Greinar

Samkeppnishæfni þjóða

Greinar

Finnar eru samkeppnishæfastir þjóða samkvæmt nýlegri könnun, hafa á einu ári skotizt upp fyrir Bandaríkjamenn. Eru þó skattar tiltölulega háir í Finnlandi og verkalýðsfélög öflug, svo að ekki er einhlítt, að þetta séu tveir helztu þröskuldar í vegi samkeppnishæfni.

Þjóðum getur vegnað vel með mismunandi aðferðum eins og Finnar og Bandaríkjamenn sýna. Lækkun skatta á fyrirtæki er engin galdraformúla fyrir aukinni samkeppnishæfni, þótt hóflegir skattar séu mikilvægir, þegar fjölþjóðlegum fyrirtækjum er valið ríkisfang.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja ræðst af fleiri atriðum en sköttum, til dæmis þjónustunni, sem sköttum er ætlað að greiða. Góð nýting skattfjár skiptir eins miklu máli og hóflegir skattar. Gott og skilvirkt velferðarkerfi hefur eins mikilvægt aðdráttarafl og lágir skattar.

Ráðamenn fyrirtækja vilja aðgang að vel menntuðu starfsliði á sínu sviði. Þeir vilja halda í gott starfsfólk, sem vill vera þar sem lífsgæði eru almennt góð. Þar koma inn í myndina ýmis atriði, sem erfitt er að reikna til fjár, svo sem hreint loft og ósnortin víðerni.

Kannanir sýna víða á Vesturlöndum, að meirihluti fólks væri fús til að greiða hærri skatta, ef þeir tengdust bættri þjónustu á sviðum, sem skipta fólk máli. Þetta sýnir, að það er fremur nýting skattpeninganna en prósentan sjálf, sem ræður úrslitum um samkeppnishæfni.

Það fælir frá, ef skattar eru notaðir í fortíðarþrá, svo sem til að halda uppi atvinnu í öldruðum atvinnugreinum eða fámennum sveitarfélögum. Þjóðir, sem vilja efla samkeppnishæfni sína á fjölþjóðlegum markaði, eiga að forðast byggðastefnu eins og heitan eldinn.

Það fælir frá, ef fortíðarþrá ræður notkun gjaldmiðils og vaxtastigi, svo sem þegar þjóð neitar sér um að taka upp fjölþjóðlega mynt og vill nota gengislækkanir sem hagstjórnartæki. Fjölþjóðleg fyrirtæki vilja vera þar sem mynt er traust og útbreidd og vextir hóflegir.

Afnám byggðastefnu og krónunnar eru dæmi um atriði, sem mundu bæta samkeppnishæfni Íslands meira en lækkun skatta á fyrirtæki, þótt ekki sé beinlínis ástæða til að vanþakka skattalækkanir, ef þær eru þáttur í heildarmynd aðgerða, sem fyrirtæki laðast að.

Fyrirtæki sogast til landa, þar sem þjóðir horfa fram á veg fremur en til fortíðar. Þau sogast til landa, þar sem rekstrarumhverfi er traust, þar sem réttarstaða er einföld og augljós og allir eru jafnir fyrir lögunum. Þau sogast til landa, þar sem útboð hafa leyst spillingu af hólmi.

Þau sogast til landa, þar sem starfsfólki þeirra líður vel. Það eru lönd, sem hafa gott skólakerfi, gott heilbrigðiskerfi og gott öryggisnet, ef eitthvað kemur fyrir. Það eru lönd, sem hafa hreint loft og góða aðstöðu til útivistar, menningar og afþreyingar í frístundum.

Það merkilega er svo á tímum netvæðingar heimsins, að fyrirtæki og starfsfólk vilja vera á sama stað og önnur fyrirtæki og annað starfsfólk er á sama sviði. Þannig varð til Sílikon-dalur í Bandaríkjunum og svipaðar þyrpingar tölvufyrirtækja í ýmsum öðrum framfaralöndum.

Hér hafa verið talin upp ýmis atriði, sem skipta miklu, ef stjórnvöld kjósa í alvöru að hefja stefnu aðlöðunar fjölþjóðafyrirtækja. Sumt af þessu er á góðum vegi hér á landi og annað í afleitu ástandi. Skattalækkanir duga engan veginn einar sér til að setja hjólið af stað.

Fengur væri að breiðsíðu opinberra aðgerða, sem allar stefndu saman að því eftirsóknarverða marki, að fólki og fyrirtækjum líði hér vel og vilji helzt vera hér.

Jónas Kristjánsson

DV

Rætur heimsfrægðar

Greinar

Erlend dagblöð á borð við New York Times eru farin að fjalla fjálglega um fyrirbæri á borð við Apparat, Náttfara og Trabant. Þetta eru íslenzkar hljómsveitir, sem tæpast geta talizt landsþekktar, en eru eigi að síður orðnar heimsþekktar í veröld alþýðlegrar tónlistar.

Þetta hófst með Björk, sem amerísku blöðin segja frægasta Íslending allra tíma, frægari en Leif Eiríksson. New York Times vitnar með velþóknun í Jón Hákon Magnússon, sem segir Björk vera vörumerki Íslands á sama hátt og Volvo fyrir Svíþjóð og Nokia fyrir Finnland.

Blaðamennirnir Neil Strauss og Donald G. McNeil hafa nýlega skrifað langar greinar í New York Times um Björk og eftirkomendur hennar í alþýðlegri tónlist á Íslandi. Þeir segja, að útgefendur tónlistar í Bandaríkjunum hafi fallið fyrir Íslandi sem jarðvegi tónlistar.

Útgefendurnir hafi komið á tónlistarhátíðina í haust og búizt við endurtekningum fyrri hátíða, en komizt að raun um nýjar hljómsveitir með nýjar áherzlur. Margir þeirra telji, að gæði og breidd íslenzkrar alþýðutónlistar hafi farið vaxandi með hverju ári í rúman áratug.

Þessi gæðastimpill skiptir miklu, ekki sízt fyrir marga unga tónlistarmenn, sem hafa náð eyrum fólks, er skiptir máli í alþjóðlegum tónlistarheimi. Búast má við, að fleiri reyni að feta í fótspor Bjarkar og Sigur Rósar, sem einnig nýtur mærðar í greinum erlendu blaðamannanna.

Áhrifin í ferðaþjónustunni eru mikil. Flugfélagið Go flytur brezk ungmenni hópum saman til heimabæjar Bjarkar til að sjá “Björkville” og taka þátt í andrúmslofti reykvískra kaffihúsa og kráa. Tilraunastarf íslenzkrar alþýðutónlistar skilar sér í beinhörðum peningum.

Athyglisvert er, að nánast allt þetta fólk, sem náð hefur eyrum umheimsins, er vel menntað í tónlistarskólum landsins, allt frá Björk og Sigur Rós. Tilraunirnar í alþýðutónlistinni hvíla á grunni þekkingar, sem unga fólkið hefur aflað sér í opinberum tónlistarskólum.

Fyrir einhverja sagnfræðilega tilviljun, sem hér er ekki rúm til að kanna, var á sínum tíma ákveðið að stofna mætti tónlistarskóla með kennurum á launum hjá hinu opinbera. Tónlistarskólar risu í öllum sveitarfélögum, sem vildu telja sig gjaldgeng í nútímanum.

Þetta var svo mikil sprenging, að ekki voru handbærir kennarar til að standa undir öllu þessu starfi. Kennaraskorturinn var leystur með að flytja inn erlenda tónlistarmenn, sem margir voru afar vel færir og menntaðir og urðu lykilpersónur í tónlistarlífi um allt land.

Þannig fór tvennt saman. Opinberir aðilar skrúfuðu frá sjálfvirkum krönum fjármagns og tónlistarmenning var flutt inn frá útlöndum. Þetta var mikilvægur þáttur í grunninum að sigurför íslenzkrar alþýðutónlistar, sem nú endurspeglast á síðum erlendra stórblaða.

Spyrja verður, hvort svipaður árangur hefði náðst á öðrum sviðum, ef ríkið hefði boðið upp á sjálfvirka fjármögnun á fræðslu og flutt hefði verið inn erlent hæfileikafólk. Ættum við fleiri málara en Erró? Ættum við fleiri framleiðendur kvikmynda en Friðrik?

Annars vegar er breiðsíða alþjóðlegra viðurkenndra afreka í alþýðutónlist og hins vegar örfáir einstaklingar í öðrum greinum lista á borð við myndlist og kvikmyndir. Er munurinn sá, að hér voru tónlistarskólar úti um allar koppagrundir með innfluttri tónlistarmenningu?

Áleitið er að spyrja, hvort lítið þjóðfélag geti með markvissri skólastefnu hins opinbera og innflutningi hæfileikafólks náð árangri á hvaða sviði sem er.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýbúar og þjóðardeigla

Greinar

Við erum langt á eftir flestum vestrænum þjóðum í innflutningi flóttamanna og eigum því að geta lært af reynslu annarra. Unnt á að vera að haga málum á þann hátt, að þjóðfélagið eflist við aðkomu nýbúa og geti tekið örar við þeim en gert hefur verið á undanförnum árum.

Síðustu árin hefur athygli manna í ýmsum nágrannalöndum okkar beinzt í auknum mæli að vandamálum, sem tengjast nýbúum. Annars vegar stafa þau af ófullkominni aðlögun þeirra og hins vegar af fordómum heimamanna, sem oftast eru flokkaðir sem kynþáttahatur.

Á allra síðustu vikum hefur fólk á Vesturlöndum vaknað við þá óþægilegu staðreynd, að meðal áhangenda íslams í hópi flóttamanna er til fólk, sem hafnar vestrænum gildum og telur eðlilegt eða skiljanlegt, að baráttumenn beiti hryðjuverkum gegn Vesturlöndum.

Undarlegt er, að fólk, sem hefur leitað skjóls í þeim hluta heimsins, sem er umburðarlyndari en aðrir heimshlutar, skuli nota skjólið til að grafa undan þeim hinum sama heimshluta. Samt er heilagt stríð prédikað af sumum íslömskum klerkum á Vesturlöndum.

Áður var vitað, að sumir hópar nýbúa vilja flytja með sér hefðir, sem eru andsnúnar grundvallaratriðum í vestrænni hugmyndafræði. Þar á meðal er umskurn barna og mismunun kynja, svo og sú stefna, að lög í helgum trúarbókum séu æðri veraldlegum lögum landsins.

Vesturlönd hvíla á nokkrum grundvallarforsendum, sem lengst af greindu þau frá öðrum. Þær eru frjálsar kosningar, mannréttindi að hætti stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, dreifing valdsins og gegnsæi þess, áherzla á lög og rétt og ekki sízt aðskilnaður ríkis og trúar.

Vesturlönd verða að geta krafizt þess og að vilja krefjast þess, að nýbúar lúti helztu þáttum þjóðskipulagsins. Annars leiti þeir ekki skjóls í heimshlutanum og yfirgefi hann raunar, ef þeir eru þegar komnir þangað. Vesturlönd mega ekki ala fimmtu herdeild við brjóst sér.

Hins vegar er nauðsynlegt að taka vel á móti nýbúum, ef þeir sætta sig við ofangreind skilyrði. Auðvelda þarf þeim að viðhalda tungumáli sínu og öllum siðum og venjum, sem ekki brjóta í bága við þjóðskipulagið. Allt slíkt auðgar og bætir menningu gestgjafalandsins.

Gott dæmi um slíkt er þáttur Indverja í brezku þjóðfélagi. Þeir eru orðnir áhrifamikill þáttur mikilvægra stétta á borð við lækna, kaupmenn og matreiðslumenn með þeim afleiðingum, að þessar starfsgreinar veita samfélaginu mun betri þjónustu en ella hefði verið.

Hindra þarf, að nýbúar safnist í eins konar undirheimaríki í ríkinu. Veita þarf meiri fjármunum en nú er gert til að bæta aðlögun þeirra og gera þá að gildum aðilum þjóðardeiglunnar. Því betur, sem þetta gengur, þeim mun meira auðgast þjóðfélagið af nærveru nýbúa.

Við erum inngróin eyþjóð, sem þarf að hrista af sér aldagamla einangrun og taka erlendum menningarstraumum opnum örmum. Við megum alls ekki að líta á nýbúa sem ódýrt vinnuafl, sem síðast er ráðið og fyrst rekið. Við þurfum að taka þá sem fullgilda Íslendinga.

Bitur reynsla nágrannaþjóða sýnir, að vandratað er meðalhófið í þessu efni. Við þurfum að leggja miklu meiri áherzlu á að læra af þessari reynslu, svo að við getum forðast skuggahliðar þjóðflutninga og lagt í staðinn rækt við björtu hliðarnar, sem eru margar og fjölbreyttar.

Markmiðið á að vera, að nýbúar verði í stakk búnir til að hjálpa okkur við að hindra að þjóðfélagið staðni. Þeir verði virkir aðilar að þjóðardeiglunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Spilað með lífeyrinn

Greinar

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa ekki staðið sig nógu vel í sviptingum efnahagsmála á þessu ári og hinu síðasta. Verðgildi þeirra rýrnaði í fyrra og mun rýrna enn meira á þessu ári, sumpart vegna erfiðs árferðis á hlutabréfamarkaði og sumpart vegna rangra ákvarðana.

Forstjóri Fjármálaeftirlits ríkisins segir nokkuð skorta á, að ráðamenn lífeyrissjóða hafi svipað aðhald og ráðamenn fyrirtækja almennt hafa af eigendum þeirra. Raunar er augljóst, að ekki er boðið upp á mikil afskipti fólks af rekstri lífeyrissjóða, sem það á aðild að.

Þetta er ekki einhlít skýring, enda má benda á, að enn verr hefur gengið hjá ýmsum lífeyrissjóðum, sem eru ávaxtaðir af fjármálastofnunum. Slíkir sjóðir hafa raunar gengið lengra en aðrir sjóðir í glannalegum kaupum á hlutabréfum, sem síðan hafa fallið í verði.

Gróft dæmi um glannalegan sjóð er Lífeyrissjóður Austurlands, sem hafði í fyrra 4,3% neikvæða raunávöxtun undir stjórn sérfræðinga í Kaupþingi, sem hafa hagað málum á þann veg, að 30% af öllum eigum sjóðsins eru í pappírum, sem ekki eru skráðir á verðbréfaþingi.

Alvarlegt er að haga þannig rekstri lífeyrissjóða. Þeir eiga alls ekki að vera áhættufjárfestar og því síður að stunda fjárhættuspil á hlutabréfum. Hlutverk þeirra er að standa undir eftirlaunum fólks með fjárfestingu í traustum skuldabréfum með hægfara ávöxtun.

Til skjalanna hafa komið svokallaðir verðbréfaguttar, sem hafa ginnt ráðamenn lífeyrissjóða til að víkja frá hefðbundnum sjónarmiðum við ávöxtun sjóðanna í von um skjótfenginn gróða í hlutabréfum kraftaverka. Slíkar vonir hafa yfirleitt brugðist, stundum hrapallega.

Þar sem lífeyrir almennings er í húfi, er nauðsynlegt að setja lífeyrissjóðum strangari reglur, jafnt séreignasjóðum sem sameignasjóðum. Nú mega sjóðir til dæmis eiga helming peninga sinna í hlutabréfum, sem er greinilega allt of hátt hlutfall. Fjórðungur væri betra hámark.

Stjórnir og verðbréfaguttar lífeyrissjóða liggja undir þrýstingi ýmissa aðila, sem eru með pottþétt gróðaplön á prjónunum og líta á lífeyrissjóði sem ríka frændann. Vel borguðum sætum í stjórnum kraftaverkafyrirtækja er veifað framan í þá, sem eiga að opna gullkisturnar.

Dæmi eru um, að lífeyrissjóðir festi beinlínis fé í stjórnarsætum fyrir ráðamenn sína og reikni framlög sín í slíkum sætum. Þetta felur í sér þvílíkan hagsmunaárekstur, að hreinlega þarf að banna ráðamönnum lífeyrissjóða setu í stjórn fyrirtækja með eignaraðild sjóðanna.

Setja þarf strangari reglur um fleiri þætti í rekstri sameignarsjóða og séreignarsjóða. Draga þarf úr líkum á, að verðbréfaguttar leiki lausum hala í hlutverki ráðgjafa eða umsjónarmanna. Lögfesta þarf strangari form um aðkomu sjóðfélaga að rekstri lífeyrissjóða sinna.

Upplýsingaskylda sjóðanna þarf að vera örari og gegnsærri en nú er, svo að erfiðara sé að draga fjöður yfir vandann. Skipun stjórna sjóðanna þarf að lúta strangari lýðræðisformum en nú er. Hvort tveggja miðar að aukinni tilfinningu sjóðfélaga fyrir eignarhaldi sínu.

Lífeyrissjóðir eru einn helzti hornsteinn íslenzka velferðarkerfisins. Þegar ávöxtun þeirra fylgir ekki hægfara hagvexti Vesturlanda og þegar þeir eru jafnvel farnir að tapa fé ár eftir ár, er greinilega brýnt að taka til hendinni á þann hátt, sem lýst er hér að ofan.

Reynslan sýnir, að löggjafarvaldið neyðist til að þrengja svigrúm stjórna og ráðgjafa lífeyrissjóða til að víkja af þröngum vegi ráðdeildar með peninga almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrirlitnar skoðanir

Greinar

“Negro” er enskt orð, sem bandarískir svertingjar vildu um langt árabil nota sem samheiti yfir sig. Þeir töldu það vera nokkurn veginn hlutlaust orð, sem ekki fæli í sér niðurlægingu, betra en orðið “black”. Samkvæmt þessu er vafasamt að telja orðið negri vera ókurteist.

Samt segir íslenzkur dómari, að “alkunna sé”, að enska orðið “negro” sé neikvætt, enda óski svertingjar, að önnur orð séu notuð. Dómarinn notar sjálfur orðið blökkumaður, þótt svertingjar hafi verið búnir að hafna orðinu “black” áður en þeir höfnuðu orðinu “negro”.

Spurningin er, hvort ekki sé rétt að kæra og dæma dómarann fyrir kynþáttahatur úr því að hann telur við hæfi að dæma varaformann Félags íslenzkra þjóðernissinna fyrir að nota orðið negri. Orðhengilsháttur að hætti dómarans er nefnilega ekki gott vegarnesti.

Í nýföllnum dómi er talið, að orðin “Afríkunegri með prik í hendi”, sem “nenni ekki að berja af sér flugurnar” séu niðrandi í garð svartra manna. Því beri varaformanni Félags íslenzkra þjóðernissinna að greiða 30.000 króna sekt fyrir að hafa notað þessi orð í blaðaviðtali.

Raunar er furðulegt, að ákæruvaldið og dómsvaldið séu að eyða tíma í að skipta sér af orðavali, sem dómarinn segir sjálfur, að séu “ekki gróf eða mjög alvarleg”. Ruglið er í samræmi við fáfræðina, sem dómarinn sýndi, þegar hann hætti sér út í tungumála-sagnfræði.

Ákæran og dómurinn byggjast að nokkru leyti á viðleitni sumra manna á Norðurlöndum til að skipta hugsunum í pólitískt viðurkenndar hugsanir og þær, sem ekki eru pólitískt viðurkenndar og hvetja menn til að nota eingöngu orð, sem viðurkennd eru af samfélaginu.

Þessi góðviljaða hreinsunarstefna í málnotkun er dæmigerð forsjárhyggja. Hún hefur stuðning af almennum hegningarlögum, sem banna fólki að hæðast að öðrum eða smána þá. Samkvæmt lagagreininni mætti og ætti að draga alla háðfugla og eftirhermur fyrir dóm.

Þessi vafasama grein hegningarlaganna er ættuð frá Norðurlöndum og er sem betur fer lítið notuð hér á landi. Samkvæmt henni mætti dæma dómarann sjálfan fyrir kynþátthatur út af orðinu svertingi, sem hann notaði í úrskurðinum, svo sem bent var á hér að ofan.

Óskorað hugsana- og tjáningarfrelsi er hornsteinn vestræns samfélags. Í skjóli þess hafa hugmyndir um stjórnmál og samfélag, tækni og vísindi fengið að þróast án forsjárhyggju að ofan. Í skjóli þess hafa vestrænar þjóðir risið til mannlegrar reisnar og velsældar.

Þetta frelsi felur í sér, að enginn getur ákveðið fyrir aðra, hvaða hugsanir og skoðanir séu nothæfar og hverjar séu það ekki. Það, sem pólitískt viðurkennt fólk í dag telur vera óviðeigandi orðalag, getur verið viðeigandi á morgun. Forsjárhyggjumenn eru alls ekki alvitrir.

Þegar góðviljuð forsjárhyggja og hrein lýðræðishyggja stangast á, ber okkur að taka lýðræðið fram yfir. Við eigum að taka úr notkun lagagreinar, sem takmarka svigrúm manna til að tjá sig á hvaða hátt, sem þeir vilja, enda eru þær aðeins notaðar með höppum og glöppum.

Ef 233. grein hegningarlaga væri almennt notuð, ef ákæruvaldið kærði almennt út af henni, ef dómarar dæmdu almennt á þann hátt, sem gert var í umræddu máli, væri risið hér á landi sérkennilegt ríki skoðanakúgunar, sem ekki stenzt forsendur lýðræðis.

Við ættum heldur að hafa í heiðri orð Voltaires, sem sagði: “Ég fyrirlít skoðanir þínar, en er reiðubúinn að fórna lífinu fyrir rétt þinn til að halda þeim fram.”

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið gengur illa

Greinar

Styrjöld Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Afganistan hefur gengið illa, þegar þetta er ritað. Hálfs mánaðar herför hefur ekki leitt til þess, að skref næðust að þeim markmiðum, sem herstjórn Bandaríkjanna hafði sett sér, þótt það kunni að breytast á næstu dögum.

Talibanar eru enn fastir í sessi og virðast hafa full tök á yfirráðasvæði sínu, sem nær yfir níu tíundu hluta landsins. Héraðshöfðingjar og svæðisherforingjar þeirra hafa ekki lagzt á sveif með Bandaríkjunum og svokallaðir “hófsamir” Talibanar hafa ekki látið á sér kræla.

Þjóðflokkur Pashtuna er fjölmennastur í Afganistan og Pakistan. Þrátt fyrir bandalag Bandaríkjanna við hryðjuverkastjórn valdaræningja í Pakistan, hafa engir hópar Pashtuna í Afganistan slegizt í lið með Bandaríkjunum. Þeir virðast ekki hafa bilað í stuðningi við Talibana.

Ekki hafa tekizt tilraunir Bandaríkjanna til að mynda eins konar samráðastjórn með því að grafa upp aldraðan kóng á Ítalíu og gera hann að leppi sínum. Þótt þessi hópur sé af þjóðflokki Pashtuna, þar á meðal kóngurinn, hefur þeim ekki tekizt að hafa áhrif á heimamenn.

Enn sem komið er, hefur herstjórn Bandaríkjanna eingöngu getað notað heri Norðurbandalagsins, sem eru andstæðingar Talibana. Því miður eru þeir aðeins skipaðir minnihlutahópum, sem eru hataðir af Pashtunum fyrir voðaverk Norðurbandalagsins á undanförnum árum.

Bandaríska herstjórnin er alltaf að bíða eftir sókn Norðurbandalagsins í átt til höfuðborgarinnar Kabul. Þessi sókn hefur lengi látið á sér standa. Víglínur eru enn óbreyttar norður í landi, þegar þetta er ritað. Ekki einu sinni hefur fallið héraðshöfuðborgin Mazar-i-Sharif.

Norðurbandalagið er ekki félegur bandamaður. Því er stjórnað af glæpamönnum, sem bera ábyrgð á mestum hluta fíkniefnanna, sem berast til Evrópu. Spunameisturum herferðar Bandaríkjanna í Afganistan hefur ekki tekizt að draga fjöður yfir þessa alvarlegu staðreynd.

Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa farið halloka í stríðinu um sannleikann. Upplýsingar þeirra um árangur og afleiðingar loftárása hafa reynzt rangar, en upplýsingar Talibana réttar, svo sem síðar hefur verið staðfest af starfsfólki hjálparstofnana og Sameinuðu þjóðanna.

Verst er, að herstjórn Bandaríkjanna hefur fyrst vísað fréttum Talibana á bug, svo sem fréttum af árásum á íbúðahverfi og sjúkrahús, en síðan orðið að draga það til baka. Ekki er því við að búast, að menn treysti frekari fullyrðingum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.

Ekki er vitað til, að neinn liðsmaður Osama bin Ladens hafi fallið og ekki er sjáanlegt, að herstjórn Bandaríkjanna viti, hvar hann er niður kominn. Ekki er heldur vitað til, að neinn liðsmaður Talibana hafi fallið. Hins vegar hafa þúsund óbreyttir borgarar látið lífið.

Með þessu áframhaldi munu Pashtunar standa saman sem einn maður gegn herflokkum Bandaríkjamanna og óþjóðalýðnum, sem þeir hafa gert að bandamönnum sínum. Þegar þetta er ritað, eru því fremur horfur á, að vestrænn stuðningur við stríðið fari ört þverrandi.

Stærsta fórnardýr stríðs Bandaríkjanna í Afganistan er sú fullyrðing ráðamanna, að þetta sé stríð gegn hryðjuverkum. Þvert á móti hafa Bandaríkin gert bandalag við hryðjuverkamenn í Afganistan og hryðjuverkastjórnir í nágrenni Afganistan um dráp á blásaklausu fólki.

Senn fara Vesturlandabúar að álykta, að Bandaríkjastjórn sé komin í ógöngur í tilraunum sínum til að leita hefnda fyrir hryðjuverkin 11. september.

Jónas Kristjánsson

DV

Minna logið núna

Greinar

Talsmenn bandamanna í stríðinu í Afganistan fara gætilegar í fullyrðingum um rekstur stríðsins en forverar þeirra gerðu í Persaflóastríðinu og einkum þó í stríðinu í Kosovo, sem reyndist hafa verið nánast samfelld lygasaga af hálfu talsmanna Atlantshafsbandalagsins.

Eftir Persaflóastríðið voru uppi grunsemdir meðal stjórnenda fjölmiðla um, að þeir og notendur fjölmiðlanna hefðu verið hafðir að fífli. Um síðir kom í ljós, að myndskeið af árangri ýmissa flugskeyta, sem sýnd voru í sjónvarpi, voru í rauninni eins konar tölvuleikir.

Sjónvarpsstöðvar voru hins vegar svo uppteknar af árangursríkri blekkingu um yfirburði sína í lýsingum á “stríði í beinni útsendingu”, að þær létu hjá líða að læra af reynslunni. Fyrir bragðið féllu þær á bólakaf í svipaða gildru, þegar kom að styrjöldinni í Kosovo.

Eftir það stríð tóku ritstjórar vestrænna dagblaða sig saman um að rannsaka feril stríðsins og bera saman við fullyrðingar stríðsaðila. Niðurstaðan kom út í miklu riti, sem sýndi, að sannleikurinn skipti alls engu máli í fréttaflutningi stríðsaðila, þar á meðal bandamanna.

Ýmsar fréttastofur, útvarpsstöðvar og dagblöð höfðu fréttamenn á staðnum, sem sögðu allt aðra sögu en þá, sem Jamie Shea og aðrir gáfu daglega í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, vandlega þjálfaðir af spunameisturum leiðtoganna Tony Blair og Bill Clinton.

Bandaríkjastjórn virðist hafa dregið réttan lærdóm af hruni trausts fjölmiðla og notenda fjölmiðla á upplýsingum Atlantshafsbandalagsins um Kosovo. Talsmenn hennar fara mun varlegar en áður í fullyrðingar um gengi loftárásanna á Afganistan í einstökum atriðum.

Enda gera fjölmiðlar fullyrðingar bandalagsins ekki að sínum. Texti frétta er fullur af fyrirvörum á borð við: “að sögn” tilgreindra aðila. Dagblöð eru líka fljót að skjóta niður tilraunir spunameistara til að fljúga hátt, til dæmis í lýsingum á gildi fljúgandi matarpakka fyrir Afgana.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, reyndi að skjóta upp þeirri kenningu, að talibanar byggðu afkomu sína á framleiðslu og sölu fíkniefna. Hann hætti því strax, þegar fjölmiðlar upplýstu, að sannleikurinn væri þveröfugur. Talibanar hafa raunar barizt gegn sölu fíkniefna.

Enn hafa þó fjölmiðlar tilhneigingu til að kaupa ódýrt fullyrðingar rekstraraðila stríðsins. Enn er talað um, að þetta sé styrjöld gegn hryðjuverkum almennt, þótt bandalagið hafi þróazt úr vestrænu bandalagi yfir í bandalag Bandaríkjanna við ýmsar hryðjuverkastjórnir.

Bandaríkjastjórn hefur reynt að stýra vitneskju manna um stríðið. Bandarískum sjónvarpsstöðvum er vansæmd af að hafa látið undan þrýstingi. Emírinn í Katar hefur meiri sóma, því að hann neitaði að hafa áhrif á mikilvægan fréttaflutning sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera.

Hingað til hefur stríðið fyrst og fremst leitt hörmungar yfir saklausa. Hvorki er vitað um neitt mannfall í hópi liðsmanna Osama bin Ladens né liðsmanna talibana. Hins vegar hafa bandamenn drepið hundruð óbreyttra borgara og hrakið tugþúsundir þeirra á vergang.

Senn kann stríðið að beinast meira gegn raunverulegum glæpamönnum. Myndskeið af meintri næturárás fallhlífamanna á einar herbúðir talibana var þó ekki trúverðugt, enda sáust þar ræktuð tré í röðum. Að fenginni reynslu er rétt að taka það hóflega alvarlega.

Það er eðli trausts, að auðvelt er að glata því, en erfitt að endurheimta það. Því fær fólk sennilega réttari fréttir af stríðinu í Afganistan en undanförnum styrjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið selji fíkniefni

Greinar

Þegar ríkið tekur sölu ólöglegra fíkniefna af svarta markaðinum, mun neyzlan aukast. Reynslan úr áfenginu sýnir, að lögleiðing eykur neyzlu. Ríkið þarf einnig að lækka verðið til að losna við svarta markaðinn, og reynslan úr áfenginu sýnir, að verðlækkun eykur neyzlu.

Reynslan úr áfenginu sýnir okkur líka, að fleiri verða fíklar, þegar ólögleg fíkniefni verða lögleg og þegar verð þeirra lækkar. Þetta er raunar eini umtalsverði gallinn við lögleiðingu fíkniefna. Þennan galla þarf að meta á móti ótvíræðum kostum lögleiðingar fíkniefna.

Þegar ríkið flytur verzlun þessara fíkniefna í búðirnar, sem selja lögleg fíkniefni, það er að segja lyf og áfengi, hrynur veldi skipulagðra glæpaflokka, sem stjórna innflutningi, heildsölu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Þeir geta ekki lengur grafið undan samfélaginu.

Núna eru þessir glæpaflokkar ríki í ríkinu. Þeir innleiða siðareglur, sem eru allt aðrar en áður hafa gilt í þjóðfélaginu. Þeir gera samfélagið ofbeldishneigðara, mútuþægnara og þögulla. Þeir hafa handrukkara og láta fíkla fremja lögbrot til að fjármagna neyzluna.

Mörg dæmi hafa birzt í fréttum hér á landi. Tollvörður var laminn sundur og saman fyrir hnýsni. Foreldrar fíkils sættu ógnunum og barsmíðum. Deilur glæpaflokka um áhrifasvæði leiddu til skotbardaga. Smám saman breytist Ísland í harðan fíkniefnaheim að erlendri fyrirmynd.

Lífsstíll auðugra eiturlyfjabaróna er farinn að höfða til óharðnaðra unglinga, sem sjá þar þægilega leið frá þrúgandi færiböndum iðnvæðingarinnar. Þannig eru fyrirmyndir fíkniefnaheimsins farnar að keppa við æskilegar fyrirmyndir hins hefðbundna þjóðfélags.

Lögreglan er gagnslaus í baráttunni gegn ófögnuðinum. Hún hefur ekki reynzt geta rakið feril efna frá neytendum til seljenda, að minnsta kosti ekki svo, að það leiði til ákæru. Hér á landi finnast fíkniefni nær eingöngu í innflutningi í litlum mæli. Neyzlan vex og vex.

Fyrr eða síðar mun þjóðfélagið gera uppreisn gegn ólöglegri fíkniefnasölu. Eina virka vopnið í uppreisninni felst í að taka lifibrauðið af eiturlyfjabarónum með því að lögleiða fíkniefnin og flytja sölu þeirra inn í áfengisverzlanir eða lyfjabúðir, þar sem seld eru lögleg fíkniefni.

Hagnað ríkisins af yfirtöku markaðarins má nota til að efla meðferðarúrræði fyrir þá, sem ánetjast fíkniefnum. Svarti markaðurinn leggur ekki krónu af mörkum til slíkra mála, en ríkið getur hæglega látið viðbótartekjurnar renna til meðferðar fíkniefnavandans.

Þeim fjölgar hér á landi, sem vilja láta lögleiða fíkniefni. Málið er meira að segja komið í umræðu á landsfundum stjórnmálaflokka. Kennir þar áhrifa frá útlöndum, þar sem slíkar kenningar njóta aukins stuðnings, meðal annars vegna röksemda tímaritsins Economist.

Fíkniefnabarónarnir munu berjast gegn þessum sjónarmiðum, sem ógna auði þeirra og völdum. Þeir munu fjármagna andóf og róg í garð þeirra, sem mæla með lögleiðingu fíkniefna. Þeir munu kaupa stjórnmálamenn og fjölmiðlunga til fylgis við óbreyttan markað svartan.

Við þurfum að fylgjast vel með tilraunum ýmissa þjóða til að feta sig yfir í lögleiðingu fíkniefna, einkum Hollendinga, sem stigu fyrstu skrefin, og Svisslendinga, sem hafa farið í humátt á eftir. Með því að læra af öðrum, getum við mildað hliðarverkanir af lögleiðingunni.

Við munum feta sömu slóð, því að samfélagið mun ekki sætta sig við, að hér hafa myndazt skipulagðir undirheimar, sem grafa undan innviðum þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Alls engar sættir

Greinar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um helgina sýndi staðfestu í hitamálunum tveimur, sem hafa skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Að ráði forustumanna flokksins hafnaði fundurinn sáttum í fiskveiðikvóta og Kárahnjúkavirkjun og studdi í þess stað stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í fiskveiðikvótanum var samþykktur málamyndagerningur, kallaður “hóflegt veiðigjald”, sem felur í sér eftirgjöf af stærðargráðunni 5% við sjónarmið þeirra, sem vilja afnema gjafakvótann. Slíkt frávik frá fyrri stefnu felur ekki í sér neina marktæka tilraun til sátta.

Málamiðlun og sættir eru þekkt hugtök hér á landi. Þau fela í sér, að tekið er tillit til ýmissa sjónarmiða og fundin þolanleg niðurstaða að mati flestra málsaðila, enda falla deilur niður í kjölfarið. Engin leið er að rugla þeim hugtökum saman við niðurstöður landsfundarins.

Raunar varð niðurstaða fundarins um Kárahnjúkavirkjun svo eindregin, að klappað var, þegar helzti andstæðingur hennar á fundinum var kallaður “hryðjuverkamaður”. Þannig fer fyrir þeim, sem heimta að fá að reyna að raska fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.

Vitað er, að þjóðin skiptist í tvær fylkingar í hitamálunum tveimur. Raunar hafa flestar skoðanakannanir mælt meiri stuðning við sjónarmiðin, sem landsfundurinn hafnaði. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins vita af þessum vanda, en létu eigi að síður slag standa á fundinum.

Fulltrúar koma ekki á landsfund til að hafa áhrif á gerðir fulltrúa flokksins á Alþingi og í ríkisstjórn. Þeir koma til að taka þátt í fagnaði rétttrúaðra sem eins konar klapplið fyrir sitt lið á vellinum. Á landsfundi minnir flokkurinn á íþróttafélag, sem styður “okkar” menn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er enginn þverskurður kjósenda flokksins, sem eru samkvæmt skoðanakönnunum miklu hallari undir markaðsvæðingu kvótans og náttúruvernd á Austurlandi. Fundurinn er fyrst og fremst gjallarhorn og bergmál fyrir flokksforustuna.

Foringjarnir hafa gilda ástæðu til að ætla, að þeir komist upp með þetta, því að kjósendur eru flestir stilltir. Reynslan sýnir, að yfirleitt láta kjósendur skoðanir sínar á einstökum ágreiningsmálum ekki trufla hefðbundinn stuðning við flokkinn sinn í kjörklefanum.

Meðan kjósendur hafa ekki næga sannfæringu til að fylgja viðhorfum sínum til hitamála eftir í kjörklefanum, munu forustumenn halda áfram að líta svo á, að hlutverk sitt sé fremur að leiða hjörðina heldur en að spyrja hana, hvert skuli fara. Enda er það eðlileg niðurstaða.

Þannig munu hinir fáu útvöldu halda áfram að fá gefins sína skammta af takmörkuðum hlunnindum sjávar. Þannig mun náttúruperlum Austurlands verða fórnað fyrir tæpa gróðavon. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið þetta og fengið stuðning landsfundar.

Þetta verður síðan staðfest á Alþingi í vetur og verður þar með löglegt. Allt byggist þetta á, að kjósendur eru ekki reiðubúnir til að taka skoðanir sínar alvarlega. Undir niðri líta flestir þeirra á sig sem þegna fremur en frjálsborna borgara. Þeir treysta yfirvaldinu.

Þegar stjórnmálaflokkar fara að líkjast fótboltafélögum og landsfundir þeirra fara að líkjast klappliðum, sjá menn fljótt, að þetta er ekki vettvangur fyrir málafylgju. Hún færist yfir í eins máls samtök og þrýstihópa, sem taka vaxandi þátt í þjóðmálaumræðu fjölmiðla.

Slíkir hópar munu svo áfram puða markvisst við að reyna að knýja fram sættir á borð við þær, sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Samtök um lýðræði

Greinar

Þótt flestum þyki nóg til af fjölþjóðasamtökum, vantar okkur ein í viðbót. Ekki eru til nein samtök lýðræðisríkja um lýðræðið sjálft, verndun þess og eflingu í heiminum. Lýðræðisríkin þurfa slík samtök til að tryggja öryggi sitt, bæta efnahag sinn og efla milliríkjaviðskipti.

Þetta er sá minnihluti ríkja, sem fer eftir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, býr við dreifingu valdsins og gegnsæi þess, leggur áherzlu á lög og rétt, og stundar aðskilnað ríkis og trúarbragða. Þetta er sá minnihluti ríkja, þar sem hinn óbreytti borgari er í öndvegi.

Slík ríki eru traust, af því að þau hafa innri öryggisventla í lagi. Farið er eftir leikreglum í viðskiptum og öðrum samskiptum. Þau eru í senn traust inn á við og út á við. Viðskipti milli slíkra ríkja eru traustari en önnur viðskipti, af því að þau virða rétt útlendra aðila.

Þegar lýðræðisríkjum fjölgar, stækkar svigrúmið, þar sem ríki fara ekki í stríð við hvert annað og stunda ekki hryðjuverk í ríkjum hvers annars. Þá stækkar svigrúmið til auðsöfnunar allra slíkra ríkja af völdum aukinnar sérhæfingar þeirra í framleiðslu og viðskiptum.

Sjónarmiðin að baki lýðræðisins eflast, ef slík ríki gera með sér samtök um að koma fram sem heild á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar verður erfitt að andmæla, þegar einum rómi tala þau ríki, sem ein fara eftir mannréttindareglum samtakanna.

Mikilvægur þáttur slíks samstarfs er að koma sér saman um að styðja lýðræðisöfl í öðrum löndum, svo að svigrúm lýðræðis í heiminum stækki smám saman. Það felur um leið í sér, að bönnuð eru tímabundin hagkvæmnisbandalög þessara ríkja við andstæðinga lýðræðis.

Hafnað verður bandalögum, sem hefna sín um síðir, svo sem gamalkunnu bandalagi milli Bandaríkjanna og hryðjuverkaríkisins Pakistans um að koma Rússum frá Afganistan með því að koma á fót sveitum ofstækishópa talibana, menntuðum í sértrúarskólum Sádi-Arabíu.

Einnig verður hafnað bandalögum við aðila, sem grafa undan innviðum lýðræðisins með eiturlyfjasölu. Þar eru einna athafnasamastir stríðsherrar svokallaðs Norðurbandalags í Afganistan, sem Bandaríkin eru nú að nota til að kveða niður sinn eigin uppvakning, talibana.

Öll hagkvæmnisbandalög af slíku tagi hefna sín um síðir. Þau gefa stríðsherrum, herforingjum, lögreglustjórum og ýmsu öðru illþýði í þriðja heiminum tækifæri til að mjólka fjárhirzlur Vesturlanda og hindra eða tefja valdatöku lýðræðissinnaðra afla í þriðja heiminum.

Lýðræðisbandalagið ætti að nota þróunarfé sitt til að efla lýðræðislega þætti í öðrum ríkjum, svo að þau geti náð sér í aðgöngumiða að lýðræðisbandalaginu. Sérstaka áherzlu þarf að leggja á ríki, sem ramba á mörkum lýðræðis og geta með lagi þróazt í rétta átt.

Í þeim hópi er Tyrkland, sem þarf að efla mannréttindi minnihlutahópa og draga úr áhrifum hersins. Einnig Indland, sem þarf að draga úr spillingu ríkisafskipta og efla rétt lægstu stétta samfélagsins. Ennfremur Rússland, sem þarf að efla rétt minnihlutahópa og stöðva mafíuna.

Þetta eru fjölmenn ríki, sem eru komin langleiðina í faðm lýðræðisins. Ef þau sogast áfram í átt til lýðræðishefða Vesturlanda, stendur lýðræðið föstum fótum í fleiri menningarheimum en áður og er betur búið til að setja fjöldamorðingjum heimsins stólinn fyrir dyrnar.

Í fjölskrúðugri flóru fjölþjóðasamtaka vantar okkur samtök, sem hafa það eitt að markmiði að treysta lýðræði í sessi og víkka áhrifasvæði þess í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrið er bezt

Greinar

Hryðjuverkin í Bandaríkjunum og eftirmál þeirra hafa hleypt nýju lífi í umræðuna um, hvort Samuel Huntington eða Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér. Hefur vestrið sigrað heiminn eða er í uppsiglingu meginbarátta milli menningarheima? Rétt svör finnast mitt á milli.

Fyrir áratug var mikið rætt um, að svonefnd austræn gildi gætu att til kapps við vestræn gildi í nútímanum. Velgengni ríkja og þjóða í Suðaustur-Asíu var talin stafa af fjölskylduhyggju í stað einstaklingshyggju og hlýðni við yfirboðara í stað gagnrýninnar hugsunar.

Þessi umræða er steindauð. Komið hefur í ljós, að fjölskylduhyggja og undirgefni voru ávísanir á spillingu, sem hefur dregið vígtennur úr austræna undrinu. Japan hefur sokkið í varanlega kreppu og önnur ríki á þeim slóðum hafa orðið fyrir miklum efnahagsáföllum.

Flest bendir til, að lykill að velgengni þjóða í nútímanum fari eftir áherzlu þeirra á hefðbundin vestræn gildi eins og þau birtast í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins og gegnsæi þess, aðskilnaði ríkis og kirkju, og eindreginni áherzlu á lög og rétt.

Flest bendir líka til, að hagsmunir og vilji almennings í öðrum heimshlutum hallist á sömu sveif, þótt yfirvöld hafi margt við vestrið að athuga. Yfirvöld rægja vestrið til að verja óhófleg völd sín. Þaðan er sprottin umræðan um, að vestrið sé að valta yfir aðra menningarheima.

Tímabært er orðið, að Vesturlönd hætti að vera feimin við að hafa áhrif í öðrum heimshlutum. Almenningur í þriðja heiminum vill vestræn áhrif og telur þau munu verða til að lyfta sér úr fátækt til bjargálna. Hin vestrænu gildi hafa almenna skírskotun til vona almennings.

Allt þetta bendir til, að Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér, hin vestrænu gildi muni dreifast um allan heim og efla reisn almennings í þriðja heiminum. En til er ein undantekning, sem bendir til, að sitthvað sé líka skynsamlegt í því, sem Samuel Huntington hefur sagt.

Þessi undantekning er menningarheimur íslams. Þar er trú og ríki samofið. Þar er jafnrétti heft með skírskotun til helgra bóka. Þar er hvergi lýðræði, nema helzt í Tyrklandi. Þar eru litlar efnahagsframfarir, aðrar en þær, sem byggjast á þeirri heppni að eiga olíu í jörð.

Um leið er íslam ófriðlegasti menningarheimur jarðar. Á jöðrum hans eru flest átök í heiminum um þessar mundir. Íslam er greinilega vansæll menningarheimur, fullur öfundar og gremju í garð vestursins, sem hefur tekið við af íslam sem forustuafl mannkyns.

Þetta hefur verið feimnismál, en þarfnast umræðu. Það er engin tilviljun, að allur þorri hryðjuverka, sem beinist gegn vestrinu, er framinn af ofsatrúuðum áhangendum Múhameðs spámanns. Árásirnar 11. september hafa vakið vestrið til vitundar um þessa óþægilegu staðreynd.

Tímabært er, að ríkin, sem virða vestræn gildi mannréttinda, dreifingar valds og gegnsæis þess, aðskilnað ríkis og kirkju og áherzlu á lög og rétt, geri með sér bandalag um að efla áhrif þessara hugmynda í heiminum og hætti bandalögum við einræðisherra og harðstjóra.

Vestrinu ber að hætta stuðningi við ráðamenn ríkja á borð við Sádi-Arabíu, Pakistan, norðurbandalagið í Afganistan, Úsbekistan og Jórdaníu, svo að nokkur dæmi séu nefnd um aðila, sem hafa komið sér í mjúkinn hjá vestrinu til að halda völdum yfir langsoltnum lýð.

Í staðinn ber vestrinu að gera bandalag við lýðræðisöfl þriðja heimsins um útbreiðslu lýðræðis, svo að reisn, hagur og frelsi almennings eflist um allan heim.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslam á bágt

Greinar

Veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í Marokkó endar með því að segja, að svona verði veðrið, ef Allah lofar. Íslömsk þjóð, sem er svo frjálslynd, að áfengi fæst á öðru hverju kaffihúsi, gefur konum aðeins hálfan arfhlut á við karla, af því að kóraninn er sagður banna jafnrétti.

Í Marokkó hefur ekki orðið sá aðskilnaður ríkis og trúar, sem stuðlar að framgangi vísinda og tækni. Þar skammtar einvaldskonungur lýðræði og málfrelsi úr hnefa. Þar neitar ríkið sér um hagkvæmni jafnréttis kynjanna, sem þykir vera sjálfsagt á Vesturlöndum.

Frumkristnin var trú þræla og einkum kvenna, svo sem enn má sjá af kirkjusókn í kaþólskum löndum. Kristnin er sveigjanleg og hefur getað beygt sig fyrir þrýstingi. Meðal annars sættir hún sig við að spila aðra fiðlu í veraldlegri sinfóníu þjóðskipulagsins á Vesturlöndum.

Íslam var hins vegar hermannatrú, hlaðin karlrembu, svo sem enn má sjá af moskusókn í íslömskum löndum. Hún er einföld og ósveigjanleg og hefur átt erfitt með að víkja fyrir veraldlegri efnishyggju, sem flæðir að vestan um heim íslams eins og önnur svæði þróunarlanda.

Sem trú sigurvegarans hefur íslam átt erfitt með að bíta í það súra epli, að heiminum sé að mestu stjórnað af Vesturlöndum, sem eru í senn kristin og heiðin. Áhangendum íslams sárnar, að tæknivædd og auðug Vesturlönd skuli geta valtað kruss og þvers yfir trúarsvæði íslams.

Margir verða til að sá eitri í þennan jarðveg. Harðstjórar verja völd sín með því að gæla við trúna. Saddam Hussein gerðist trúaður á einni nóttu, þegar hann taldi sig þurfa á því að halda. Konungsættin í Sádi-Arabíu eys árlega ótrúlegum fjármunum í trúarofstækisskóla.

Ofstækisfullt Ísraelsríki var rekið eins og fleinn í þetta viðkvæma hold. Í sjónvarpinu sjá menn dag eftir dag og ár eftir ár hryðjuverk og ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum. Allir íslamar vita, að Bandaríkin hafa árum saman haldið Ísrael uppi með peningum og vopnum.

Vítahringurinn er sáraeinfaldur. Aðstæður og umhverfi framleiða vanmáttartilfinningu, sem leiðir unga menn í trúarskóla á vegum Sádi-Arabíu, þaðan sem þeir útskrifast sem ofsatrúaðir Wahhabítar og sumir hverjir sem froðufellandi efni í skæruliða og hryðjuverkamenn.

Ef Sádi-Arabinn og Wahhabítinn Osama bin Laden verður handtekinn, verður hann að píslarvotti. Hann verður að dýrlingi, ef hann verður drepinn. Fyrir hvern Osama bin Laden, sem hverfur af vettvangi, spretta upp tíu aðrir, rétt eins og skrímslin í sögunum.

Vandinn er stærri en svo, að hann verði leystur með hagkvæmnisbandalagi við hryðjuverkamenn í Pakistan, harðstjóra í Úsbekistan og fíkniefnasala í Norðurbandalagi um að velta talibönum úr sessi í Afganistan. Vandinn felst í misvægi og misþroska menningarheima.

Vesturlönd og einkum Bandaríkin hafa hamlað gegn lýðræðisþróun og veraldarhyggju í löndum íslams með því að styðja þar afturhaldssama harðstjóra, sem misnota trúna sér til framdráttar, og með því að styðja ofsatrúaða Ísraelsmenn til hryðjuverka í miðjum heimi íslams.

Vesturlönd geta því aðeins bægt hættu hryðjuverka frá sér, að þau rétti sáttahönd til íslams og reyni að finna friðarferli, sem auðveldi innreið lýðræðis, auðsældar og efnishyggju. Fólkið í þessum löndum mun reynast vilja taka mannsæmandi líf fram yfir froðufellandi trú.

Það dregur hins vegar síður en svo úr hættu á hryðjuverkum á Vesturlöndum að henda sprengjum á úlfaldarassa í Afganistan og hæfa þá ekki einu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri bróðir stækkar

Greinar

Osama bin Laden og fylgismönnum hans hefur óvart tekizt að breyta stjórnarháttum í Bandaríkjunum. Repúblikönsk stjórn George W. Bush hefur látið af störfum og við tekið demókratísk stjórn George W. Bush með afskiptasamari og dýrari Stóra bróður en hin fyrri.

Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hefur Bush fallið frá ýmsum ráðagerðum, sem þar í landi eru taldar eiga heima til hægri í pólitísku litrófi, svo sem minni ríkisútgjöldum og lægri sköttum og minni afskiptum ríkisins yfirleitt af frelsi fólks til að fara sínu fram.

Gagnvart útlöndum er breytingin ekki áhrifaminni. Í stað afskiptaleysis af utanríkismálum, sem jaðraði við fyrirlitningu á bandamönnum ríkisins, svo sem neitun á aðild að ýmsum fjölþjóðasamningum, er bandaríska ríkið skyndilega komið á kaf í hefðbundin utanríkismál.

Bandaríkin eru jafnvel farin að greiða niður skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar, sem hægri sinnaðir repúblikanar hafa hingað til hatað eins og pestina. Með sama áframhaldi samþykkja Bandaríkin um síðir jarðsprengjusáttmálann og stríðsglæpadómstólinn.

Heima fyrir kemur stefnubreytingin fram í ýmsum atriðum, sem snerta líf manna. Menn munu eiga erfiðara með að halda fjármálum og ferðalögum sínum leyndum fyrir Stóra bróður. Farið er að tala um nafnskírteini, sem hingað til hafa verið eitur í beinum þjóðarinnar.

Faldar myndavélar á mikilvægum stöðum, skyldunotkun nafnskírteina og víkkað svigrúm opinberra aðila til að hnýsast í fjármál fólks og notkun þess á símum og netþjónustu hafa hingað til ekki verið á stefnuskrá repúblikana. En nú hefur veruleiki tekið við af draumi.

Bandaríkin eru fjarri því að verða neitt lögregluríki í kjölfar hryðjuverkanna. Þau eru hins vegar að færast nær stjórnarháttum, sem hafa lengi þótt sjálfsagðir víðast hvar í Vestur-Evrópu, þar sem nafnskírteini hafa lengi þótt eðlileg og faldar myndavélar eru mikið notaðar.

Þar sem hættan á hryðjuverkum hefur tekið við af hættunni á hefðbundinni styrjöld sem nærtækasta öryggisvandamál vestrænna þjóða, er eðlilegt, að Stóri bróðir verði fyrirferðarmeiri en áður. Róttæk frjálshyggja hentar ekki þjóðfélagi á nýrri öld hryðjuverka.

Bandaríkin og önnur vestræn ríki verða að finna nýtt jafnvægi milli afskipta og afskiptaleysis hins opinbera. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum án þess að ýkja vandann. Ekki er ástæða til að gleðja hryðjuverkamenn með því að fara á taugum út af þeim.

Á tímabili var ástæða til að óttast, að stjórnvöld í Bandaríkjunum hefðu látið taka sig á taugum. Ýmsar tilskipanir í kjölfar hryðjuverkanna voru eins og pantaðar af Osama bin Laden. Flug var stöðvað og flugvöllum lokað, stóra flugvellinum í Washington vikum saman.

Drákonskar aðgerðir af slíku tagi voru til þess fallnar að magna efnahagsáföll Bandaríkjanna í kjölfar hryðjuverkanna. Þær voru svo harðar, að erfitt er að meta, hvort það voru hryðjuverkin sjálf eða viðbrögð stjórnvalda, sem ollu meiri samdrætti efnahags Bandaríkjanna.

Mikilvægt er, að stjórnvöld á Vesturlöndum grípi ekki til gagnaðgerða sem skaða þjóðarhag, trufli ekki samgöngur og aðra innviði kerfisins, heldur leyfi gangverki efnahagslífsins að hafa sinn gang. Slíkt sparar ómælda peninga og lýsir um leið frati á hryðjuverkamenn.

Sterkasta vopn Vesturlanda í vörninni gegn hryðjuverkum er traust gangverk efnahagslífsins og varfærni við að efla afskiptasemi Stóra bróður af lífi fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Vondur félagsskapur

Greinar

Ýmsir leiðtogar í Evrópu hafa beðið við símann síðan fulltrúar Bandaríkjanna sögðu þeim á fundi Atlantshafsbandalagsins fyrir viku, að þeir “mundu hringja, þegar þeir þyrftu aðstoð”. En Bandaríkin hafa bara alls ekki hringt, því að þau þurfa ekki evrópska aðstoð.

Bretar fá til málamynda að vera með í fyrirhuguðum átökum við fylgismenn Osama bin Ladens og talibana í Afganistan. Flestir aðrir eru fegnir. Frakkar naga hins vegar neglurnar, því að þeim er annt um að fá að vera með í fremstu víglínu, er í harðbakkann slær.

Bandaríkjastjórn hefur teflt skákina sem afleiðingu árásar á Bandaríkin, en ekki árásar á vestræn gildi í nútímanum. Hún hefur einangrað vandann við fylgismenn Osama bin Ladens, sem hún hyggst klófesta eða drepa, og talibana, sem hún hyggst reka frá völdum.

Til að ná markmiðunum eru Bandaríkin að byggja upp svæðisbandalag við nágrannaríki Afganistans, þar sem hún þarf aðstöðu til undirbúnings átökunum. Lykilríki í þessu svæðisbandalagi eru Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabía, svarnir andstæðingar vestrænna gilda.

Fyrst ber frægast að telja Pakistan, sem ræktaði talibana í Afganistan fyrir bandaríska peninga til að siga þeim á sovézka hernámsliðið. Pakistan er núna undir stjórn herforingjans Musharrafs, sem skipulagði í hittifyrra glæfralega og misheppnaða innrás í Kasmír.

Musharraf þorir ekki annað en að hlýða Bandaríkjunum til að firra sig reiði þeirra. Auk þess hyggst hann nota bandalagið til að bæta stöðu sína til frekari hryðjuverka í Indlandi, svo sem fram kom á mánudaginn, þegar 38 manns voru drepnir í árás á þinghúsið í Kasmír.

Hryðjuverkið framdi hópurinn Jaish-e-Mohammed, sem kostaður er af ríkissjóði Pakistans. Af tillitssemi við Musharraf er hópurinn ekki á skrá Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök, þótt Indverjar hafi margsinnis bent á, að hann eigi að vera þar ofarlega á blaði.

Annar miður fýsilegur bandamaður Bandaríkjanna er Úsbekistan, þar sem harðstjórinn Karimov gengur lengst allra valdhafa arfaríkja Sovétríkjanna í stjórnarháttum, sem stríða gegn vestrænum gildum. Með trúarofsóknum gegn múslímum framleiðir hann hryðjuverkamenn.

Karimov gengur fagnandi til samstarfs við Bandaríkin, því að hann sér, að nú fær hann frið til að festa sig enn frekar í sessi með enn harðari ofsóknum gegn íbúum landsins. Hann sér fram á að þurfa ekki að sæta sömu örlögum og Slobodan Milosevic sætir nú í Haag.

Þriðji og hættulegasti bandamaður Bandaríkjanna er konungsætt Sádi-Arabíu, sem hefur leynt og ljóst framleitt hryðjuverkamenn í ofsatrúarskólum Wahhabíta og lætur peninga renna í stríðum í straumum til þeirra hryðjuverkamanna, sem mest og harðast hata vestrið.

Með hjálp bandamanna á borð við Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabíu mun Bandaríkjunum takast að koma fram réttlátum hefndum á Osama bin Laden og talibönum. En menn mega alls ekki halda, að það verði í leiðinni neinn sigur fyrir vestræn gildi í heiminum.

Til marks um það má hafa, að Bandaríkjastjórn hefur beðið emírinn í Katar að láta ritskoða sjónvarpsstöðina al-Jazeera, sem er eini frjálsi fjölmiðillinn á Arabíuskaga og nýtur virðingar um allan heim fyrir harðsótta fréttaöflun, til dæmis af ýmsum óhæfuverkum talibana.

Stundarhagur er af bandalagi við hryðjuverkamenn gegn hryðjuverkamönnum, en að unnum sigri verður staða vestrænna gilda í heiminum lakari en áður.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfalt siðgæði

Greinar

Með hjálp vesturveldanna gerðu Þjóðverjar hreint fyrir sínum dyrum eftir síðari heimsstyrjöldina, viðurkenndu hryðjuverk sín, greiddu skaðabætur og gerðu ýmsa aðra yfirbót, sem lauk með áhrifamiklum og einlægum hætti í stjórnartíð Willy Brandt kanslara.

Japanar hafa aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum á þennan hátt, þrátt fyrir kröfur nágrannaþjóðanna, sem urðu fyrir barðinu á hryðjuverkum þeirra í stríðinu. Fyrir bragðið hefur Japan aldrei orðið fullgildur félagi í vestrænu þjóðfélagi eins og Þýzkaland hefur orðið.

Yfirleitt gleymist, að fleiri en hinir sigruðu frömdu hryðjuverk í stríðinu. Stærstu hryðjuverk mannkynssögunnar, reiknuð á tímaeiningu, voru framin, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á óbreytta borgara í Hiroshima og Nagasaki undir lok styrjaldarinnar.

Bandamenn frömdu hryðjuverk á óbreyttum borgurum fjarri víglínunni, þegar þeir sprengdu Dresden, sem var ekki hernaðarlega mikilvæg borg, og frömdu ýmsar aðrar loftárásir, sem eingöngu var beint gegn óbreyttum borgurum, einkum börnum, konum og gamalmennum.

Í krafti sigursins hafa bandamenn aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum að hætti Þjóðverja. Þótt rúmlega hálf öld sé liðin frá þessum skelfilegu atburðum, er samt sanngjarnt, að þeir verði teknir fyrir og afgreiddir með formlegum hætti hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Vesturveldin þurfa á þessu að halda, því að dómstóllinn er alþjóðleg staðfesting almenns gildis mannasiða, sem teknir hafa verið upp á Vesturlöndum á síðustu hálfri öld. Vesturlönd þurfa að gera upp skugga fortíðarinnar til að geta dæmt aðra fyrir hryðjuverk þeirra í nútímanum.

Siðferði baráttunnar gegn stríðsglæpum og öðrum hryðjuverkum má ekki verða tvöfalt. Annars öðlast baráttan ekkert innra gildi. Eitt verður yfir alla að ganga, þar á meðal Vesturlönd og ekki sízt Bandaríkin, sem hafa raunar hafnað Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Þessi almenni dómstóll Sameinuðu þjóðanna er eðlilegt framhald sértækra stríðsglæpadómstóla, sem komið hefur verið á fót í kjölfar hryðjuverka í Rúanda í Afríku og á Balkanskaga í Evrópu og munu væntanlega ná lögum yfir ýmsa af ógeðfelldustu illmennum nútímans.

Því miður hafa Bandaríkin kosið að taka ýmsar hryðjuverkastjórnir inn í bandalag sitt gegn Osama bin Laden. Má þar nefna fyrrverandi Sovétlýðveldi norðan við Afganistan, einkum Uzbekistan, þar sem Karimov er við völd, einn verstu hryðjuverkamanna nútímans.

Í þessu óhreina bandalagi eru hryðjuverkastjórnir Rússlands og Kína, svo og Sádi-Arabíu og Ísraels. Bandalagið við Sádi-Arabíu er athyglisvert fyrir þá sök, að það ríki stofnaði og kostar ofsatrúarskólana, sem ólu upp hryðjuverkamenn Osama bin Ladens og aðra slíka.

Rétt er líka að minnast þess, að sjálfir talibanar eru skrímsli, sem Bandaríkin og Pakistan ræktuðu sameiginlega til að losna við Rússa frá Afganistan á sínum tíma, en misstu síðan tök á, svo sem títt er um slík skrímsli. En ríki verða að bera ábyrgð á skrímslum sínum.

Eðlilegt er, að öll þau ríki, sem hér hafa verið nefnd, svari fyrr eða síðar til saka hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir hryðjuverk sín, bæði verk, sem þau fremja sjálf; verk, sem þau borga öðrum fyrir að fremja; og verk, sem þau hvetja aðra til að fremja.

Mannkynið í heild mun af einlægni styðja baráttuna gegn hryðjuverkum, ef hafnað verður tvöföldu siðgæði og eitt látið yfir alla hryðjuverkamenn ganga.

Jónas Kristjánsson

DV