Greinar

Vestrið hefur klofnað

Greinar

Verndartollar Bandaríkjanna á stáli eru nýjasta skrefið af mörgum í átt frá stefnu samstarfs við Evrópu til einhliða aðgerða heimsveldis, sem telur sig geta farið fram á fjölþjóðavettvangi nákvæmlega eins og því þóknast, af því að alls enginn geti staðizt snúning hernaðarmætti þess.

Evrópusambandið hefur að vísu ákveðið, að svara ekki í sömu mynt, heldur sækja mál gegn Bandaríkjunum fyrir Heimsviðskiptastofnuninni. Þar hafa Bandaríkin á síðustu tveimur árum tapað fimm málum, sem varða stál, og töpuðu um daginn skattafríðindamáli fyrirtækja á alþjóðamarkaði.

Evrópusambandið mun nota tækifæri stáltollanna til að hefja þær gagnaðgerðir, sem því eru heimilar samkvæmt reglum Heimsviðskiptastofnunarinnar vegna þessara fyrri dóma. Sambandið hefur nóg af löglegum tækifærum til að setja háa tolla og hömlur á bandarískar vörur.

Þannig mun Evrópa halda sig innan ramma alþjóðalaga í viðskiptastríðinu við Bandaríkin og láta þau ein um að leika hlutverk hryðjuverkamannsins úr villta vestrinu. Það breytir því ekki, að Evrópa mun svara Bandaríkjunum. Viðskiptastríðið milli Vesturlanda mun því harðna á næstunni.

Viðskiptalegur yfirgangur Bandaríkjanna gagnvart Evrópu er eðlilegt framhald af yfirgangi þeirra á öðrum sviðum. Bandaríska þingið hefur lengi tregðast við að staðfesta fjölþjóðlega sáttmála og nú hefur forsetaembættið sjálft tekið forustu um að hafna slíkum sáttmálum yfirleitt.

Bandaríkin hafa lýst frati á Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna. Þau neita að fara eftir Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga, þótt hann taki af öll tvímæli um, hvernig skuli fara með hvers kyns fanga frá Afganistan, þar á meðal þá, sem ekki eru beinlínis einkennisklæddir.

Bandaríkin neita að taka þátt í banni við sölu á jarðsprengjum, sem hafa gert tugþúsundir barna örkumla í þriðja heiminum. Þau hafna fjölþjóðasamstarfi um hert eftirlit með framleiðslu efnavopna. Þau rituðu ekki undir Kyoto-bókunina. Þau hafa unnið leynt og ljóst gegn öllu þessu.

Til viðbótar við yfirgang vegna sinna eigin hagsmuna hafa Bandaríkin tekið að sér að halda hryðjuverkaríkinu Ísrael uppi fjárhagslega og hernaðarlega og gera utanríkisstefnu þess að sinni. Öxullinn milli Bandaríkjanna og Ísraels er núna hinn raunverulega illi öxull heimsins.

Svo náið eru þessi tvö ríki tengd, að ekkert þingmannsefni nær kosningu í Bandaríkjunum, ef það efast opinberlega um, að stuðningurinn við Ísrael sé réttmætur. Þetta er mikilvægasta rótin að einbeittum áhuga múslima á hryðjuverkum í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Evrópa þarf að greina sig betur frá þessum öxli Bandaríkjanna og Ísraels, svo að múslimar átti sig betur á, að Evrópa er ekki aðili að ofbeldi öxulsins gegn Palestínumönnum og öðrum þjóðum íslams. Engin ástæða er fyrir Evrópu að taka á sig meðsekt af heljartökum Ísraels á Bandaríkjunum.

Evrópa hefur enga hernaðarlega burði til að hamla gegn ofbeldi Bandaríkjanna í þriðja heiminum. Eigi að síður hefur hún næga efnahagslega og viðskiptalega burði til að láta hart mæta hörðu í tilraunum Bandaríkjanna til að knýja Evrópu til að lúta einbeittri hagsmunagæzlu í viðskiptum.

Klofningur Evrópu og Bandaríkjanna er orðinn raunverulegur og á eftir að magnast. Viðskiptahagsmunir Íslands eru í Evrópu. Verndun þeirra hagsmuna mun ráða pólitískri afstöðu okkar.

Jónas Kristjánsson

FB

Bíddu bara

Greinar

Bíddu bara, þangað til ég verð stór. Bíddu bara, þangað til ég verð ráðherra. Þetta er innihaldið, þegar búið er að tína reiðilesturinn utan af skrautlegu bréfi formanns Samfylkingarinnar til forstjóra Baugs. Flokksformaðurinn segist vera langminnugur og muni hefna sín um síðir.

Málstíllinn hefur daprazt síðan hann var ráðherra árið 1994. Þá sagði hann: “Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.”

Starfsmaður veiðistjóra hafði sem félagi í Skotveiðifélaginu látið í ljós skoðun á rjúpnaveiði, sem ráðherranum mislíkaði. Hann heimtaði, að starfsmaðurinn yrði rekinn. Þegar veiðistjóri varð ekki við kröfunni, var hann sjálfur rekinn samkvæmt ofangreindri hótun valdhafans.

Ráðherrann sýndi ótrúlegan hrottaskap. Skoðun manna á rjúpnaveiði kemur ekki stjórnsýslunni við. Embættismenn geta ekki rekið starfsmenn sína út á símhringingar frá trylltum ráðherra. Og aðeins forhertur ráðherra getur rekið embættismann fyrir að stunda rétta stjórnsýslu.

Átta árum síðar er ráðherrann orðinn formaður Samfylkingarinnar. Hann á bróður, sem rekur fyrirtæki, er missti viðskipti við Baug af því að starfsmaður þess skoðaði gögn á skrifborði viðskiptavinarins. Formaðurinn taldi viðskiptaslitin vera óbeina hefnd fyrir sína eigin pólitík.

Þótt svo væri, sem er langsótt, getur formaður stjórnmálaflokks ekki sent bréf eða hringt með hótunum um hefndir. Slíkt verður aðeins þannig skilið, að hann ætli sér að hefna sín á Baugi, þegar hann verði orðinn valdhafi í landinu á nýjan leik. Slíkt geta menn bara í Afríkuríkjum.

Þáverandi umhverfisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur alls ekkert lagazt á þessum átta árum. Hann fær enn stjórnlaus reiðiköst og hótar mönnum öllu illu. Sagan sýnir, að hann framkvæmir hótanir sínar, þegar hann fær tækifæri til að misbeita ráðherravaldi.

Bréf og símtöl formannsins sýna óvenjulegan dómgreindarskort. Hann hefur ekki stjórn á reiðinni og greinir ekki málefni frá persónu sinni. Að hans mati mátti Baugur ekki hætta að skipta við fyrirtæki bróðurins, rétt eins og ríkisstarfsmaður mátti ekki hafa einkaskoðun á rjúpnaveiði.

Í þessu samhengi skiptir engu, hvort formaðurinn biðst afsökunar á stjórnleysinu eða sér eftir því. Aðalatriðið er, hvernig hann muni haga sér, þegar hann verður ráðherra. Getur Samfylkingin boðið upp á stjórnlausa valdshyggju, þegar næst verður reynt að mynda ríkisstjórn?

Svarið er augljóst. Enginn stjórnmálaflokkur getur leyft sér að hefja stjórnarsamstarf við flokk, sem býður fram ráðherraefni, er fær stjórnlaus reiðiköst, krefst brottrekstrar ríkisstarfsmanna út af einkamálum, sem varða ekki stjórnsýsluna, og rekur menn fyrir að anza ekki óhæfunni.

Það er áfangi í vegferð þjóðarinnar frá gamalli valdshyggju inn í siðvætt nútímaþjóðfélag, frá ráðherraveldi til opins lýðræðis nágrannaríkjanna, að hún hafni frumstæðum valdamönnum, sem hafa ekki stjórn á sjálfum sér, sem hóta að misbeita ráðherravaldi og sem misbeita ráðherravaldi.

Hafa má það til marks um stöðu Íslendinga á þróunarbrautinni, hvort þeir velja sér ráðherra, sem fara eftir reglum um stjórnsýslu eða fara eftir hamslausu skapi og hamslausri valdshyggju.

Jónas Kristjánsson

FB

Blindni víki fyrir trausti

Greinar

Bandaríkin hafa hert reglur um beinar og óbeinar greiðslur til stjórnmálanna. Eftir uppljóstranir um fjármál orkufyrirtækisins Enron náðist góður meirihluti í bandarísku fulltrúadeildinni fyrir auknum takmörkunum við greiðslum til verkefna, sem óbeint tengjast framboðsmálum.

Enron var fyrirferðarmikið í einkavæðingu orkugeirans í Bandaríkjunum. Það greiddi miklar fjárhæðir til kosningabaráttu Bush Bandaríkjaforseta og annarra frambjóðenda, sem tengdust honum. Fyrirtækið fékk í staðinn að hafa áhrif á framvindu einkavæðingar orkugeirans.

Í Bandaríkjunum hefur lengi verið talið sjálfsagt, að allar fjárreiður, sem tengjast stjórnmálum, séu gegnsæjar almenningi. Þess vegna er nákvæmlega vitað, hvað hver kosningabarátta kostaði og hversu mikið af peningunum kom frá frekum hagsmunaaðilum á borð við Enron.

Þannig vitum við, að Michael Bloomberg greiddi sem svarar sjö milljörðum króna til að verða borgarstjóri í New York, að mestu leyti úr eigin vasa. Þannig vitum við, að George W. Bush greiddi sem svarar tuttugu milljörðum króna til að verða forseti, sumpart frá Enron.

Flest ríki Vesturlanda hafa fetað sömu slóð og Bandaríkin á þessu sviði. Annars vegar hafa þau sett lög, sem gera fjárreiður stjórnmálanna gegnsærri. Hins vegar hafa þau sett lög, sem takmarka fjárhæðir, sem einstakir aðilar geta látið renna beint eða óbeint til stjórnmálanna.

Ísland hefur hvorugt gert, jafnvel þótt ljóst megi vera, að vandamál, sem skotið hafa upp kollinum á Vesturlöndum almennt, láti einnig á sér kræla hér á landi. Einstaka stjórnmálamenn hafa reynt að hreyfa málinu, en mætt harðri andstöðu annarra, einkum Sjálfstæðisflokksins.

Fréttir af græðgi áhrifamanna í stórfyrirtækjum hér á landi, einkum þeim, sem hafa verið á leið til einkavæðingar, benda til, að kjósendur hefðu gagn af að vita, hversu mikið fé þessir menn hafa látið fyrirtækin greiða til pólitískra hagsmuna, sem varða til dæmis einkavæðinguna.

Við vitum af samanlögðum auglýsingum baráttunnar fyrir síðustu alþingiskosningar, að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin voru með svo rúm fjárráð, að miklar summur hlutu að renna til þeirra frá fjársterkum aðilum, sem enn þann dag í dag er ekki með vissu vitað, hverjir voru.

Fyrst og fremst er það landlægt kæruleysi kjósenda, sem veldur því, að þeir hafa ekki knúið stjórnmálaflokkana til að setja lög um gegnsæjar fjárreiður stjórnmálanna, hvort sem um er að ræða greiðslur eða aðra fyrirgreiðslu til flokka eða manna eða til verkefna, sem tengjast þeim.

Ástandið hér á landi stafar ekki af, að íslenzkir stjórnmálamenn séu spilltari en starfsbræður þeirra beggja vegna Atlantshafsins. Þeir hafa bara ekki orðið fyrir nægum þrýstingi og eru að spara sér og flokkum sínum óþægindin af að þurfa að sýna, hvernig þeir eru fjármagnaðir.

Vestrænt lýðræði hvílir á trausti manna milli og traustið hvílir á gegnsæi, en ekki blindni. Þetta er munurinn á þjóðskipulagi okkar heimshluta og ýmsu öðru þjóðskipulagi á jörðinni. Ekki þarf að efast um, að traust mundi eflast hér á landi, ef fjárreiður stjórnmálanna yrðu gegnsæjar.

Svo geta kjósendur spurt sjálfa sig, hvers vegna ýmsar opinberar siðareglur, sem þykja sjálfsagðar í öllum nágrannalöndum okkar, hafa ekki enn komizt til framkvæmda hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB

Fylgissnautt frumvarp

Greinar

Undarlegt er frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar um 9,5% veiðigjald í sjávarútvegi, enda virðast flestir vera því andvígir, aðrir en ríkisstjórnin og Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Frumvarpið sættir ekki sjónarmið deiluaðila, þótt það sé yfirlýst markmið þess.

Veiðigjaldsumræðan hefur þróazt á síðustu árum í átt til tveggja andstæðra sjónarmiða. Annars vegar eru þeir, sem ekki vilja leggja viðbótarálögur á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar. Hins vegar eru þeir, sem vilja endurheimta eignarhald auðlindarinnar í hendur þjóðarinnar.

Eftir birtingu skýrslu auðlindanefndar hafa hinir síðarnefndu í stórum dráttum sameinazt um fyrningarstefnu , sem felur í sér, að veiðirétturinn falli í áföngum frá útgerðarfyrirtækjum til ríkisins, sem geti síðan útdeilt honum að nýju, til dæmis með byggðakvóta og útboði veiðileyfa.

Hinir síðarnefndu hafa ákaflega misjafnar skoðanir á, hvernig fyrndum kvóta verði úthlutað að nýju. Sumir leggja mikla áherzlu á byggðakvóta til að styðja búsetu í sjávarplássum. Aðrir leggja mikla áherzlu á útboð veiðileyfa til að leyfa markaðinum að finna verðgildi kvótans.

Allir eru þeir þó sammála um fyrsta skrefið, það er að segja fyrningu núverandi kvóta. Fyrningarleiðin nýtur raunar mest fylgis með þjóðinni og er í samræmi við niðurstöðu auðlindanefndar. Frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar er hins vegar á allt öðrum nótum.

Menn hljóta að velta fyrir sér, hvert sé raunverulegt markmið frumvarps, sem flestir eru andvígir. Er ríkisstjórnin að reyna að hleypa málinu upp og fá fellt fyrir sér frumvarp til að geta fórnað höndum og haldið óbreyttu kerfi á þeim forsendum, að ekki hafi náðst sátt um nýtt?

Slíkt hlýtur að teljast nokkuð glannafengið, því að fall stjórnarfrumvarps er álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina í heild og sérstaklega þann ráðherra, sem flytur það fyrir hennar hönd. Slík leikflétta hlyti að byggjast á, að ætlunin sé að fórna svo sem einum sjávarútvegsráðherra í þágu fléttunnar.

Nokkrir stjórnarþingmenn hafa lýst andstöðu við frumvarpið, hver á sínum forsendum. Sjávarútvegsráðherra talar eins og þeir muni greiða atkvæði á móti frumvarpinu og hann hafi í staðinn ætlazt til, að stjórnarandstaðan eða hluti hennar styðji málið og komi því í höfn fyrir hann.

Hugsanlegt er, að ákafir veiðigjaldssinnar innan stjórnarandstöðunnar kunni að freistast til að styðja frumvarpið á þeirri forsendu, að betri sé vondur skattur en alls enginn skattur. Fremur langsótt hlýtur þó að teljast að leggja umdeilt frumvarp fram á grunni slíkra hálmstráa.

Hin pólitíska staða er þannig, að Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndir vilja fyrningu og munu sigla undir þeim fána í næstu alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn verður þá í vandræðum með sig, því að meirihluti veiðistefnunefndar flokksins vill fyrningarleiðina.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins er hins vegar andvígur öllum álögum á sjávarútveg, enda er Landssamband íslenzkra útvegsmanna einn helztu hornsteina flokksins. Þessir aðilar telja ef til vill unnt að friða lýðinn með því að kasta í hann árlegu veiðigjaldi upp á tvo milljarða króna.

Líklega er raunverulegt markmið frumvarpsins ekki nein leikflétta, sem felur í sér fall þess og óbreytt ástand auðlindamála, heldur ímynda ráðamenn sér ranglega, að þeir hafi fundið sátt.

Jónas Kristjánsson

FB

Íslenzk omerta

Greinar

Omerta er hornsteinn mafíunnar, hin þægilega þögn. Í ellefu aldir hefur mafían lifað á þögninni. Fólkið á valdasvæðum hennar segir ekki til glæpanna, þótt það sé vitni að þeim. Af vana eða ótta snýr trúnaður almennings að staðarhöfði mafíunnar, en ekki að þjóðfélaginu í heild.

Í ellefu aldir hefur mafían verið ríki í ríkinu á sunnanverðri Ítalíu. Á síðustu öld teygði hún anga sína til Bandaríkjanna og undir lok aldarinnar varð hún fyrirmynd hliðstæðra samtaka í Austur-Evrópu og víðar. Alls staðar beitir hún omertu til að grafa undan ríkjandi þjóðskipulagi.

Íslenzka útgáfan af omertunni er málshátturinn: Oft má satt kyrrt liggja. Þagnarstefna er inngróin í þjóðarsálina, þótt hún geti þannig stundum varpað huliðsklæðum yfir löglaust eða siðlaust athæfi. Ekki eru öll vitni sannfærð um, að þeim beri að skýra þjóðfélaginu frá vitneskju sinni.

Sérstök tegund af omertu hefur verið til vandræða í sambúð þjóðfélagsins við ýmis stórfyrirtæki á Vesturlöndum. Samvizkusamir einstaklingar hafa komizt í klemmu vegna starfa sinna við fyrirtæki, þar sem þeir komast að raun um ólöglegt eða ósiðlegt athæfi stjórnenda.

Víða hafa verið sett lög til að verja hagsmuni þeirra, sem víkjast undan þeirri hefð omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Hér á landi eru ekki til slík lög. Þess vegna gátu siðleysingjarnir, er ráða Símanum, rekið starfsmanninn, sem sagði þjóðfélaginu frá taumlausri græðgi þeirra.

Upplýst var, að stjórnarformaður Símans lét fyrirtækið borga sér milljónir utan stjórnarlauna, sem þætti ekki góð latína í nágrannalöndunum. Þetta varð þjóðfélagið að fá að vita, en samvizkusami uppljóstrarinn var rekinn fyrir vikið. Hinn siðferðilegi lærdómur fer ekki milli mála.

Forsætisráðherra og ýmsir fleiri valdamenn hafa stutt brottreksturinn og þannig lagt lóð sitt á vogarskál omertunnar. Héðan í frá verða þeir því færri en ella, sem voga sér að láta samvizkuna stjórna gerðum sínum, þegar þeir geta valið þögnina um lögleysu eða siðleysu stjórnenda.

Síminn er kennslubókardæmi íslenzkrar spillingar. Þar hafa tveir samgönguráðherrar í röð komið upp ástandi, þar sem pólitísk gæludýr ráða ferðinni og maka krókinn í skjóli meira eða minna meðvitundarlausrar stjórnar, sem skipuð er gæludýrum ýmissa stjórnmálaflokka.

Undanfarnar vikur hefur hvert siðleysið á fætur öðru komið í ljós innan Símans, þar á meðal milljónaráðgjöf stjórnarformannsins og greiðslur til hótels, sem hann á með öðrum. Að mati hans og forsætisráðherra er brottrekstrarsök að segja þjóðfélaginu frá slíku athæfi.

Stjórnarformaðurinn, samgönguráðherrann og forsætisráðherrann endurspegla siðferði omertunnar. Starfsmaðurinn hefði að þeirra mati átt að reyna að vinna að siðbótum innan stofnunarinnar í stað þess að kjafta frá. Fullyrða má, að slíkum kverúlans hefði verið einkar illa tekið.

Í framvindu máls Árna Johnsen eins og máls Friðriks Pálssonar stjórnarformanns kom í ljós, að sem betur fer er til fólk hér á landi, er fer ekki eftir þeirri siðfræði omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Þeir hlýða samvizkunni og láta þjóðfélagið vita um svínaríið, sem þeir sjá.

Auðvitað verður þjóðfélagið að grípa til varna fyrir samvizkusama flytjendur válegra tíðinda, þegar hagsmunagæzlumenn omertunnar grípa til refsiaðgerða og hrifsa lifibrauðið af þeim.

Jónas Kristjánsson

FB

Félagi Napóleon

Greinar

Þegar núverandi forsætisráðherra var borgarstjóri Reykjavíkur, lét hann reka ræstingakonu fyrir að nota síma hans. Sem forsætisráðherra heldur hann verndarhendi yfir forstöðumanni Þjóðmenningarhúss, sem er í vondum spillingarmálum upp á margar milljónir króna.

Forstöðumaður Landmælinga Íslands var á sínum tíma rekinn og dæmdur fyrir upphæðir, sem nema broti af fjárhæðunum, sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við hjá forstöðumanni Þjóðmenningarhúss. Um fimmtugfaldur munur er á fjárhagslegu umfangi málanna.

Því er eðlilegt, að fólk spyrji, hvers vegna ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru rekin, en forstöðumaður Þjóðmenningarhúss fær bara áminningu. Svarið er einfaldlega, að ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru ekki í hópi pólitískra skjólstæðinga forsætisráðherra.

Af skýrslu Ríkisendurskoðunar má ráða, að forstöðumaður Þjóðmenningarhúss hefur frá upphafi lagt sig fram um að maka krókinn í starfi. Ríkisendurskoðun vísar að öðru leyti málinu til forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra, sem bera ábyrgð á störfum forstöðumannsins.

Komið hefur fram í öðrum málum, t.d. máli Landsbankastjóranna fyrir fjórum árum, að Ríkisendurskoðun lítur á sig sem skoðunarstofu bókhalds. Hún telur ekki á sínu færi að gera tillögur til aðgerða og vísar slíku til ráðuneyta eða Alþingis, sem hún heyrir raunar beint undir.

Því ber forsætisráðuneyti að taka á máli forstöðumannsins og síðan Alþingi, ef það telur forsætisráðherra hafa staðið illa að verki. Forsætisráðherra hefur þegar sýknað forstöðumanninn. Alþingi er auðsveip atkvæðavél forsætisráðherrans og mun því drepa málinu á dreif.

Eini þröskuldurinn í vegi spillingarinnar er embætti ríkissaksóknara, sem starfar óháð öðrum stjórnvöldum og getur tekið upp spillingarmál, sem önnur og spilltari stjórnvöld láta hjá líða að vísa þangað. Embættið hefur þegar sagzt munu taka til meðferðar mál forstöðumannsins.

Spillingin í Þjóðmenningarhúsi er svipaðs eðlis og spillingin í Símanum. Gæludýr eru á framfæri stjórnmálaflokka og -manna. Þau komast til áhrifa í ríkiskerfinu út á pólitísk sambönd. Þau telja sig munu njóta pólitískrar verndar, ef upp kemst um græðgi þeirra. Þau maka því krókinn.

Mat gæludýranna er rétt. Ef þau fara klaufalega gírugt að við kjötkatlana, fá þau áminningu og í versta tilviki starfslokasamning upp á tugi milljóna króna. Almenn lög í landinu um stjórnsýslu, meðferð opinberra fjármuna og hlutafélagalög gilda ekki um pólitísku kvígildin í landinu.

Við búum í þjóðfélagi, sem rithöfundurinn George Orwell lýsti í bókinni: Félagi Napóleon. Öll dýrin eru jöfn, en sum eru jafnari en önnur. Annars vegar er allur almenningur, frá skúringakonum upp í Landmælingastjóra. Hins vegar eru þeir, sem eru í náðinni hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem ekki hafa verið sett ströng lög um fjárreiður stjórnmála. Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem allar réttarbætur almennings koma að utan, frá erkibiskupum Evrópusambandsins, en engar koma innan frá.

Í grundvallaratriðum er Ísland eins konar Afríkuríki, þar sem velgengni manna ræðst af því, hversu duglegir þeir eru að bugta sig og beygja fyrir sjálfum Félaga Napóleon.

Jónas Kristjánsson

FB

Síminn og Enron

Greinar

Sumt er líkt með Símanum og bandaríska stórfyrirtækinu Enron, sem hafa verið í misjöfnum fréttum að undanförnu. Hvort tveggja starfar á jaðri tveggja heima, Enron keypti og seldi einkavæðingu orkugeirans og Síminn hefur um nokkurt skeið rambað á barmi einkavæðingar.

Hvorki-né staðan er önnur rót vandamála fyrirtækjanna tveggja og eigenda þeirra. Í tilviki Símans er farið að losna um tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat ríkisrekstrar, án þess að í staðinn hafi fest rætur tiltölulega fast mótaðar siðareglur og gildismat einkarekstrar.

Önnur rótin er lífsspeki græðginnar, sem hefur að bandarískri fyrirmynd rutt sér til rúms meðal forréttindastétta beggja vegna hafs. Menn hafa tekið trú á klisjuna um, að gróði eins sáldrist til allra hinna. Taumlaus sjálfsbjargarviðleitni eins efli efnahagslífið og magni hag fjöldans.

Þegar lífspeki græðginnar fer saman við losaralegt umhverfi fyrirtækja á breytingaskeiði, verður til eins konar Villta vestrið, þar sem valdamenn fyrirtækjanna sýna ótrúlegt hugmyndaflug við að misnota aðstöðu sína til að skara eld að eigin köku og við að réttlæta framferðið opinberlega.

Þriðja rótin felst í tengslunum við pólitíkina. Hér heima eru raunar allir málsaðilar komnir til skjalanna á pólitískum forsendum frekar en málefnalegum. Í flestum tilvikum eru þeir innstu koppar í búri stjórnmálaflokksins, sem mesta áherzlu leggur á sjálfsbjargarviðleitni.

Vandinn byrjar í sjálfri einkavæðingarnefndinni, sem hefur látið undir höfuð leggjast að setja skorður við lausunginni, sem hefst þegar í aðdraganda einkavæðingar og magnast gegnum allt ferli hennar. Undir verndarvæng einkavæðinganefndar leikur óheft sjálfsbjargarviðleitni lausum hala.

Sjálfur formaður einkavæðingarnefndar gaf tóninn með því að láta greiða sér laun fyrir meinta ráðgjöf, er voru margfalt hærri en þau, sem hann fékk fyrir formennskuna sjálfa. Önnur gæludýr einkavæðingarinnar hafa tekið sér þá aðferð til fyrirmyndar. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Stjórnarmenn ríkisfyrirtækja eru valdir pólitískt og telja stjórnarlaun sín vera greiðslu fyrir að vera til, en ekki fyrir að gera neitt. Þeir sinna því engu því eftirliti og aðhaldi, sem talið er vera hlutverk stjórnarmanna í einkafyrirtækjum. Því gátu ráðamenn Símans leikið lausum hala.

Ekki er von á góðu, þegar pólitísk gæludýr með hugmyndafræði síngirninnar í farteskinu koma að eftirlitslausum ríkisfyrirtækjum, sem eru að breytast í einkafyrirtæki. Niðurstöðuna höfum við séð í nokkrum tilvikum, en hvergi greinilegar en í Símanum, furðulega reknu fyrirtæki.

Af framangreindum ástæðum hefur íslenzk einkavæðing réttilega verið nefnd einkavinavæðing. Ráðamenn þjóðarinnar hafa gripið sérhvert tækifæri einkavæðingar til að koma pólitískum gæludýrum sínum fyrir við kjötkatlana. Gæludýrin fara síðan hamförum í græðginni.

Einkavæðingarnefnd er hluti vandans, en ætti að vera hluti lausnarinnar. Hún ætti að tryggja málefnalegra mannval til forustu ríkisfyrirtækja á breytingaskeiði og einstaklega strangt eftirlit með þeim, í ljósi augljósrar hættu af hinni auknu útbreiðslu á hugsunarhætti græðginnar.

Síminn hefur eins og Enron opinberað fyrir öllum, hvernig Villta vestrið verður til. Þau sýna okkur, að við þurfum skriflegar leikreglur, sem eru miklu nákvæmari en við höfum haft hingað til.

Jónas Kristjánsson

FB

Skjálftar heims og lands

Greinar

Við lifum á mestu brotatímum mannkynssögunnar. Hálfri öld eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar er aftur farið að hrikta í heimsmálunum. Heimsveldi eru að koma og fara, gömul bandalög að riðlast og ný að myndast. Allt hefur verið á hverfanda hveli í einn áratug og verður svo annan áratug enn.

Skjálftavirkni mannkynssögunnar varðar hagsmuni Íslendinga. Hún breytir eðli samtaka, sem við tökum þátt í, og samtaka, sem við höfum ekki tekið þátt í. Hún raðar viðskiptalöndum okkar upp á nýjan hátt, skapar okkur tækifæri og spillir tækifærum okkar. Umhverfi okkar síbreytist hratt.

Landinu hefur lengi verið stjórnað af heimalningum úr lögfræðideild Háskólans, tregmæltum á erlenda tungu og áhugalitlum um hræringar umheimsins. Þeir búa í sérstöku sólkerfi, þar sem sólin heitir Davíð og þar sem verðmætasköpun felst í reikningum fyrir ráðgjafarstörf.

Starfs síns vegna er utanríkisráðherra eini ráðherrann, sem seint og um síðir er farinn að átta sig á jarðskjálftunum í umhverfinu. Þroskasaga hans hefur samt verið svo hæg, að hann áttaði sig ekki á mikilvægi Evrópusambandsins fyrr en það var búið að taka Austur-Evrópu fram fyrir Ísland.

Eftir hálfrar aldar friðsælu kalda stríðsins hófst skjálftatímabilið með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins fyrir réttum áratug. Bjartasta efnahagsvon Asíu hvarf síðan um aldamótin, þegar Japan missti fótanna í fjármálum. Á sama tíma varð Evrópa að nýju að efnahagslegum risa.

Nýjasti skjálftinn er tilkall Bandaríkjanna á þessum vetri til heimsyfirráða. Þau hafna föstum bandamönnum öðrum en Ísrael, hafna fjölþjóðasamningum, heyja stríð og hóta að heyja fleiri slík, og neita kerfisbundið að láta takmarka á nokkurn hátt svigrúm sitt til aðgerða um allan heim.

Allir þessir skjálftar og margir smærri hafa áhrif á tilveru og afkomu Íslendinga, þótt þjóðin sé nú nær hjara veraldar en hún var á blómaskeiði kalda stríðsins. Umhverfi viðskipta, efnahags og hernaðar er orðið breytt og verður innan skamms gerbreytt frá dögum kalda stríðsins.

Einu sinni voru Bandaríkin stærsta viðskiptaland okkar og einu sinni var Japan bjartasta útflutningsvon okkar. Hvort tveggja er liðin tíð. Smám saman hefur Vestur-Evrópa mjakast í þá stöðu að skila okkur öllum þorra útflutningsteknanna, án þess að landsfeður okkar hafi áttað sig.

Áður en skjálftavirknin hófst fyrir rúmum áratug var Atlantshafsbandalagið hornsteinn að tilveru okkar. Nú stefnir allt í óefni hjá því bandalagi, því að Bandaríkin eru á hraðri siglingu frá Evrópu sem bandamanni, af því að Evrópa mun harðneita að taka við tilskipunum hernaðarrisans.

Evrópa hefur sérhæft sig í hægfara útþenslu til austurs og efnahaglegum framförum, hægum að vísu, en þó hraðari en í Bandaríkjunum að undanförnu. Jafnframt hefur Evrópa orðið að hernaðarlegum dvergi, sem getur ekki tekið og vill ekki taka marktækan þátt í heimsvaldabaráttu.

Evrópa og Bandaríkin munu á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar í auknum mæli reyna að sinna hernaðarlegum þörfum sínum utan Atlantshafsbandalagsins til að forðast árekstrana, sem þar verða óhjákvæmilegir. Evrópusambandið mun sjálft yfirtaka staðbundnar stríðsþarfir.

Undir stjórn heimalninganna ratar Ísland í þá stöðu að halda stíft í gamla hornsteina á borð við Atlantshafsbandalagið og Evrópska efnahagssvæðið, sem bila í jarðskjálftum heimsmálanna.

Jónas Kristjánsson

FB

Dr. Jekyll er Mr. Hyde

Greinar

Persaflóastríðinu lauk aldrei. Bush eldri lýsti yfir sigri og skildi uppreisnarmenn í Írak eftir í klóm Saddam Hussein árið 1991. Síðan hefur forseti Íraks ögrað forsetum Bandaríkjanna hverjum á fætur öðrum. Nú er komið að málalokum. Bush yngri hyggst loksins ljúka verki föður síns.

Erfitt er að mæla gegn slíku. Saddam Hussein er sem fyrr hættulegur umhverfinu og reynir að safna fjöldaslátrunarvopnum. Hann er að vísu fastari í sessi en Talibanar í Afganistan, en á þó við að etja eins konar ígildi Norðurbandalags í minnihlutahópum Kúrda í norðri og Sjíta í suðri.

Margir efast um, að Bandaríkin geti reitt sig á mikinn stuðning innan Íraks eftir ófarirnar 1991. Við verðum þó fremur að treysta mati bandarískra herstjóra á stöðunni. Þeir virðast telja sig geta velt Saddam Hussein úr sessi án teljandi mannfórna af sinni hálfu og án mikils mannfalls almennings.

Fyrirhuguð styrjöld Bandaríkjanna við Saddam Hussein Íraksforseta er ekki framhald stríðs þeirra við Talibana og al Kaída í Afganistan. Engin gögn benda til, að Saddam Hussein tengist hryðjuverkum þeirra á Vesturlöndum. Þvert á móti hefur hann haldið sig til hlés um langt árabil.

Ef menn vilja styðja fyrirhugaða árás á Saddam Hussein, geta þeir ekki gert það með tilvísun til aðildar hans að hryðjuverkum á Vesturlöndum. Hún verður aðeins studd þeim rökum, að hún sé eðlilegt framhald af stríði, sem menn létu undir höfuð leggjast að ljúka fyrir einum áratug.

Hitt er svo annað og verra mál, að heimurinn er allt annar en hann var fyrir áratug og raunar allt annar en hann var fyrir hryðjuverkin á Manhattan og í Pentagon í haust. Bandaríkin hafa breytzt. Þau eru orðin að einráðu heimsveldi, sem fer sínu fram án nokkurs tillits til bandamanna sinna.

Þessi breyting hófst fyrir valdatöku Bush yngri og magnaðist eftir hana. Bandaríkin hafa um nokkurt skeið neitað að taka á sig nokkrar alþjóðlegar skuldbindingar til þess að takmarka ekki svigrúm sitt. Bandaríkin hafa tekið við af Sovétríkjunum sálugu sem afl hins illa í heiminum.

Bandaríkin eru nánast að hætta stuðningi við þróunarlöndin og greiða ekki hlut sinn af kostnaði Sameinuðu þjóðanna. Þau undirrita ekki samninga um jarðsprengjubann og efnavopnaeftirlit. Þau hafna alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum og takmörkunum á útblæstri eiturefna.

Raunar ákvað Bush Bandaríkjaforseti í lok síðustu viku að auka útblástur eiturefna eins mikið á þessum áratug og Evrópa hefur tekið að sér að minnka hann á sama tíma. Eiginhagsmunastefna Bandaríkjanna er orðin svo eindregin, að hún er orðin að mestu ögrun mannkyns á nýrri öld.

Með sigrinum í Afganistan fundu Bandaríkin hernaðarmátt sinn og megin. Með auknum stuðningi við hryðjuverkaríkið Ísrael hafa Bandaríkin myndað nýjan öxul hins illa í heiminum, studdan nýjum leppríkjum á borð við Pakistan, sem er ein mesta gróðrarstía hryðjuverka í heiminum.

Evrópa á ekki heima í þessu bandalagi og er farin að átta sig á hinni nýju og alvarlegu stöðu heimsmála. Hver ráðamaður Evrópu á fætur öðrum er farinn að stinga við fótum, Chris Patten, Hubert Vedrine og Joschka Fischer. Menn eru farnir að sjá Dr. Jekyll breytast í Mr. Hyde.

Í ljósi þess, að það eru Bandaríkin og Bush miklu fremur en Írak og Saddam Hussein, sem eru hættuleg umheiminum, má Evrópa alls ekki láta flækja sig í nýtt ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

FB

Þeir töluðu ekki við mig

Greinar

Er samgönguráðherra var spurður álits á brotthvarfi lággjaldaflugfélagsins Go af íslenzkum markaði, sagði hann: “Þeir töluðu ekki við mig.” Að baki orðanna er sú skoðun, að ráðamenn Go hefðu átt að skríða fyrir ráðherranum og væla út afslætti af gjöldum á Keflavíkurvelli.

Á Vesturlöndum tíðkast ekki það þriðja heims siðferði, að rekstur fyrirtækja sé háður fyrirgreiðslum úr stjórnarráði. Þar er talið skaðlegt, að pólitísk sambönd séu meira virði en hefðbundin rekstrarlögmál. Hér á landi ríkis hins vegar þriðja heims siðferði í ráðuneytum.

Sturla Böðvarsson er gróft dæmi um skaðlegan þriðja heims stjórnmálamann. Með fyrirgreiðslum til innlendra gæludýra kom hann í veg fyrir, að almenningur gæti notið ódýrs millilandaflugs í daglegri áætlun. Síðan vildi hann, að ráðamenn Go kæmu og flöðruðu upp um sig.

Annað dæmi um þriðja heims siðferði ráðherrans er 150 milljón króna sjóður, sem hann hefur komið upp í ráðuneytinu til að styrkja markaðssetningu gæludýra í ferðaþjónustu. Ekki var skipuð nein fagleg nefnd til að úthluta þessu fé, heldur ætlar hann að gera það sjálfur.

Samkvæmt vestrænum siðum ber stjórnvöldum að smíða heildarramma, sem henta fyrirtækjum almennt, en ekki stunda sértækar aðgerðir í þágu valinna fyrirtækja. En siðalögmál eiga ekki upp á pallborðið hjá ráðherrum, sem hafa valdamenn frá Afríku sér til fyrirmyndar.

Þannig hefði samgönguráðherra getað notað 150 milljónirnar til að búa svo um hnútana, að flugstöð Leifs Eiríkssonar væri samkeppnishæf við erlendar flughafnir í þjónustu við flugfélög almennt í stað þess að nota peningana til að borga mönnum fyrir að smjaðra fyrir sér.

Ef Keflavíkurflugvöllur væri samkeppnishæfur við flugvelli í Evrópu, mundi samkeppni flugfélaga aukast og ferðamönnum fjölga. Þetta skiptir ráðherrann og ríkisstjórnina engu máli í samanburði við möguleika þeirra á að láta mola hrjóta af allsnægtaborði til gæludýra.

Þriðja dæmið um afríkönsk vinnubrögð ráðherrans er 10 milljón króna styrkur til eins erlends flugfélags til að fljúga frá Evrópu til Egilstaða á háannatíma sumarsins. Þessi fyrirgreiðsla flokkast undir byggðastefnu og hlaut því náð hins sértæka ráðherra, sem hafnaði Go.

Sturla Böðvarsson hefur líka lagt sig í líma við að koma á vægari reglum um heilsufar flugmanna en tíðkast annars staðar í Evrópu og tíðkuðust hér á landi fyrir valdatöku hans. Afleiðingin er, að ferðabransinn í heiminum telur flug á Íslandi hættulegra en annað flug á Vesturlöndum.

Í þessum verkum ráðherrans og mörgum fleirum kemur fram skýr lína: Hlutverk hans er ekki að búa til almennan ramma fyrir heilbrigðan rekstur á sviði samgangna og ferðaþjónustu, heldur að efna til slefandi biðraða væntanlega gæludýra fyrir utan skrifstofu ráðherrans.

Þetta kann að styðja sjálfsmynd lélegs ráðherra, sem hefur hvað eftir annað misstigið sig á stuttum ferli og nýtur stuðnings flugmálastjóra, sem álítur meginhlutverk sitt felast í að friða ráðherrann. Hún er hins vegar skaðleg málaflokki ráðuneytisins og þjóðfélaginu í heild.

Afríkanskrar embættisfærslu að hætti samgönguráðherra verður vart víðar í stjórnkerfinu, þótt komið sé fram á nýja öld og enginn efist lengur um skaðsemi hennar í smáu og stóru.

Jónas Kristjánsson

FB

Annars flokks borgarar

Greinar

Reykvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins eru annars flokks borgarar í landinu. Ríkisvaldið er á ýmsa vegu misnotað gegn þessu fólki. Vegur þar þyngst eindregin byggðastefna núverandi stjórnvalda, einkum í vegagerð og flutningi opinberra stofnana af svæðinu.

Ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið falið að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa flokkinn í borgarstjórn í von um betra veður af hálfu ríkisstjórnarinnar, þótt einstakir ráðherrar kunni stundum að blindast af hatri á núverandi valdhöfum borgarinnar.

Hættulegt væri að reyna að kúga Reykvíkinga til að kjósa rétt, því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn höfuðborgarsvæðinu koma jafnmikið niður á nágrannabyggðum Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er víða við völd, ýmist einn sér eða í samfloti með öðrum flokkum.

Hitt er hins vegar rétt, að flokkar ríkisstjórnarinnar telja sér útlátalaust að níðast á höfuðborgarsvæðinu og íbúum þess. Ráðherrarnir mundu ekki haga sér eins og þeir gera, ef kjósendur létu flokka þeirra gjalda fyrir að gera þá að annars flokks borgurum í landinu.

Aldrei hefur verið sett fram sannfærandi skýring á geðleysi Reykvíkinga og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins gagnvart ríkisvaldinu. Ef til vill hafa þeir hreinlega keypt kenningar um, að þeir séu sjálfir eins konar úrhrök íslenzkrar þjóðmenningar og eigi ekki betra skilið.

Við hverja breytingu kjördæmaskipunarinnar hefur verið reiknað með, að aukinn þingstyrkur suðvesturhornsins mundi draga úr ofbeldi hins opinbera. Sú hefur ekki orðið raunin. Þingmenn svæðisins hafa möglunarlítið leyft stjórnvöldum að valta fram og aftur yfir kjósendur sína.

Næst verða þingmenn höfuðborgarsvæðisins helmingur allra þingmanna í landinu. Enn eru uppi vonir um, að ný tilfærsla leiði til óhlutdrægari viðhorfa stærstu stjórnmálaflokkanna í garð íbúanna á svæðinu, enda eru þeir mikill og vaxandi meirihluti kjósenda í landinu.

Ekkert bendir þó enn til, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hyggist láta stjórnmálaflokka taka afleiðingum gerða sinna gegn svæðinu. Við munum því áfram þurfa að sæta ráðherrum á borð við núverandi samgönguráðherra og núverandi iðnaðar- og stóriðjuráðherra.

Sturla Böðvarsson er dæmigerður fulltrúi aflanna, sem kjósendur í Reykjavík efla til valda í landinu. Hann leggur sig í líma við að hindra brýnustu samgöngumannvirki í Reykjavík til að eiga fyrir jarðgöngum úti á landi, þvert gegn sjónarmiðum um arðsemi og umferðaröryggi.

Það er ekki bara hagsmunamál suðvesturhornsins að koma frá völdum þeim þingmönnum, sem stuðlað hafa að ráðherradómi hatursmanna höfuðborgarsvæðisins, heldur er það líka þjóðarmál, að höfuðborgarsvæðið sé samkeppnishæft við erlenda segla atgervis og peninga.

Höfuðborgarsvæðið er eini staðurinn á landinu, sem getur keppt við útlenda staði um atgervi og peninga á tímum hnattvæðingar. Því er beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt, að íbúar svæðisins láti hið bráðasta af geðleysi sínu og bíði færis að reka þingmenn sína úr starfi.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa að velja sér allt aðra og betri þingmenn, sem tryggja þjóðinni afturhvarf frá öllum þáttum hinnar skaðlegu byggðastefnu núverandi stjórnvalda.

Jónas Kristjánsson

FR

Fjölmenning er slagorð

Greinar

Dæmi nágrannaþjóða sýna, að hægara er sagt en gert að taka við nýbúum hér á landi. Góðan vilja þarf að tempra með raunsæi til að vel fari. Sérstaklega þarf að fara varlega við að nota góðviljuð og eldfim slagorð á borð við fjölmenningu, sem geta valdið bakslagi.

Annars vegar rísa ofbeldishneigðir skallabulluhópar fordóma gegn nýbúum og hins vegar þróast mafíuhópar nýbúa á skjön við siði og reglur nýja landsins. Við eigum að vita þetta allt af skelfilegum dæmum frá löndum á borð við Danmörku, Svíþjóð og Austurríki.

Mikilvægt er, að allir nýbúar í landinu hafi á hreinu, að lög og reglur nýja landsins gildi, en ekki landsins, sem flúið var. Þannig gengur ekki hér á landi að líta á kvenfólk sem hluta af dýraríkinu, þótt það sé gert í ýmsum illa stýrðum löndum, sem fæða af sér flest flóttafólkið.

Þetta þýðir, að konur í hópi nýbúa hafa sama frelsi og sömu skyldur og aðrar konur landsins. Ekki má láta þær giftast fyrr en aðrar konur og feður þeirra hafa engan refsingarétt yfir þeim. Hér eru glæpir og refsing ekki mál stórfjölskyldunnar, heldur sérstakra stofnana.

Þegar nýbúar vilja koma til landsins, er mikilvægt, að þeir séu sem allra fyrst og helzt fyrirfram fræddir um ýmsa viðkvæma þætti, sem eru öðru vísi hér á landi en í heimalandi þeirra. Þeir séu fyrirfram látnir vita, að illa fari, ef þeir vilja ekki þola lög og reglur nýja landsins.

Einnig er mikilvægt, að sem auðveldast og ódýrast sé gert fyrir þá að læra íslenzku, svo að þeir verði gjaldgengir á almennum og opnum vinnumarkaði. Ef nýbúar ganga atvinnulausir eða lokast inni á afmörkuðum atvinnusviðum lágstétta, er hætt við að illa fari til lengdar.

Mikilvægt er að gera greinarmun á tungumálarétti nýbúa og gamalgróinna minnihlutahópa. Kúrdar á Tyrklandi og Baskar á Spáni hafa aldagróinn rétt til að læra í opinberum skólum á sínu tungumáli, en nýbúar verða að gera svo vel að læra á tungu nýja landsins.

Þegar Íslendingar gerðust nýbúar í Kanada fyrir rúmri öld, tóku þeir því sem hverri annarri nauðsyn að læra ensku til að geta komizt áfram í nýja heiminum. Þeir létu sér ekki detta í hug, að ríkisvaldið mundi útvega þeim kennslu á íslenzku og töldu það enga skerðingu mannréttinda.

Hins vegar er mikilvægt, að ríkið greiði kostnað við varðveizlu tungumála nýbúa og stuðli á annan hátt að varðveizlu menningarsérkenna úr upprunalegum heimkynnum þeirra, svo sem trúarbrögðum, tónlist, klæðaburði og matreiðslu. Í því felst raunsæ fjölmenningarstefna.

Vafasamt er til dæmis að banna ákveðinn klæðaburð kvenna í skólum, ef þær telja hann vera hluta af trúarlífi sínu. Frakkar og Tyrkir hafa reynt að banna slæður kvenfólks, en ekki haft árangur sem erfiði. Við þurfum að læra af þessari reynslu eins og annarri slíkri.

Ef skynsamlega og raunsætt er staðið að þátttöku nýbúa í þjóðfélaginu eru um leið dregnar vígtennur úr lýðskrumurum á borð við þá, sem slegið hafa pólitískar keilur í Danmörku og Austurríki út á ótta heimafólks við framandi nýbúa og jafnvel komizt til pólitískra valda.

Nánast öllum ríkjum Evrópu hefur mistekizt meðferð mála nýbúa. Mikilvægt er, að við lærum af mistökum annarra og látum raunsæi ýta vel meintum slagorðum til hliðar.

Jónas Kristjánsson

FB

Ísland má ekki trufla

Greinar

Utanríkisráðherra hefur komizt að raun um það, sem hann grunaði, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á að uppfæra samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Sambandið er svo önnum kafið við að melta Austur-Evrópu, að það vill ekki láta Ísland trufla sig á næstu árum.

Þar sem flest mikilvægustu ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru þegar gengin í Evrópusambandið, er restin af svæðinu ekki lengur í fókus sambandsins. Við fáum ekki tækifæri til að koma hagsmunum okkar á framfæri, þegar Austur-Evrópa gengur í sambandið.

Þetta spillir væntingum um sölu sjávarafurða til uppgangsþjóða Austur-Evrópu. Í stað fyrra tollfrelsis munu sjávarafurðir okkar sæta háum tollum á þeim slóðum. Það verður eitt skýrasta dæmið um tjón okkar af þvermóðsku íslenzkra stjórnvalda gegn Evrópusambandinu.

Með því að neita að taka umsókn um aðild að Evrópusambandinu á dagskrá hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekizt að tefja málið svo lengi, að viðræður sambandsins við Austur-Evrópu eru komnar fram fyrir viðræður við Ísland. Við verðum því úti í kuldanum mörg ár í viðbót.

Þegar Austur-Evrópa er komin í sambandið, verður það orðið að breyttri stofnun með ný og erfið verkefni, sem draga úr getu þess og vilja til að taka milda afstöðu til hagsmuna smáríkis, sem seint og um síðir beiðist inngöngu. Þessi staða er stærsta afrek núverandi ríkisstjórnar okkar.

Við þurfum samt ekki að örvænta, því að þýðendur íslenzkra ráðuneyta munu áfram sitja með sveittan skallann við að snara evrópskum reglum yfir á íslenzku. Það er í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, að reglur sambandsins gildi líka á Íslandi.

Flestar þessar reglur eru gagnlegar. Þær stuðla yfirleitt að fastari reglum um málefnalega stjórnsýslu hér á landi og gæta yfirleitt hagsmuna lítilmagnans gegn þeim, sem völdin hafa og dýrðina. Við höfum þegar séð feiknarlega góð áhrif Evrópusambandsins á íslenzka dómstóla.

Þar sem við erum utan sambandsins, höfum við ekki aðstöðu til að spyrna við fótum í tæka tíð, þegar með reglugerðunum slæðast ákvæði, sem henta verr á Íslandi en á meginlandi Evrópu vegna misjafnra hefða, til dæmis meiri áherzlu á skorpuvinnu og unglingavinnu hér á landi.

Það var einmitt með tilliti til slíkrar sérstöðu, að Svíar ákváðu að ganga í Evrópusambandið til að hafa innan þess áhrif á gang mála, áður en þau yrðu að formlegum reglum. Við verðum hins vegar að sætta okkur við að taka pakkana frá Evrópu eins og þeir koma af skepnunni.

Þessi staða skerðir fullveldi okkar meira en full aðild að sambandinu mundi gera. Enda mun forsætisráðherra reynast erfitt að telja þjóðinni trú um, að henni hafi tekizt betur að varðveita fullveldi sitt utan sambandsins en ríkjum á borð við Danmörku hefur tekizt að gera innan þess.

Of seint er að harma það, sem liðið er. Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir, að inntökuskilyrði sambandsins verða strangari árið 2010 en þau voru 1995. Sambandið mun framvegis hafa minna svigrúm til að taka tillit til séríslenzkra hagsmuna en það hafði áður.

Við fáum hins vegar engu breytt um þá staðreynd, að viðskipti okkar og hagsmunir liggja í löndum stækkaðs Evrópusambands langt umfram Norður-Ameríku og þriðja heiminn.

Jónas Kristjánsson

FB

Leppríki Ísraels

Greinar

Íran á ekki heima á því, sem bardagaglaður Bush Bandaríkjaforseti nefnir “illan öxul” frá Írak til Norður-Kóreu. Afturhaldsöfl klerkastéttar og lýðræðisöfl forseta Írans takast á um völdin í landinu. Við þær aðstæður er mikilvægt, að ekki sé verið að stimpla ríkið sem óargadýr.

Það er hreinn tilbúningur Bandaríkjastjórnar, að Íran hafi komið Talibönum og liðsmönnum al Kaída undan sigurvegurum stríðsins í Afganistan. Íran hefur alltaf verið andvígt báðum þessum öflum af trúarástæðum og var næstum komið í stríð við Talibana fyrir þremur árum.

