Andefni framleitt í Genf

Punktar

Athena-hópur vísindamanna við CERN-rannsóknastofnunina í nágrenni Genfar var rétt á undan Atrap-hópi stofnunarinnar í framleiðslu andefnis, að því er segir í grein, sem mun birtast í næsta tölublaði Nature. Dennis Overby segir frá þessu í New York Times í dag. Vísindamennirnir bjuggu til andvetni í lokuðu rými og fylgdust með, hvernig vetni og andvetni eyddu hvort öðru og leystu við það orku úr læðingi. Staðfestu þeir þar með fyrri kenningar um, að efni og andefni væru algerar andstæður. Þetta opnar sýn inn í nýja veröld, þar sem tíminn líður aftur á bak, hægri er vinstri og jákvætt er neikvætt. Það skýrir hins vegar ekki, af hverju heimur okkar virðist að mestu vera gerður úr venjulegu efni.