiri en á öðrum sviðum. Þau blandast lítið þekkingariðnaði nútímans.

Þjóðfélag á fjárhagslegri framabraut þarf að nota stóran hluta af sparnaði sínum til að byggja upp þekkingariðnað, þar sem arðsemi er mikil og laun há, og að nota annan stóran hluta hans til fjárfestingar í útlöndum í þágu eftirlaunafólks, til að treysta öryggið í verðgildi sparnaðar.

Þess háttar þjóðfélag bindur ekki peninga sína í einni risaverksmiðju á borð við Reyðarál. Slíkt er verkefni erlendra atvinnufjárfesta á borð við Alcoa. Fyrir okkur er meira en nóg, að Landsvirkjun þarf að taka rosalán í útlöndum til að fjármagna orkuframleiðslu fyrir álverið.

Þar fyrir utan er ærið verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir, að smíði orkuvers og álvers leiði til of mikillar sveiflu í efnahagslífinu og of hárra vaxta í þjóðfélaginu á byggingatímanum. Þótt gott sé, að álverið rísi fyrir útlent fé, eru þar með ekki úr sögunni öll vandamál, sem tengjast því.

Í stórum dráttum má þó segja, að ágreiningurinn um álver á Reyðarfirði snúist ekki lengur um, hvort það sé fjárhagslega gott eða vont fyrir þjóðfélagið, heldur hvort hagurinn réttlæti náttúruspjöll virkjunarinnar eða ekki. Þannig er málið komið í eðlilegri farveg en áður var.

Um þessar mundir er verið að vinna grundvallarverk sem á að gefa okkur betri sýn yfir möguleikana í stöðunni. Nefnd óháðra aðila á vegum ríkisins hefur unnið síðan 1999 að gerð rammaáætlunar um orkunýtingu, hefur lokið áfangaskýrslu og hyggst ljúka störfum í upphafi næsta árs.

Það er nefnilega óskynsamlegt að vaða út í byggingu einstakra orkuvera án þess að hafa heildarsýn yfir stöðuna. Við þurfum að vita, hvaða orkuver koma til greina. Við þurfum samanburð á stofnkostnaði, framleiðslugetu, hagnaðarvon og ekki sízt umhverfisáhrifum orkuveranna.

Bráðabirgðaskýrsla nefndarinnar bendir til, að orkuver við Kárahnjúka verði óvenjulega arðbært og að umhverfisspjöll þess verði óvenjulega mikil. Til samanburðar er Norðlingaalda miklu síður arðbær en nærri því eins skaðleg umhverfinu og hlýtur því að teljast nokkru lakari kostur.

Hins vegar bendir skýrslan á staði, sem hingað til hefur lítið verið talað um. Þeir nýtast ekki til risavaxinnar stóriðju á borð við Reyðarál, en gagnast annarri framþróun í landinu. Þetta eru einkum ódýr orkuver í Skaftafellssýslu, sem talið er að valdi litlum umhverfisspjöllum.

Með rammaáætlun um nýtingu innlendrar orku og viðræðum við Alcoa um eignarhald álvers á Reyðarfirði eru ráðagerðir stjórnvalda um stóriðju loksins komnar inn á svið skynseminnar.

Jónas Kristjánsson

FB