Bandarísku gíslarnir í Íran eru lausir úr prísundinni eftir rúmlega fjórtán mánaða þjáningar. Allur hinn siðmanntaði heimur fagnar frelsi þeirra og metur þá mikils fyrir einurð og þolgæði hina löngu daga í kvalastað erkiklerksins.
Lokið er hörmulegum kafla í samskiptum þjóða. Ofsatrúarmenn erkiklerksins rufu hefð, sem öldum og árþúsundum saman hefur ríkt á ófriðartímum sem öðrum tímum. Fram að þessu máli höfðu jafnvel ófriðarríki talið sendimenn óvinarins friðhelga.
Sem betur fer hefur villimennska erkiklerksins ekki enn orðið öðrum fordæmi. Manngangurinn í alþjóðaskákinni er aftur orðinn hefðbundinn. Riddarinn er hættur hróksgangi og biskupinn drottningargangi. Við öndum því léttar.
Eftir situr þó svívirða Írans, sem mun lengi standa. Þar hefur heil þjóð velt sér upp úr sorpinu til dýrðar kröfuhörðum guði og frumstæðum erkiklerki hans. Bletturinn verður ekki þveginn, en máist kannski á löngum tíma.
Í kjölfar lausnar gíslanna geta siðaðar þjóðir fagnað því, að fjárpynd erkiklerksmanna fór að verulegu leyti út um þúfur. Bandaríkjamenn komust hjá að beygja sig alla leið í duftið til að heimta menn sína úr helju.
Samningurinn um lausn gíslanna er sigur Carters Bandaríkjaforseta og samningamanna hans. Samt er rétt og skylt, að Reagan, hinn nýi forseti, afneiti þessum samningi með öllu, úr því að gíslarnir eru úr hættu erkiklerksins.
Samningur af þessu tagi er hliðstæður nauðungarsamningum við mannræningja, fjárkúgara og aðra ótínda glæpamenn. Hann hefur ekki hið minnsta gildi um leið og sverð Damoklesar er hrokkið úr höndum erkiklerksins.
Hins vegar er nauðsynlegt að menn læri af reynslu þessa hörmulega máls. Til dæmis þarf Reagan að reyna að skilja, hvernig stendur á, að þjóð skáldsins Ómars Khayjam getur ummyndazt svo gersamlega í höndum erkiklerksins.
Þáttur skýringarinnar felst í hinu ofboðslega hatri, sem Bandaríkjamenn höfðu bakað sér með eindregnum stuðningi við harðstjóra og glæpamann. Með hollustu við keisarann ræktuðu Bandaríkin jarðveginn, sem fóstraði erkiklerksmenn.
Þetta er ósköp svipað og gerðist, þegar Bandaríkin ræktuðu erkiklerkinn Castro á Kúbu með því að hampa og hossa illmenninu Batista. Við öll slík tækifæri hafa Bandaríkin bakað sér eldheitt hatur alþýðunnar í hrjáðum löndum.
Því miður er hætta á, að Reagan og menn hans skilji þetta ekki og byrji að gæla við hægri sinnaða villimenn, einkum í Rómönsku Ameríku. Þar með væri sáð til nýrra og nýrra erkiklerka til að veita farveg hinu niðurbælda hatri.
Þetta skildi Carter, enda var hann meiri forseti en þeir halda, sem ímynda sér, að þeir séu harðir raunsæismenn. Fyrir bragðið var siðræn reisn Bandaríkjanna gegn erkiklerkum heimsins með mesta móti á valdaskeiði hans.
Nú er kafla gíslanna lokið, með þeim heilum á húfi. Siðmenningin hefur unnið einn bardaga í viðureigninni við myrkrið, ofsann og hjátrúna. Samt munu erkiklerkar rísa og hníga hér eftir sem hingað til og án þess að gera boð á undan sér.
Fleiri bardagar mundu vinnast, ef leiðtogar vestrænna ríkja byggju væntanlegum erkiklerkum grýtta jörð með því að leggja stóraukna áherzlu á mannréttindi, þar á meðal rétt alþýðu gegn harðstjórum þriðja heimsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið