Greinar

Hroki og silfurskeið

Greinar

Reykvíkingar eiga dapurra kosta völ í borgarstjórnarkosningunum í sumar. Stóru fylkingarnar hafa ákveðið að láta þær eingöngu snúast um sterka leiðtoga, sem muni heyja einvígi í kosningabaráttunni. Vafalaust telja hönnuðir baráttunnar, að það henti ófullveðja kjósendum.

Annars vegar er boðin endurnýjuð leiðsögn borgarstjóra, sem hefur fengið átta ár til að þróa með sér hrokann, er greinilega sést í orðahnippingum í sjónvarpi. Miklar vinsældir borgarstjórans í könnunum sýna, að Reykvíkingum hentar að lúta vilja hins sterka leiðtoga.

Gegn þessu er borgarbúum boðinn ættarlaukur, sem fæddur er með silfurskeið í munni og fær vegsemdir sínar á silfurfati. Frægasta silfurfatið er það síðasta, þegar hann gat mánuðum saman ekki ákveðið sig og þurfti flókna hönnun atburðarásar til að verða borgarstjóraefni.

Fylkingarnar hafa ákveðið að fela óbreytta frambjóðendur bak við leiðtogana, enda sýna skoðanakannanir, að nánast undantekningarlaust eru venjulegir borgarfulltrúar með allra óvinsælustu mönnum. Pólitíkusar í landsmálum mælast ekki eins hrapallega og þeir.

Í þriðju og minnstu sveit fara fulltrúar hinna vansælu, sem bjóða öllum ófullnægðum sérhagsmunum faðminn, hversu ólíkir og andstæðir sem þeir eru innbyrðis. Þetta er dæmigert einna kosninga framboð, sem getur auðveldlega komizt í oddaaðstöðu á næsta kjörtímabili.

Litlu skiptir, hverjir sigra í sumar. Reykjavíkurlistinn hefur á átta árum sýnt fram á, að völd hans jafngilda ekki móðuharðindum. En hann hefur ekki sýnt fram á, að merkjanlegur munur sé á honum og Sjálfstæðisflokknum, enda eru borgarmál fremur tæknileg en pólitísk.

Í rauninni eru það embættismenn, sem ráða borginni. Á nefndafundum hafa þeir algera yfirburði yfir dáðlitla borgarfulltrúa, sem ekki hafa neitt tæknivit, en hafa þeim mun meiri áhuga á fyrirgreiðslum. Embættismenn matreiða upplýsingar ofan í pólitíska nefndarmenn.

Skipulagsnefnd borgarinnar er dæmi um þetta ójafnræði, þar sem illa upplýstir borgar- og varaborgarfulltrúar hafa smám saman fengið það vanþakkláta hlutverk að verja misvitrar ráðstafanir embættismanna, sem sumir hverjir telja sig eiga borgina með húð og hári.

Lína-Net er málið, sem helzt gæti leitt til hreins meirihluta annarrar af stóru fylkingunum. Ef stuðningsmönnum þess tekst að sýna fram á, að vit sé í skýjaborgunum, fá þeir bónus hjá borgarbúum, annars fá andstæðingarnir bónus. Á þessu stigi er ekki hægt að spá niðurstöðunni.

Úrslit kosninganna gætu haft skemmtileg hliðaráhrif á landsmálin, ef núverandi meirihluti og Ólafur læknir sameinast um nýjan meirihluta, sem ákveður, að fulltrúar borgarinnar í Landsvirkjun vinni gegn Kárahnjúkavirkjun og magni þar með mikil vandræði málsins.

Líkur eru þó á, að flestir borgarbúar velji milli dálætis síns á hrokafulla borgarstjóranum annars vegar og borgarstjóraefninu með silfurskeiðina og silfurfatið hins vegar. Málefni á borð við Línu-Net munu falla í skugga forgangsröðunar kjósenda á slíkum mannkostum leiðtoganna.

Niðurstaðan er augljós. Stjórnmálamenn koma og fara, en misvitrir embættismenn sitja sem fastast, þrautþjálfaðir í að matreiða upplýsingar ofan í fáfróða borgarfulltrúa.

Jónas Kristjánsson

FB

Einstök Ameríka

Greinar

Meðferð stríðsfanga Bandaríkjanna á Kúbu er orðin frambærileg samkvæmt upplýsingum Rauða krossins. Furðuleg myndskeið, sem ollu gagnrýni í Evrópu, voru framleidd af bandaríska hernum fyrir bandaríska fjölmiðlaneytendur, sem hrópuðu á hefnd fyrir hryðjuverk.

Annars vegar höfum við kröfuna um, að Bandaríkin fari eftir alþjóðasáttmálum, sem þau hafa undirritað, og hins vegar kröfu bandarískra kjósenda um, að herinn hefni sín á óbreyttum hermönnum fyrir hryðjuverk, sem týndir forustumenn þeirra létu fremja í Bandaríkjunum.

Alþjóðasáttmálar um meðferð stríðsfanga eru gamlir og hafa lifað af tvær heimsstyrjaldir. Bandaríkjamenn eru á þessu sviði sem ýmsum öðrum komnir út á hálan ís. Viðhorf þeirra til umheimsins eru ekki til þess fallin að skapa frið um Bandaríkin í náinni og fjarlægri framtíð.

Bandaríkin eru hætt að undirrita alþjóðlega sáttmála og eru þar ýmist ein á báti eða í miður skemmtilegum félagsskap örfárra ríkja á borð við Jemen og Súdan. Þar á ofan neitar þingið að staðfesta um 60 fjölþjóðasáttmála, sem fulltrúar Bandaríkjanna höfðu áður undirritað.

Bandaríkin eru eina landið í heiminum, sem ekki er aðili að Kyoto-bókuninni um útblástur mengunar. Þau neita að undirrita bann við framleiðslu og sölu jarðsprengja, sem í þriðja heiminum hafa valdið takmarkalitlum þjáningum barna, er kunna fótum sínum ekki forráð.

Bandaríkin neita að skrifa undir hert eftirlit með framleiðslu efnavopna, af því að þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt á því sviði, eins og þau vilja ekki þrengja svigrúm sitt til að framleiða, selja og nota jarðsprengjur. Þau vilja yfirleitt alls ekki skerða fullveldi sitt á neinn hátt.

Bandaríkin stunda viðskiptaþvinganir gegn nærri helmingi ríkja heimsins. Sem betur fer er sameinuð Evrópa svo sterk, að Bandaríkin geta ekki náð fram vilja sínum þar. En fátækar þjóðir þriðja heimsins verða að sæta viðskiptalegu ofbeldi Bandaríkjanna, til dæmis í þágu Enron.

Eitt alvarlegasta ágreiningsefni Evrópu og Bandaríkjanna er alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem stofnaður hefur verið í Haag að frumkvæði Evrópu. Bandaríkin heimtuðu, að þar mætti ekki dæma Bandaríkjamenn og neituðu að vera með, þegar sú krafa náðist ekki fram.

Svo langt gengur tilfinning Bandaríkjamanna fyrir sérstöðu sinni, að þingið hefur samþykkt lög, sem skylda forseta landsins til að fara í stríð við lönd, sem draga bandaríska borgara fyrir stríðsglæpadómstól. Þessi undarlegu lög eru í gamni kölluð: Lögin um árásina á Haag.

Bandaríkin eru skuldseigasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Fátæku löndin borga sitt með skilum, en Bandaríkin aðeins hluta af sínu og þá með eftirgangsmunum og skilyrðum. Enda hafa Bandaríkin í kjölfarið tapað sæti í mannréttindanefnd og fíkniefnanefnd samtakanna.

Bandaríkjamenn eiga það sameiginlegt með Ísraelsmönnum að telja sig guðs útvalda þjóð, sem sé handhafi réttlætis og sannleika og þurfi ekki að takmarka svigrúm sitt að hætti annarra þjóða. Þeir líta á sig sem einstaka þjóð í heiminum og haga sér í samræmi við það.

Ríka Evrópa er eini heimshlutinn, sem ekki lætur hina guðs útvöldu þjóð valta yfir sig. Annars staðar í heiminum láta menn sér nægja að óttast, sleikja og hata einstaka Ameríku.

Jónas Kristjánsson

FB

Kauptu ekki hlutabréf

Greinar

Hlutabréfakaup og -sala eru ágætt gróðafæri fyrir hákarla í djúpu lauginni. Þú átt ekkert erindi í þessa laug fjármálaheimsins, hvorki einn sér né með leiðsögn ráðgjafa á borð við svokallaða fjárvörzlumenn í bönkum. Hlutabréf eru fyrst og fremst ágætur vettvangur fyrir innherja.

Hlutabréf eru meira að segja hættuleg almenningi í Bandaríkjunum, þar sem reglur um upplýsingaskyldu fyrirtækja þykja betri en annars staðar og að minnsta kosti ýtarlegri en hér á landi. Nýjasta dæmið um það er gjaldþrot Enron, sem var með stærstu orku- og olíufélögum.

Stjórnendur og endurskoðendur fyrirtækisins vissu hvert stefndi, gáfu kolrangar upplýsingar um afkomuna, eyddu mikilvægum skjölum, skutu hagsmunum sínum undan með því að selja hlutabréf í kyrrþey og létu almenna hluthafa og starfsmenn sitja uppi með sárt ennið.

Græðgin í Bandaríkjunum kemur hingað, ef hún lifir ekki þegar góðu lífi hér á landi. Innherjar vita einir, hvernig staðan er og hvernig mál munu þróast. Þeir vita einir, hvert þeir ætla að stefna málum fyrirtækisins. Þeir hafa pólitísk sambönd, sem koma eða koma ekki að gagni.

Flestir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna eru hluthafar í Enron, sumir stórir. Þegar vandræði fyrirtækisins voru byrjuð að hrannast upp í fyrra, hafði Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna forustu um að misnota ríkisvaldið til að reyna að bjarga fyrirtækinu.

Meðal annars fóru fulltrúar margra ráðuneyta til Indlands til að hóta stjórn landsins bandarískum refsiaðgerðum, ef hún leysti Enron ekki undan skyldum sínum sem aðaleigandi misheppnaðs orkuvers í Dabhol. Þetta fantabragð mistókst, af því að Indverjar létu ekki kúga sig.

Hér á landi höfum við einnig séð ríkisvaldið misnotað í þágu innherja. DeCode Genetics fékk ókeypis einkaleyfi og fékk að gera uppkast að reglugerð um meðhöndlun á sjúkraskýrslum, rétt eins og Enron fékk að hafa áhrif á reglugerð um ríkisstuðning við olíuleit í framhaldi af hugsanlegum orkuskorti vegna ófriðarhættu.

Ríkisstuðningurinn við Enron dugði ekki og fyrirtækið var látið rúlla, þegar innherjarnir höfðu í kyrrþey losað sig við hlutafé sitt. Verðgildi hlutafjár í Enron gufaði upp, án þess að venjulegir hluthafar áttuðu sig á, hvaðan á þá stóð veðrið, líka þeir sem vissu um ríkisafskiptin.

Hér á landi eru margir, sem þykjast vera sérfræðingar í hlutabréfum og mæla með slíkri fjárfestingu umfram kaup á stöðugri pappírum á borð við opinber skuldabréf. Þeir notuðu uppsveiflu á síðari hluta síðasta áratugar til að tala hlutabréf upp í fjölmiðlum og í almennri ráðgjöf.

Árin 2000 og 2001 sáum við, að bjartsýni þessara svokölluðu sérfræðinga átti ekki við rök að styðjast. Þeir, sem fjárfestu í hlutabréfum, töpuðu yfirleitt peningum, meðan hinir varðveittu höfuðstólinn, sem fóru með löndum í fjárfestingunni og sættu sig við minni væntingar.

Fjárvörzlumenn í bönkum og aðrir meintir sérfræðingar vita lítið meira en þú um stöðu og þróun mála. Yfirleitt er þetta ungt fólk, nýskriðið úr skólum. Það áttar sig ekki á aðstæðum, en er vopnað takmarkalausu og ástæðulausu trausti á getu sína til að fara með annarra manna fé.

Raunar skiptir litlu, hversu mikið fjárvörzlumenn þroskast á mistökum sínum. Þeir vita alltaf minna en hákarlarnir í djúpu lauginni.

Jónas Kristjánsson

FB

Skert flugöryggi

Greinar

Samgönguráðuneytið hamast við að segjast ekki hafa gefið læknum nein fyrirmæli um að hunza reglur um flugöryggi. Samt hefur það ítrekað og jafnvel skriflega varað lækna, sem koma að nýjasta hneyksli íslenzkra flugmála, við að nota gildandi reglur um heilsufar flugstjóra í farþegaflugi.

Fyrirmælin kunna að kallast ítarlegar ábendingar eða þrábeiðni á sérkennilegu málfari ráðuneytisins. Orðhengilshátturinn megnar þó ekki að draga fjöður yfir þá staðreynd, að ráðuneytið hefur eindregið varað lækna við að nota grónar reglur, sem hafa verið notaðar hér á landi í rúma tvo áratugi.

Þetta eru samevrópskar reglur, sem þráfaldlega er vísað til í íslenzkri reglugerð um flug. Í meira en tvo áratugi hefur engum dottið annað í hug en, að þessar reglur væru hornsteinn íslenzkra flugmála. Enda eru þær grundvöllur þess, að Íslendingum sé treyst til að stunda farþegaflug.

Fyrir dæmigerða íslenzka handvömm hefur einn kafli ekki enn verið þýddur á íslenzku. Á þeirri handvömm starfsmanna sinna hangir samgönguráðherra eins og hundur á roði, þegar hann reynir að slaka á kröfum um öryggi í flugi á vegum íslenzkra aðila til að þjónusta heimtufrekju manna úti í bæ.

Í meira en tvo áratugi hefur hér á landi verið notuð evrópska öryggisreglan um, að flugmenn megi ekki fljúga, ef meira en 1% líkur eru á, að sjúkdómur þeirra taki sig upp meðan þeir eru að störfum. Til skamms tíma datt engum í hug að slaka á þessu, þótt sumum kunni að hafa fundizt það hart aðgöngu.

Nú gengur ráðherrann hins vegar berserksgang til að tryggja, að flugstjóri, sem hefur verið metinn með fjórfalt til nífalt meiri áhættu, fái leyfi til að fljúga. Þetta virðist ekki vera flokkspólitísk ákvörðun, heldur sauðþrái ráðherra, sem hefur látið gabba sig og hefur engan skilning á afleiðingunum.

Handafl skilningsvana ráðherra hefur leitt til þess, að valinkunnum trúnaðarlækni flugmálastjórnar hefur verið vikið úr starfi tímabundið og enginn hefur fengizt til að koma í hans stað. Ráðherrann hefur haft flugmálastjóra að fífli og mátti sá embættismaður þó ekki við fleiri uppákomum en þeim, sem fram að þessu höfðu hrjáð stofnun hans.

Engin leið var að hindra, að flumbrugangur ráðherrans fréttist til útlanda, þar sem öryggi er í meiri hávegum haft. Eftirmálin eiga eftir að koma í ljós að fullu. Evrópskir aðilar hafa sent hingað fyrirspurnir og fengið svör, sem magna grunsemdir um, að ekki sé allt með felldu hér á landi.

Flugleiðir hafa mikla hagsmuni af, að ekki sé litið á Ísland sem vandamál í flugöryggi. Undarlegt er, að félagið skuli ekki hafa gengið fram fyrir skjöldu til að reyna að vinda ofan af hvatvísi ráðherrans. Sama má segja um samtök flugmanna, sem hafa hag af, að íslenzkum flugmönnum sé treyst.

Skortur á öryggi í flugi hefur hvað eftir annað verið í umræðunni á undanförnum misserum. Umræðan segir okkur, að lélegir embættismenn og lélegur ráðherra eru að klúðra góðri stöðu, sem Agnar Koefoed Hansen, þáverandi flugmálastjóri, og ýmsir fleiri byggðu upp fyrir nokkrum áratugum.

Afleitt er, að hvert atvikið á fætur öðru skuli rýra traust á íslenzkri flugmálastjórn. Rannsóknarnefnd flugslysa er lamað fyrirbæri, embætti trúnaðarlæknis er ekki skipað, flugmálstjóri hleypur út og suður til að þóknast aumasta ráðherra landsins, sem er orðinn hættulegur öryggi flugfarþega.

Þegar mál snúast um öryggi í flugi mega ráðamenn ekki hagað sér eins og þeir séu að fjalla um sínar ær og kýr, fyrirgreiðslu í þágu þeirra frekustu.

Jónas Kristjánsson

FB

Hræsni ræður heimi

Greinar

Jafnvel Sýrlandsstjórn þykist vera að berjast gegn hryðjuverkum, þegar hún ofsækir stjórnarandstæðinga í landinu. Eftir stríðið í Afganistan stimpla nánast allar harðstjórnir heimsins andstæðinga sína sem hryðjuverkamenn. Þannig sækjast þær eftir náðarfaðmi Bandaríkjanna.

Allir kúgaðir minnihlutahópar fá núna stimpil hryðjuverkafólks. Kínastjórn ofsækir fólk í Tíbet og Sinkíang og segir það vera hryðjuverkamenn. Rússlandsstjórn ofsækir fólk í Tsjetsjeníu og segir það vera hryðjuverkamenn. Ríkisrekin hryðjuverk eru afsökuð með slíkum stimpli.

Móðir allrar hræsni af þessu tagi er samráð Bandaríkjanna og Ísraels um að kalla Palestínumenn hryðjuverkamenn. Það er þjóð, sem Ísraelsríki ofsækir linnulaust á allan hátt með markvissum aðgerðum til að niðurlægja allan almenning og gera honum lífið í landinu óbærilegt með öllu.

Þetta eru raunar mestu hryðjuverkaríki heimsins. Bandaríkin reka hryðjuverkaskóla í Fort Benning fyrir upprennandi herforingja og leynilögreglumenn frá suðurhluta álfunnar. Nemendur skólans hafa margfalt fleiri morð á samvizkunni en stuðningsmenn Osama bin Laden.

Styrjöld Bandaríkjanna í Afganistan er ekki barátta gegn hryðjuverkum í heiminum. Hún er hefndarstríð einnar hryðjuverkastjórnar gegn lausbeizluðum hryðjuverkahópum, sem eru hættulegir Vesturlöndum. Þetta stríð var nauðsynlegt, en það er ekki stríð gegn hryðjuverkum.

Talibanar voru slæmir stjórnarherrar, en það eru arftakar þeirra einnig. Að sumu leyti er ástandið í Afganistan betra en það var fyrir stríð og að sumu leyti er það verra. Áhrif vestrænna eftirlitssveita ná lítið lengra en til höfuðborgarinnar. Annars staðar leika glæpamenn lausum hala.

Reynt er að kynna Norðurbandalagið sem eins konar frelsissveitir í Afganistan. Í rauninni er þetta upp til hópa glæpalýður, sem lifir á ránum og sölu fíkniefna. Þeir taka bíla og matvæli hjálparstofnana traustataki. Talibanar voru sumpart skárri, því að þeir voru andvígir sölu fíkniefna.

Þannig eru mál ekki eins svarthvít og bandarískir fjölmiðlar vilja vera láta, er þeir fjalla um svokallaða baráttu sinna manna gegn hryðjuverkum í heiminum. Fjölmiðlarnir eru tryggir stjórnvöldum og hallir undir hagsmunagæzlu hennar í útlöndum, vandlega sveipaða í hræsni.

Nú síðast er Íran gagnrýnt fyrir að hafa skotið skjólshúsi yfir landflótta liðsmenn Osama bin Laden. Staðreyndin er hins vegar sú, að Íranir eru shítar og hafa sem slíkir alltaf verið andvígir Talibönum sem róttækum súnnítum, allt frá þeim tíma, er Bandaríkin komu Talibönum til valda sællar minningar.

Enn ein hræsnin er sú, að handteknir stuðningsmenn Osama bin Laden séu ekki hermenn, heldur hryðjuverkamenn, sem alþjóðlegir sáttmálar um meðferð stríðsfanga nái ekki yfir. Þannig er Bandaríkjastjórn sjálf orðin fangi eigin áróðursstríðs og farin að brjóta alþjóðlegar siðareglur.

Af öllu þessu má ráða, að stríðið í Afganistan var ekki barátta góðs og ills. Það var hagsmunastríð gegn ákveðinni tegund hryðjuverka, sem beinist gegn Vesturlöndum, einkum Bandaríkjunum. Sem slíkt var stríðið nauðsynlegt, þótt efast megi um gildi sumra aðgerða, sem nú standa yfir.

Stríðið við Afganistan hefur verið vinsælt. Það hefur gefið hræsninni greiðari leið að hjörtum hinna trúgjörnu og magnað hana sem helzta hreyfiafl heimsmála.

Jónas Kristjánsson

FB

Hægri grænir

Greinar

Ólafur F. Magnússon gæti kallazt hægri grænn. Hann hefur til skamms tíma verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og einn af helztu talsmönnum náttúruverndar. Þessi pólitíska blanda gekk ekki upp. Ólafur var frystur á minnisstæðan hátt á landsfundi í vetur.

Stjórnmálaflokkar rúma yfirleitt margvísleg sjónarmið. Þeir eru fyrst og fremst kosningavélar til að koma mönnum til valda og reyna því að breiða út faðminn. “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” er kunn biblíutilvitnun, sem Jóhann Hafstein notaði eitt sinn á frægum landsfundi.

Að svo miklu leyti sem flokkar hvíla á hugmyndafræðilegum grunni, endurspegla þeir átök fyrri tíma, svo sem stéttabaráttu, velferð og markaðsbúskap. Þeim var ekki komið á fót til að taka afstöðu til fólksflutninga innanlands, náttúruverndar eða afgjalds fyrir notkun auðlinda sjávar.

Enn síður veitir hugmyndagrunnur flokkanna greið svör við afstöðunni til flugvallar í Vatnsmýri eða hagsmuna aldraðra og öryrkja, sem undanfarið hafa verið tilefni ráðagerða um stofnun tímabundinna eins máls stjórnmálaflokka. Gömlu flokkarnir eru gamlir belgir með gömlu víni.

Þetta flækir stöðu flokka og kjósenda. Sífellt fjölgar ágreiningsefnum, sem ekki verða skilgreind samkvæmt flokkakerfinu. Sum þeirra eru svo heit, að gömlu og grónu flokkarnir treysta sér ekki til að taka afstöðu til þeirra af ótta við að fæla frá sér kjósendur á annan veginn eða hinn.

Kjósendur standa andspænis vali um forgangsröð. Hvort vegur til dæmis þyngra, hefðbundið viðhorf til flokks eða nýtt mál á borð við stórvirkjun í óbyggðum eystra. Sumir komast að niðurstöðu um flokkaskipti eða tryggð við flokk, en aðrir lenda í pattstöðu og geta engan flokk stutt.

Sagan segir okkur, að hér á landi sé rúm fyrir fjóra stjórnmálaflokka, sem allir séu fyrst og fremst kosningavélar. Nútíminn er greinilega svo flókinn og síbreytilegur, að erfitt er að finna öllum mikilvægum sjónarmiðum stað í kerfinu. Þess vegna skjóta eins máls flokkar upp kolli.

Sjálfstæðisflokkurinn var soðinn úr íhaldsflokki embættismanna og frjálslyndum flokki kaupsýslumanna. Þetta ótrúlega hjónaband hefur haldizt um áratugi. Nú er hins vegar svo komið, að flokkurinn vill tæpast rúma suma umhverfissinna og vandar þeim ekki kveðjurnar á landsfundi.

Umhverfissinnar, sem vilja ekki fyrirhugaðar stórvirkjanir á hálendinu, verða því að ákveða, hvort vegi þyngra í valinu, þau atriði, sem áður leiddu til stuðnings þeirra við flokka á borð við Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokk eða stuðningur þessara flokka við virkjanir á hálendinu.

Forgangsröð einstakra kjósenda getur breytzt. Þannig ákveða sumir að refsa flokki sínum í einum kosningum, en falla svo aftur í faðm flokksins í kosningunum þar á eftir. Þannig verða til sveiflur í fylgi flokka, sem yfirleitt eru þó miklu vægari en sveiflur flokkafylgis í skoðanakönnunum.

Erfiðleikar gamalla flokka við að taka á nýjum málum, sem koma ört til sögunnar, hafa almennt á Vesturlöndum leitt til eflingar utanflokkasamtaka, sem keppa við flokka um hylli og baka sér oft hatur sumra þeirra, svo sem reynslan hefur orðið hér á landi um flest umhverfissamtök.

Sérmálasamtök ganga vel meðan þau skilgreina sig sem utanflokkasamtök. Fari þau hins vegar að gæla við framboð, svo sem framboð aldraðra og öryrkja, sem nokkuð hefur verið rætt í vetur, fer samkvæmt erlendri reynslu illa fyrir þeim. Eins eða tveggja mála flokkar hafa litla von.

Hins vegar geta vel rekin utanflokkasamtök haft málefnalega meiri áhrif en kosningavélar þær, sem við þekkjum undir nafninu stjórnmálaflokkar.

Jónas Kristjánsson

FB

Jólagjöfin í ár

Greinar

Kárahnjúkavirkjun er jólagjöf ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar í ár. Umhverfisráðherra hefur hnekkt úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins, sem lagðist gegn virkjuninni. Niðurstaða ráðherrans verður eftir áramót lögð fyrir Alþingi, þar sem hún verður lögfest.

Orkuverið og álverið, sem reist verða austur á landi munu hafa mikil áhrif í þjóðfélaginu og náttúrunni. Flestir landsmenn eiga að hafa hugmynd um náttúruspjöllin, en minna hefur verið rætt um efnahagsspjöllin af völdum þessarar jólagjafar ríkisstjórnarinnar.

Álverið á Reyðarfirði verður ólíkt fyrri álverum í Straumsvík og á Grundartanga, sem erlendir aðilar eiga að fullu. Nýja álverið verður að mestu leyti reist fyrir innlent fé, því að Norsk Hydro vill bara eiga fjórðung fyrir að fá einokun á hráefnum og afurðum versins.

Álver eru dýrasta aðferð í heiminum við að búa til vinnustaði. Innlenda fjármagnið í álverið á Reyðarfirði verður ekki notað til annarra verkefna, sem gefa miklu fleiri atvinnutækifæri á betri lífskjörum. Álverið sogar til sín fé, sem annars færi til arðbærra nútímastarfa.

Raforkuverð Austurlandsvirkjunar til Reyðaráls verður leyndarmál, af því að það verður lágt. Við þekkjum vandann frá þeirri stóriðju, sem fyrir er í landinu, einkum járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem reist var að frumkvæði ríkisins og fær nánast gefins orku.

Vegna góðra skilyrða til virkjunar vatnsafls og gufu hér á landi ætti rafmagn að vera tiltölulega ódýrt. En niðurgreiðsla rafmagns til stóriðju veldur því, að rafmagn er tiltölulega dýrt hér á landi til annars iðnaðar og til almennings, sem borga þannig daglegan stóriðjuskatt.

Dæmið fyrir austan er svo erfitt, að ríkið mun telja sig knúið til að hlaupa undir bagga til að liðka fyrir fjármálum orkuvers og álvers á beinan og óbeinan hátt. Skattgreiðendur munu þurfa að borga brúsann af tilraunum ríkisins til að láta fjárhagsdæmið ganga upp.

Ríkið mun veita verðmætar ríkisábyrgðir án þess að taka neitt fyrir sinn snúð. Það mun taka áhættu fyrir hönd skattgreiðenda, án þess að greiðsla komi fyrir í samræmi við markaðslögmál. Ríkið mun veita ýmsar aðrar ívilnanir til að draga hluthafa inn í dæmið.

Meðal annars mun ríkið hlífa málsaðilum við að greiða fullar bætur fyrir óafturkræfan skaða, sem þeir valda náttúrunni. Alþjóðabankinn er farinn að meta slíkan skaða til fjár og fær út himinháar tölur, sem eru langt fyrir ofan það, sem jólagjöfin í ár getur staðið undir.

Virkjunin við Kárahnjúka mun stórspilla stærsta hálendisvíðerni Evrópu, þar á meðal rúmlega hundrað fossum. Uppistöðulón með breytilegu vatnsborði munu valda uppblæstri gróðurþekju hálendisins. Stórfelldir vatnaflutningar munu raska náttúrunni niðri í byggð.

Dæmin hér að ofan benda til, að Austurlandsvirkjun og Reyðarál muni verða þjóðinni dýr. Þau muni skaða atvinnuvegi, orkunotendur og skattgreiðendur um ókomna framtíð og valda náttúruspjöllum, sem aldrei verða bætt. Verið er að fórna hagsmunum afkomenda okkar.

Íslendingar verða hafðir að háði og spotti um allan hinn vestræna heim fyrir þá heimsku, að láta þrönga sérhagsmuni valda öllu þessu tjóni á peningum og náttúru. Ekki getum við borið fyrir okkur vanþekkingu, því að öll vandamálin eru orðin kunn fyrir löngu.

Skugginn af jólagjöf ríkisstjórnarinnar í ár mun verða langur og fylgja þjóðinni langt inn í ókomna framtíð, óbrotgjarn minnisvarði um skammsýni og þrjózku.

Jónas Kristjánsson

DV

Plástrar og pillur

Greinar

Ekki getur gengið til lengdar, að kostnaður ríkisins af heilsufari þjóðarinnar aukist um 11 milljarða króna á ári. Ekki getur gengið til lengdar, að lyfjakostnaður Íslendinga aukist um 11­14% á hverju ári, ár eftir ár. Þetta getur aðeins endað með hruni sjúkrakerfisins.

Bilunareinkenni velferðarinnar eru farin að koma í ljós. Ríkið hefur á undanförnum árum smám saman verið að auka hlut sjúklinga í kostnaði. Samkvæmt mælingum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja nam þessi hækkun meira en 200% á tímabilinu frá 1990 til 2001.

Sprenging varð síðan á þessu sviði í fjárlögum fyrir næsta ár. Þar eru miklar hækkanir á kostnaði sjúklinga, í einu tilviki 469% hækkun. Með nýju fjárlagaári erum við komin á hraðferð út úr velferðarkerfi heilbrigðismála yfir í það kerfi, að hver sé sjálfum sér næstur.

Aukinn hraði á hækkun hlutdeildar sjúklinga nægir samt ekki til að láta enda ná saman. Biðlistar sjúkrastofnana hafa á einu ári lengzt úr 6266 sjúklingum í 6384. Aukningin er mest í bið eftir endurhæfingu, sem virðist hreinlega vera að hrynja í velferðarkerfinu.

Innan skamms verður komið hér tvöfalt kerfi sjúkratrygginga, þar sem skynsamt og vel stætt fólk kýs að kaupa sér aukatryggingu á frjálsum markaði fyrir hlutdeild sinni í kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. Stéttaskipting Íslendinga mun aukast af þessum sökum.

Samkvæmt skoðanakönnunum vilja menn hafa áfram samtryggingarkerfi á þessu sviði og greiða fyrir það með sköttum. Þessi vilji endurspeglast ekki í stjórnmálunum, því að mikill meirihluti kjósenda styður stjórnmálaflokka, sem eru að minnka hlutdeild samtryggingarinnar.

Það dugar heldur ekki að gefast upp fyrir hækkun sjúkrakostnaðar og játast undir hærri skatta til að greiða hann. Þjóðfélagið verður að ná tökum á sérverðbólgu heilbrigðisgeirans, svo að hlutur hans í þjóðarútgjöldum haldist óbreyttur, þrátt fyrir verndun velferðar.

Grófasta dæmið um sérverðbólguna er lyfjakostnaðurinn, sem eykst um 11­14% á hverju einasta ári. Það endar bara með því, að allar þjóðartekjurnar fara í pilluát. Enginn getur haldið fram með neinni sanngirni, að gagnið af lyfjunum sé að aukast um þessi 11­14% á ári.

Lyfjanefnd hefur ekki staðið sig, enda virðist hún sætta sig við þá viðmiðun, að lyfjaverð sé 15% hærra hér á landi en á Norðurlöndunum, þar sem lyf eru dýr. Beita þarf meiri hörku í útboðum og neita blákalt að taka inn merkjavöru í lyfjum, sem ekki fæst á útsöluverði.

Bezta ráðið til þess er að gera bandalag við önnur velferðarríki um sameiginleg innkaup á merkjavöru í lyfjum, svo að beita megi freistingu magninnkaupa til að fá lyfjaiðnaðinn til að lækka verð. Engin merki sjást um, að Norðurlönd séu farin að feta inn á þessa braut.

Fjölþjóðleg útboð á lyfjum eru aðeins eitt dæmi af aðgerðum, sem hægt er að beita til að halda sjúkrakostnaði þjóðarinnar innan fastákveðins hluta af þjóðarútgjöldum og til að halda jafnframt óbreyttri velferð, þar sem allir fá fulla þjónustu án tillits til greiðslugetu sinnar.

Úttekt DV í gær á auknum sjúkrakostnaði og aukinni hlutdeild sjúklinga gaf innsýn í kerfi, sem hefur siðferðilega gefizt upp gagnvart fyrirsjáanlegu hruni velferðar, skortir þrótt til að taka róttækt á vandanum og fer í staðinn undan í flæmingi með plástra og pillur á lofti.

Miðað við morð fjár heilbrigðisgeirans er átakanlegt, hversu lítið fé fer í fyrirbyggjandi aðgerðir, sem spara fleira fólki þrautagöngur á náðir sjúkrastofnana.

Jónas Kristjánsson

DV

Saddam Hussein í sigti

Greinar

Stjórn Talibana í Afganistan er fáum harmdauði. Illa upplýstir ofstækismenn kúguðu þjóðina og reyndu að eyðileggja menningarsögu hennar. Þeir sóru sig í ætt við Rauðu kmerana í Kampútseu, sem eru versta skólabókardæmi síðustu áratuga um glórulaust ofstæki.

Af trúarástæðum sprengdu Talibanar frægustu risastyttur í heimi, sem engir múslímar höfðu amast við á undan þeim. Menntaráðherra og fjármálaráðherra þeirra fóru saman í þjóðminjasafnið í Kabúl í fyrra og réðust á dýrgripina með öxum. Þetta eru snarbilaðir menn.

Saddam Hussein Íraksforseti er annars eðlis. Hann líkist fremur Jósef Stalín, skipulagssinnaður grimmdarseggur, sem heldur skjálfandi hirð sinni saman með ógnum og refsingum. Hussein er ekki sjálfur trúaður, en notar trúna sér til framdráttar, þegar það hentar honum.

Sameiginlegt eiga Talibanar og Hussein að vera hættulegir vestrænum hagsmunum. Osama bin Laden og fjölmennar sveitir hans fengu landvist hjá Talibönum og Hussein reynir í felum að koma sér upp ógnarvopnum til að beita gegn andstæðingum sínum í útlöndum.

Vikum saman hefur verið tekizt á um það í hópi ráðamanna Bandaríkjanna, hvort taka skuli Saddam Hussein í bakaríið eins og Talibana. Forseti Bandaríkjanna hefur beinlínis ógnað honum opinberlega, þótt ekki hafi fundizt nein tengsli milli hans og Osama bin Laden.

Bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu hafa þungar áhyggjur af þessum hótunum og vilja ekki með nokkru móti, að kné verði látið fylgja kviði á slíkan hátt. Bandaríkjastjórn getur ekki vænzt neins stuðnings frá Evrópu, nema frá jaðarríki engilsaxa á Bretlandseyjum.

Andstaða ráðamanna meginlandsríkja Evrópu við útþenslu á stríðsrekstri Bandaríkjanna er lituð af andstöðu þeirra við vaxandi einleik Bandaríkjanna í utanríkismálum, sem kemur meðal annars fram í, að Bandaríkin neita að axla ýmsar fjölþjóðlegar ábyrgðir og sáttmála.

Afleitt er, að vík skuli vera komin milli vina á Vesturlöndum. En óhjákvæmilegt var, að tillitsleysi og einstefna Bandaríkjanna eftir valdatöku Bush yngri mundi leiða til samstöðu á meginlandi Evrópu um andóf gegn utanríkisstefnu hans, þar á meðal í máli Íraksforseta.

Þegar Bandaríkin og bandamenn þeirra höfðu stökkt herjum Saddam Hussein á flótta í Persaflóastríðinu fyrir áratug, stöðvaði þáverandi Bandaríkjaforseti sóknina og leyfði Íraksforseta að halda völdum. Kúrdar og Shítar voru sviknir í tryggðum og skildir eftir í klóm hans.

Freistandi er fyrir soninn að ljúka því, sem föðurnum mistókst svo herfilega árið 1991. Því miður eru aðstæður allt aðrar og lakari en þær voru þá. Mestu máli skiptir, að ekki er til nein blóðþyrst stjórnarandstaða til að vígvæða á sama hátt og norðurbandalagið í Afganistan.

Eftir reynsluna fyrir áratug þora Írakar ekki að treysta Bandaríkjunum og telja uppreisn jafngilda sjálfsmorði. Langan tíma og þolinmæði þarf til að rækta betri sambönd við óánægjuöfl Íraks og til að fá nágrannaríkin til að sýna íröksku uppreisnarliði jákvætt hlutleysi.

Þar sem Bandaríkin tóku upp strangan einleik í utanríkismálum við valdatöku Bush yngri, geta þau ekki látið draum feðganna rætast beint í kjölfar hruns Talibana. Bandaríkin þurfa stuðning annarra ríkja til átaka í Írak eins og í Afganistan og hann hafa þau alls ekki.

Hins vegar er misráðið af Evrópu að refsa Bush fyrir einleikinn með því að neita honum um herstuðning gegn Hussein, sem er hættulegur öllu mannkyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Rauði þráðurinn

Greinar

Aðgerðaleysið er einn helzti kostur ríkisstjórnarinnar. Hún lætur ekki taka sig á taugum, þegar hagsmunaaðilar heimta ýmiss konar aðgerðir, enda er síður en svo sjálfgefið, að handafl að ofan leysi vanda og verkefni líðandi stundar betur en sjálfvirku öflin í þjóðfélaginu.

Rólyndið hefur enn einu sinni leitt til svokallaðrar þjóðarsáttar, sem felst í, að samtök vinnumarkaðarins taka af skarið og gera ríkisstjórninni tilboð, sem hún getur ekki hafnað. Þannig hefur hluti ákvörðunarvalds í stjórnkerfinu dreifzt út til samtaka vinnumarkaðarins.

Orðið þjóðarsátt gefur ekki rétta mynd af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Alþýðusambandið hefur ákveðið að gæta ekki fleiri hagsmuna í þjóðfélaginu en launafólks og neytenda, sem fá lækkað grænmetisverð. Sjúklingar, öryrkjar, gamalmenni og nemendur eru utan sáttar.

Ef slíkir minni máttar aðilar væru teknir inn í samkrull hagsmunaaðila um stjórnarstefnuna, mætti segja, að hér ríkti sænskt friðarástand, þar sem menn leysa sérhvern samfélagsvanda með því að halda nógu marga málefnalega fundi og láta aldrei skerast í odda.

Svo friðsælt er þjóðfélagið ekki orðið, en svigrúm fyrir ágreining í stjórnmálum hefur þó minnkað töluvert við sameiginlega yfirtöku samtaka vinnumarkaðarins á mikilvægum þáttum landstjórnarinnar. Enda skipa stjórnmál minni sess í hugum almennings en áður fyrr.

Helzt eru það Evrópa og vaffin fjögur, sem valda ágreiningi, vextir og verðbólga, virkjanir og veiðigjald. Um ekkert þeirra ríkir nein sátt í þjóðfélaginu og verður tæpast á næstu misserum. Þess vegna er ótímabært að spá, að hnignun stjórnmálanna leiði til andláts þeirra.

Því miður er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki nógu markvisst og sízt nógu markaðsvænt. Það hvílir ekki nema stundum á því grundvallarsjónarmiði, að stjórnvöld eigi að láta þá þætti eiga sig, sem markaðurinn ræður betur við. Í ýmsum tilvikum ræður handafl að ofan.

Vafasamt er, að frjálsi markaðurinn hefði áhuga á að ráðast í stóriðju á Austurlandi, ef ríkið gengi ekki fram fyrir skjöldu með ýmiss konar handafli, tilboðum um niðurgreitt orkuverð, ókeypis ríkisábyrgð, niðurgreitt mengunargjald og ókeypis spjöll á náttúruverðmætum.

Með annarri hendinni er ríkisvaldið að losa sig við ýmsa innviði á borð við símann, póstinn og ríkisbankana. Með hinni hendinni er það að auka hlutafé sitt í hallærislegu járnblendisveri í Hvalfirði, sem nýtur niðurgreiddrar orku, en hefur samt aldrei gefið neitt af sér.

Enn er landbúnaði og sjávarútvegi stjórnað með flóknu kerfi ríkisafskipta, sem annars vegar er ætlað að vernda ríkjandi hagsmuni og hins vegar að tryggja búsetu á mörgum stöðum. Í raun virkar þetta handafl sem hemill á vöxt og viðgang allra hinna atvinnuveganna.

Þótt erfitt sé að lesa rökrétt samhengi úr fjölbreyttum aðgerðum og ekki síður fjölbreyttu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, má þó segja, að rauði þráðurinn sé verndun ríkjandi hagsmuna og friður á vinnumarkaði. Hvort tveggja hefur ríkisstjórninni tekizt bærilega.

Fólk verður þó að taka eftir, að svokölluð þjóðarsátt í fyrradag var aðeins frestun á vandamáli um hálft ár og stendur þar að auki ekki undir nafni, því að öllum vandamálum velferðar var haldið utan við sáttina, svo sem rækilega mun heyrast, þegar líður á veturinn.

Það mun svo bæta stöðu aðgerðalítillar ríkisstjórnar, ef þjóðarsáttin leiðir til, að verðbólga lækkar hratt á næstu mánuðum og vextir lækka að sama skapi.

Jónas Kristjánsson

DV

Snjór og kuldi seldur

Greinar

Sumt er svo einfalt og rökrétt, að engum dettur í hug að framkvæma það. Þegar svo einum dettur það í hug, ljúka allir upp einum munni og segja: Auðvitað! Þannig virkar snilligáfan. Allir geta verið vitrir eftir á, en það er aðeins einn, sem er vitur, þegar byrjað er á nýjung.

Arngrímur Hermannsson hefur stofnað fyrirtæki um snjó og storm, volk og kulda. Hann þarf ekki að gá til sólar á hverjum morgni og spyrja: Skyldu ferðamenn mínir koma í dag? Hann er ekki að selja sól og sumaryl, heldur vanstillta náttúru Íslands eins og hún er.

Flestir erlendir ferðamenn taka þátt í ferðum Ævintýraferða, af því að þeir hafa aldrei kynnst snjó. Aðrir reyndari koma til að öðlast lífsreynslu í vetrarhrakningum. Hvorir tveggja verja sumarleyfinu til að prófa eitthvað öðruvísi. Og það getur Arngrímur boðið þeim.

Hann byggir á mikilvægri reynslu íslenzkra björgunarsveita, þar sem þróast hefur tækni, sem er einstök fyrir Ísland. Það eru vel búnir ofurjeppar á víðáttumiklum hjólbörðum, sem komast hvert á land sem er, á hvaða árstíma sem er. Ísland er orðið þekkt fyrir þessa ofurjeppa.

Vettvangur ferðanna breytist eftir árstímum. Þegar snjóa leysir, færast þær upp á sjálfa jöklana, þar sem nógur er snjórinn árið um kring. Þannig eru Ævintýraferðir heils árs rekstur, sem getur deilt miklum tækjakostnaði niður á fleiri daga ársins en aðrir í ferðaþjónustu.

Þetta er mikilvægt fyrir aðra. Hótel og veitingahús hafa risið til að þjóna skammvinnum ferðamannatíma og hafa verið rekin með tapi á öðrum tímum ársins. Nú streyma ferðamenn á vegum Arngríms inn á þessa staði árið um kring og gerbreyta fjárhagsforsendum ferðaþjónustu.

Arngrímur var á forsíðu DV á laugardaginn og hlaut frumkvöðlaverðlaun blaðsins, Stöðvar 2 og Viðskiptablaðsins á þriðjudaginn. Í viðtalinu segir hann ferðaþjónusta verða atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi. Enda er hún í þann mund að verða heils árs grein.

Arngrímur efast um stórvirkjanir á hálendinu og sambýli þeirra við ferðaþjónustu. Hann telur orkuver verða orðin safngripir eftir hundrað ár, þegar ferðaþjónusta og landvarzla verður höfuðatvinnugrein okkar. Hann nefnir Villinganesvirkjun sem dæmi um stórspjöll.

Hann segir menn ekki virðast reikna niðurrif og skemmdir á náttúrunni, þegar þeir reikna hagkvæmni orkuvera. Hann segir, að hér á landi séu menn alveg staðnaðir í að hugsa um vatnsföll og uppistöðulón, og bendir á, að betra sé að snúa sér að jarðhitanum.

Kominn er tími til, að stjórnvöld landsins fari að átta sig á auðlind ósnortinna víðerna landsins, þar sem hvergi blettar hús, stífla eða raflína. Framtak Ævintýraferða vísar veginn til framtíðarinnar, þegar óspjölluð náttúra landsins, snjór og veðurfar verða mesta auðlindin.

Þótt meirihluti ferðamanna heimsins vilji halda áfram að sóla sig á Kanaríeyjum heimsins, fjölgar sífellt þeim, sem vilja verja sumarleyfinu á annan hátt en að liggja í leti. Þeir vilja reyna eitthvað nýtt, gera eitthvað spennandi, leika sér og öðlast lífsreynslu.

Þessi geiri er þegar orðinn svo stór, að markaðurinn getur frá íslenzku sjónarmiði talizt takmarkalaus. Hann á eftir að stækka enn frekar, studdur frásögnum þeirra, sem þegar hafa tekið þátt í ævintýraferðunum. Nú þegar þetta ferli er byrjað, sjáum við hvað það er augljóst.

“Ofurjeppar og íslenzk náttúra er vara, sem er hvergi annars staðar í heiminum og á þessu sviði keppir enginn við okkur,” segir Arngrímur í viðtalinu við DV.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosningar nægja ekki

Greinar

Argentína er dæmi um, að frjálsar kosningar nægja ekki til að tryggja landi almenna hagsæld. Svo hart hafa sigurvegarar frjálsra kosninga leikið landið, allt frá Júan Perón til Carlos Menem, að það rambar nú á barmi gjaldþrots, síðan þreyttir alþjóðabankar lokuðu á það.

Á Vesturlöndum hefur mótazt ný skilgreining á lýðræði, sem stundum er kallað vestrænt lýðræði. Það felur í sér miklu meira en frjálsar kosningar. Þær geta einar út af fyrir sig verið hættulegar, ef ekki fylgja þeim aðrir mikilvægir þættir, sem virkja og treysta lýðræðið.

Adolf Hitler fékk stuðning í kosningum, ennfremur Sulfikar Ali Bhutto í Pakistan, Júan Luis Chaves í Venezuela og nú síðast Silvio Berlusconi á Ítalíu. Saga síðustu aldar var stanzlaus harmsaga afleiðinga frjálsra kosninga í ríkjum, þar sem jarðveginn skorti.

Vestrænt lýðræði byggist á traustri stöðu laga og réttar í þjóðskipulaginu, langri röð mannréttinda að hætti sáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins á marga staði, gegnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum, og aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða.

Berlusconi hefur valdið og mun valda Ítalíu miklum hremmingum. Hann hefur til dæmis beitt neitunarvaldi Ítalíu í Evrópusambandinu til að hindra innreið samevrópskra handtökuheimilda, af því að þær eiga að ná til peningaþvættis og höggva nærri hagsmunum hans.

Evrópa mun fljótlega ná sínum handtökuheimildum á annan hátt og Ítalía mun um síðir losna við Berlusconi. Með aðildinni að Evrópu hefur Ítalía náð aðild að vestrænu lýðræði í ofangreindum skilningi og mun lifa af, þótt kjósendur hafi brugðizt í frjálsum kosningum.

Einn máttarstólpinn getur bilað í vestrænu lýðræðisríki, en hinir stólparnir halda kerfinu uppi, unz gert hefur verið við bilaða stólpann. Þetta gerir þjóðskipulagið einstaklega öruggt í sessi og vel fallið til traustra samskipta, þar á meðal til arðbærra viðskipta.

Skortur á aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða er ein helzta forsenda þess, að arftakaríki Múhameðs spámanns eiga erfitt uppdráttar í nútímanum. Tyrkland er aleitt þeirra á jaðri aðildar að vestrænu lýðræði og kostum þess, einmitt vegna markviss aðskilnaðar ríkis og trúar.

Indland, Rússland og gervöll rómanska Ameríka eru einnig nálægt skilgreiningu vestræns lýðræðis. Helzt er það spillingin, sem stafar af miðstýringu, litlu gegnsæi í stjórnsýslu og tæpri stöðu laga og réttar, sem hindrar þessi lönd í að höndla gæfu vestræns lýðræðis.

Vestræn lýðræðisríki hafa hag af útbreiðslu hugmyndafræði sinnar. Sigurför hennar fækkar kostnaðarsömum styrjöldum, eflir reisn alþýðunnar, magnar almenna hagsæld og eykur traust í viðskiptum. Samt eru ekki til nein sérstök samtök vestrænna ríkja um þessa þróun.

Tímabært er orðið að stofna slík samtök vestrænna lýðræðisríkja um að efla lög og rétt í heiminum, gera sáttmála Sameinuðu þjóðanna virkan á fleiri stöðum, dreifa valdi og auka gegnsæi í hverju þjóðfélagi fyrir sig, svo og að losa veraldlega valdið úr viðjum trúarbragða.

Með því að taka í félagið ýmis ríki, sem eru nálægt því að fylla skilyrði vestræns lýðræðis og vilja komast alla leið, er léttara að veita þeim peningalegan, siðferðilegan og pólitískan stuðning og gefa þeim betri aðgang en öðrum að viðskiptum við auðríki Vesturlanda.

Þannig má smám saman stækka svigrúm vestræns lýðræðis, friðar og hagsældar. Og þannig má minnka svigrúm hörmunga, styrjalda og hryðjuverka.

Jónas Kristjánsson

DV

Treystu mér

Greinar

Í sömu viku og hagsmunaaðilar verzlunar voru að lýsa dálæti sínu á siðareglum, sem þeir hafa sett um samskipti sín, úrskurðaði samkeppnisráð þessa aðila í háar sektir fyrir brot á lögum um slík samskipti. Þetta segir okkur, að siðareglurnar séu ímynd en ekki innihald.

Hvenær sem voldugir aðilar í þjóðfélaginu eru sakaðir um pukur og leynimakk, setja þeir upp heilagra manna vandlætingarsvip og segja: Treystu mér. Gildir þá einu, hvort rætt er um leynilegar fjárreiður stjórnmálaflokka eða leynikostnað ríkisins vegna einkavinavæðingar.

Hagsmunaaðilar peninga og valda reyna yfirleitt að andæfa, þegar aukið er gegnsæi í viðskiptum og stjórnmálum. Þeir vilja heldur, að almenningur sýni valdastofnunum þjóðfélagsins blint traust. En reynslan sýnir því miður, að ekki eru forsendur fyrir því.

Gegnsæið er ein af meginstoðum vestræns lýðræðis, enda greinilega betri en blindan sem forsenda fyrir trausti. Ef spilin liggja á borðinu, er tilgangslítið að reyna að hafa falda ása uppi í erminni. Traustið skapast þá af opnum leikreglum, sem eru öllum sýnilegar.

Fyrir ári voru Samkeppnisráði gefnar tennur. Ráðið fékk heimild til að beita háum sektum við brotum á samkeppnislögum. Núna er ráðið byrjað að beita hinum nýfengnu tönnum gegn ólöglegu samráði um síma- og gagnaflutning og um dreifingu á geisladiskum.

Sektirnar voru þó smámunir í samanburði við yfirhalninguna, sem Landssíminn fékk í texta úrskurðarins. Þar stóð beinlínis, að ráðamenn fyrirtækisins hafi margsinnis misnotað markaðsráðandi stöðu þess, sem þýðir á lögreglumáli, að þeir hafi sýnt eindreginn brotavilja.

Endurtekin brot Landssímans á samkeppnislögum gefa skýra mynd af íslenzkri einkavæðingu, sem byrjaði með bifreiðaeftirlitinu og endaði með símanum. Hún felur í sér, að völdum aðilum er afhent einokun, sem breytist í hlutafélagsform, en heldur áfram að vera einokun.

Íslenzk stjórnvöld hafa gegn vilja sínum neyðst til að þýða evrópskar reglugerðir um gegnsæi og samkeppni og gera að íslenzkum lögum. Þannig hafa verið stigin skref til að koma böndum á fjármálamarkaðinn og um samskipti kaupenda og seljenda innan verzlunarinnar.

Spurningin er bara, hvort dugir að beita síbrotamenn háum sektum. Er ekki meira samræmi í að dæma slíka menn á Litla-Hraun eins og síbrotamenn á öðrum sviðum afbrota? Að minnsta kosti virðast sumir ráðamenn Landssímans vera hinir dreissugustu eftir dóminn.

Færst hefur í vöxt hjá voldugum mönnum hér heima sem erlendis að bera höfuðið hátt og reyna með markaðssetningu að búa til ímynd, sem er óháð veruleikanum og oft fjarri honum, jafnvel andstæð. Reynt er að fela veruleikann og markaðssetja ímyndina sem ígildi hans.

Þannig fjölyrða ráðamenn lyfjarisa heimsins um, að gífurlegur kostnaður fari í að þróa ný lyf, þegar sannleikurinn er þvert á móti sá, að gífurlegur kostnaður fer í að markaðssetja ný lyf með góðu og illu, þar á meðal með mútum og fölsuðum niðurstöðum rannsókna.

Venjulegir menn hafa sem neytendur og kjósendur litla þekkingu til að sjá bolabrögðin, sem þeir eru beittir af aðilunum, sem valdið hafa og peningana. Með samevrópskum reglum um aukið gegnsæi í þjóðfélaginu er verið að andæfa gegn sífellt betri vopnum hinna sterku.

Réttur Samkeppnisráðs til að beita sektum gegn samkeppnishömlum risanna er lítið, en brýnt skref í baráttunni við þá, sem brosa ljúft og segja: Treystu mér.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpir lyfjabransans

Greinar

Nýleg bandarísk rannsókn bendir til, að lyfjafyrirtæki verji ekki nema 14% af tekjum sínum til rannsókna, sömu upphæð og þau verja til markaðssetningar lyfja. Þessar niðurstöður kollvarpa vörn lyfjabransans og talsmanna hans fyrir háu og hækkandi lyfjaverði í heiminum.

Af fullyrðingum vina lyfjafyrirtækjanna hefði mátt ætla, að meirihluti tekna þeirra færi í rannsóknir og þess vegna væri nánast ósiðlegt að gagnrýna þau. Staðreyndin er hins vegar, að rannsóknir skipa ekki hærri sess hjá þessum fyrirtækjum en söluáróður þeirra.

Markaðssetning er miklu hærra hlutfall af tekjum lyfjabransans en algengt er í verzlunargreinum harðrar samkeppni. Til samanburðar má nefna, að bandarísk tóbaksfyrirtæki og stórmarkaðir verja 4% tekna sinna í markaðssetningu. Lyf eru seld af óvenjulegri hörku.

Hér á landi hefur þetta ástand réttilega verið gagnrýnt á pólitískum vettvangi, en samtök verzlunarinnar gripið til varna á hæpnum forsendum. Sérstaklega hefur verið gagnrýnt, að lyfjafyrirtæki greiða ferðakostnað lækna, ráðstefnukostnað og tímaritaútgáfu þeirra.

Erlendis hafa miklu alvarlegri hlutir komið í ljós. Ritstjórar ýmissa þekktustu vísindatímarita læknisfræðinnar hafa tekið saman höndum um að verjast ósæmilegri framgöngu lyfjafyrirtækja, sem hafa meira eða minna ráðið niðurstöðum vísindaritgerða þekktra lækna.

Tímaritin eru The Lancet, The New England Journal of Medicine, The Annals of Internal Medicine og Journal of the American Medical Association. Þau hafa tekið saman höndum um að setja mun strangari reglur um birtingu ritgerða, sem kostaðar eru af lyfjabransanum.

Komið hefur í ljós, að lyfjafyrirtæki hafa reynt að beina rannsóknum, sem þau hafa fjármagnað, í ákveðna farvegi og að hindra birtingu niðurstaðna, sem þeim eru ekki þóknanlegar. Svo langt var stundum gengið, að “höfundar” ritgerðanna höfðu ekki einu sinni séð þær sjálfir!

Einnig hefur komið í ljós, að höfundar niðurstaðna, sem voru lyfjabransanum ekki þóknanlegar, voru ofsóttir í stofnunum, sem þeir störfuðu við, af því að þær nutu fjárhagslegs stuðnings lyfjafyrirtækja. Veruleikinn er eins og í nýjasta reyfaranum eftir John le Carré.

Sérstaklega er lyfjafyrirtækjunum í nöp við, að birtar séu rannsóknir, sem sýna aukaverkanir lyfja. Frægt er dæmið um OxyContin, sem hefur átt þátt í dauða 120 manna. Það varð til þess, að New York Times og Washington Post fóru að rannsaka lyfjafyrirtækin.

Niðurstaða dagblaðanna var, að lyfjaframleiðendur greiddu heilu ráðstefnurnar fyrir lækna, allan ferðakostnað þeirra, borguðu þeim fyrir að kynna lyfið fyrir starfsfélögum, mútuðu þeim til að ávísa því og fengu stjórnvöld til að beita volaðan þriðja heiminn þrýstingi.

Við sjáum hluta af þessum þrýstingi hér á landi, til dæmis í áherzlunni á notkun geðbreytilyfja, sem í eðli sínu eru fíkniefni. Þannig eru Íslendingar látnir gleypa 10.000 Prozak-töflur á hverjum morgni og þannig er Rítalíni troðið ofan í óþæg börn í skólum landsins.

Reynslan sýnir, að ekki er óhætt að treysta ráðleggingum lækna um lyfjanotkun. Engin leið er að átta sig á, hvort það eru hollráð eða ekki. Þótt læknir sjálfur hafi ekki beinna hagsmuna að gæta, kann hann að vera undir sefjunaráhrifum af völdum hagsmunaaðila.

Afleitt er, að læknar skuli hafa teflt málum í þá stöðu, að ekki skuli vera hægt að treysta ráðum þeirra. Samtökum þeirra ber að efna til slíks trausts að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Breytt umhverfi Íslands

Greinar

Tilboð Atlantshafsbandalagsins um óbeina aðild Rússlands er gott dæmi um, að pólitískt umhverfi Íslands er að breytast á nýrri öld. Við erum ekki lengur á hernaðarlega mikilvægu svæði. Skurðfletir átaka hafa færzt sunnar, fyrst suður á Balkanskaga og síðan enn suðaustar.

Afnám helztu gjaldmiðla Evrópu um áramótin eru annað dæmi um breytt umhverfi okkar. Stórþjóðirnar á meginlandi Evrópu eru að taka saman höndum um aukið afsal fullveldis í hendur fjölþjóðlegra stofnana, sem þær hafa komið á fót til að standa sig í framtíðinni.

Vaxandi ágreiningur Bandaríkjanna og Evrópu um fjölþjóðlega sáttmála af ýmsu tagi virðist líklegur til að verða eitt af meginviðfangsefnum heimsmálanna í upphafi nýrrar aldar. Evrópa hefur tekið forustu í þessum sáttmálum, en Bandaríkin neita að taka þátt í þeim.

Íslenzk stjórnvöld hljóta að taka eftir þessum breytingum og hafa vilja til að bregðast við. Því miður er nær engin marktæk umræða hér á landi um neinar breytinganna á pólitísku umhverfi okkar, þótt einstaka dálka- og leiðarahöfundar reyni stundum að opna umræðu.

Forsætisráðherra hefur þó lagt niður kenninguna um, að viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild eigi bara alls ekki að vera til umræðu hér á landi. Og tveir minni stjórnmálaflokkarnir af hinum fjórum stóru eru alténd farnir að senda sambandinu þýða tóna.

Af dæmunum hér í upphafi er ljóst, að heimurinn er að raðast í fylkingar á annan og flóknari hátt en áður var, þegar öllu var skipt í gott og illt. Gömul bandalög eru breytingum háð og ný verða til. Mestu máli skiptir þó, að víkur verða milli þeirra, sem áður voru vinir.

Bandaríkin og Evrópa eru að fjarlægjast. Bandaríkin eru orðið eina marktæka herveldið í heiminum, meðan Evrópa er orðin að hernaðarlegum dvergi, sem hefur sérhæft sig svo í efnahagsmálum og viðskiptum, að hagkerfi hennar er orðið nokkru stærra en Bandaríkjanna.

Innra þjarkið í stofnunum Evrópu hefur gert það verkum, að Evrópa og ríki hennar kunna vel við sig í fjölþjóðasamstarfi, þar sem unnið er á svipaðan hátt. Bandaríkin hafa hins vegar ítrekað neitað að taka þátt í slíku samstarfi og sáttamálum, jafnvel einir gegn öllum.

Risið hefur röð nýrra mála, þar sem Bandaríkin standa ein eða fámenn gegn heimsbyggðinni. Þar ber hæst stríðsglæpadómstól, takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eftirlit með eiturefnavopnum, bann við jarðsprengjum og takmarkanir við peningaþvætti.

Í öllum þessum málum hefur Evrópa haft forustu um að ná alþjóðlegu samkomulagi, sem Bandaríkin hafa barizt gegn. Svo virðist sem báðir aðilar hafi valið að skilja að skiptum, Evrópa sérhæfir sig í að vinna með öðrum, en Bandaríkin sérhæfa sig í að hunza allt og alla.

Íslendingar þurfa að meta stöðu sína í þessum heimi. Bandaríkin í dag eru ekki hin sömu og þau voru, þegar þau töldu sig þurfa herstöð á Íslandi vegna ógnunar frá Kólaskaga í þáverandi Sovétríkjum. Nú eru Bandaríkin ein á vettvangi og spyrja ekki neinn að neinu.

Sumir vilja halla sér að Bandaríkjunum og einhliða ákvörðunum þeirra. Aðrir vilja halla sér að Evrópu og þeim niðurstöðum, sem þar fást með langvinnu þjarki. Flestir eru þó þeir, sem vilja loka augunum fyrir breytingum á pólitísku umhverfi Íslands og vona hið bezta.

Í öllum tilvikum, einnig hinu síðasta, takmarkast fullveldi landsins. Val okkar snýst eingöngu um, hvernig við viljum skerða fullveldi okkar, en alls ekki hvort.

Jónas Kristjánsson

DV