Ástæðulaust er að taka hið minnsta mark á fullyrðingu Flugleiða um 20 milljón nýkróna tap á innanlandsflugi á þessu ári. Þetta er bókhaldstala, sem er búin til með því að sýna 25 milljón nýkróna bókhaldsgróða af leiguflugi.
Í stóru og fjölþættu fyrirtæki er yfirleitt mikill fastakostnaður, sem erfitt er að skipta niður á einstaka rekstrarþætti. Matið á skiptingunni getur verið ýmsum aðstæðum háð, í þessu tilviki kröfum um hækkuð fargjöld.
Ef ráðamönnum flugfélags þóknast, geta þeir litið á leiguflug sem viðbótartekjur með viðbótarkostnaði. En alveg eins væri hægt að líta á þær sem fyrirhafnarmiklar tekjur með sérstaklega hárri hlutdeild í fastakostnaði.
Að elta þessi bókhaldsatriði uppi er eins og að reikna út, hvar Alusuisse tapar peningum og hvar það græðir peninga. Aðalatriðið er að átta sig á, hvort Flugleiðir eru að reyna að fá hækkuð fargjöld og á hvaða sviði.
Flugleiðir geta ekki sótt um neina hækkun á leiguflugi. Þar ræður hinn frjálsi markaður. Þar er félagið í harðri samkeppni. Það hefur því ekkert pólitískt þrýsti-markmið fyrir það að halda fram tapi í leiguflugi.
Innanlands eru Flugleiðir hins vegar háðar verðlagseftirliti. Þær þurfa í verðbólgunni stöðugt að knýja dyra og biðja um hækkanir. Engin samkeppni er því til sönnunar. Þess vegna er ætíð haft tap á innanlandsflugi.
Hér má skjóta inn utan dagskrár, að hvort tveggja er óheilbrigt, verðlagshöftin og samkeppnishöftin. Ef þau væru ekki, mundi markaðurinn sjálfur finna, hver væru rétt og sanngjörn fargjöld í innanlandsflugi.
Vandinn versti er þó, að samgönguráðherra okkar er fremur trúgjarn. Hann hefur tekið bókstaflega tölur Flugleiða um skiptingu taps og gróða og segir “óeðlilegt að niðurgreiða fargjöld útlendinga innanlands”.
Fyrst ætti Steingrímur Hermannsson að benda flokksbræðrum sínum á, að óeðlilegt er að greiða niður mat ofan í útlendinga, bæði hér heima og erlendis, áður en hann gleypir hráar tölur um ímyndaða niðurgreiðslu fargjalda.
Hann mætti til dæmis muna árið 1980, þegar Flugleiðir ákváðu að hætta Luxemborgarflugi. Hann mætti bera það saman við nýja fullyrðingu ársins 1981 um, að ekki megi leggja þetta flug niður, af því að það haldi uppi öðrum rekstri!
Nú getur annað af þessu verið satt, en ekki hvort tveggja. Ef hið síðara er satt, hefur upplýsingum í fyrra verið hagrætt til að fá ríkið til að taka fjárhagslega ábyrgð á Luxemborgarflugi, sem það og gerði.
Í fyrra sögðu Flugleiðir, að Loftleiðaævintýrið væri úr sögunni og ákváðu af fúsum og frjálsum vilja að hætta við Luxemborgarflugið. Með því tóku þær Steingrím og ríkisstjórnina á taugum til að fá þetta flug borgað.
Nú henta allt í einu aðrar röksemdir. Nú er sagt, að Luxemborgarflugið standi undir ýmsum öðrum rekstri félagsins. Það telur sig ekki geta án þess verið. Nú á enn að taka pólitíska valdið á taugum, en á annan hátt.
Þessar sviptingar þverstæðra fullyrðinga sýna, að fráleitt er að taka mark á, að hagnaður á leiguflugi Flugleiða sé 25 milljónir nýkróna og tap á innanlandsflugi þeirra 20 milljónir. Hér er bara verið að heimta fargjaldahækkun.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið