Burt með þennan gest

Greinar

Sírenur væla og lestir bónaðra bíla þjóta um á hættulegum hraða með heimsþekkta stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja innanborðs. Lögreglan lokar götuhornum til að hleypa þessum lýð viðstöðulaust áfram og tefur þannig venjulegt og heilbrigt fólk, sem þarf að komast milli staða.

Í bílalestunum eru meðal annars vopnaðir manndráparar, sem vernda hina heimsþekktu stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja. Bullsveitt lögregla reynir að hindra venjulegt og heilbrigt fólk í að haga sér þannig, að það geti espað manndráparana til að beita skotvopnum sínum.

Þetta er eins og í þriðja heiminum. Fréttablaðið leitaði á mánudaginn dyrum og dyngjum að einhverjum, sem skildi, hvers vegna þetta þriðja heims ástand þarf að koma til Íslands. Alls enginn fékkst til að mæla því bót, utan skrifstofustjóri ráðuneytisins, sem skipuleggur sírenurnar.

Því miður eru sumir ráðamenn haldnir þeirri firru, að fólk með áhugamál sé hættulegt, svo sem leikfimi- og hugleiðslufólk, svo og áhugafólk um mannréttindi og náttúruvernd, en sjálfsagt sé að bugta sig og beygja fyrir þeim, sem harðast ganga fram gegn hagsmunum mannkyns.

Við þurfum að vara okkur á fasistum í valdastöðum hér á landi, mönnum sem vilja setja reglur og lög á reglur og lög ofan til að geta haft auknar gætur á fólki og heft hefðbundið ferðafrelsi og athafnafrelsi þess. Þráhyggja fasistanna er ekki í neinu samhengi við frjálslyndan þjóðarvilja.

Við lifum friðsömu og borgaralegu lífi á rólegum stað í heiminum. Við höfum hvorki her né vopnaða lögreglu og viljum fá að vera í friði til að sinna skyldum okkar og áhugamálum. Við viljum geta treyst stjórnvöldum okkar til að neita sér um að raska ró okkar með óviðkomandi vanda.

Við viljum ekki þurfa að sæta truflunum á leið okkar og gesta okkar um Leifsstöð, af því að gæzlumenn öryggis ríkisins séu önnum kafnir við að reyna að átta sig á, hvaða fólk sé líklegt til að vilja stunda jóga á almannafæri eða vera á annan hátt of heilbrigt til að fá að koma til landsins.

Auðvitað viljum við fá gesti til landsins, þar á meðal ráðstefnugesti og erlend fyrirmenni. Flest af því tagi veldur engum vandræðum. Það er fyrst, þegar landsfeður okkar vilja bjóða hingað heimsþekktum fólum á borð við stríðsglæpamenn og fjöldamorðingja, að gamanið fer að kárna.

Dálítið er til að erlendum þjóðhöfðingjum, sem eru ekki verri en svo, að unnt er að taka í höndina á þeim og sitja með þeim til borðs. En kínversku valdamennirnir Li Pen og Jiang Zemin flokkast engan veginn á þann hátt, að nokkur venjulegur og heilbrigður maður vilji koma nálægt þeim.

Við eigum ekki að bjóða hingað valdamönnum eða fjölþjóðastofnunum, sem hafa svo slæman feril að baki, að hann kalli á mótmæla- og andófsfólk. Þetta gildir um ráðamenn helztu harðstjórnarríkja þriðja heimsins og örfáar fjölþjóðastofnanir, sem hafa getið sér illt orð í þriðja heiminum.

Hægt er að setja upp einfalda reglu, sem segir, að ekki verði tekið á móti opinberum gestum, sem hafa vopnaðar manndrápssveitir í för með sér eða gera kröfu til ferðalaga í sírenuvæddum bílalestum eða senda hingað lista yfir fólk, sem ekki sé æskilegt að hafa í landinu á boðstímanum.

Koma Jiang Zemin brýtur allar þessar reglur. Við skiljum ekki, hvernig landsfeðrum datt í hug að bjóða honum og lýsum fullri óbeit á sértækum varúðarráðstöfunum vegna komu hans.

Jónas Kristjánsson

FB