Forvígismenn hins hefðbundna landbúnaðar gætu auðveldlega látið sér detta í hug, að offramboð sé á fiski til neyzlu innanlands. Í þeirra augum er offramboð á öllu, sem menn geta borðað í stað kindakjöts og mjólkur.
Auðvitað er hægt að spilla fyrir því, að menn borði fisk. Í fyrsta lagi mætti setja upp ríkiseinkasölu á fiski. Og í öðru lagi mætti leggja sérstakan skatt á smásölu á fiski til neyzlu innanlands.
Spurningin er þá sú, hvort minni fiskneyzla mundi leiða til meiri notkunar á kindakjöti og mjólkurvörum. Það er einmitt draumur landbúnaðarstjóranna að leysa söluvanda þessara afurða á kostnað annarra matvæla.
Sumum kann að finnast þessar hugleiðingar um fiskinn út í hött. Við höfum þó dæmi um, að talsmaður Stéttarsambands bænda heldur því fram, að offramleiðsla sé á eggjum og svínakjöti.
Talsmaðurinn hefur eins og aðrir landbúnaðarstjórar mikla óbeit á þessari framleiðslu. Hann telur hana vera samkeppni við hina hefðbundnu framleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum.
Stefna þessara manna er sú, að fóðurbætisskattur hækki svo verð á eggjum, kjúklingum og svínakjöti, að neytendur snúi sér í meira mæli en áður að kindakjöti og mjólkurvörum.
Ríkisstjórnin hafði áformað, að fóðurbætisskatturinn drægi úr framleiðslu á kindakjöti og mjólkurafurðum og minnkaði þörfina á kvótakerfi í þeim greinum. Hún fól landbúnaðarstjórunum að framkvæma málið.
Það er svo önnur saga, hvernig ráðherrum gat dottið í hug, að fóðurbætisskattur mundi draga að gagni úr framleiðslu á kindakjöti. Einhverjir skemmtilegir sérfræðingar hafa staðið að baki þeim áætlunarbúskap!
Ekki var það ætlun stjórnvalda að beina fóðurbætisskattinum gegn framleiðslu eggja, kjúklinga og svínakjöts. Forvígismenn hins hefðbundna landbúnaðar hafa hins vegar ákveðið að framkvæma skattinn á þann hátt.
Óvíst er um framvindu málsins. Ráðherra landbúnaðarmála er nýkominn aftur til landsins. Líklegt má telja, að hann reyni að halda aftur af forvígismönnum hins hefðbundna landbúnaðar, ef það verður þá yfirleitt hægt.
Alténd stöndum við nú andspænis fóðurbætisskatti, sem dregur lítið úr framleiðslu styrkjavöru á borð við kindakjöt, en dregur verulega úr sölu á vörum, sem þurfa enga styrki, niðurgreiðslur né útflutningsuppbætur.
Framleiðsla eggja, kjúklinga og svínakjöts er gjaldgeng framleiðsla hér á landi. Hún fer ekki fram á kostnað skattgreiðenda. Verð afurðanna er háð framboði og eftirspurn. Það er von, að landbúnaðarstjórar séu bitrir.
Þessir menn hafa skipulagt gífurlega offramleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum með sjálfvirku kerfi fjárfestingarlána, styrkja, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Þessi offramleiðsla er meiri en menn sjá.
Með niðurgreiðslunum hefur neyzlunni verið beint til kindakjöts og mjólkurvara og frá gjaldgengum matvælum á borð við egg, kjúklinga og svínakjöt. Neyzluvenjur Íslendinga hafa verið skekktar með þessum hætti.
Landbúnaðarstjórum þykir þetta ekki nóg. Í þeirra augum eru af hinu illa öll þau matvæli, sem menn láta inn fyrir sínar varir, önnur en kindakjöt og mjólkurvörur. Nú ráðast þeir að eggjum, kjúklingum og svínakjöti, næst að fiski.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið