Ísland tekur á erlendum vettvangi virkan þátt í margs konar samstarfi um verndun lífsins í sjónum og skynsamlega hagnýtingu þess, mannkyninu til lífsviðurværis. Í nefndum þessum og stofnunum þykir Ísland standa framarlega i sveit þeirra ríkja, sem vilja beita áhrifamiklum aðgerðum til að stöðva ofveiði og hrun fiskistofna. Enda eru hinar efnahagslegu afleiðingar slíkrar öfugþróunar okkur ljósari en flestum öðrum þjóðum, af skiljanlegum ástæðum.
Útfærsla íslenzku fiskveiðilögsögunnar er víða séð í ljósi þessarar afstöðu. Menn hafa sorglega reynslu af því, að hið alþjóðlega samstarf í nefndum og ráðum nær ekki tilgangi sínum. Ýmsir sérhagsmunir valda því, að friðunaraðgerðir eru oft allt of seinar á ferðinni og ná yfirleitt allt of skammt. Menn viðurkenna því einhliða aðgerðir Íslendinga til að varðveita fiskistofnana innan 50 mílna landhelginnar.
Verndunarsjónarmiðið er langsamlega sterkasta vopn Íslendinga í landhelgisdeilunni. Með 50 mílna landhelgi skapar þjóðin sér aðstöðu til að framkvæma þá stefnu, sem fulltrúar hennar hafa lengi barizt fyrir á alþjóðlegum vettvangi. Hún getur sýnt, að hin víðtæku yfirráð leiði til þess, að fiskistofnar svæðisins komist aftur í náttúrulegt jafnvægi og geti áfram orðið lífsviðurværi fyrir mannkyn um ókomna framtíð.
En hvernig höfum við staðið okkur í skynseminni til þessa? Áttum við ekki okkar þátt í að eyða síldarstofnum Norðaustur-Atlantshafs, þótt Norðmenn ættu þar stærsta hlutinn? Höfum við ekki ofveitt þorsk og aðra þerskfiska, svo sem ýsu, innan okkar gömlu 12 mílna landhelgi? Og hvernig hefur okkur tekizt að viðhalda stofnum flatfisks,.rækju, humars og skelfisks, svo að dæmi séu nefnd?
Staðreyndin er sú, að við ofveiðum á öllum sviðum, jafnvel þær tegundir, sem eru fyrst og fremst innan gömlu tólf mílna landhelginnar og eru því alveg á okkar valdi, en ekki annarra. Við ofveiðum ýsu, rækju, humar og krækling. Við setjum að vísu stundum strangari reglur um þessar veiðar, friðum svæði um tíma, bönnum veiðar um tíma og aukum lágmarksstærðir möskva. En ýmis skammsýn sjónarmið valda því, að óskir fiskifræðinga ná ekki fyllilega fram að ganga og aðgerðirnar reynast því ónógar. Stofnarnir halda áfram að minnka.
Þessu valda oft skammsýn sjónarmið þeirra, sem hafa þeirra hagsmuna að gæta að veiða sem mest á líðandi stund. Þeir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hagsmunum sínum langt fram í tímann, þegar rányrkjan er búin að hefna sin á þeim margfalt. Enn minni grein gera þeir sér fyrir þeirri nauðsyn, að hver kynslóð skili náttúrunni, þar á meðal fiskistofnunum, í að minnsta kosti jafngóðu ástandi og þegar hún tók við. Stjórnmálamönnum hættir til að taka of mikið tillit til þessara skammsýnu kjósenda sinna.
Við getum verið fínir friðunarmenn á erlendum vettvangi. En okkur vantar enn þá hugarfarsbreytingu, sem er alger forsenda virkra aðgerða til verndunar fiskistofna og tryggingar efnahagslegs gildis þeirra í framtíðinni. Þessi hugarfarsbreyting er enn mikilvægari en sjálft landhelgismálið.
Jónas Kristjánsson
Vísir