Venjulega þurfum við í kosningum að velja milli mismunandi lélegra kosta, frambjóðenda fjögurra stjórnmálaflokka. Á sunnudaginn höfum við aftur á móti einstakt tækifæri til að velja milli fjögurra góðra kosta.
Í öllum þrennum forsetakosningum Íslendinga hefur aðeins verið um hæfa menn að velja. Það má vera til hugarhægðar okkur, sem erum meira vanir andstreymi þingkosninga. Altjend er tryggt, að eitt embætti er vel skipað.
Kosningabaráttan hefur í stórum dráttum verið drengileg. Aðeins þrjú dæmi eru um frávik frá þeirri reglu. í öllum tilvikum voru áhrifin öfug við það, sem til var ætlazt. Högg fyrir neðan belti freista því ekki lengur.
Hins vegar hefur þessi barátta verið of dýr. Óheyrilegur kostnaður er af auglýsingum, útgáfum og ferðalögum. Þar er um að ræða stigmögnun, sem boðar ekki gott um framtíð kosninga til embættis forseta Íslands.
Að vísu hafa frambjóðendur yfirleitt ekki þurft að leggja fram fé úr eigin vasa. Umhverfis þá alla er fjölmennur og sannfærður hópur stuðningsmanna. Frá þessum fylkingum kemur stríður straumur peninga.
Segja má, að ekkert sé verðugt forsetaefni, er ekki sogar að sér fjölmenna hirð, sem er reiðubúin að borga fyrir kosningabaráttu af því tagi, er við höfum verið vitni að síðustu vikurnar. En hvað gerist næst?
Nokkur hluti kostnaðarins stafar af lélegri frammistöðu sjónvarpsins. Það er miðill, sem dugar vel til kynningar á persónum, en síður til kynningar á málefnum. Þess vegna er sjónvarpið mikilvægt í forsetakosningum.
Sjónvarpið hefði átt að bjóða upp á rabbfundi með einu forsetaefni í senn, í stíl þáttarins: “Maður er nefndur.’, Ennfremur spurningaþætti með einu forsetaefni í senn, eins og útvarpið hafði um helgina.
Þegar sjónvarpið bregzt á þessu sviði, leiðir það til aukins kostnaðar af hálfu frambjóðenda til persónulegrar kynningar með öðrum og dýrari hætti. Núverandi stefnu þarf útvarpsráð því að endurskoða fyrir næstu kosningar.
Þetta er þó af hinu góða, að svo miklu leyti sem það hefur leitt til aukinna ferða forsetaefna. Enginn vafi er á, að þessar ferðir hafa stuðlað að jarðsambandi forsetaefnanna, gert þau hæfari til að gegna hinu eftirsótta embætti.
Hinir prentuðu fjölmiðlar hafa staðið sig vel í þessari baráttu. Þeir hafa ekki tekið afstöðu, en opnað dálka sína í þágu allra frambjóðenda. Þessi þjónusta spannar frá lesendabréfum og kjallaragreinum yfir í skoðanakannanir.
Dagblaðið hefur reynt að forðast að birta áróður frá kosningaskrifstofunum. Í staðinn hefur það sent menn til að fylgjast með ferðum og fundum forsetaefna. Þessi vinnubrögð hafa upp á síðkastið verið tekin upp hjá öðrum.
Hinn mikli flaumur prentaðs máls hefur smám saman gert kjósendum kleift að sjá, hvernig frambjóðendur eru á mismunandi hátt hæfir til að gegna embætti forseta. Menn standa andspænis mismunandi kostum, þótt allir séu þeir góðir.
Endanlegur úrskurður birtist svo á mánudaginn. Þá kemur í ljós, hvaða persóna fellur bezt að hugmyndum kjósenda um forseta. Þegar menn telja alla frambjóðendur hæfa, felst óvissan í, hvaða eiginleika eða hæfileika þeir setja á oddinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið