Engin andúð á Ameríku

Greinar

Bandaríkjamenn fundu upp stóru baðhandklæðin, sem fólki finnst gott að vefja um sig. Þeir fundu upp stóru klæðaskápana, sem hægt er að ganga inn í. Þeir fundu upp stóru baðherbergin, sem eru notalegir íverustaðir. Þeir fundu upp stóru bílana og stóru húsalóðirnar með góðu bili milli húsa.

Þetta eru nokkur hversdagsleg dæmi um, hvernig Bandaríkjamönnum hefur tekizt að brjóta sig úr viðjum borulegs hugsunarháttar gamla heimsins í lífsþægindum. Bandarískir framleiðendur áttuðu sig snemma á, að viðskiptavinir vilja hafa hluti óþarflega og þægilega stóra.

Þar í landi “afsetja” menn ekki afurðir eins og við stunduðum fiskútflutning í gamla daga, rétt eins og við værum bara að losna við fiskinn. Þeir spyrja sig, hvað viðskiptavinurinn vilji í raun og veru, í stað þess að segja, að varan, sem þeir vilja framleiða, sé svo sem nógu góð í hann.

Í mörgu smáu og stóru er fyrirkomulag betra í Bandaríkjunum en í Evrópu, að Íslandi meðtöldu. Vestan hafs eru bara notuð græn og rauð umferðarljós, en ekki þessi gulu, sem búa til grátt svæði fyrir hættulegar ákvarðanir ökumanna. Þar vilja menn hafa hlutina á hreinu, af eða á.

Löngu fyrr en allir aðrir voru Bandaríkjamenn farnir að kenna hagnýta hluti á borð við akstur bíla og vélritun í skyldunámsskólum. Löngu fyrr en allir aðrir voru þeir farnir að hafa neyzluvöruverzlanir opnar allan sólarhringinn. Alltaf eru þeir fyrstir að átta sig á, hvað sé hagkvæmt.

Bandaríkin eru framúrskarandi á fleiri sviðum, til dæmis í samskiptum fólks af ólíkum uppruna og í samskiptum milli gamalbúa og nýbúa. Með langvinnu pólitísku átaki hefur þeim tekizt að lina þær andstæður, sem kynþáttafordómafull Evrópa er tæpast byrjuð að fást við í alvöru.

Listinn yfir kosti Bandaríkjanna getur verið margfalt lengri. Við munum eftir þægilegri umgengni milli nágranna, rólyndi í akstri úti á vegum og hæfileikum fólks til að halda uppi tilfallandi, þægilegum og opinskáum samræðum við ókunnuga. Við eigum sumt enn eftir ólært af þessu.

Við getum dáðst að þessu öllu um leið og við fáum gæsahúð af tilhugsuninni um ýmis atriði í afstöðu Bandaríkjamanna til umheimsins, svo sem hamslausan stuðning þeirra við Ísraelsríki, andúð þeirra á alþjóðlegum stríðsglæpadómstóli og á samkomulagi um takmörkun eiturlofts.

Við getum viðurkennt yfirburði Bandaríkjamanna á ótal sviðum um leið og við fordæmum andstöðu þeirra við að leyfa fjölþjóðlegum sáttmálum að takmarka svigrúm sitt. Við hötum ekki Bandaríkin, þótt við teljum söguhetjur Clint Eastwood ekki vera heppilega fyrirmynd.

Raunar er sorglegt, að Evrópa og Bandaríkin skuli sigla hraðbyri hvor í sína átt í heimspólitík og heimsviðskiptum. Þessir tveir þættir Vesturlanda, svo ólíkir, sem þeir eru, hafa margt að læra hvor af öðrum. En til þess þarf hvor aðili um sig að vera opinn fyrir hugmyndum hins.

Það felur ekki í sér andúð á Ameríku, þótt menn segi stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hafa skaðað Vesturlönd með einleik á alþjóðlegum vettvangi og algeru tillitsleysi við sjónarmið allra annarra í stóru og smáu. Það er eðli frjálshuga fólks að vilja ekki láta valta yfir sig.

Um leið og við látum Bandaríkin hafa það óþvegið í réttlátri reiði út af ýmsum slíkum atriðum, gleymum við ekki framförunum, sem þau hafa fært okkur á öllum sviðum mannlífsins.

Jónas Kristjánsson

FB