Fjölmiðlun í uppnámi

Greinar

Óvenjulega miklir umbrotatímar eru í fjölmiðlun landsins um þessar mundir. Nýir fjölmiðlar hafa komið til skjalanna á öðrum og áður óþekktum forsendum, einkum þeirri að bjóða fólki ókeypis afnot. Þeir ógna hefðbundnum fjölmiðlum og eru þegar farnir að leiða til uppstokkunar.

Uppnámið hófst með veraldarvefnum, sem innleiddi ókeypis fréttir. Síðan komu til skjalanna ókeypis sjónvarp og ókeypis dagblað. Gömlu fjölmiðlunum hefur gengið misjafnlega að mæta þessari samkeppni á þröngum markaði. Fyrr eða síðar munu einhverjir bila í baráttunni.

Almenningur hefur beinan hag af aukinni samkeppni, bæði milli tegunda fjölmiðlunar og milli fjölmiðla innan hverrar tegundar. Í fyrsta lagi reyna fjölmiðlarnir betur en áður að vanda sig í samkeppninni. Og í öðru lagi sparar fólk beinlínis peninga á aðgangi að ókeypis fjölmiðlum.

Fréttablaðið er einn mikilvægasti þáttur þessarar endurnýjunar fjölmiðlunar. Það á eins árs afmæli á morgun og er komið til að vera. Lestrarkannanir sýna, að það er farið að veita Morgunblaðinu harða samkeppni og hefur þegar ýtt DV í vonlausa stöðu langt að baki hinum.

Morgunblaðið auglýsir, að það sé mest lesna blaðið á landsvísu og Fréttablaðið auglýsir, að það sé mest lesna blaðið á höfuðborgarsvæðinu. Hvort tveggja er rétt, enda hefur Fréttablaðið einkum dregið frá Morgunblaðinu auglýsingar frá fyrirtækjum, sem þjóna höfuðborgarsvæðinu.

Erlendis hafa ókeypis dagblöð rutt sér til rúms á síðustu árum. Yfirleitt hefur þeim vegnað ótrúlega vel og þau komið hefðbundnum dagblöðum í uppnám. Nýju dagblöðunum er undantekningarlítið dreift á snertipunktum umferðar, einkum í morgunumferðinni á járnbrautarstöðvum.

Fréttablaðið hefur algera sérstöðu í þessum hópi með beinni dreifingu heim til fólks. Þannig hefur blaðið á einu ári náð 65% lestri á höfuðborgarsvæðinu eða tvöfalt meiri lestri en Metro og önnur slík blöð gera bezt. Enda eru sumir erlendir útgefendur farnir að gæla við íslenzku aðferðina.

Metro-blöðin eiga að ná jöfnu í rekstri á þremur árum, en Fréttablaðið komst yfir strikið á hálfu ári. Vaxtarverkir að hætti ungra fyrirtækja og brýn viðbótarfjárbinding í stoðrekstri á borð við dreifingu og vefútgáfu skerða lausafjárstöðuna, sem hefur samt batnað með hverjum mánuði.

Fréttablaðið vill vera áreiðanlegur og sanngjarn aufúsugestur á hverju heimili. Með hliðsjón af því hefur blaðið ákveðið að gefa sjálfu sér og lesendum siðaskrá að gjöf á eins árs afmælinu. Þetta er óvenjulega nákvæm siðaskrá ritstjórnar, sem mun birtast í heild hér í blaðinu á morgun.

Siðaskrá ritstjórnar er í samræmi við það sem bezt og nýjast gerist á erlendum stórblöðum. Hún felur í sér háleit og sumpart erfið markmið. Með því að birta hana opinberlega gerum við hana gegnsæja öllum lesendum og reiknum um leið með aðstoð ykkar við að halda okkur við efnið.

Að undanförnu hefur ritstjórnin starfað á grundvelli siðaskrárinnar og stefnt að því að vera búin að uppfylla alla þætti hennar á afmælisdaginn á morgun. Lesendur geta metið, hvernig til hefur tekizt og senda okkur væntanlega línu með ábendingum, áminningum og frekari hvatningu.

Siðaskráin markar um leið þau tímamót, að Fréttablaðið er ekki lengur tilraun, heldur mikilvæg stofnun í þjóðfélaginu, sem vill starfa í góðri sátt við ótrúlega fjölmennan lesendahóp.

Jónas Kristjánsson

FB