Greinar

Halldór segir jafnan pass

Greinar

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir jafnan pass, þegar upp úr sýður í stjórnarsamstarfinu. Hann ber jafnan klæði á vopnin og segir eðlilegt, að menn hafi misjafnar áherzlur. Honum líður bezt í ferðalögum til útlanda og vill ekki með neinu móti láta rugga báti þessarar ríkisstjórnar.

Hann lætur ekki á sig fá, þótt upp úr sjóði vegna ólíkra viðbragða við öryrkjadómi Hæstaréttar, vegna ósamkomulags um kvótasetningu smábáta, vegna þverstæðra skoðana á einkavæðingu stofnana á borð við Landssímann og vegna ágreinings um viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra.

Hann segir líka pass, þegar forsætisráðherra ákveður að leggja niður Þjóðhagsstofnun án þess að ræða málið við samstarfsráðherra. Hann segir jafnvel pass, þegar forsætisráðherra segir “yfirgripsmikið þekkingarleysi” felast í skoðunum af tagi utanríkisráðherra á aðild að Evrópu.

Sennilega hefur hann ákveðið með sjálfum sér, að það sé bara stíll núverandi forsætisráðherra að flytja mál sitt með slíkum skætingi, að hann sakar jafnvel þá um fáfræði, sem fara með réttar tölur um niðurstöður í kosningum fyrri tíma, ef hann sjálfur hefur fengið rangar tölur í kollinn.

Utanríkisráðherra vill greinilega margt vinna til að halda friðinn í stjórnarsamstarfinu. Mest notaða og sennilegasta skýringin er, að hann sé brenndur af slæmri reynslu af samstarfi Framsóknarflokksins til vinstri og hafi litla trú á samstarfsgetu forustumanna þeirra flokka.

Auk þess hefur hann smám saman lifað sig inn í utanríkismálin og telur sig geta sinnt þeim betur en nokkur annar. Smám saman hefur hann orðið afhuga hversdagslegum vandamálum hér heima, ekki bara samstarfsvanda ríkisstjórnarinnar, heldur líka agavandræðum í eigin flokki.

Utanríkisráðherra hefur lengi átt erfitt með að taka einarðlega afstöðu í valdabrölti ráðamanna í flokknum. Einkum hefur hann átt erfitt með að taka afstöðu í baráttunni um ráðherrasæti, sem losna. Einnig lætur hann yfir sig ganga, að formaður þingflokksins haldi sig á sérleiðum.

Utanríkisráðherrann kemst upp með að stunda ekki starf sitt sem flokksformaður af því að hann er vel látinn og lítið er um frambærilega prinsa í flokknum. Ríkiserfinginn flúði raunar skyndilega af hólmi inn á grænar grundir Seðlabankans, þar sem hann má næðis njóta til fullnustu.

Allt þetta ferli, sem hér hefur verið lýst, á þátt í daufu fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum, sem sýna hver á fætur annarri, að flokkurinn er orðinn minnstur fjórflokkanna. Með sama áframhaldi fær flokkurinn slæma útreið í alþingiskosningum, sem verða eftir aðeins eitt ár.

Ekkert bendir til, að utanríkisráðherra hætti að segja pass í ríkisstjórninni og að flokksformaðurinn hætti að segja pass í stjórnmálaflokki sínum. Sterku mennirnir umhverfis hann, allt frá þingflokksformanninum upp í forsætisráðherrann, munu í auknum mæli valta yfir hann.

Deilumálin fara ört vaxandi kringum Halldór Ásgrímsson. Einkum vex kergjan í ríkisstjórninni. Nú síðast hefur umræðan um aukna aðild að Evrópu magnað ófrið á stjórnarheimilinu. Loks hefur áminningin, sem heilbrigðisráðherra var veitt, ekki fallið í góðan jarðveg flokksmanna.

Hneykslaðir flokksjaxlar heimta, að formaðurinn stingi við fótum og hætti að segja pass. Hann er hins vegar sæll á svip á ferðalagi meðal hryðjuverkamanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Jónas Kristjánsson

FB

Alcoa er betra

Greinar

Alcoa vill borga sjálft fyrir álverið á Reyðarfirði, en ekki vera milliliður, sem á minnihluta og borgar með þekkingu, viðskiptavild og hlýju handtaki eins og Norsk Hydro vildi gera. Þess vegna eru viðræður við Alcoa miklu áhugaverðari en viðræðurnar við Norsk Hydro voru á sínum tíma.

Samkvæmt hugmyndum Alcoa verður ekki reynt að soga upp innlent fé til að fjármagna álverið. Það þýðir, að meira verður aflögu af peningum innlendra lífeyrissjóða og annarra fésýsluaðila til að byggja upp landið og atvinnuvegi þess og til að treysta framtíð þjóðarinnar.

Reynslan sýnir, að álver eru sérstök fyrirbæri, sem fléttast ekki inn í annað atvinnulíf. Þau eru fullþroskuð og raunar nýtízkuleg útgáfa af gamaldags atvinnuvegi, þar sem stofnkostnaður á hvert starf er margfalt meiri en á öðrum sviðum. Þau blandast lítið þekkingariðnaði nútímans.

Þjóðfélag á fjárhagslegri framabraut þarf að nota stóran hluta af sparnaði sínum til að byggja upp þekkingariðnað, þar sem arðsemi er mikil og laun há, og að nota annan stóran hluta hans til fjárfestingar í útlöndum í þágu eftirlaunafólks, til að treysta öryggið í verðgildi sparnaðar.

Þess háttar þjóðfélag bindur ekki peninga sína í einni risaverksmiðju á borð við Reyðarál. Slíkt er verkefni erlendra atvinnufjárfesta á borð við Alcoa. Fyrir okkur er meira en nóg, að Landsvirkjun þarf að taka rosalán í útlöndum til að fjármagna orkuframleiðslu fyrir álverið.

Þar fyrir utan er ærið verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir, að smíði orkuvers og álvers leiði til of mikillar sveiflu í efnahagslífinu og of hárra vaxta í þjóðfélaginu á byggingatímanum. Þótt gott sé, að álverið rísi fyrir útlent fé, eru þar með ekki úr sögunni öll vandamál, sem tengjast því.

Í stórum dráttum má þó segja, að ágreiningurinn um álver á Reyðarfirði snúist ekki lengur um, hvort það sé fjárhagslega gott eða vont fyrir þjóðfélagið, heldur hvort hagurinn réttlæti náttúruspjöll virkjunarinnar eða ekki. Þannig er málið komið í eðlilegri farveg en áður var.

Um þessar mundir er verið að vinna grundvallarverk sem á að gefa okkur betri sýn yfir möguleikana í stöðunni. Nefnd óháðra aðila á vegum ríkisins hefur unnið síðan 1999 að gerð rammaáætlunar um orkunýtingu, hefur lokið áfangaskýrslu og hyggst ljúka störfum í upphafi næsta árs.

Það er nefnilega óskynsamlegt að vaða út í byggingu einstakra orkuvera án þess að hafa heildarsýn yfir stöðuna. Við þurfum að vita, hvaða orkuver koma til greina. Við þurfum samanburð á stofnkostnaði, framleiðslugetu, hagnaðarvon og ekki sízt umhverfisáhrifum orkuveranna.

Bráðabirgðaskýrsla nefndarinnar bendir til, að orkuver við Kárahnjúka verði óvenjulega arðbært og að umhverfisspjöll þess verði óvenjulega mikil. Til samanburðar er Norðlingaalda miklu síður arðbær en nærri því eins skaðleg umhverfinu og hlýtur því að teljast nokkru lakari kostur.

Hins vegar bendir skýrslan á staði, sem hingað til hefur lítið verið talað um. Þeir nýtast ekki til risavaxinnar stóriðju á borð við Reyðarál, en gagnast annarri framþróun í landinu. Þetta eru einkum ódýr orkuver í Skaftafellssýslu, sem talið er að valdi litlum umhverfisspjöllum.