Talibanar og liðsmenn al Kaída flúðu hins vegar til Pakistans, þar sem þeir eiga öruggt griðland, þar á meðal helztu liðsoddarnir. En Pakistan er í bandalagi við Bandaríkin, svo að ekki má tala um þá staðreynd, heldur skella skuldinni á Íran, sem ekki kemur neitt við sögu í málinu.

Íran hefur hins vegar stutt uppreisnarhópa gegn hernámi Ísraels í Suður-Líbanon og Palestínu, meðal annars með hergögnum. Þetta er eðlilegur stuðningur við þrautkúgað fólk og felur ekki í sér ógnun við Vesturlönd eða Bandaríkin, aðeins við hryðjuverkaríkið Ísrael.

Staðreyndin er sú, að það er Ísrael, sem hefur komið Íran á lista Bandaríkjastjórnar yfir þrjú hættulegustu ríki heimsins, hinn illa öxul frá Írak til Norður-Kóreu samkvæmt orðalagi Bush Bandaríkjaforseta. Hagsmunir Ísraels ráða þessu, en ekki hagsmunir Bandaríkjanna.

Ísrael hefur hreðjatök á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Enginn forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum þorir að láta hjá líða að lýsa yfir eindregnum stuðningi við Ísrael. Og enginn getur náð sæti á Bandaríkjaþingi gegn andstöðu þrýstihópanna, sem gæta hagsmuna Ísraels.

Þessir þrýstihópar stuðningsmanna Ísraels eru svo öflugir í Bandaríkjunum, að enginn stjórnmálamaður kemst til áhrifa þar í landi án þess að fylgja þeim að málum. Víðast annars staðar væru þetta talin landráð, en í Bandaríkjunum virðast kjósendur vera sáttir.

Hér er ekki rúm til að skýra, hvernig stuðningsmenn lítils hryðjuverkaríkis hafa komizt í þá stöðu að stjórna utanríkisstefnu Bandaríkjanna og tefla því á brún styrjaldar við ríki, sem hefur það eitt sér til saka unnið að styðja þrautkúgað fólk á hernámssvæðum Ísraels.

Afleiðingarnar eru hins vegar ljósar. Bandaríkjastjórn er svo upptekin af þjónustu við hagsmuni Ísraels, að hún fórnar í staðinn hagsmunum sínum af góðu samstarfi við Evrópu, til dæmis í Atlantshafsbandalaginu, og bakar sér almennt hatur fólks í löndum íslamskrar trúar.

Blind þjónusta Bandaríkjanna við hagsmuni lítils hryðjuverkaríkis hefur leitt til aukinna áhrifa laustengdra hryðjuverkahópa á borð við al Kaída, sem eiga einkum trúarlegar rætur sínar í Sádi-Arabíu, en ekki í Íran, og beina spjótum sínum gegn Bandaríkjunum.

Hryðjuverkin á Manhattan og árásin á Afganistan eru þættir í vítahring, sem byggir tilveru sína á því, að Bandaríkin hafa hafnað evrópskum sjónarmiðum í garð íslams og leggja utanríkisstefnu sína í sölurnar fyrir eitt mesta vandræðaríki heims um þessar mundir.

Segja má, að rófan sé farin að veifa hundinum of hastarlega, þegar Bandaríkin koma fram á alþjóðavettvangi sem leppríki Ísraels og eru í því hlutverki farin að stofna heimsfriðnum í voða.

Jónas Kristjánsson

FB

Glæpagengi úthýst

Greinar

Vítisenglar, sem komu til landsins fyrir helgi, fengu rétta meðferð lögreglunnar. Umsvifalaust var vísað til baka þeim, sem höfðu verstu glæpina á samvizkunni. Hinir, sem minna höfðu brotið af sér, voru hafðir undir eftirliti, unz úrskurður fékkst um, að einnig mætti vísa þeim úr landi.

Vítisenglar eru einn af mörgum hópum vestrænna glæpamanna, sem eru okkur miklu hættulegri en íslamskir hryðjuverkamenn á borð við Talibana og al Kaída. Vítisenglar eru ein af svokölluðum mafíum Vesturlanda, sem grafa undan þjóðfélaginu með skipulögðum glæpum.

Íslamskir hryðjuverkahópar hafa lítinn áhuga á Íslandi. Landið er of lítið og afskekkt fyrir fréttnæm hryðjuverk. Þar á ofan er það í Evrópu, sem ekki telst lengur hinn sami djöfull og Bandaríkin eru í augum margra múslima eftir langvinnan og eindreginn stuðning þeirra við Ísrael.

Sem betur fer hefur linnt gömlu sambandi Íslands og Ísraels. Því harðskeyttara hryðjuverkaríki, sem Ísrael hefur orðið á síðustu áratugum, þeim mun meira hefur það fjarlægzt okkur. Kúgaðir og niðurlægðir Palestínumenn njóta vaxandi samúðar hér á landi og það vita múslimar.

Við þurfum samt að gæta okkar, ekki á austrænum ofsatrúarmönnum, heldur á vestrænum glæpamönnum, sem hvað eftir annað hafa reynt að teygja anga sína til Íslands. Einna oftast hafa Vítisenglar reynt að koma sér fyrir hér á landi með aðstoð íslenzkra meðreiðarsveina.

Fleiri gengi eru hættuleg en Vítisenglar, sem hafa þann Akkillesarhæl að ganga í auðþekktum einkennisbúningum og bera augljós líkamslýti. Flestar mafíur senda hingað borgaralega klædda menn, sem ekki stinga í stúf við hversdagslega ferðamenn eða kaupsýslumenn.

Viðfangsefni þessara glæpamanna er hið sama, hvort sem þeir bera húðmerki, sólgleraugu eða engin sérkenni. Þeir reka nætur- og nektarklúbba með tilheyrandi vændi. Þeir reka spilavíti. Þeir selja ólögleg fíkniefni. Þeir fylla einfaldlega í eyður þess, sem bannað er eða fordæmt.

Einfaldasta leiðin til að kippa fótunum undan rekstri ýmiss konar glæpasamtaka er að lögleiða vændi og spilavíti og hefja ríkissölu á ólöglegum fíkniefnum, rétt eins og hinum löglegu, það er að segja áfengi og læknalyfjum. Þar með hefðu mafíur ekkert upp úr sér hér á landi.

Munurinn á vestrænum mafíum og austrænum ofsatrúarhópum er, að hinir fyrrnefndu ganga fyrir peningum og sækja þangað, sem þá er að hafa. Meðan við höfum boð og bönn, sem gefa kost á fjárhagslegri neðanjarðarstarfsemi, þurfum við að hreinsa landið með lögregluvaldi.

Versta einkenni glæpahópanna er, að þeir flytja með sér sérstæðar siðareglur, sem stinga í stúf við hefðbundnar siðareglur. Þeir mynda eins konar ríki í ríkinu, þar sem gilda önnur lög en gilda í þjóðfélaginu almennt. Þannig grafa þeir undan samfélaginu og eitra það að innan.

Við þurfum að nýta til fulls samstarfið í Schengen, Europol og Interpol til að hindra landgöngu fólks, sem á aðild að skipulögðum glæpasamtökum. Jafnframt þurfum við að finna leiðir til að koma aftur á vegabréfaskoðun, þrátt fyrir ákvæði Schengen-samkomulagsins um vegabréfalausar ferðir milli landa.

Samræmdar aðgerðir löggæzlunnar gegn Vítisenglum í síðustu viku sýna sem betur fer fullan vilja á að varðveita lög og rétt hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB