Hætt er við, að menn vakni fljótlega upp við vondan draum, ef sjávarútvegurinn heldur áfram á leið sinni til landbúnaðar. Ástandið er þegar orðið svo alvarlegt, að ríkisstjórnin getur varla hafnað því að vakna af værum blundi.
Í tvo áratugi hefur ríkið markvisst beitt styrkjum og lánum til að magna fjárfestingu í landbúnaði. Önnur afleiðingin er ofbeit og hnignun gróðurs. Hin er offramleiðsla á óseljanlegum landbúnaðarafurðum.
Hingað til hefur þjóðfélagið þótzt hafa efni á að greiða 37 milljarða króna á ári í beina styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til ómaga atvinnulífsins, landbúnaðarins. Þetta fyrirgreiðslukerfi er núna fyrst að springa.
En málið er miklu alvarlegra, ef hliðstæð stefna hins opinbera í sjávarútvegi er farin að þröngva sjálfum hornsteini atvinnulífs og þjóðlífs í hlutverk ómagans. Þá verðum við ekki lengi sjálfstæð þjóð.
Ríkið hefur lamið áfram fjárfestingu í fiskveiðum með hrikalegu og sjálfvirku lánakerfi. Og afleiðingarnar eru hinar sömu og í landbúnaði, ofbeit og offramleiðsla. Ofbeitin er gamalkunn, en offramleiðslan ný af nálinni.
Með ári hverju skurka fleiri og stærri skip í minni og veikari hrygningarstofnum. Ekkert mark er tekið á fiskifræðingum, heldur veitt langt umfram ráðlegt mark. Nú stefnir þorskafli ársins að 450 þúsund tonnum í stað 300 þúsund ráðlagðra.
Það skal viðurkennt, að stjórnvöld hafa pínulítið reynt að klóra í bakkann. Ríkisstjórnin er að reyna að stöðva stækkun flotans. Og hún er að reyna að koma þorskafla ársins niður í 380 þúsund tonn. En þetta bara dugir ekki.
380 þúsund tonna þorskafli í ár mun leiða til hnignunar hrygningarstofnsins. Þegar menn ljúga því, að slíkt aflamagn sé í lagi, eru þeir að axla ábyrgð, sem þeir geta ekki staðið undir. Við slíkan afla réttir stofninn ekki við.
Svo kemur það eins og reiðarslag ofan á ofbeitina, að þetta aflamagn selzt ekki. Frystigeymslur okkar í Bandaríkjunum og í frystihúsunum eru að fyllast af fiski, sem útlendingar vilja ekki eða geta ekki keypt.
Smám saman lækka birgðirnar í verði vegna aldurs, auk þess sem á þær leggst mikill vaxtakostnaður. Sjávarútvegsráðherra er farinn að tala um að setja kvóta á frystihúsin, svo að þau hvíli sig eins og togararnir.
Þannig leiðir offramleiðslan til óhagkvæmari reksturs vinnslustöðva, alveg eins og ofbeitin leiddi til óhagkvæmari reksturs fiskiskipanna. Fiskvinnslan þarf lækkað fiskverð á sama tíma og útgerð og sjómenn þurfa hækkað fiskverð.
Um daginn var höggvið á enn einn fiskverðshnútinn. Þá fengu sjómenn sitt, en vandamálum fiskvinnslu var frestað. Nú er talað um, að hratt gengissig í sumar muni bjarga fiskvinnslunni fyrir horn. Allt eru þetta hrossalækningar.
Ofveiðin og offramleiðslan í sjávarútvegi eru búin til af stjórnvöldum síðasta áratugar. Þau skipulögðu lánakerfi, sem leiddi til óhóflega mikils skipaflota. Alveg eins og styrkja- og lánakerfi landbúnaðarins leiddi til ofbeitar og offramleiðslu.
Ráðamenn þjóðarinnar hafa séð, hvernig landbúnaðurinn hefur smám saman verið gerður að ómaga. Þeir verða nú að sjá til þess, að eitruð hönd ríkisins búi hornsteini þjóðlífsins ekki slík örlög.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið