Greinar

Lífið er fiskur og lýsi

Greinar

Sífellt tíðar birtast fréttir af erlendum rannsóknum, sem staðfesta fyrri rannsóknir á hollustu fiskjar og lýsis. Einkum er það Omega-3 fitusýran, sem talin er bera af flestum tegundum fitu. Öfugt við flestar aðrar tegundir dregur fiskfita úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum.

Þetta eru ekki bara góðar fréttir fyrir þá Íslendinga, sem drekka lýsi á hverjum morgni og borða mikið af fiski. Þetta eru líka góðar fréttir fyrir sjávarútveginn og fiskiðnaðinn, því að þær auka eftirspurn afurða atvinnuvegarins á erlendum markaði og hækka smám saman verð þeirra.

Rannsóknir þessar eru gott dæmi um, hvernig skilyrði breytast á alþjóðlegum markaði, án þess að við höfum áhrif á þau, hvað þá að við getum stjórnað þeim. Í þessu tilviki hefur þróunin lengi verið okkur í hag án okkar tilverknaðar og gert sjávarafurðir okkar verðmeiri en þær voru.

Í öðrum tilvikum geta skilyrði breytzt okkur í óhag. Fréttir af auknu magni þungamálma og annarra spilliefna í fiski í Norður-Atlantshafi geta verið okkur hættulegar, þegar til lengdar lætur. Það fer eftir, hvernig magnið breytist í náinni framtíð og hvaða áhyggjur neytendur hafa af málinu.

Hugsanlegt er, að við berum sjálf einhverja ábyrgð á rennsli spilliefna til sjávar og getum þess vegna haft áhrif á þróunina með því að stöðva rennslið. Meiri líkur eru á, að spilliefnin komi frá Sellafield í Skotlandi og öðrum slíkum úrgangsstöðvum efnaiðnaðar við Atlantshafið.

Fulltrúar okkar hafa með fulltrúum annarra fiskveiðiþjóða við Norður-Atlantshaf gert harða hríð að brezkum stjórnvöldum til að fá úrgangsstöðinni í Sellafield lokað. Hugsanlegt er, að það kunni að takast. Mikilvægt er að efla samstöðuna gegn stöðinni og fylgja málinu fast eftir.

Enn eru þau tilvik, þar sem gerjun er í viðhorfum á erlendum markaði, sem geta haft jákvæð eða neikvæð áhrif á stöðu afurða okkar. Við getum þá valið þann kost að haga aðgerðum okkar í samræmi við mat okkar á frekari framvindu málsins og jafnvel vera í fararbroddi þróunarinnar.

Víða í Evrópu er fólk að taka afstöðu til umhverfismála með því að beina viðskiptum sínum til aðila, sem hafa vottorð um sjálfbæra framleiðslu. Það neitar til dæmis að kaupa fisk, nema hlutlausar vottunarstofur staðfesti með stimpli sínum, að hann komi ekki úr ofveiddum stofnum.

Hugmyndin um slíkan gæðastimpil er raunar íslenzk, en fékk slæmar viðtökur heimskra manna, sem töldu hana hefta svigrúm íslenzkra fiskveiða. Hún fékk hins vegar góðan hljómgrunn erlendis, studd stórum fyrirtækjum og samtökum, sem reyna að laga sig að viðhorfum almennings.

Því miður hafa okkar menn kosið að halda áfram að ofveiða nær alla íslenzka fiskistofna og bölsótast yfir útlendingum, sem séu að æsa fólk gegn íslenzkum fiski. Í stað þess að vera í fararbroddi þróunarinnar höfum við valið okkur að vera eftirbátar annarra, að vera íslenzkir sóðar.

Enn eru lágar hlutfallstölur þeirra, sem velja vörur eftir umhverfismerkjum, en þær hækka bratt með hverju árinu. Eftir nokkur ár verður þetta orðinn umtalsverður hluti markaðarins, sem gefur framleiðendum kost á hærra verði. Við höfum sjálf valið að standa fyrir utan.

Vindar blása stundum okkur í hag á erlendum markaði og stundum í óhag. Stundum getum við lagað okkur að aðstæðum og jafnvel grætt á að taka forustu, en til þess skortir stundum gæfu.

Jónas Kristjánsson

FB

Framsal fullveldis

Greinar

Stofnun Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag síðasta fimmtudag er eitt merkasta framsal fullveldis ríkja til fjölþjóðlegra stofnana, sem eiga að gera siði, lög og reglur beztu ríkja að algildri reglu fyrir jarðarbúa alla. Hann byggist á vestrænum hefðum og hefur að mestu vestræna dómara.

Dómstóllinn tekur á glæpum, sem framdir verða eftir 1. júní á þessu ári . Þá verða menn gerðir persónulega ábyrgir fyrir aðild sinni að stríðsglæpum og geta ekki skotið sér bak við stofnanir. Reiknað er með, að margir muni hugsa sig um tvisvar, þegar nýi siðurinn er hafinn.

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn er almennt framhald sértækra dómstóla fyrir Rúanda og Júgóslavíu. Réttarhöldin yfir Slobodan Milosevic gefa tóninn um framtíðina. Saddam Hussein og Ariel Sharon mega fara að gæta sín betur en Pol Pot og Augusto Pinochet gerðu á sínum tíma.

Sextíu ríki hafa skrifað undir stofnskrá dómstólsins og búist er við þrjátíu til fjörutíu undirskriftum til viðbótar. Í þessum ríkjahring verða fyrirmyndarríki heimsins, en utan við munu standa ofbeldishneigð stríðsglæparíki á borð við Rússland og Kína, Bandaríkin og Ísrael.

Ísland stendur að dómstólnum eins og öll ríki Vestur- og Mið-Evrópu. Þetta eru einmitt fyrirmyndarríkin, sem að undanförnu hafa haft frumkvæði að stofnun margvíslegra sáttmála um bætta stöðu mannkyns. Þau hafa í flestum tilvikum safnað um sig fylgi meirihluta ríkja heimsins.

Þannig verður Kyoto-bókunin um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofts innan tíðar staðfest af öllum þorra ríkja heims. Þannig verður sett bann við sölu jarðsprengja og hert eftirlit með framleiðslu eiturvopna. Öll slík mál sigra að frumkvæði Evrópu gegn andstöðu Bandaríkjanna.

Afsal fullveldis er hin yfirlýsta forsenda Bandaríkjanna fyrir andstöðu þeirra gegn fjölþjóðasáttmálum og fyrir misheppnaðri baráttu þeirra gegn fullgildingu slíkra sáttmála. Auðvelt er að selja kjósendum óttann við afsal fullveldis, svo sem ýmis dæmi sýna einnig hér á landi.

Ríkisvaldið á Íslandi hefur borið gæfu til dugnaðar við að afsala íslenzku fullveldi í hendur fjölþjóðlegra stofnana. Við erum aðilar að ótal reglum og erum að minnsta kosti vikulega að stíga skrefinu lengra, einkum með staðfestingu á stríðum straumi ákvarðana Evrópusambandsins.

Sumt af þessu afsali skiptir litlu eða engu máli og tæpast nokkurt skaðar okkur. Allur þorri afsalsins felur í sér gæfuspor. Það treystir stöðu Íslands í hópi beztu fyrirmyndarríkja heims við smíði almennra ramma, sem gera líf alls almennings betra og göfugra en það hefði ella orðið.

Að mörgu leyti er eðli íslenzkra stjórnmála frumstæðara en annars staðar í álfunni. Ráðherrar fá hér reiðiköst og leggja niður stofnanir eða flytja þær frá höfuðborgarsvæðinu. Rík tilhneiging er til geðþótta í stjórnkerfi og stjórnmálum. Margir eru í alvörunni dauðhræddir við ráðherra.

Því meira sem við tengjumst fjölþjóðlegu neti sáttmála og stofnana af vestrænum toga, þeim mun meira þrengist svigrúm frumstæðra og valdasjúkra ráðamanna okkar til að víkja frá grundvallarhefðum vestræns samfélags. Þannig höfum við fetað okkur fram eftir vegi.

Því fleiri ríki sem taka þátt í þessu neti, þeim mun víðari verður hringurinn, þar sem samskipti og viðskipti fara eftir vönduðum og viðurkenndum leikreglum, öllum málsaðilum til góðs.

Jónas Kristjánsson

FB

Grafið undan valdinu

Greinar

Ungt hugsjónafólk frá Vesturlöndum hefur látið til sín taka í Palestínu að undanförnu. Það situr í sjúkrabílum til að draga úr líkum á, að her Ísraels skjóti á bílana. Það situr með fjölskyldum Palestínumanna til að draga úr líkum á, að skriðdrekar Ísraels brjóti niður heimili þeirra.

Nærvera þessa unga fólks hamlar aðgerðum hersins, sem telur líf Palestínumanna einskis virði, en reynir að fara varlegar, þegar útlendingar eiga í hlut. Af fádæma hugrekki skipta útlendingarnir sér niður á svæði og mynda mannlega skjaldborg til varnar hjálparvana Palestínumönnum.

Um leið er skjaldborgin vitni að margvíslegum fólskuverkum Ísraelshers. Þau eru skráð og eiga eftir að koma ofbeldisríkinu í koll, þegar upplýsingunum verður safnað saman. Þar verða frásagnir af markvissri eyðingu innviða, svo sem raflína og vatnslagna, skóla og sjúkraskýla.

Enn alvarlegri minnisvarði um hernaðarstefnu sviðinnar jarðar verða frásagnir útlendinganna af meðferð hersins á óbreyttum borgurum. Þar á meðal verða frásagnir af skothríð á konur og börn, markvissar niðurlægingar ungra manna og almennt ofbeldi herraþjóðar í garð undirþjóðar.

Hvaða útlendingar eru þetta, sem eru að fórna sér fyrir málstað réttlætisins í Palestínu?. Komið hefur í ljós, að þetta er sumpart sama fólkið og hefur verið að ögra valdastofnunum Vesturlanda á allra síðustu misserum og sumpart fólk úr sömu áhugahópum baráttu gegn valdastéttum.

Útlendingarnir koma beint frá aðgerðunum í Barcelona á Spáni, þar sem 250.000 manns mótmæltu í síðasta mánuði fyrirhuguðum lögum gegn stéttarfélögum í sumum Evrópulöndum. Þetta er fólk með reynslu af mótmælaaðgerðum frá Genova á Ítalíu og Seattle í Bandaríkjunum.

Fólkið er í laustengdum hópum, sem smám saman eru að efla tengsl milli landa. Erfitt er að henda reiður á stöðu hópanna, því að þeir forðast miðstýringu og fastmótaða hugmyndafræði. Þeir skipta um baráttumál og -tækni eftir aðstæðum og þörfum hvers staðar og hvers tíma.

Stundum mótmæla hóparnir alþjóðlegum fjármálastofnunum á borð við Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, sem ætlast til að sárþjáðar þjóðir þriðja heimsins endurgreiði peninga, er þessar stofnanir hafa afhent valdamönnum og þeir lagt inn á bankareikninga sína í Sviss.

Stundum mótmæla hóparnir fjölþjóðlegum hernaðarbandalögum á borð við Atlantshafsbandalagið, sem sakað er um beina eða óbeina aðild að auknum tilraunum Bandaríkjanna til að verða eins konar Rómarveldi nútímans. Kannski fjölmenna þeir á Nató-fundinn í Reykjavík í vor.

Stundum mótmæla hóparnir mengun umhverfisins og spjöllum á náttúrunni í þágu auðugra fyrirtækja af því tagi, sem við þekkjum undir nöfnunum Norsk Hydro og Landsvirkjun. Kannski eigum við eftir að sjá eitthvað af þessu fólki, þegar stærsta ósnortna víðerni Evrópu verður spillt.

Sjónvarpsstöðvar Vesturlanda hafa gefið ranga mynd af þessu fólki með áherzlu á myndskeið af skemmdarverkum og óeirðum, sem aðrir hópar hafa valdið eða þá beinlínis lögreglan sjálf, svo sem raunin varð í Genova. Stjórnvöld hafa einnig reynt að líkja fólkinu við hryðjuverkamenn.

Meginþráður mótmælanna í Seattle og Genova, Barcelona og Betlehem er samstaða hópa um baráttu gegn valdinu í heiminum, gegn misbeitingu valdsins í þágu þeirra, sem betur mega sín.

Jónas Kristjánsson

FB

Tuttugu öldum of seint

Greinar

Samanburður Bandaríkjanna og Rómarveldis hins forna er orðinn hugleikinn bandarískum dálkahöfundum og pólitískum hugmyndafræðingum. Menn sjá í hillingum nýjan Rómarfrið í heiminum, Pax Americana, þar sem Bandaríkin deili og drottni eins og Róm gerði fyrir tuttugu öldum.

Margt er líkt með þessum tveimur heimsveldum. Róm rak eiginhagsmunastefnu og gaf nágrönnum öryggi í staðinn. Hún gætti þess, að enginn gæti keppt við sig í völdum og sigaði smáríkjum gegn keppninautum. Hún klæddi hagsmuni í skikkju hræsni og þóttist alltaf vera í vörn.

Síðustu misseri hafa Bandaríkin í auknum mæli hafnað neti fjölþjóðlegra sáttmála, sem hafa verið riðnir um heiminn í þrjár aldir. Þau hafa ekki undirritað nýja sáttmála, neita að staðfesta 40 aðra og eru byrjuð að falla frá staðfestum sáttmálum, allt til að hindra takmarkanir á fullveldi sínu.

Bandaríkin hafna til dæmis nýja stríðsglæpadómstólnum, sáttmálanum um bann við framleiðslu og dreifingu jarðsprengja, sáttmálanum um losun koltvísýrings í andrúmsloftið, sáttmálanum um eftirlit með eiturefnavopnum og þau tilkynna afnám sáttmála um fækkun kjarnorkuflauga.

Meginþemað er, að fjölþjóðasáttmálar eigi að gilda um alla aðra en Bandaríkin, sem séu Rómarveldi nútímans og þurfi að hafa svigrúm til að athafna sig sem slíkt. Stefnan hefur þá aukaverkun, að önnur ríki fylgja fordæmi höfðingjans og vilja líka fá að brjóta fjölþjóðasamninga.

Hræsnin er einn öflugasti hornsteinn hins nýja heimsveldis eins og hins gamla. Bandaríkin styðja hryðjuverkaríkið Ísrael og reka hryðjuverkaskóla til að grafa undan óþægum stjórnvöldum í rómönsku Ameríku á sama tíma og þau þykjast vera í heilögu stríði gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin raða Írak, Íran og Norður-Kóreu á eins konar öxul hins illa, þótt ekkert pólitískt eða hernaðarlegt samhengi sé milli þessara ríkja. Á sama tíma mynda Bandaríkin illan öxul með Ísrael og hafa fram á allra síðustu daga stutt hernað Sharons, sem er fordæmdur um allan heim.

Bandaríkin hafa reynt að nota hryðjuverk á vegum Al Kaída og Taliban sem tylliástæðu til að rifja upp ágreininginn við stjórn Íraks og efna til nýrrar styrjaldar við Saddam Hussein. Ekki hefur tekist að sýna fram á neitt samband milli þessara tveggja óvina, enda er Hussein sérvandamál.

Með fjölgun herstöðva víða um heim, nú síðast í fyrrverandi Sovétlýðveldum norðan Afganistans, reyna Bandaríkin að skjóta hernaðarlegum fótum undir tilkall sitt til stöðu Rómarveldis í nútímanum. Enda efast enginn um algera hernaðaryfirburði Bandaríkjanna á jörðinni allri.

Heimsvaldastefnan hefur verið að grafa um sig í tæpan áratug. Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra er helzti hugmyndafræðingur hennar í ríkiskerfi Bandaríkjanna, Richard B. Cheney varaforseti er helzti áhangandinn og George W. Bush forseti er valdamesti þræll hennar.

Stefnan hefur þann galla, að pólitísk völd fylgja ekki hernaðarlegum völdum á sama hátt og var fyrir tuttugu öldum. Allur heimur Íslams hatar Bandaríkin eins og pestina. Evrópa er komin á fulla ferð við að svara viðskiptahöftum Bandaríkjanna fullum hálsi og láta verkin tala.

Til þess að reka heimsveldi að hætti Rómar þyrftu Bandaríkin að treysta sér til að reka sífellt stríð við umheiminn með árlegum herferðum um Evrópu og ríki Íslams. Tuttugu öldum of seint.

Jónas Kristjánsson

FB

Okkar börn í ánauð

Greinar

Frekasta fyrirtæki landsins lætur sér ekki nægja að hafa fengið gefins einkaleyfi fyrir miðlægum gagnagrunni heilsufars landsmanna. DeCode Genetics vill nú fá 20 milljarða króna ríkisábyrgð fyrir að koma á fót lyfjafyrirtæki hér á landi. Annars verði fyrirtækið í Bandaríkjunum.

Ríkisábyrgð felur í sér, að gróði er einkavæddur, en tap er ríkisrekið. Hagfræðilega séð er ríkisábyrgð af hinu vonda, því að hún truflar markaðslögmál framfara og lætur eðlilega þróun atvinnulífsins víkja fyrir gæluverkefnum, sem stjórnvöld reyna að koma upp með handafli.

Ríkisábyrgðir eru lítið notaðar í útlöndum, en voru vinsælar hér á landi fyrr á árum til að reyna að þjófstarta nýjum töfralausnum í atvinnuvegum, svo sem fiskeldi og loðdýrarækt og svo auðvitað til að þjónusta fyrirtæki, sem stjórnvöldum hvers tíma hafa verið sérstaklega þóknanleg.

Stefna ríkisábyrgða hefur sem betur fer verið á undanhaldi hér á landi. Helzt eru það lánastofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, sem njóta ríkisábyrgða. Í þeim tilvikum er ríkið að ábyrgjast eigin stofnanir og fyrirtæki, en ekki að taka á sig ábyrgð af gerðum aðila úti í bæ.

Ríkið hefur skattlagningarvald og verðskráningarvald til að tryggja, að stofnanir og fyrirtæki á þess vegum geti staðið við skuldbindingar sínar. Borgararnir verða að greiða fyrir misheppnaðar framkvæmdir ríkisins, en taka ekki eftir því, af því að tjónið er inni í heildarsukki þess.

Stjórnvöld hafa nú til vinsamlegrar athugunar, hvort veita eigi deCode Genetics eða dótturfyrirtæki þess 20 milljarða króna ríkisábyrgð. Ef litið er á gengi hlutabréfa deCode í kauphöllum, má fullyrða, að óvenjulega áhættusamt er að þjóðnýta hugsanlegt tap af dótturfyrirtækinu.

Ef stjórnvöld hafa áhuga á að þjófstarta atvinnurekstri í þekkingariðnaði hér á landi, eiga þau betri kosta völ en að kasta 20 milljörðum í pilsfaldakapítalisma. Þau geta hagað málum almennt á þann veg, að freistandi sé að reisa hér ný fyrirtæki á sviðum þekkingariðnaðar.

Stjórnvöld geta tekið upp evru eða dollar sem gjaldmiðil. Þau geta afnumið tolla á rekstrarvörum og komið upp pappírslausum viðskiptum. Þau geta keypt iðngarða, netvætt þá og boðið nýjum fyrirtækjum í þekkingariðnaði að stíga þar fyrstu skref lífsbaráttunnar á lágri húsaleigu.

Ríki og borg geta gert ótalmargt til að stuðla almennt að uppgangi þekkingariðnaðar án þess að grípa til sértækra aðila í þágu útvalins gæludýrs, sem hefur staðið sig óvenjulega illa á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði. Opinberar aðgerðir eiga að vera almennar, en ekki sértækar.

Í tilviki deCode Genetics nemur fyrirhuguð ríkisábyrgð tæplega 280.000 krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Það er skatturinn, sem hver fjölskylda á að greiða þessu fyrirtæki, af því að það er miklu frekara til fjárins en nokkurt annað fyrirtæki í landinu.

Með þessu erum við í rauninni að veðsetja börnin okkar fyrir mesta taprekstrarfyrirtæki í landinu. Við erum að setja börnin okkar í skuldafangelsi til að þjónusta eitt gæluverkefni líðandi stundar, í stað þess að nota opinbert fé til að búa til hagkvæma ramma fyrir ný fyrirtæki.

Ríkisábyrgðir til einkarekstrar fela í sér þá tegund kapítalisma, sem er verri en kommúnismi. Það er pilsfaldakapítalisminn, sem við þekkjum bezt úr fiskeldinu og loðdýraræktinni.

Jónas Kristjánsson

FB

Gengur betur næst

Greinar

Mikið hefur verið reynt að ljúga að Íslendingum í vetur. Hvert vandræðamálið hefur rekið annað, svo sem bygginganefnd Þjóðleikhússins, einkavæðing Símans og aðild Norsk Hydro að Reyðaráli. Í sumum tilvikum hafa áhrifamenn á flótta látið hrekja sig úr einni lyginni yfir í aðra.

Misjafnt er, hvort menn láta vandræðin sér að kenningu verða. Því miður er siðleysi í umgengni við sannleikann svo útbreitt meðal ráðamanna í stjórnmálum og viðskiptum, að sumir líta á það sem óheppni, þegar svik komast upp um síðir, og hvatningu um að vanda lygina betur næst.

Lygin rennur fram í breiðum straumi, allt frá misbeitingu spakmælisins um, að oft megi satt kyrrt liggja, yfir í rangar fullyrðingar gegn betri vitund. Hemlar á upplýsingum um breytt viðhorf Norsk Hydro til Reyðaráls sýna ýmis form lyginnar með aðild ýmissa lygalaupa.

14. febrúar veit framkvæmdastjóri Reyðaráls um stefnubreytingu Norsk Hydro, en lætur ekki ráðherra vita, þótt hún sé að flytja málið fyrir Alþingi. Tveim vikum síðar fær ráðherrann að vita um málið, en lætur sem ekkert sé. Að fimm vikum liðnum er breytingin loks viðurkennd.

Fjölmiðlar eiga erfitt um vik við þessar aðstæður, því að mest er að þeim logið. Óhjákvæmilega síast mörg lygin í gegn, enda tala lygalaupar með heiðríkjusvip oft beint í fjölmiðlum til fólks. Oft eru þeir hinir hortugustu, þegar kemur í ljós, að þeir hafa verið að reyna að blekkja fólk.

Það eru ekki bara valdamenn í stjórnmálum og viðskiptum, sem reyna að leyna almenning sannleikanum og koma rangfærslum á framfæri við hann. Víða eru hliðverðir, sem hafa lært að líta á það sem skyldu sína að koma í veg fyrir, að fjölmiðlar geti birt fólki réttar upplýsingar.

Á fjölmiðlum er oft kvartað um, að ýmsum hliðvörðum lögreglustöðva sé ekki treystandi. Þeir hafi látið kenna sér að leyna upplýsingum og séu bara nokkuð ánægðir með sig, þegar þeim tekst þetta hlutverk. Þeir hafi enga tilfinningu fyrir því, að þeir séu að gera sig að siðleysingjum.

Illræmdir eru sumir blaðurfulltrúar og spunameistarar stjórnmála og viðskiptalífs, aldir upp við vísindalegar aðferðir við blekkingar. Í mörgum tilvikum hafa slíkir aðilar nánast óheftan aðgang að sumum fjölmiðlum til að koma á framfæri þægilegum og hentugum rangfærslum.

Viðhorf almennings eru tvíeggjuð. Sumum finnst bara gott á fjölmiðla, að þeir skuli láta ljúga að sér og vera hafðir að fíflum. Þetta fólk áttar sig ekki á, að það er almenningur sjálfur, sem er skotmarkið, en ekki fjölmiðillinn. Flestir eru þó hneykslaðir og sumir leka réttum fréttum.

Lygin er skaðleg þjóðskipulaginu, af því að hún dregur úr trausti manna milli, þungamiðju vestræns þjóðfélags. Traustið er smurningin á snertiflötunum og leyfir hjólum efnahags og viðskipta að snúast hratt. Traust verður ekki framleitt, heldur verður það til á löngum tíma sannleiksástar.

Aukið gegnsæi í þjóðfélaginu er bezta leiðin til að draga úr lífslíkum lyginnar og efla traust manna milli. Þess vegna er almennt verið að auka gegnsæi á Vesturlöndum og lýsa inn í skúmaskotin, þar sem ákvarðanir eru teknar. Íslenzku upplýsingalögin eru skref í þessa átt að gegnsæi og trausti.

Ástandið fer svo að skána fyrir alvöru, þegar ráðamenn í stjórnmálum og viðskiptum hætta að hugsa: “Það gengur betur næst”, þegar þeir verða uppvísir að fyrirlitningu á sannleikanum.

Jónas Kristjánsson

FB

Hinn illi öxull

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti neitar að fordæma nýjustu hryðjuverk Ísraelsstjórnar í Palestínu. Hann heldur áfram að styðja aðgerðir Sharons forsætisráðherra Ísraels, þótt þær hafi gengið fram af siðuðu fólki um allan heim og hafi slökkt síðasta vonarneistann um frið í Miðausturlöndum.

Hræsni Bush er takmarkalaus, þegar hann krefst þess enn, að Arafat, forsætisráðherra Palestínu, stöðvi sjálfsmorðsárásir örvæntingarfullra Palestínumanna, rétt eins og hann hafi aðgang að einhverjum “on/off”-takka í stofufangelsi Ísraelsmanna í Ramallah í Palestínu.

Bandalag Bandaríkjanna og Ísraels er mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir. Það hindrar friðsamlega sambúð vesturs og íslams og sogar hefndaraðgerðir að Vesturlöndum. Verst af öllu er, að það hefur klofið Vesturlönd í tvær andstæðar fylkingar, Ameríku og Evrópu.

Í samanburði við hinn illa öxul Bandaríkjanna og Ísraels fer lítið fyrir öðrum ógnunum við heimsfriðinn. Stjórnir Íraks og Norður-Kóreu eru hættulegar umheiminum, en mynda engan öxul sín á milli, né heldur við Íran, sem er hættulaust umheiminum, þótt það gefi Palestínu vopn.

Það er út í hött hjá Bush Bandaríkjaforseta að kalla Írak, Íran og Norður-Kóreu öxul hins illa í heiminum. Eini illi öxullinn á heimsmælikvarða um þessar mundir er öxull Bandaríkjanna og Ísraels, linnulaus stuðningur heimsveldis við ofbeldishneigt og ofstækisfullt smáríki.

Í skjóli neitunarvalds Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur Ísrael lengi komizt upp með sívaxandi brot á alþjóðasamningum um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Ísraelsmenn eru farnir að trúa, að vegna sérstakra aðstæðna gildi almennar siðareglur ekki um Ísrael.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra endurspeglar almenn viðhorf ríkisstjórna Evrópu, þegar hann fordæmir nýjustu aðgerðir Sharons í Palestínu. Satt að segja eru leiðtogar Evrópu almennt gáttaðir á ofstæki Ísraelsríkis og ekki síður á stuðningi Bandaríkjanna við ofstækið.

Hernaðarlega skiptir Evrópa engu og getur ekki gert neitt í málinu, hvorki sameinuð né sem einstök ríki. Evrópa getur staðið uppi í hárinu á Bandaríkjunum í gagnkvæmum tollmúrum og mun gera það í vaxandi mæli, en hún getur aðeins verið áhorfandi að hryðjuverkum hins illa öxuls.

Evrópa getur veitt Palestínu pólitískan stuðning og reynt að ná samstöðu við ríki íslams um skynsamlega stefnu friðar í Miðausturlöndum. Mikilvægt er, að þjóðir ríkjanna tveggja, sem mynda hinn illa öxul heimsins, heyri, að þær hafa alls engan siðferðilegan stuðning umheimsins.

Ekki eru horfur á, að ástandið lagist í bráð. Senn fer að hefjast undirbúningur kosninga í Bandaríkjunum. Þar er hefðbundið, að enginn nær kosningu til þings, ef hann efast um réttmæti stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael. Því má ekki búast við raunsæjum röddum frá Bandaríkjunum í bráð.

Í Evrópu eru menn farnir að skilja gerjun veraldarsögunnar, enda er kalda stríðið langt að baki. Rofin er samstaða vesturs, eins og hún kom skýrast fram í Atlantshafsbandalaginu. Menn munu fjölga aðildarríkjum og fjölyrða á hátíðarfundum um samstöðu, en innihaldið er dautt.

Lokið er stuttu friðarskeiði eftir kalda stríðið og risin ný ógnun við heimsfriðinn, öxull Bandaríkjanna og Ísraels, þar sem heimsveldi hefur gert utanríkisstefnu lítils ofbeldisríkis að sinni.

Jónas Kristjánsson

FB

Brúarfælni í Reykjavík

Greinar

Erfiðleikar embætta skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur við að sjá fyrir þróun samgöngumála í borginni endurspeglast í tregðu þeirra við að undirbúa viðstöðulausan akstur á mesta umferðar- og slysahorni borgarinnar, gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Til skamms tíma töldu embættin ranglega, að ekki þyrfti mislæg gatnamót á þessum stað. Nú vita þau betur, en eru samt að gæla við hugmynd um, að hafa aðeins viðstöðulausan akstur á annarri götunni og þá jafnvel frekar á Kringlumýrarbraut, þótt umferð á Miklubraut sé miklu þyngri.

Við undirbúning mislægra gatnamóta á þessum stað þarf að hafa í huga nýja byggð, sem verið er að skipuleggja í Vatnsmýri vegna minnkunar flugvallarins, ráðagerðir um byggð úti í sjó við Eiðisgranda og hugmyndir um að láta flugvöllinn í Vatnsmýri víkja fyrir nýjum miðbæ.

Miklabraut er eðlileg samgönguæð þessara viðbóta. Með mislægum og viðstöðulausum gatnamótum á horni Kringlumýrarbrautar og með því að beina umferð um Stakkahlíð og Lönguhlíð frá Miklubraut næst viðstöðulaus kafli alla leið til Vatnsmýrar um undirgöngin við Miklatorg.

Skrifstofur skipulagsstjóra og gatnamálastjóra geta gamnað sér við hugmyndir um að ýta umferðinni niður í miðbæ af Miklubraut yfir á Kringlumýrarbraut og Sæbraut, en á þeirri leið eru ótal gatnamót, sem þyrftu að vera mislæg til að vera samkeppnishæf við Miklubraut.

Á þessum króki niður í bæ eru gatnamót við Háaleitisbraut, Suðurlandsbraut, Borgartún, Sæbraut, Samtún, Snorrabraut og á þremur stöðum við Skúlagötu. Það verður dýrari kostur að reyna að veita umferðinni í þennan farveg fremur en að ráðast í augljósar breytingar á Miklubraut.

Miklu nær er að leyfa Sæbrautinni að þróast í takt við fyrirhugaða tengingu yfir sundin við Vesturlandsveg, þegar að henni kemur, en láta Miklubraut þjóna samgöngum í Reykjavík endilangri og viðstöðulausum tengingum við bæjarfélögin í suðri og við Suðurlandsveg.

Því miður hefur borgin víða skipulagt hús alveg ofan í lykilgatnamót aðalskipulagsins, svo sem dæmið sýnir við Höfðabakkabrúna. Þessi óforsjálni hefur leitt til flókinna og dýrra lausna og umferðarljósa á brúm í stað viðstöðulaus aksturs eins og hefur þó tekizt við Elliðaárnar.

Aðkoman að Miklubraut úr undirgöngunum frá Kringlu er gott dæmi um, að ekki er nauðsynlegt að hafa víðáttumiklar slaufur við mislæg gatnamót, svo framarlega sem umferðarhraða er haldið niðri, til dæmis með hraðahindrunum. Viðstöðulaus akstur getur náðst í þrengslum.

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru og verða þyngsta umferðarhorn höfuðborgarsvæðisins. Óhugsandi er annað en að hafa þar mislæg gatnamót með viðstöðulausum akstri í allar áttir, jafnvel þótt hafa verði sumar slaufurnar krappari en æskilegt hefði verið.

Skynsamlegt er að stefna að viðstöðulausum akstri um Miklubraut eftir borginni endilangri frá Vatnsmýri að Suðurlandsvegi, um Kringlumýrarbraut í Hafnarfjörð og um Reykjanesbraut til Keflavíkur. Öflugt atvinnulíf á svæðinu kallar á hraðar og hindrunarlausar samgöngur.

Embættismenn og skipulagsnefnd borgarinnar þurfa að byrja að átta sig á, að mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verða mikilvægasta samgöngumannvirki höfuðborgarsvæðisins.

Jónas Kristjánsson

FB

Frestun martraðar

Greinar

Þegar fjölskyldufólk greiðir 60.000-100.000 krónur árlega fyrir rafmagn til ljósa og heimilistækja í landi ótæmandi vatnsorku og afskrifaðra orkuvera, er greinilega vitlaust gefið í spilunum. Hin margrómaða auðlind er ekki að skila árangri í samræmi við væntingar þjóðarinnar.

Sumpart er fólk að niðurgreiða rafmagn til stóriðju, einkum til Grundartanga. Sumpart er fólk að borga herkostnaðinn af orkuverinu við Blöndu, sem reist var, þótt þáverandi stóriðjukaupandi hlypi úr skaftinu. Sumpart er fólk bara að borga fyrir vondan rekstur Landsvirkjunar.

Um nokkurt skeið hefur svo litið út, sem herkostnaður fólks af vatnsorku mundi aukast verulega vegna glannalegra ráðagerða stjórnvalda um orku- og álver á Austurlandi. Fólk getur þó andað léttara í bili, því að Norsk Hydro hefur slegið málinu á frest um óákveðinn tíma.

Ferill Reyðaráls er farinn að minna óþægilega á feril álversins á Keilisnesi, sem mánuðum og árum saman var sagt vera í burðarliðnum. Í báðum tilvikum voru ráðherrar með stóriðju á heilanum, reyndu í lengstu lög að halda í drauminn og enduðu með því að festast í eigin blekkingavef.

Draumurinn um Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun var í rauninni martröð, sem hefði skaðað þjóðfélagið, ef orðið hefði að veruleika. Skipulagsstofnun var í haust búin að hafna orkuverinu vegna slæmra umhverfisáhrifa og ýmis peningaleg reikningsdæmi voru óhagstæð.

Seðlabankinn hefur nýlega upplýst, að vextir í þjóðfélaginu hefðu almennt orðið 2-2,5% hærri á framkvæmdatímanum, en þeir hefðu ella orðið. Útreikningar sýna, að þetta felur í sér fjölskylduskatt, sem nemur 120 þúsund krónum á ári hjá þeim, sem skulda fimm milljónir króna.

Sami vaxtaskattur hefði lagst á alla þá, sem hefðu viljað afla sér lánsfjár til eflingar atvinnulífs á öðrum sviðum. Reyðarál hefði raunar þurrkað mikið af tiltæku lánsfé, einkum hjá lífeyrissjóðunum, sem átti að ginna til samstarfs. Það fé hefði ekki verið til ráðstöfunar í atvinnulífinu.

Ráðagerðir stjórnvalda fólu þar á ofan ekki í sér, að orkuver og stóriðja greiddu markaðsverð fyrir ríkisábyrgð, né heldur að þau greiddu mengunar- og umhverfisskatt í samræmi við reglur, sem Alþjóðabankinn er farinn að beita. Síðasta upphæðin gæti numið milljarði króna á hverju ári.

Fyrir utan óbætanlegt tjón á stærsta ósnortna víðerni Evrópu hefði þjóðin beðið mikið fjárhagslegt tjón af Reyðaráli og Kárahnjúkavirkjun, ef martröðin hefði orðið að veruleika. Tjónið hefði falizt í háum vöxtum, fjármagnsskorti og háu verði á rafmagni til ljósa og heimilistækja.

En veruleikafirring stjórnvalda var orðin svo mikil, að í nokkrar vikur leyndi orkuráðherra þjóðina nýjustu upplýsingum um tregðu Norsk Hydro. Hún var að reyna að knýja virkjanaleyfi í gegn á Alþingi áður en tregðan kæmist upp, sem hlaut samt að gerast vikunni fyrr eða síðar.

Miðað við fjölbreyttar upplýsingar, sem Skipulagsstofnun ríkisins, Seðlabankinn, Alþjóðabankinn og ýmsir hagfræðingar hafa lagt í púkkið, er ástæða til að hafa áhyggjur af, að rúmlega helmingur þjóðarinnar var til skamms tíma reiðubúinn að fallast á framkvæmdirnar eystra.

Nú er tækifæri fyrir fólk að láta af stuðningi við martröðina og fara að hlusta á tölur, sem sýna, að ráðagerðirnar austur á landi eru mun óhagstæðari en stjórnvöld hafa hingað til viljað vera láta.

Jónas Kristjánsson

FB

Evrópuumræðan er búin

Greinar

Athyglisverðast við niðurstöður nýjustu könnunarinnar á afstöðu íslenzkra kjósenda til Evrópuaðildar er ekki, að allur þorri vill sækja um aðild og meirihluti beinlínis ganga í sambandið og að sá meirihluti nemur þremur af hverjum fimm, sem hafa tekið afstöðu til aðildarinnar.

Fremur er fróðlegast, að þrír af hverjum fjórum kjósendum hafa þegar gert upp hug sinn til Evrópusambandsins og ákveðið fyrir sitt leyti, hvort þeir vilja, að Ísland verði með eða ekki. Þetta sýnir, að umræðan um aðild Íslands að Evrópu er ekki bara hafin, heldur meira eða minna búin.

Allan tímann, sem forsætisráðherra hefur haldið fram, að málið sé ekki til umræðu, hefur það samt verið til umræðu. Fjölmiðlar hafa fjallað rækilega um það og birt hin margvíslegustu sjónarmið. Umræðan hefur streymt fram með vaxandi þunga og náð hámarki í vetur.

Liðin er sú tíð, að áhugamenn um aðild reyndu að selja hugmyndina um, að Ísland prófaði umsókn um aðild til að komast að raun um, hvort aðild væri bitastæð eða ekki. Þjóðin er komin langt fram úr þeirri varfærnu afstöðu. Meirihluti hennar vill hreina aðild fremur en könnunarviðræður.

Umræðan um aðild að Evrópusambandinu er svo langt komin, að ekki er lengur deilt um hana. Þjóðin hefur þegar skipt sér í meirihluta þeirra, sem vilja aðild og engar refjar, og í minnihluta þeirra, sem vilja kanna í aðildarviðræðum, hvaða útkomu sé hægt að fá í sjávarútvegi.

Líklega telur þjóðin réttilega orðið tímabært, að áhyggjur af sjávarútvegi megi ekki lengur ráða ferðinni. Atvinnuvegur, sem er kominn niður í 11% af landsframleiðslu, megi ekki lengur stjórna því, hvort hún fái að njóta annarra ávaxta af aðild að sameinaðri siglingu Evrópu í átt til betra lífs.

Ánægjulegt er, ef þjóðin er búin að átta sig á, að framtíð hennar liggur hvorki í fiski né áli, heldur í þekkingariðnaði. Það er þekkingin, sem hefur undanfarin ár staðið undir hagvexti Íslands eins og annarra auðugra landa. Það er hún, sem mun standa undir auðsæld okkar í náinni framtíð.

Gegnum niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar á viðhorfum okkar til Evrópusambandsins skín einmitt vaxandi skilningur fólks á, að þriðja og fjórða kynslóð atvinnuvega þarf sem fljótast að leysa fyrstu og aðra kynslóð þeirra af hólmi. Í þessum skilningi felst lykill framtíðar okkar.

Evrópa er okkar segull. Rætur okkar sjálfra og rætur menningar okkar liggja í Evrópu. Þangað leitum við, þegar við viljum slaka á í fríum okkar. Þar eru kaupendur varnings okkar og þjónustu. Með ári hverju verða Evróputengslin vaxandi þáttur í samskiptum okkar við umheiminn.

Aðrir heimshlutar, þar á meðal Bandaríkin, eru hlutfallslega dvínandi þáttur þessara samskipta. Við getum gamnað okkur við hugmyndir um að sigla ein á báti nyrst í Norður-Atlantshafi, sem eftir lok kalda stríðsins er orðið fremur afskekkt. En köld raunhyggja vísar okkur til Evrópu.

Við höfum þegar þegið ótrúleg gæði frá Evrópusambandinu, sumpart gegn geðþóttahefðum íslenzkrar valdastéttar. Við erum farin að kæra rangláta dóma til Evrópu. Ótal evrópskar reglugerðir hafa þrengt svigrúm til geðþótta í stjórnsýslu okkar, þótt enn megi bæta stöðuna.

Gegn vilja forsætisráðherra hefur umræðan um öll þessi atriði þegar farið fram, mikil að vöxtum. Kjósendur hafa fylgzt vel með henni og beinlínis tekið jákvæða afstöðu til aðildar að Evrópu.

Jónas Kristjánsson

FB

Þú þarft ekki að vera síhress

Greinar

Þáttastjórnendur í sjónvarpi æsa sig upp í að vera hressir á skjánum í hálftíma eða klukkutíma á viku, en geta verið hinir önugustu þess á milli. Þá hlið sjá sjónvarpsnotendur ekki. Þeir fá þá brengluðu mynd af raunveruleikanum, að fræga og fína fólkið í sjónvarpinu sé alltaf bráðhresst.

Þrýstingurinn kemur úr mörgum áttum. Auglýsingar og slúðurtímarit koma því óvart inn hjá venjulegu og eðlilegu fólki, að eitthvað hljóti að vera að því, ef það getur ekki uppfyllt kröfuna um að vera síhresst. Því leitar fólk í auknum mæli á náðir geðbreytilyfja til að bæta stöðuna.

Hefðbundna geðbreytilyfið er áfengi, sem sætir vaxandi samkeppni af hálfu ólöglegra og löglegra fíkniefna. Mest hefur neyzla aukizt á svokölluðu læknadópi. Daglega verða tugþúsundir Íslendinga að taka inn prózak eða annað læknadóp til að treysta sér til að horfast í augu við daginn.

Geðið sveiflast meira hjá sumum en öðrum. Ef sveiflurnar fara út í öfgar, er eðlilegt að menn leiti sér læknis. En skilgreiningin á því, hvað séu öfgar, hefur breytzt. Nú halda margir, að eitthvað sé að þeim, ef þeir eru ekki hressir út í eitt eins og fyrirmyndirnar á skjánum virðast vera.

Íslenzk notkun geðbreytilyfja úr apótekum þrefaldaðist rúmlega á síðasta áratug tuttugustu aldar. Samt harðnaði lífsbaráttan ekki tiltakanlega á þessum tíma. Þvert á móti batnaði hagur fólks. Aukin neyzla hlýtur því að stafa af breyttu mati fólks á því, hvað sé eðlilegt sálarástand.

Hagsmunir framleiðenda eru líka að baki kröfunnar um síhressu. Lyfjafyrirtæki stunda linnulausan áróður meðal lækna og hafa smám saman breytt mati þeirra á því, hvað sé eðlilegt sálarástand fólks. Þau verja meiri fjármunum til áróðurs en til rannsókna og lyfjaþróunar.

Þetta minnir á, hvernig þau komu því inn, að fólk þyrfti átta tíma svefn og yrði ella að taka svefnlyf. Rannsóknir sýna hins vegar að hollara er og líklegra til langlífis að sofa sex-sjö tíma á dag. Með svefnlyfjum reynir heilbrigt fólk að auka svefntíma sinn upp í átta tíma kröfuna.

Ofnotkun svefnlyfja og geðbreytilyfja er dæmi um aukinn þrýsting, sem kemur frá umhverfinu, sumpart að undirlagi lyfjafyrirtækja og sumpart vegna ranghugmynda um eðlilegt sálarástand, sem flæða yfir okkur, einkum úr sjónvarpi, er keyrir linnulaust á uppsprengdri síhressu.

Krafan um síhressu er ný af nálinni. Áður fyrr gerði fólk sér betur grein fyrir, að lífið var ekki og átti ekki að vera dans á rósum. Það vissi, að stundum var tími gleði og stundum var tími sorgar. Fyrst og fremst vissi það, að líðan var oftast hlutlaus, að eðlilegt var að líða hvorki vel né illa.

Ef við fylgjumst með, vitum við, að síhressan er tálsýn. Sjónvarpsfólkið, fína fólkið og fræga fólkið á erfitt í einkalífinu. Það fær taugaáföll og lendir á heilsuhælum og afvötnunarhælum í meira mæli en venjulegt fólk. Þetta stafar af, að það veldur ekki hlutverkinu, sem því er ætlað að leika.

Sérhver ný kynslóð virðist vera dæmd til að ýkja mistök fyrri kynslóða. Sjónvarpsrásir unga fólksins eru enn þrungnari af kröfunni um síhressu en rásir eldra fólksins. Sífellt verður auðvelda að grípa til hættulegra lausna; áfengis, ólöglegra fíkniefna eða læknadóps.

Stóri bróðir ríkisvaldið er hluti vandans en ekki lausnarinnar. Þess vegna verður fólk sem einstaklingar að rjúfa vítahring umhverfisins og afla sér sjálft frelsis frá kröfunni um síhressu.

Jónas Kristjánsson

FB

Sjónarspil í stjórnsýslu

Greinar

Niðurstaðan er alltaf eins, hvort sem fyrirbærið heitir “lögfræðingar ráðuneytisins”, “nefnd embættismanna” eða “starfshópur óháðra sérfræðinga” úti í bæ. Engu máli skiptir, hvort dómstólar telji síðar niðurstöðuna hafa verið rétta eða ranga eða hver var starfsheiður nefndarmanna.

Ekki skiptir heldur máli, hvort nefnd embættismanna sendir leynilegt minnisblað til starfshóps, þar sem sömu embættismenn starfa með óháðum sérfræðingum úti í bæ. Engra dæma verður minnzt um, að einhvers staðar í sjónarspilinu hafi verið vikið frá fyrirfram vitaðri niðurstöðu.

Fyrirbærið kemst ekki bara oftast, heldur ævinlega að þeirri niðurstöðu, að rétt sé eða hafi verið að gera eins og ráðherra vill. Slíkt getur samkvæmt líkindareikningi stærðfræðinnar ekki verið tilviljun. Fyrirbærið starfar eins og málflutningsmaður, sem tekur að sér að verja sakborning.

Skipun fyrirbæra af þessu tagi er ein elzta aðferðin í stjórnsýslu íslenzka ríkisins við að draga athyglina frá ráðherranum og reyna að gefa í skyn, að einhvers konar æðri máttur eða hlutlaus dómstóll hafi efnislega rannsakað áform eða gerðir ráðherrans og gefið þeim gæðastimpil.

Sjónarspilið getur orðið kyndugt, þegar nefndarmenn fyrri nefndar senda eins konar erindisbréf eða fyrirmæli til sjálfra sín í síðari nefnd sama ferils, þar sem nefndarmenn lesa bara alls ekki erindisbréf eða fyrirmæli, að því er upplýst hefur verið í fjölmiðlum í kjölfar birtingar slíks bréfs.

Málið snýst ekki um, hvort málflutningsmenn ríkisvaldsins hafa meiri eða minni starfsheiður en aðrir málflutningsmenn í þjóðfélaginu. Það snýst um ákveðnar tegundir stjórnsýslu, sem tíðkast fremur hér á landi en í nágrannalöndunum, þar sem stjórnsýsla er í traustari skorðum.

Hér sætta stjórnvöld sig ekki við að tapa málum fyrir dómstólum. Ráðuneytisstjórar koma saman í kyrrþey og búa til minnisblöð, þar sem úrskurðað er, að Hæstiréttur hafi rangt fyrir sér, og gefa úrskurð sinn í formi leynilegs erindisbréfs til sjálfra sín og nokkurra annarra valinkunnra sæmdarmenna með starfsheiður á afar háu stigi.

Þegar Hæstiréttur hefur neytt forsætisráðherra til að opinbera erindisbréfið og sjónarspilið er þannig komið í ljós, er það niðurstaða forsætisráðherra, að of mikið sé framleitt af hættulegum plöggum í ráðuneytum og því sé tímabært að hætta að birta dagskrá ríkisstjórnarfunda.

Áður hefur forsætisráðherra sagt, að hann sé farinn að sjá eftir að hafa stuðlað að setningu núgildandi upplýsingalaga, sem dómur Hæstaréttar byggist á. Lögin hafa raunar valdið stjórnvöldum óþægindum á mörgum sviðum, því að fjölmiðlar eru farnir að beita þeim fyrir sig.

Nýju upplýsingalögin eru samin að norrænni fyrirmynd og ganga fráleitt lengra en fyrirmyndirnar. Þau ganga raunar mun skemmra en hliðstæð lög í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Þau eiga því ekki að þurfa að fela í sér nein óbærileg óþægindi fyrir ráðherra og embættismenn.

Slík lög hafa verið sett í nágrannalöndunum, af því að þar hafa menn uppgötvað, að stjórnsýsla þurfi að vera gegnsæ, svo að almenningur geti fylgzt með ferli mikilvægra ákvarðana og valdamenn verði ábyrgari gerða sinna. Þetta er talinn vera nauðsynlegur þáttur lýðræðis.

Hér er stjórnsýsla hins vegar skemmra á veg komin, ráðamenn láta upplýsingalög pirra sig og skipa “óháð” fyrirbæri til að grugga vatnið.

Jónas Kristjánsson

FB

Þéttbýlisflokk vantar

Greinar

Fjórflokkurinn allur er andvígur hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo sem sést af athöfnum hvers kyns ríkisstjórna og þingmeirihluta. Áratugum saman hefur mikið af orku slíkra aðila farið í að reyna að hamla gegn þroska höfuðborgarsvæðisins með fjárhagslegum aðgerðum af ýmsu tagi.

Einna lengst gengur þetta í vegagerð, þar sem fáfarin göng gegnum afskekkt fjöll eru tekin fram yfir lífshættulega fjölfarin gatnamót við þvergötur Miklubrautar og Reykjanesbrautar. Núverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins gengur raunar að þessari mismunun af mikilli ákefð.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa stjórnmálaflokk, sem tryggir, að vegafé sé notað, þar sem tekjurnar verða til. Þeir þurfa flokk, sem lætur byggja mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu til að fækka slysum, stytta ferðatíma, minnka eldsneytiskostnað og draga úr loftmengun.

Slík tilfærsla vegafjár er um leið þjóðhagslega hagkvæm, því að reynslan sýnir, að vaxtarbroddur nýrra fyrirtækja í atvinnugreinum framtíðar er eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Greiðar samgöngur á því svæði stuðla að verndun byggðar á Íslandi og draga úr atgervisflótta til útlanda.

Nýjasta dæmið um árás stjórnvalda á hagsmuni höfuðborgarsvæðisins eru ráðagerðir um að ryksuga allt tiltækt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði og orkuver við Kárahnjúka. Þetta þýðir, að minna fjármagn verður til ráðstöfunar handa vaxtarbroddum atvinnulífsins.

Góðar hugmyndir á framtíðarsviðum munu ekki verða að veruleika, af því að efnilegt fólk mun ekki geta útvegað sér fjármagn til að koma tækifærum sínum í gang. Sumir munu gefast upp, en aðrir flytja sig til ríku landanna, þar sem menn taka atvinnuvegi framtíðarinnar fram yfir álver.

Ein birtingarmynd þessarar árásar er 2-2,5% vaxtahækkun í landinu á byggingatíma álvers og orkuvers samkvæmt tölum Seðlabankans. Þetta er skattur, sem ryksugun fjármagns til 19. aldar gæluverkefnis leggur á alla þá, sem þurfa að taka lán, hvort sem er til húsnæðis eða verkefna.

Þetta kemur auðvitað mest niður á unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að byggja yfir sig og skapa sér tækifæri til hátekjustarfa í greinum, þar sem það hefur lært til verka. Byggðastefna álvers á Reyðarfirði og orkuvers við Kárahnjúka er bein fjárhagsleg árás á allt þetta fólk.

Hér hafa aðeins verið nefnd tvö afmörkuð atriði, þar sem núverandi stjórnvöld vinna gegn hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þar fyrir utan snúast heilir málaflokkar ríkisins um varðveizlu gamalla atvinnuvega til sjávar og sveita með tilheyrandi ofurkostnaði skattgreiðenda.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn sýni íbúum höfuðborgarsvæðisins óvild, þar sem hann er fylgislítill á svæðinu. Undarlegra er, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli kjörtímabil eftir kjörtímabil komast upp með að vinna markvisst gegn hagsmunum kjósenda sinna á svæðinu.

Langvinnur stuðningur kjósenda á höfuðborgarsvæðinu við aðalandstæðinga svæðisins, við ýmsar birtingarmyndir hins pólitíska fjórflokks í landinu, einkum við Sjálfstæðisflokkinn, er verðugt skoðunarefni fyrir sálfræðinga á sviðum langlundargeðs, sjálfseyðingar og sjálfsniðurlægingar.

Þegar kjósendur höfuðborgarsvæðisins sameinast um að kjósa sér fjölmenna sveit fulltrúa nýs þéttbýlisflokks á Alþingi, munu loksins hætta pólitískar ofsóknir gegn höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

FB

Reykvísk stjórnsýsla

Greinar

Meðal helztu vinnureglna í borgarskipulagi Reykjavíkur hafa verið þær þrjár, að ekki skuli fara eftir texta gildandi aðalskipulags, að skipulagið skuli vera smart að sjá úr flugvél, og að ekki skuli leita samráðs við neina þá, sem málið varðar. Þannig voru lagðir í fyrra stígar útivistarfólks.

Á síðbúnum fundi skipulagsins með samtökum íþrótta- og útivistarfólks á Elliðaársvæðinu um síðustu helgi kom fram, að skipulagið fellst á alla gagnrýni málsaðila og lofar bót og betrun. Var svo að skilja, að mistökin í fyrra yrðu rifin upp og verkið unnið að nýju að siðaðra manna hætti.

Í texta gildandi aðalskipulags segir, að reiðstígar skuli vera aðskildir frá hjólastígum og göngu- og hlaupastígum. Þetta eðlilega öryggisákvæði á að draga úr líkum á slysum, er stafa af, að hestar eru ekki vélar, heldur flóttadýr, sem er eðlislægt að vera hræddir við hjól og hlaupandi fólk.

Í Elliðaárdal og upp af honum lagði Reykjavík í fyrra kerfi útivistarstíga kruss og þvers yfir fyrri reiðstíga, af því að slíkar sveigjur líta vel út úr lofti séð. Kerfið var lagt um reiðvegagöng gegnum æfingasvæði hestamanna og sköpunarverkið kórónað með fótboltavelli inni á æfingasvæðinu.

Hvorki göngufólk né hjólafólk hafði beðið um þessa útfærslu, enda hafði það ekki verið spurt ráða. Þegar verkið var hafið og málsaðilar fóru að átta sig á vitleysunni, var strax farið að mótmæla í fjölmiðlum. Síðan var haldinn fjölmennur mót-mælafundur, þar sem yfirvöld áttu engin svör.

Allan tímann héldu borgaryfirvöld því fram, að of seint væri að snúa við, því að framkvæmdir væru í fullum gangi. Til viðbótar var þó lagt í kostnað við margvíslegt klastur. Til dæmis voru virkisveggir reistir í undirgöngum endilöngum og malbik rifið upp, þar sem leiðir mættust.

Nú er hins vegar viðurkennt, að allt verkið í fyrra er ónýtt og klastrið ekki síður. Kostnaður er kominn upp úr öllu valdi, þótt vinna við klastrið sé falin í almennum kostnaði gatnamálastjóra. Nú á eftir að borga kostnað við að rífa vitleysuna og að lokum kostnað við að leggja nýja stíga.

Þegar borgaryfirvöld eru nú seint og um síðir búin að játa, að ekki var heil brú í framkvæmdum síðasta árs við útivistarstíga, vaknar auðvitað sú spurning, hverjir beri ábyrgð á þeim og á tregðu borgaryfirvalda við að hlusta á þá, sem sögðu þeim, að mál þetta væri að komast í óefni.

Hver er staða skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur, þegar forkastanleg vinnubrögð þeirra eru orðin ljós öllum, sem sjá vilja? Hver er staða pólitískt skipaðrar skipulagsnefndar, sem á að hafa eftirlit með embættismönnum borgarinnar á þessu sviði, en lét ekki vekja sig á verðinum?

Til að fullnægja öllu réttlæti er nauðsynlegt að taka fram, að engan greinarmun er hægt að gera á pólitískum meiri- og minnihluta skipulagsnefndar. Menn sváfu jafn værum blundi, hvort sem þeir voru með D eða R í barminum og voru jafn ófáanlegir til að láta vekja sig af værum svefni.

Einnig má spyrja, að hve miklu leyti síðbúnar syndajátningar borgaryfirvalda tengjast siðbótarvilja annars vegar og óþægilegri nálægð borgarstjórnarkosninga hins vegar. Með opinskáum fundi með málsaðilum hafa mótmælaaðgerðir fyrir kosningarnar í maí líklega verið hindraðar.

Á næsta fundi sínum getur skipulagsnefnd staðfest nýju útfærsluna og byrjað að fjármagna hana eða staðfest, að bara sé verið að ýta vanda fram yfir kosningar og lágmarka pólitískt tjón.

Jónas Kristjánsson

FB

Ótímabær gestur

Greinar

Nú er ekki rétti tíminn til að taka með viðhöfn á móti nýjum sendiherra Ísraels á Íslandi, sem á að afhenda trúnaðarbréf á miðvikudaginn. Oft hefur Ísrael gengið fram af okkur, en aldrei eins og þessa síðustu daga, þegar herinn þar í landi gerir árásir á sjúkrabíla og hindrar umönnun slasaðra.

Ísland hefur að vísu diplómatískar skyldur gagnvart ríkjum í stjórnmálasambandi. En hægur vandi er að fresta um óákveðinn tíma ýmsum formsatriðum til að sýna milda útgáfu af óánægju með framvinduna í stefnu Ísraels gagnvart þrautkúgaðri þjóð á hernumdu svæðunum.

Ekki er síður óviðkunnanlegt að halda um þessar mundir ráðstefnu í Reykjavík um ferðalög til Ísraels. Hvað á sýna ferðamönnum, hvernig Ísraelsher myrðir sjúkraliða í Betlehem eða allar hinar hundrað tegundir brota Ísraels á Genfarsáttmálanum um meðferð hernumins fólks?

Íslendingum er þetta einkar sorgleg framvinda, því að sú var tíðin, að sérstaklega gott samband var milli þjóðanna. Þá var ástæða til að taka vel á móti sendiherrum Ísraels og mæta á ráðstefnur til að skipuleggja ferðir fólks um sögustaði biblíunnar. Sá notalegi tími er liðinn fyrir löngu.

Um langt skeið hefur Ísrael verið að breytast í æxli, sem ógnar heimsfriðnum. Í skjóli neitunarvalds Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sækir Ísrael óþvingað fram með sífellt fjölbreyttari brotum á Genfarsáttmála, sem Ísrael og Bandaríkin hafa raunar ritað undir.

Þetta er ekki verk einnar ríkisstjórnar Ísraels, heldur hefur æxlið vaxið á löngum tíma. Þjóðin þar í landi ber ábyrgð á stjórnarskrá sinni, sem heimilar pyndingar, og stjórnmálamönnum sínum, sem sækja sér fylgi með því að láta skýrt koma fram, að þeir líti á Palestínumenn sem hunda.

Ástandið hefur hríðversnað, síðan Ísraelsmenn völdu sér Ariel Sharon sem forsætisráðherra, af því að hann lofaði að sýna Palestínumönnum í tvo heimana. Það hefur alltaf verið stefna Sharon að efla byggðir ísraelskra landtökumanna og hindra samningaviðræður með hörðum skilyrðum.

Frá upphafi hefur það líka verið stefna núverandi ríkisstjórnar að reyna að kúga Palestínumenn til hlýðni með því niðurlægja þá sem allra mest og eyðileggja efnahagslíf þeirra. Nú hefur ofbeldið verið hert og Sharon segir opinberlega, að drepa verði Palestínumenn, unz þeir hlýði.

Stefna ríkisstjórnar Ísraels og forvera hennar er ein helzta forsenda hatursins á Vesturlöndum, sem oft brýst út í löndum íslams og mælist skýrt í skoðanakönnunum. Alvarlegasta birtingarmynd þessa haturs eru tilraunir múslima til að fremja hryðjuverk á Veturlöndum í hefndarskyni.

Hatur múslima á raunar eingöngu að beinast að Bandaríkjunum, því að þau bera ein fjárhagslega, hernaðarlega og pólitíska ábyrgð á Ísraelsríki. Í skjóli ofurvalds Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi eru Palestínumenn drepnir með bandarískum vopnum fyrir bandarískt gjafafé.

Því miður gefur Evrópa líka höggstað á sér með því að taka Ísrael inn í evrópskan ríkjahóp á ýmsum sviðum. Ísland hefur gengið skrefinu lengra með stuðningi við Ísrael eða hjásetu í fjölþjóðlegum atkvæðagreiðslum. Þennan óbeina stuðning Íslands þarf að stöðva þegar í stað.

Íslendingar mega ekki taka neina óbeina ábyrgð á krabbameini Miðausturlanda, sem mest ógnar heimsfriðnum um þessar mundir, og allra sízt láta ferðaskrifstofur ginna sig til ófriðarsvæða.

Kristjánsson

FB