Með rammaáætlun um nýtingu innlendrar orku og viðræðum við Alcoa um eignarhald álvers á Reyðarfirði eru ráðagerðir stjórnvalda um stóriðju loksins komnar inn á svið skynseminnar.

Jónas Kristjánsson

FB

Múrarnir rísa

Greinar

Með valdatöku George W. Bush Bandaríkjaforseta hófst nýtt tímabil verndarstefnu í heimsviðskiptum. Í stað gagnkvæmra lækkana á tollum og öðrum viðskiptahömlum eru stóru viðskiptablokkirnar í heiminum komnar á fulla ferð við að loka landamærunum fyrir vörum annarra.

Stáltollur Bandaríkjanna í upphafi þessa árs varð kveikjan að stóru báli. Evrópusambandið segist svara tollinum með eigin stáltolli og tollum á ávexti og vefnaðarvörur. Síðan tilkynntu Bandaríkin tæplega tvöföldun á stuðningi ríkisins við ýmsar innlendar landbúnaðarafurðir.

Þessar þrjár aðgerðir eru ekki einangraðar. Á fundum Heimsviðskiptastofnunarinnar upp á síðkastið hafa auðríkin eindregið tregðazt við að veita þriðja heiminum sama aðgang fyrir landbúnaðarafurðir og ríku löndin krefjast og hafa sumpart fengið fyrir iðnaðarvörur og þjónustu.

Tollmúrar Vesturlanda gagnvart landbúnaðarvörum þriðja heimsins nema tvöfaldri aðstoð Vesturlanda við þriðja heiminn. Þeir eru uppspretta fátæktar í þriðja heiminum og haturs í þriðja heiminum á Vesturlöndum, einkum á Bandaríkjunum sem forusturíki auðræðis.

Tollar og hömlur Vesturlanda miðast við sérhagsmuni ýmissa gæludýra í atvinnulífinu og stríða gegn almannahagsmunum í þessum sömu löndum. Höftin draga úr samkeppni og gera vörur og þjónustu dýrari en hún væri í frjálsri verzlun. Þau hækka verðlag og rýra kjör almennings.

Hagfræðin segir okkur þetta, en hún ræður því miður ekki ferðinni. Bandaríski stáltollurinn og stuðningurinn við innlenda búvöru eru sértækar aðgerðir, sem eiga að afla fylgis við forsetann í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, þar sem fylgið er talið standa í járnum í næstu kosningum.

Gagnaðgerðir Evrópusambandsins eru líka pólitískar, því að þeim er ætlað að koma niður á þessum sömu ríkjum Bandaríkjanna. Markmiðið er að sýna fram á, að eyða megi áhrifum sértækra aðgerða með sértækum gagnaðgerðum, sem veikja stöðu forsetans í þessum mikilvægu ríkjum.

Staða frjálsrar verzlunar hefur stórversnað síðan Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna. Hann lagði ætíð mikla áherzlu á, að farið væri eftir alþjóðlegum viðskiptasamningum. George W. Bush hefur varpað slíkri hugsun á dyr og lætur kosningaspár einar ráða ferðinni.

Komið hefur í ljós á ýmsum sviðum, að núverandi forseti Bandaríkjanna er andvígur alþjóðasamningum yfirleitt, af því að þeir skerða svigrúm hans. Þess vegna telja önnur ríki tilgangslaust að gera nýja samninga og því verður mjög erfitt að vinda ofan af hinu nýja viðskiptastríði.

Skammsýni hans hefur ekki aðeins kallað á hefndaraðgerðir Evrópusambandsins. Hún hefur líka fordæmisgildi. Úr því að Bandaríkin láta eins og Heimsviðskiptastofnunin sé ekki til, telja önnur ríki, að sér leyfist slíkt líka. Þannig sprettur upp viðskiptastríð, sem allir aðilar tapa.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur með hjálp Evrópusambandsins tekizt það, sem andstæðingum hnattvæðingar tókst ekki með mótmælum í Seattle, Prag og Katar. Hnattvæðingin hefur verið stöðvuð. Frá og með þessu ári eru múrar hafta og tolla að rísa að nýju, fyrst á Vesturlöndum.

Ísland lifir á viðskiptum og getur lent í skotlínunni, þegar stórveldin berjast með höftum og tollum. Landsfeður okkar hafa látið hjá líða að tryggja okkur örugga höfn í Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

FB

Kosningalexía

Greinar

Staðbundnar aðstæður hafa víðast hvar áhrif á úrslit byggðakosninga og hindra raunhæfan samanburð milli byggða. Einkum er marklítið að túlka niðurstöðurnar á landsvísu, enda stóðu hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar út af fyrir sig og sameiginlega að framboðum á ýmsa vegu.

Eina nothæfa alhæfingin er um stöðu vinstri grænna. Þeim hefur greinilega ekki gefizt vel að bjóða sérstaklega fram í byggðakosningunum, þótt þeir njóti góðs fylgis í skoðanakönnunum á landsvísu. Flokkurinn virðist fremur höfða til fólks sem landsmálaflokkur en byggðamálaflokkur.

Slíkt þarf ekki að vera fjötur um fót. Það er bara hefð, en ekki rökrétt nauðsyn, að stjórnmálaöfl komi fram í sömu mynd í landsmálum og byggðamálum. Misjafnir málaflokkar landsstjórnar og byggðastjórna geta kallað á misjöfn mynztur í staðbundnu samstarfi í sveitarstjórnamálum.

Flokkar þurfa að varðveita sérstöðu sína í alþingiskosningum, af því að þar leggst fulltrúatala allra kjördæma saman í einn pakka á alþingi. Þetta er ekki eins brýnt í byggðakosningum, af því að þar er engin slík samlagning í fulltrúatölunni. Hver sveitarstjórn er sjálfstæð heild.

Áður voru kjósendur fastari í dilkum. Þá gat verið gott að nýta flokkskerfi úr landsmálum til átaka í byggðakosningum. Nú skiptir slíkt minna máli, þegar kjósendur ramba meira milli flokka. Landsmálakerfin duga því skemur en áður til að hafa aga á kjósendum í byggðakosningum.

Ljóst er, að samstarfið um meirihluta í Reykjavík hefur gengið vel þrisvar í röð og raunar betur en nokkru sinni fyrr. Sameinað framboð Framsóknar, Samfylkingar og vinstri grænna hefur skilað þeim árangri, að borgin virðist vera varanlega gengin úr greipum Sjálfstæðisflokksins.

Á sviði sveitastjórna eru ýmis mál, sem fólk lætur sig mestu varða, svo sem leikskólar og skólar, tómstundir almennings og aðstaða aldraðra, svo og byggðaþróun. Reykjavíkurborg hefur lengi gefið tóninn á slíkum sviðum, svo að pólitísk áhrif meirihlutans í borginni ná vítt um land.

Skólamáltíðir, einsetning skóla, lækkun skólaaldurs og dagvistun allra barna eru dæmi um mál, sem standa nær mörgu fólki en sumt af verkefnum ríkisstjórnar og alþingis. Verk Reykjavíkurlistans á slíkum sviðum munu verða áhugafólki umhugsunarefni í öðrum byggðum landsins.

Reykjavíkurlistinn hefur enn fengið fjögur ár til að gefa tóninn í nágrennispólitík. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar í sárum eftir enn eina mislukkaða hallarbyltingu. Án árangurs hefur hann prófað hvern leiðtogann á fætur öðrum. En snillingar dafna ekki í skjóli formannsins.

Borgarmálin standa mörgum nær en landsmálin. Þau eru ekki eins ópersónuleg. Fólk finnur ekki til sama yfirþyrmandi vanmáttar gagnvart nágrennismálum sínum og landsmálunum. Enn meiri er þessi munur í minni sveitarfélögum, þar sem hver kjósandi er stærri hluti heildarinnar.

Aukin nágrennisstjórn á skólum og tómstundasvæðum í Reykjavík væri til þess fallin að færa pólitíkina þar fjær landsmálunum og nær byggðamálum eins og þau gerast annars staðar á landinu. Það væri til þess fallið að auka tilfinningu fólks fyrir því, að það geti haft pólitísk áhrif.

Að mestu snýst þetta samt um borgarstjóraefnin. Reynslan hefur enn einu sinni sagt okkur, að þau hafa risið og hljóta framvegis að rísa úr grasrótinni, en ekki stíga niður af ráðherrastóli.

Jónas Kristjánsson

FB

Kjósendum sveiflað

Greinar

Miklar og marktækar sveiflur á stuðningi kjósenda við stóru framboðin í Reykjavík á tveimur síðustu vikum kosningabaráttu vekja fleiri spurningar, en þær svara. Þær hafa vafizt fyrir sérfræðingum í stjórnmálum, markaðsmálum og ímyndarfræðum, sem er þó sjaldnast orða vant.

Við eðlilegar aðstæður má búast við, að flestir kjósendur séu búnir að ákveða sig tveimur vikum fyrir kjördag. Þá hefur öllum, sem vita vilja, lengi verið kunnugt um helztu frambjóðendur og forsögu oddvita framboðanna, svo og yfirlýst markmið þeirra í málefnum borgarinnar.

Ýmsar geta verið orsakir þess, að fylgi tekur að sveiflast út og suður við þessar aðstæður. Áleitnust er spurningin um, hvort tækni eða magn í kosningabaráttu hafi þessi miklu áhrif á lokastigi hennar. Er hægt að hræra í kjósendum og sveifla þeim til og frá eins og þeytispjöldum?

Áður en við gerum of mikið úr þessu, skulum við hafa í huga, að þetta á aðeins við um rúmlega tíunda hvern kjósanda. Einn eða tveir af hverjum tíu kjósendum skipta um skoðun á síðustu tveimur vikunum, sumir raunar oftar en einu sinni. Hinir standa fastir á fyrri skoðunum sínum.

Kosningabaráttan snýst auðvitað um þennan eina eða þessa tvo af hverjum tíu kjósendum. Sérfræðingar framboðanna reyna að haga baráttunni á þann veg, að hún dragi til sín lausgengan minnihluta, sem rambar út og suður, og gæta þess, að hann sé á “réttu” róli á morgni kjördags.

Einföld og þægileg skýring á sveiflum er, að sumir kjósendur taki skoðanakannanir ekki alvarlega á öllum stigum málsins nema undir það síðasta og noti þær raunar til að senda áminningar og önnur skilaboð til framboðanna. Undir niðri séu þeir búnir að ákveða, hvernig þeir kjósi.

Hitt er alvarlegra, ef tækni eða magn kosningabaráttu hefur þessi miklu áhrif á tveimur vikum. Ekki er gott, ef hægt er að sveifla einum eða tveimur af hverjum tíu kjósendum með því að setja nógu mikla peninga í kosningabaráttuna og ráða til hennar nógu marga og hæfa sérfræðinga.

Peningar og tækni kosningabaráttu eru þjóðfélagslegt vandamál. Lýðræðið gerir ekki ráð fyrir, að kjósendur séu svo fávísir, að unnt sé að sveifla þeim til og frá. Ef svo er í raun, munu peningar og tækni framvegis fara ört vaxandi í kosningum. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Kosningabaráttan í Reykjavík verður dýrasta barátta sögunnar, dýrari en síðustu alþingiskosningar. Stóru framboðsöflin verja hvort um sig tugum milljóna til baráttunnar. Þau þurfa einhvers staðar að afla þessara miklu peninga. Við þurfum að fá að vita, hvaðan þeir koma.

Ef þúsund eindregnir stuðningsmenn leggja hver um sig tíu þúsund krónur til framboðs, fæst tíu milljón króna sjóður, er dugar skammt í því stríði, sem við höfum séð að undanförnu. Einhverjir stórlaxar hljóta því að spýta miklu fé, sumir hverjir til að afla sér betri aðstöðu.

Kosningabarátta allra síðustu vikna hlýtur að magna kröfuna um, að fjárreiður stjórnmálanna verði gerðar gegnsæjar. Ennfremur hlýtur hún að magna þá kröfu á hendur kjósendum, að þeir láti flokka framvegis gjalda þess, ef þeir standa í vegi fyrir, að fjárreiðurnar verði gegnsæjar.

Lýðræði stendur og fellur með því, að kjósendur hafi aðstöðu til að skilja gangverkið í pólitíkinni, þar á meðal, hvernig fjármagnaðar eru aðferðir, sem duga til að sveifla kjósendum út og suður.

Jónas Kristjánsson

FB

Moby Dick sleppur enn

Greinar

Barátta Íslendinga fyrir hvalveiðum er farin að minna á þráhyggju Ahab skipstjóra, sem elti hvalinn Moby Dick árangurslaust um heimshöfin. Söguhetja rithöfundarins Herman Melville tapaði alltaf bardögunum og alltaf tapar Ísland í baráttu sinni við að hefja hvalveiðar að nýju.

Síðustu misserin hefur slagurinn einkennzt af tilraunum til að komast að nýju í Alþjóða hvalveiði-ráðið, sem við yfirgáfum í fússi fyrir áratug. Við getum ekki hafið hvalveiðar án aðildar, því að hún er eina leiðin til að selja afurðirnar. Japanir mega ekki kaupa hvalkjöt af ríkjum utan ráðsins.

Á fundi ráðsins í Japan var hafnað með fimm atkvæða meirihluta að taka umsókn Íslands á dagskrá, þar sem hún væri sama umsóknin og felld hafði verið í fyrra. Þetta kom áheyrnarfulltrúum Íslands í opna skjöldu, enda höfðu þeir gert sér rangar hugmyndir um afstöðu ríkja.

Sex ný ríki eru komin í ráðið síðan í fyrra og þar af fjögur, sem Japan hefur keypt til fylgis við hvalveiðar. Þetta dugði Íslendingum ekki, því að stórveldin með Bandaríkin í broddi fylkingar eru algerlega andvíg hvalveiðum og beittu sér gegn lögfræðilegri þrætubókarlist Íslendinga.

Við þessu eiga ráðamenn okkar engin svör nema reiðina. Hún beinist einkum að sænskum stjórnvöldum, því að sænskur formaður ráðsins fylgdi bandarískum ráðum um fundarsköp. Vandséð er þó, að sjávarútvegsráðherra Íslands geti framkvæmt hótanir um að hefna sín á Svíum.

Ísland er ekkert stórveldi, sem getur ráðskazt með hagsmuni Svíþjóðar. Tilraunir til slíks munu þvert á móti koma okkur í koll á öðrum sviðum, því að við þurfum mjög á Svíum að halda til að gæta hagsmuna okkar í Evrópusambandinu. Hótanir Árna Mathiesen eru því marklausar með öllu.

Vandi okkar er sá, að ríku þjóðirnar í heiminum, með Bandaríkjamenn í broddi fylkingar, eru algerlega andvígar hvalveiðum, fyrst og fremst af tilfinningalegum ástæðum. Hvalurinn Moby Dick er ein ástsælasta sagnapersóna heimsins og heldur verndarhendi yfir allri ættkvísl sinni.

Við tökum raunar þátt í vestrænu dálæti á hvölum. Íslenzk sveitarfélög keppast um að fá að hafa háhyrninginn Keikó. Hvalaskoðun er orðin svo mikilvæg atvinnugrein, að hugsanlegar tekjur af hvalveiðum yrðu aðeins skiptimynt til samanburðar. Við sitjum báðum megin borðsins.

Tilfinningar Vesturlandabúa nægja einar til að hindra hvalveiðar okkar, hvað sem öllum rökum líður. Bandaríski fulltrúinn í ráðinu kvað þó fast að orði um röksemdir Íslendinga og Japana um, að hvalur éti fisk frá mönnum. Hann sagði þetta vera bull til að draga athygli frá ofveiði á fiski.

Nú er úr vöndu að ráða. Japanir hafa ekki fé til að kaupa fleiri smáríki í hvalveiðiráðið. Til að komast í ráðið verðum við að falla alveg frá fyrirvörum, sem meirihluti aðildarríkjanna hafnar. Síðan geta fulltrúar Íslands reynt að byrja á nýjum núllpunkti og hefja þrætubók innan ráðsins.

Eitt er ljóst. Ísland mun áfram berja höfðinu við steininn eins og Ahab skipstjóri. Þráhyggjan er hornsteinn hugsunar okkar eins og hans. Áfram verður fé og orku eytt í vonlausar tilraunir til að tefla málum í þá stöðu, að við getum hafið hvalveiðar og farið að selja hvalkjöt að nýju.

Á sama tíma munum við halda áfram að auka tekjur okkar af ást Vesturlandabúa á hvölum. Við munum rækta hina meiri hagsmuni meðan við náum ekki fram hinum minni hagsmunum.

Jónas Kristjánsson

FB

Varnir á krossgötum

Greinar

Við erum hlynnt mannbjörg úr sjávarháska og að gömlum konum sé hjálpað yfir götu í Makedóníu. Þegar hrörnandi Atlantshafsbandalag breytist smám saman úr hernaðarbandalagi í eins konar blöndu slysavarnarfélags og skátahreyfingar, minnkar hér á landi ágreiningur um aðild.

Það er þó háð því, að ekki verði gerðar auknar fjárkröfur til okkar vegna aðildar að bandalaginu eða vegna eftirlitsstöðvar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Við getum fjölgað björgunarþyrlum og eflt þjónustu þeirra fyrir peningana, sem við leggjum nú þegar til bandalagsins.

Auðvitað verður að virða það við bandalagið, að það hefur náð árangri og skilað af sér hlutverki sínu. Síðasta verkefnið var friðun Balkanskaga, sem nú er á lokastigi. Hér eftir verða verkefnin fyrst og fremst pólitísk. Bandalagið er gagnlegur, vettvangur samráðs á norðurhveli jarðar.

Gagnið er þó tímabundið og blandað hagsmunum starfsmanna bandalagsins. Ráðamenn Bandaríkjanna hafa mun minni áhuga á því en áður og vilja ekki láta það flækjast fyrir sér í herferðum í þriðja heiminum. Stækkað Evrópusamband mun láta að sér kveða á sviði evrópskra varna.

Í nýrri heimssýn 21. aldar er lítið rúm fyrir bandalagið. Mat aðilanna á gildi þess mun í auknum mæli ráðast af mati á því, hvort það svarar kostnaði eða ekki í samanburði við aðra kosti stöðunnar. Auknar kröfur þess um útgjöld til hermála munu ekki auka vinsældir þess.

Væntanlega verður Ísland í bandalaginu meðan nágrannaríkin vilja vera þar. Við erum háð samskiptum við nágrenni okkar og lifum á viðskiptum við það. Okkar hagur er að taka sem mestan þátt í svæðissamstarfi, þar sem mörg friðsöm ríki setja hluta fullveldis síns í sameiginlegan pakka.

Öryggi okkar í náinni framtíð verður bezt borgið með góðum aðgangi að auðugum markaði. Vont væri að lenda í skotlínu harðnandi viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Fiskverzlun gæti til dæmis hæglega orðið fyrir barðinu á bægslagangi pólitísku stórhvelanna.

Við þurfum að ganga í Evrópusambandið til að tryggja, að fiskafurðir okkar lendi ekki utangarðs vegna atburðarásar, sem við ráðum ekki við. Markaður okkar er fyrst og fremst í stækkuðu Evrópusambandi og hann verðum við að verja með klóm og kjafti, en einkum með aðild.

Við þurfum einnig að efla viðbúnað gegn hryðjuverkum, hvort sem við gerum það í samstarfi í Atlantshafsbandalaginu eða Evrópusambandinu. Við þurfum til dæmis að hafa viðbúnað til að verjast gíslatöku og efnavopnaárás, svo og skemmdarverkum á raflínum og hitaveitum.

Slík vandræði munu ekki koma til okkar með eldflaugum af himnum ofan eða með innrás fjölmennra sveita. Hefðbundnar varnir 20. aldar koma að litlu gagni gegn mönnum, sem bera hættuna í skjalatöskum. Varnir landsins á nýrri öld krefjast nýrra viðhorfa og nýrra viðbragða.

Smám saman mun koma í ljós, hvort gömul stofnun í leit að nýju hlutverki hentar vörnum okkar. Ekki er ágreiningur um, að Atlantshafsbandalagið hefur að undanförnu búið við vaxandi tilvistarkreppu, sem ekki leysist með stækkun til austurs og auknum afskiptum Rússlands.

Altjend leysum við ekki nýjar varnarþarfir okkar ein sér, heldur í samstarfi við nágranna- og viðskiptaríki okkar í Evrópu og undir þeim merkjum, sem hagkvæmust verða á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

FB

Réttlæting í Reykjavík

Greinar

Aðstandendur Atlantshafsbandalagsins þurftu ekki að fjölyrða um mikilvægi þess, meðan það var og hét á dögum kalda stríðsins. Þá var það hernaðarbandalag, sem sá um að hindra árás Sovétríkjanna á Vestur-Evrópu. Þá hafði það mikilvæg verkefni, en nú er það orðið að hátíðaræðuklúbbi.

Þeir fáu heimsfjölmiðlar, sem minntust í gær á fund bandalagsins í Reykjavík, voru fáorðir um hann. Enda kalla verkefni Vesturlanda á nýrri öld ekki beinlínis á tilvist bandalags, sem reynir í örvæntingu að finna sér tilverurétt í samkeppni við Evrópusamband og Öryggisstofnun Evrópu.

Fyrrum leppríki Sovétríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu vilja samt komast í bandalagið, svo að Rússland hætti ekki að viðurkenna, að þau eru komin út af áhrifasvæði þess. Fyrst og fremst líta þau þó á aðildina sem gott prik í tilraunum sínum til að komast í sæluna hjá Evrópusambandinu.

Aðild að Atlantshafsbandalaginu kostar peninga til hernaðarútgjalda, sem Mið- og Austur-Evrópa hafa ekki efni á. Ráðamenn þessara ríkja telja hins vegar, að Evrópusambandið hafi gróða í för með sér, en komast ekki þangað fyrr en eftir fjögur ár í fyrsta lagi. Á meðan skála þeir í bandalaginu.

Raunar er það friðurinn um innri markaðinn í Evrópusambandinu, sem hefur treyst öryggi Vestur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna og mun treysta öryggi allrar Evrópu á þessum áratug. Þeir, sem hafa gagnkvæma viðskipta- og gróðahagsmuni, fara ekki í rándýr stríð hver við annan.

Öryggi Evrópu er hvorki ógnað úr austri né vestri. Ógnun nýrrar aldar eru hryðjuverkin, sem munu koma úr suðri. Evrópa mun beita öðrum vopnum gegn þeim en hernaðarmættinum. Aukið eftirlit og auknar innri njósnir verða tæki, sem notuð verða til að verja öryggi Evrópu.

Ráðamenn Bandaríkjanna líta allt öðrum augum á silfrið. Þeim dugar ekki að verjast heima fyrir, heldur vilja þeir herja á rætur hryðjuverkanna, þar sem þær liggja í sumum ríkjum þriðja heimsins. Sá er munur heimsveldis Bandaríkjanna og svæðisveldis sameinaðrar Evrópu.

Bandaríkin telja sig hafa slæma reynslu af samstarfi við máttlítið Atlantshafsbandalag í styrjöld Vesturlanda við Serbíu um yfirráð á Balkanskaga. Þess vegna neituðu þau algerlega að leyfa bandalaginu eða einstökum ríkjum þess að vera með í árásinni á Afganistan í vetur.

Bandaríkin eru enn að reyna að fá Evrópu til að verja meira fé til hermála, en Evrópa er til þess alls ófús, af því að metnaður hennar nær ekki langt út fyrir mörk álfunnar. Því mun Atlantshafsbandalagið aðeins fá að gæta hins bandaríska friðar, þegar Bandaríkin hafa komið honum á.

Evrópusambandið stefnir að yfirtöku hernaðarlegra verkefna í Evrópu og á mörkum álfunnar í suðri, þaðan sem hryðjuverkin koma. Eftir því sem viðskiptaspenna eykst milli Bandaríkjanna og Evrópu, þeim mun ákveðnar mun sambandið stefna að þessu afmarkaða hernaðarmarkmiði.

Atlantshafsbandalagsins bíða í mesta lagi minni háttar störf við friðargæzlu í þriðja heiminum. Þeim mun nauðsynlegra er fyrir bandalagið að halda hátíðlega ræðufundi og taka inn fleiri ríki, sem eru í biðröð eftir að komast í Evrópusambandið og fara þar að græða peninga.

Við þessar aðstæður er vel við hæfi að bandalagið réttlæti tilvist sína á hátíðarfundi við norðurjaðarinn, sem hefur misst síðustu leifar fyrra hernaðarvægis, þegar bandalagið var og hét.

Jónas Kristjánsson

FB

Fáir eða fávísir?

Greinar

Þegar hvatt er til aukins stuðnings við listir og menningu, er það oft rökstutt með fámenni þjóðarinnar. Við séum of fá til að halda til jafns við aðrar þjóðir á þessum sviðum, nema opinberir sjóðir og stofnanir komi til skjalanna og bæti fjárhag þeirra, sem fórna sér fyrir listina.

Lausnirnar, sem við sjáum, benda þó til, að ofangreindir listvinir telji vandann í rauninni vera annan og ósagðan. Með því að setja upp nefndir og ráð til að úthluta styrkjum til listamanna er verið að segja, að sérvaldir aðilar hafi meira vit en fávís markaðurinn á því, hvaða list eigi að lifa.

Ef fámenni þjóðarinnar væri talið vera vandinn, mundi lausnin vera önnur. Þá mundu opinberir sjóðir og stofnanir leggja fram fé á móti því fé, sem listamenn fá í markaðshagkerfinu, krónu á móti krónu eða eitthvert annað hlutfall, eftir mati manna á mikilvægi málsins á hverjum tíma.

Á grundvelli slíks skilnings væri talið, að markaðurinn væri einfær um að velja milli listamanna og að hlutverk hins opinbera væri að bæta listamönnum upp fámenni þjóðarinnar. Þráinn Bertelsson kvikmyndastjóri lagði fyrir löngu fram minnisstæða hugmynd um slíkt kerfi.

Úthlutunarkerfi og mótvirðiskerfi leiða til ólíkrar niðurstöðu. Í fyrra tilvikinu er stuðlað að menningu á norrænan hátt og í hinu síðara er stuðlað að menningu á engilsaxneskan hátt. Norrænar þjóðir beita úthlutunarnefndum til að halda uppi menningu, en engilsaxar treysta markaðinum.

Á Norðurlöndum hafa listamenn úthlutunarnefndir fremur en markaðinn í huga, en í stóru löndunum hafa þeir markaðinn í huga fremur en úthlutunarnefndir. Þessi mismunur viðhorfa hefur áhrif á störf listamanna. Spurningin er, hvor leiðin hafi fleiri kosti og færri galla.

Ef við lítum yfir svið norrænnar nútímalistar, sjáum við, að hún rennur fram í breiðum straumi meðalmennskunnar, en getur ekki keppt við listir stórþjóðanna. Magnið er mikið á Norðurlöndum, en topparnir eru lágir og fáir. Úthlutunarnefndir hafa ekki komið mörgum heimsljósum í gang.

Mótvirði vinnur í takt við markaðinn, en úthlutun truflar hann. Mótvirði og markaður mynda einn sameinaðan kraft. Úthlutun drepur kröftunum á dreif með því að líta framhjá markaðinum og reyna jafnvel að bæta það upp, sem skömmtunarstjórar telja vera mistök markaðarins.

Ósvarað er spurningunni, hvert mótvirði eigi að renna, til höfundar eða útgefanda, til leikara eða fyrirtækis leikhópsins. Hver er einingin, sem framleiðir listrænt verðmæti, hinn einstaki listamaður eða reksturinn, sem byggður er upp til að koma framlagi listamanna á markað?

Þægilegast er að miða við minnstu rekstrareiningu, sem hefur afmarkaðar tekjur, hvort sem það er bók, leiksýning, tónleikar, myndverk eða kvikmynd. Ef margir einstaklingar standa að einni rekstrareiningu, verða þeir sjálfir að ákveða, hvernig þeir skipti mótvirði hins opinbera.

Listamenn og hópar listamanna leggja þá fram staðfest skjöl um innkomnar tekjur og fá þá strax einhverja lágmarksprósentu í mótvirði. Í árslok er heildardæmið gert upp og menn fá ábót á mótvirði eftir því, hversu mikið fé er afgangs af því, sem var til ráðstöfunar á fjárhagsáætlun.

Ef menn vilja ekki fara mótvirðisleið, játa þeir um leið, að þeir ætli styrkina ekki til að bæta listamönnum upp fámenni þjóðarinnar, heldur til að bæta þeim upp meinta fávísi hennar.

Jónas Kristjánsson

FB

Hryðjuverkin góðu

Greinar

Stríðsglöð og hryðjuverkagjörn stjórnvöld hafa skipað sér í öfluga sveit gegn undirokuðum þjóðum og minnihlutahópum. Bandaríkin og Ísrael mynda öxul þessara óformlegu samtaka. Þau telja sig nær guði en önnur ríki og eru því sett ofar ýmsum lögum, sem annars ná yfir heimsbyggðina alla.

Markmið samtakanna er að kveða niður undirokaðar þjóðir, sem leita réttar síns með ýmsum hætti, þar á meðal með hryðjuverkum. Baráttan stendur milli ríkisrekinna hryðjuverka annars vegar og einstaklingsframtaks hins vegar, svo sem skýrast sést í Palestínu þessa dagana.

Ísraelsher hefur framið slík hryðjuverk í Jenín í Palestínu, að sendinefnd Sameinuðu þjóðanna má ekki kanna málið, þótt hún sé skipuð valinkunnum mönnum með fyrrverandi forseta Finnlands í fararbroddi. Þessi voðaverk voru framin í skjóli bandarískra vopna og bandarískra peninga.

Ísraelsher réðst ekki aðeins að óbreyttum borgurum Palestínu. Hann réðist skipulega á alla innviði þjóðfélagsins, eyðilagði vatnsleiðslur og skólpleiðslur. Hann eyðilagði allar skrár, sem hann fann, heilbrigðisskýrslur, skólaskýrslur og öll gögn, sem notuð eru til góðrar embættisfærslu.

Þetta er hryðjuverkaríki, sem er Bandaríkjunum að skapi, enda ganga hryðjuverk Ísraels betur en hryðjuverk Bandaríkjanna. Sjálf reka Bandaríkin hryðjuverkaskóla í Fort Benning í Georgíu fyrir ódæðismenn frá Suður-Ameríku, sem notaðir eru til að kúga þjóðir álfunnar.

Herforingjar úr skólanum voru um daginn studdir með fé úr opinberum sjóði með því virðulega nafni National Endowment for Democracy til að steypa löglega kjörnum forseta Venezúela af stóli. Bandarískir valdamenn gátu ekki dulið gremju sína, þegar valdaránið mistókst.

Það er Orwellskur stíll Bandaríkjanna að draga huliðshjúp fagurs orðskrúðs og takmarkalítillar hræsni yfir tilraunir ríkisins til að deila og drottna, fyrst og fremst yfir Rómönsku Ameríku og í seinni tíð yfir öðrum heimshlutum, þaðan sem hætta er á einstaklingsframtaki í hryðjuverkum.

Ýmsir harðstjórar og einræðisherrar sjá sér hag í að nýta sér áhugamál ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Fremstur fer þar í flokki Pútín Rússlandsforseti, sem stimplar skæruliða Tsjetsjena sem hryðjuverkahópa og fær því frítt spil við að stunda ríkisrekin hryðjuverk í Tsjetsjeníu.

Í þessum hópi Bandaríkjavina er einnig pakistanski valdaræninginn Musharraf, sem á sínum tíma skipulagði innrásartilraun Pakistana í Kasmír og skekur nú kjarnorkuvopn framan í Indland. Þessi hættulegi herforingi hefur nú látið staðfesta völd sín í marklausum kosningum.

Hér í flokki má einnig sjá herforingja Tyrklands, sem hvað eftir annað hafa gripið inn í stjórnmál landsins og leggja sérstaka áherzlu á, að ekki sé linað á hryðjuverkum ríkisins í héruðum Kúrda. Þessir herforingjar hafa um langt skeið verið í innilegu sambandi við herforingja Ísraels.

Einhver grimmasti einræðisherra nútímans er Karimov í Úzbekistan, sem veitir Bandaríkjunum ótakmarkaðan hernaðaraðgang og nýtur því sérstakrar náðar. Af Karimov þessum er lengri saga en hægt að segja í einni grein. Bandaríkin munu sjá til þess, að sú saga verði enn lengri.

Þannig er heimurinn fullur af ríkisreknum hryðjuverkum, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna telur koma að gagni við margvíslega hagsmunagæzlu, og flokkast því sem góð hryðjuverk.

Jónas Kristjánsson

FB

Forgangsröðun

Greinar

Skemmtilegasti ágreiningur kosningabaráttunnar í Reykjavík er um skipulagstillögu um rándýran flutning á hluta Geldinganess vestur í Eiðisgrandafjöru til að stækka íþróttasvæði KR og fjölga stuðningsmönnum KR. Reykjavíkurlistinn vill þetta, en Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

Þar sem mikill meirihluti stuðningsmanna KR styður líka Sjálfstæðisflokkinn, mun flokkurinn fljótlega gefast upp á þessu kosningamáli og um síðir ekki treysta sér til annars en að framkvæma hina sérkennilegu landflutninga, ef hann fær til þess völd. Menn styggja ekki íþróttafélögin.

Ein helzta ástæða þess, að Reykjavíkurlistinn hefur haldið völdum í borginni og er enn samkeppnishæfur við Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum, er óbilandi stuðningur við smíði fleiri og stærri keppnishalla fyrir íþróttafélögin. Þetta er málið, sem selur í borgarpólitíkinni.

Hvor aðilinn, sem fær að stjórna borginni á næsta kjörtímabili, mun hafa keppnishallir efst í forgangsröð framkvæmda, helzt hallir, sem rúma löggilta fótboltavelli. Sjálfstæðisflokkurinn mun gleyma góðum áminningum sínum um skuldasöfnun, þegar kemur að þessu hjartans máli.

Vegna forgangsröðunar mun ganga hægt að koma hefðbundnum og heilsusamlegum máltíðum í alla skóla borgarinnar, þótt þær séu mjög brýnar, af því að foreldrar hafa almennt gefið uppeldi á bátinn og láta börnin ganga sjálfala í sælgæti og skyndibitum, sem skaða heilsuna.

Vegna þessarar sömu forgangsröðunar mun ganga hægt að færa fræðsluskyldu niður í fyrst fimm ára aldur og síðan fjögurra ára aldur, þótt þetta sé mjög brýnt, ekki sízt af því að það léttir leikskólakostnaði af þeim sem eru í óhagstæðri þegnskylduvinna við að fjölga þjóðinni.

Enn er það vegna þessarar sömu forgangsröðunar, að hvorugu stjórnmálaaflinu lízt á að byggja reykvíska tæknigarða, þar sem grasrótarfyrirtæki í tækni, tölvum, fjarskiptum og öðru nýstárlegu í atvinnulífinu geta fengið húsnæði, tölvur og góðar nettengingar fyrir málamyndaleigu.

Í þróun borgarinnar, einkum í samgöngumálum, hefur Reykjavíkurlistinn haldið uppteknum hætti Sjálfstæðisflokksins að láta lélega embættismenn borgarinnar ráða ferðinni og eyða tíma sínum og orku til að útskýra og afsaka vanhugsaðar og ófullnægjandi gerðir þeirra.

Klisjan um þéttingu byggðar hefur verið sérstök plága á valdaskeiði Reykjavíkurlistans, enda valda embættismennirnir ekki verkinu. Þéttingin flækir umferð, magnar deilur við nágranna og kemur í veg fyrir, að hvert hverfi fyrir sig haldi eðlilegum heildarsvip byggingatímans.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert Ríkissjónvarpið og DV að málgögnum og mun fá stuðning Morgunblaðsins, þegar í harðbakkann slær. Þetta hefur lítil áhrif. Póltískur áróður fjölmiðla er eins og rottuskítur í tæru vatni. Hann er ógeðfelldur, en hann er öllum sýnilegur, jafnvel kjósendum.

Kosningabarátta beggja aðila ber þess samt merki, að kjósendur eru ekki hátt skrifaðir. Reykjavíkurlistinn telur ekki taka því að hrósa sér af stóra holræsinu, sem er þó merkasta aðgerðin um langt árabil. Það selur betur að segjast vera memm með kjósendum en að tala um klóak.

Holræsi eru samt hornsteinn heilsufars og efnahags. Rómarveldi var byggt á Cloaca Maxima, sem enn er notað og sýnilegt ferðamönnum, af því að postular byggðaþéttingar fengu ekki að rífa.

Jónas Kristjánsson

FB

Frakkar úti að aka

Greinar

“Fyrst getum við kosið með hjartanu og síðan með höfðinu,” er meðal þess, sem Frakkar hafa sett fram til stuðnings tveggja þrepa kosningakerfi sínu. Þeir hafa nú fengið verðskuldaða ráðningu fyrir ábyrgðarleysi sitt og reyna væntanlega framvegis að haga sér eins og fullorðið fólk.

Svo virðist sem fjöldi franskra kjósenda hafi talið það skyldu einhverra annarra en þeirra sjálfra að sjá um, að Lionel Jospin forsætisráðherra kæmist í aðra umferð forsetakosninganna meðan þeir sjálfir skemmtu sér við að kjósa einhvern furðufuglinn á jaðri stjórnmálanna.

Enn aðrir virðast hafa talið sér trú um eða látið telja sér trú um, að kosningarnar skiptu engu máli, af því að Jacques Chirac og Jospin væru sami grautur í sömu skál. Þeir afsöluðu sér borgaralegum réttindum og skyldum og kölluðu yfir sig Marie le Pen sem úrslitaframbjóðanda.

Niðurstaðan af ábyrgðarleysi franskra kjósenda er sú, að menn úr öllum áttum neyðast til að sameinast um að endurkjósa spilltan lýðskrumara sem forseta landsins, svo að kynþáttahatari nái ekki kosningu. Þetta er versti álitshnekkir, sem Frakkland hefur beðið um langan aldur.

Þeir, sem annað hvort létu hjá líða að kjósa eða skemmtu sér við að kjósa einhvern jaðarmanninn, ganga núna berserksgang úti á götum til að mótmæla niðurstöðunni. Í rauninni eru þeir fyrst og fremst að mótmæla eigin aumu frammistöðu og gera sig að auknu athlægi umheimsins.

Jospin var síður en svo neinn vandræðakostur fyrir kjósendur. Í kosningabaráttunni forðaðist hann lýðskrum og kom fram sem ábyrgur stjórnmálamaður. Svo virðist sem franskir kjósendur hafi túlkað þennan góða kost sem litleysi. Jospin var of mikill prófessor fyrir þeirra smekk.

Niðurstaðan er sú, að franskir kjósendur hafa ekki bara hafnað alvörugefnum stjórnmálamanni sem forseta, heldur kastað honum út úr pólitík yfirleitt. Það sér hver maður, að Jospin verður að segja af sér sem forsætisráðherra og hætta í franskri pólitík eftir útreiðina um helgina.

Frakkar eru svo sem ekki einir um að taka lýðskrumara fram yfir alvörumenn sem þjóðarleiðtoga. Ekki verður samt séð, að þeir hafi neina frambærilega afsökun fyrir því að hafna Jospin á þeim forsendum, að hann væri litlaus og leiðinlegur. Voru þeir kannski að kjósa sér hirðfífl?

Niðurstöður frönsku forsetakosninganna sanna ekki aukið þjóðernislegt ofstæki. Víða í Evrópu er undirliggjandi útlendingahatur í fjórðungi kjósenda, sem fær misjafna útrás í fylgi eftir aðstæðum hverju sinni. Le Pen fékk næstum sama fylgi í forsetakosningunum fyrir sjö árum.

Þá dugði fylgið ekki til að koma honum í úrslitaumferðina, af því að nógu margir kjósendur voru á verði og kusu með heilanum. Þeir nenntu að fara á kjörstað og skemmtu sér ekki við að kjósa jaðarmenn. Nú dugði fylgið, af því að kjósendur sýndu ábyrgðarleysi fremur en útlendingahatur.

Frakkar eru ekki haldnir þjóðernisofstæki eða útlendingahatri umfram aðra, heldur hafa þeir sýnt ótrúlegt ábyrgðarleysi, að minnsta kosti að þessu sinni. Þeir gerðust fangar kröfunnar um, að stjórnmálamenn séu gífurlega hressir, þótt ekkert sanni, að slíkir komi að neinu gagni.

Frakkar og raunar aðrar vestrænar þjóðir hafa fengið viðvörun og þurfa nú að endurmeta, hvaða kostum þær telja menn þurfi að vera búnir til að vera gott efni í ábyrga þjóðarleiðtoga.

Jónas Kristjánsson

FB

Flaðrað upp um Pútín

Greinar

Forseti Íslands fór sér of óðslega í fínimannsleiknum í Moskvu um helgina. Engin ástæða er til að fagna auknum áhrifum Rússlands í vestrænu samstarfi. Þvert á móti er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim, einkum í hinu dauðvona varnarsamstarfi vestrænna ríkja í Atlantshafsbandalaginu.

Það er útbreiddur misskilningur, að Rússland sé lýðræðisríki. Kosningar duga ekki einar til þess, svo sem ótal dæmi sanna víðs vegar um þriðja heiminn. Kosningar án dreifingar valdsins jafngilda ekki lýðræði og Vladimír Pútín forseti er afar einræðishneigður, mótaður í leyniþjónustunni.

Rússneskir fjölmiðlar eru skýrasta dæmið um samþjöppun valdsins hjá Pútín. Leynt og ljóst hafa verið keyptir fjölmiðlar, sem voru gagnrýnir á stjórnarstefnuna og reknir þeir fjölmiðlungar, sem ekki voru miðstjórninni þóknanlegir. Fæstir íbúar Rússlands fá aðrar fréttir en þær miðstýrðu.

Rússar vita til dæmis lítið um hryðjuverk hersins í Tsjetsjeníu. Þangað er aðeins hleypt blaða- og fréttamönnum, sem fylgja hinni opinberu stefnu. Öðrum hefur verið misþyrmt, sumir handteknir og allir fluttir á brott. Nokkrir hafa hreinlega verið drepnir að undirlagi hers og stjórnvalda.

Í nýjustu Rússlandsskýrslu International Press Institute eru rakin nokkur dæmi um auknar takmarkanir á málfrelsi. Pútín stjórnar með beinum tilskipunum, þar á meðal illræmdri tilskipun um “upplýsingaöryggi”, sem hefur það hlutverk að múlbinda fjölmiðla á ríkisbásinn.

Öllum tiltækum ráðum er beitt til að fá fjölmiðla til að styðja Pútín í einu og öllu. Skatta- og fjármálalögreglan er send á vettvang, ef fjölmiðill er talinn óþægur, en aldrei, ef hann er talinn þægur. Í heild má segja um stjórn Pútíns, að hún er í grundvallaratriðum fjandsamleg lýðræðinu.

Þeim, sem þekkja til gerða Pútíns, finnst í hæsta máta illa til fundið, að forseti Íslands sé að flaðra upp um hann með óviðurkvæmilegum lofsyrðum. Unnt er að sinna diplómatískum skyldum á miður viðkunnanlegum stöðum, þótt menn reyni að hafa hóf á oflofi sínu í skálaræðum.

Eðlilegt er, að Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið efni til aukinna samskipta við Rússland, ef það er til þess fallið að efla frið og viðskipti. Hins vegar er út í hött að hleypa einræðisstjórn til áhrifa í samtökum, sem hafa varðveizlu og eflingu lýðræðis að hornsteini tilveru sinnar.

Af hagsmunaástæðum var Tyrklandi hleypt í Atlanshafsbandalagið sem öflugu herveldi við suðurjaðar Sovétríkjanna. Aðild Tyrklands hefur jafnan verið feimnismál, enda er landinu að mestu stjórnað af hershöfðingjum, sem stunda hryðjuverk og stríðsglæpi í héruðum Kúrda.

Ef Rússland verður beinn eða óbeinn aðili að Atlantshafsbandalaginu í kjölfar Tyrklands, er skammur vegur að þeim tímamótum, að Ísrael verði tekið inn sem þriðja hryðjuverkaríkið. Einkunnarorð bandalagsins verða þá: Niður með Kúrda, Tsjetsjena og Palestínumenn!

Kominn er tími til að stinga við fótum. Á leið inn í Atlantshafsbandalagið eru sjö til tíu ríki í Austur-Evrópu, sem sum hver búa fremur við formsatriði lýðræðis en innhald þess. Ástæða er til að ætla, að of geyst sé farið í að láta Vesturlönd taka hernaðarlega ábyrgð á gerðum þessara stjórna.

Fáránlegt hrós forseta Íslands í garð forseta Rússlands er sízt til þess fallið að koma einræðisherrum í skilning um, að innihald lýðræðis sé aðgöngumiðinn að vestrænu samfélagi.

Jónas Kristjánsson

FB

Fjölmiðlun í uppnámi

Greinar

Óvenjulega miklir umbrotatímar eru í fjölmiðlun landsins um þessar mundir. Nýir fjölmiðlar hafa komið til skjalanna á öðrum og áður óþekktum forsendum, einkum þeirri að bjóða fólki ókeypis afnot. Þeir ógna hefðbundnum fjölmiðlum og eru þegar farnir að leiða til uppstokkunar.

Uppnámið hófst með veraldarvefnum, sem innleiddi ókeypis fréttir. Síðan komu til skjalanna ókeypis sjónvarp og ókeypis dagblað. Gömlu fjölmiðlunum hefur gengið misjafnlega að mæta þessari samkeppni á þröngum markaði. Fyrr eða síðar munu einhverjir bila í baráttunni.

Almenningur hefur beinan hag af aukinni samkeppni, bæði milli tegunda fjölmiðlunar og milli fjölmiðla innan hverrar tegundar. Í fyrsta lagi reyna fjölmiðlarnir betur en áður að vanda sig í samkeppninni. Og í öðru lagi sparar fólk beinlínis peninga á aðgangi að ókeypis fjölmiðlum.

Fréttablaðið er einn mikilvægasti þáttur þessarar endurnýjunar fjölmiðlunar. Það á eins árs afmæli á morgun og er komið til að vera. Lestrarkannanir sýna, að það er farið að veita Morgunblaðinu harða samkeppni og hefur þegar ýtt DV í vonlausa stöðu langt að baki hinum.

Morgunblaðið auglýsir, að það sé mest lesna blaðið á landsvísu og Fréttablaðið auglýsir, að það sé mest lesna blaðið á höfuðborgarsvæðinu. Hvort tveggja er rétt, enda hefur Fréttablaðið einkum dregið frá Morgunblaðinu auglýsingar frá fyrirtækjum, sem þjóna höfuðborgarsvæðinu.

Erlendis hafa ókeypis dagblöð rutt sér til rúms á síðustu árum. Yfirleitt hefur þeim vegnað ótrúlega vel og þau komið hefðbundnum dagblöðum í uppnám. Nýju dagblöðunum er undantekningarlítið dreift á snertipunktum umferðar, einkum í morgunumferðinni á járnbrautarstöðvum.

Fréttablaðið hefur algera sérstöðu í þessum hópi með beinni dreifingu heim til fólks. Þannig hefur blaðið á einu ári náð 65% lestri á höfuðborgarsvæðinu eða tvöfalt meiri lestri en Metro og önnur slík blöð gera bezt. Enda eru sumir erlendir útgefendur farnir að gæla við íslenzku aðferðina.

Metro-blöðin eiga að ná jöfnu í rekstri á þremur árum, en Fréttablaðið komst yfir strikið á hálfu ári. Vaxtarverkir að hætti ungra fyrirtækja og brýn viðbótarfjárbinding í stoðrekstri á borð við dreifingu og vefútgáfu skerða lausafjárstöðuna, sem hefur samt batnað með hverjum mánuði.

Fréttablaðið vill vera áreiðanlegur og sanngjarn aufúsugestur á hverju heimili. Með hliðsjón af því hefur blaðið ákveðið að gefa sjálfu sér og lesendum siðaskrá að gjöf á eins árs afmælinu. Þetta er óvenjulega nákvæm siðaskrá ritstjórnar, sem mun birtast í heild hér í blaðinu á morgun.

Siðaskrá ritstjórnar er í samræmi við það sem bezt og nýjast gerist á erlendum stórblöðum. Hún felur í sér háleit og sumpart erfið markmið. Með því að birta hana opinberlega gerum við hana gegnsæja öllum lesendum og reiknum um leið með aðstoð ykkar við að halda okkur við efnið.

Að undanförnu hefur ritstjórnin starfað á grundvelli siðaskrárinnar og stefnt að því að vera búin að uppfylla alla þætti hennar á afmælisdaginn á morgun. Lesendur geta metið, hvernig til hefur tekizt og senda okkur væntanlega línu með ábendingum, áminningum og frekari hvatningu.

Siðaskráin markar um leið þau tímamót, að Fréttablaðið er ekki lengur tilraun, heldur mikilvæg stofnun í þjóðfélaginu, sem vill starfa í góðri sátt við ótrúlega fjölmennan lesendahóp.

Jónas Kristjánsson

FB

Gjáin víkkar ört

Greinar

Ný skoðanakönnun í Bandaríkjunum og Evrópu sýnir, að viðhorf kjósenda til alþjóðamála hafa þróast í gagnstæðar áttir í þessum tveimur heimshlutum síðan George W. Bush tók við völdum í Bandaríkjunum. Með sama framhaldi verða alger vinslit milli þessara gömlu bandamanna.

Bandaríkjamenn styðja Ísraelsmenn, en Evrópumenn styðja Palestínumenn. Bandaríkjamenn telja, að Írak, Íran og Norður-Kórea myndi öxul hins illa, en Evrópumenn telja ekki vera samband þar á milli. Bandaríkjamenn vilja ráðast á Írak, en Evrópumenn vilja það ekki.

Þar á ofan telja Evrópumenn, að svokölluð barátta Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum sé knúin eiginhagsmunum og auki hættuna á hryðjuverkum á Vesturlöndum. Þeir telja, að Bandaríkin stundi einstefnu, taki ekkert tillit til bandamanna sinna og ráðist raunar á þá með tollum og höftum.

Skarpur munur er milli meirihluta og minnihluta í öllum þessum tilvikum. Skilaboð kjósenda eru því skýr. Þeir hvetja landsfeður sína til að gefa ekki eftir í ágreiningsefnum Evrópu og Bandaríkjanna. Stjórnmálamenn beggja vegna hafsins munu græða pólitískt á að víkka gjána.

Þessi viðhorf endurspeglast á ráðstefnum, þar sem bandarískir og evrópskir sérfræðingar ræða málin. Bandaríkjamenn telja Evrópumenn vera úti að aka án skilnings á hættunni. Þeir telja, að Bandaríkin þurfi ekki lengur evrópska bandamenn, sem séu bara með japl og jaml og fuður.

Evrópumenn telja, að hryðjuverk eigi sér rætur í forsendum, sem ekki læknist með hernaði. Þeir telja hirðina kringum Bush forseta vera æðikolla. Þeir vilja, að Evrópa leggi stóraukna áherzlu á innra samstarf og eigin hermál og svari viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna fullum fetum.

Ekki sízt eru Evrópumenn ákaflega ósáttir við, að Bandaríkin eru kerfisbundið farin að neita að taka þátt í fjölþjóðlegum sáttmálum og stofnunum. Hæst ber þar nýja stríðsglæpadómstólinn í Haag og staðfestingu Kyoto-bókunarinnar um mengun loftsins, hvort tveggja evrópsk baráttumál.

Með sama áframhaldi gefast báðir aðilar upp á Atlantshafsbandalaginu, sem hingað til hefur verið helzta tákn Vesturlanda. Á sama tíma og tíu ríki Austur-Evrópu eru um það bil að ganga í bandalagið er það sjálft búið að fá eins konar heilablóðfall af völdum ágreinings í gamla kjarnanum.

Í alvöru er farið að tala um, að nýtt bandalag sé að rísa milli Bandaríkjanna, Ísraels og Rússlands, sem öll eiga í höggi við skæruliða. Það verði stutt ríkjum á borð við Kína og Tyrkland, sem vilja stunda ríkisrekin hryðjuverk gegn undirokuðum minnihlutaþjóðum á borð við Tíbeta og Kúrda.

Evrópskir kjósendur, stjórnmálaskýrendur og sérfræðingar telja Evrópu ekki eiga heima í slíkum félagsskap. Breið samstaða er í Evrópu um að hafna þeirri heimssýn, sem komst til áhrifa í Bandaríkjunum við valdatöku George W. Bush og að hafna einhliða aðgerðum Bandaríkjanna.

Á næstu fundum Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal í Reykjavík í maí, verður með orðskrúði reynt að breiða yfir þá staðreynd, að framtíð bandalagsins er orðin ótrygg. Ísland flækist inn í deiluna vegna viðskiptahagsmuna sinna í Evrópu og varnarhagsmuna í Bandaríkjunum.

Viðhorf fólks á Íslandi til alþjóðamála eru líkari viðhorfum í Evrópu en í Bandaríkjunum. Því er líklegt, að Ísland lendi að lokum Evrópumegin við hina miklu og víkkandi gjá í Atlantshafinu.

Jónas Kristjánsson

FB