Greinar

Mín og þín hryðjuverk

Greinar

Bandaríkin eru með hjálp Evrópu og fjölda annarra ríkja að leita uppi hryðjuverkamenn, sem skipulögðu árásina á Bandaríkin 11. september, svo og stjórnvöld, sem veittu þeim skjól og veita enn. Eðlilegt er, að allir þessir aðilar hljóti fyrr eða síðar makleg málagjöld.

Jafnframt þurfa Vesturlönd út af fyrir sig að hefja skipulegar aðgerðir til að hindra frekari hryðjuverk, sem beinast sérstaklega að Vesturlöndum sem slíkum. Það er afmarkað vandamál, sem verður ekki höndlað skynsamlega, nema menn átti sig á einföldum rótum þess.

Hryðjuverk gegn Vesturlöndum eru fyrst og fremst framin af rugluðum ofsatrúarmönnum af sértrú Wahhabíta, sem hafa gengið í trúarofstækisskóla, kostaða af konungsættinni í Sádi-Arabíu, þar sem virkjuð er almenn gremja vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael.

Vesturlöndum ber öryggishagsmuna sinna vegna að hefja aðgerðir gegn heiftarhættu, sem á rætur sínar í framgöngu ríkisvaldsins í Sádi-Arabíu og Ísrael. Þar fyrir utan er skynsamlegt fyrir Vesturlönd að stuðla að almennu viðnámi gegn hryðjuverkum yfirleitt.

Þegar út í þá sálma er komið, er nauðsynlegt að átta sig á, að mestur hluti hryðjuverka í heiminum er ekki framinn af einstaklingum eða hópum einstaklinga, heldur af ríkisstjórnum og umboðsmönnum þeirra í her og lögreglu. Það eru hin dæmigerðu hryðjuverk nútímans.

Í þessum hópi eru harðstjórnir tindáta víðs vegar um þriðja heiminn, svo og ríki á borð við Rússland og Kína, sem vilja nota bandalagið gegn Osama bin Laden til að fá betri frið til að stunda hryðjuverk á hernumdum svæðum, svo sem í Tsjestjeníu, Tíbet og Sinkíang.

Ekki má heldur gleyma, að mikið af hryðjuverkum nútímans er framið með jarðsprengjum, sem hafa þá eiginleika, að hermenn kunna að vara sig á þeim, en börn og gamalmenni alls ekki. Daglega deyja börn og enn fleiri börn verða örkumla af völdum þessa hræðilega vopns.

Bandaríkjastjórn hefur neitað að skrifa undir fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við sölu og notkun jarðsprengja, rétt eins og hún er að undirbúa afturhvarf frá fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við tilraunum með sýklavopn.

Árás hryðjuverkamanna á World Trade Center og Pentagon ætti að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að það er í þágu Bandaríkjanna eins og afgangsins af mannkyninu, að fjölþjóðlegu sáttmálarnir um jarðsprengjur og sýklavopn nái fram að ganga nú þegar.

Hún ætti líka að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að fjölþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem hefur að tilhlutan Evrópu, en gegn andstöðu Bandaríkjanna, verið komið upp á vegum Sameinuðu þjóðanna, hentar Bandaríkjamönnum ekki síður en öðrum þjóðum.

Það er nefnilega komið í eindaga hjá Bandaríkjunum að láta af siðlausri andstöðu sinni við fjölþjóðlegt samstarf um ýmis almenn öryggismál mannkyns, svo sem um ofangreinda fjölþjóðasamninga og um verndun lofthjúps jarðar, sem almennt samkomulag er um í heiminum.

Ríki, sem er í innilegu bandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael, í hagsmunabandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Rússland og Kína og neitar að taka þátt í fjölþjóðasáttmálum um ýmis atriði, sem varða öryggi mannkyns, hefur tapað áttum í tilverunni.

Bandaríkjamenn þurfa almennt að spyrja sig, hvar enda hin vondu og skelfilegu hryðjuverk allra hinna og hvar byrja mín eigin góðu og nauðsynlegu hryðjuverk.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir eitraðir vinir

Greinar

Sértrúarflokkur Wahhabíta er nánast einráður í hópi þeirra hryðjuverkamanna, sem beina spjótum sínum að Bandaríkjunum. Þessi þrönga og ofsafengna sértrú af meiði Íslams ræður ríkjum á Arabíuskaga, bæði í Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstadæmunum.

Osama bin Laden er Wahhabíti frá Sádi-Arabíu og sama er að segja um allan þorra 200 manna nánustu hirðar hans í Afganistan. Sveitir hans fyllast af ungum mönnum, sem hafa lært í trúarskólum, er konungsættin í Sádi-Arabíu hefur komið á fót víðs vegar um heim múslima.

Í þessum sértrúarskólum Wahhabíta er ungum og óhörðnuðum mönnum kennt að hata efnishyggju Vesturlanda skefjalaust. Úr þessum skólum kemur endalaust hráefni í sjálfsmorðsveitir á borð við þær, sem réðust á World Trade Center og Pentagon 11. september.

Konungsættin í Sádi-Arabíu er ein helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum. Hún rekur eitt afturhaldsamasta ríki heims á grundvelli sértrúar sinnar og notar hluta olíuauðsins til að breiða út sértrú Wahhabíta, sem ræktar hryðjuverkamenn.

Vesturlönd og einkum þó Bandaríkin hafa eigi að síður stutt konungsætt Sádi-Arabíu, af því að hún ræður yfir umtalsverðum hluta af olíubirgðum heimsins. Ættin segist raunar vera vinur Vesturlanda og studdi þau í stríði þeirra við keppinauta sína í Bagdað í Írak.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn konungsætt Sádi-Arabíu. Í skjóli herveldis síns geta Bandaríkin krafizt þess, að ættin láti samstundis af stuðningi sínum við undirróður gegn Vesturlöndum.

Hin helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum er langvinn reiði almennra múslima í garð Bandaríkjanna vegna hins skefjalausa stuðnings þeirra við Ísraelsríki, þrátt fyrir sífelld hryðjuverk þess í garð hernuminna Palestínumanna.

Ef hryðjuverk eru mæld í mannslífum, er Ísraelsríki sex sinnum athafnameira á því sviði en samanlagðir Palestínumenn. Bandaríkin líta nánast alveg framhjá þessu misvægi, þótt hryðjuverk Ísraels séu greinileg og óumdeilanleg brot á fjölþjóðasamningum.

Bandaríkin og raunar Vesturlönd í heild eru réttilega sökuð um tvöfalt siðgæði í viðbrögðum við gegndarlausum yfirgangi Ísraels í hernuminni Palestínu. Þetta sárnar múslimum um allan heim og skapar jarðveg fyrir ofsatrúarskóla konungsættarinnar í Sádi-Arabíu.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn Ísraelsríki. Í krafti árlegs milljarðastuðnings síns geta Bandaríkin krafizt þess, að Ísrael láti samstundis af landnámi í Palestínu og samþykki eftirlitssveitir.

Orsakir hryðjuverkaöldunnar eru fleiri en Sádi-Arabía og Ísrael, en ekki eins áþreifanlegar og viðráðanlegar. Það er til dæmis athyglisvert, að nánast öll ríki múslima eru spillt lögregluríki, sem ekki veita íbúum sínum sömu framfarir og ríki Vesturlanda veita borgurum sínum.

En Sádi-Arabía og Ísrael skera í augu, þegar leitað er viðráðanlegra orsaka hryðuverka Osama Bin Laden og annarra af hans sauðahúsi. Því er athyglisvert, að þessi tvö ríki skuli einmitt vera talin í stuðningshópnum við baráttu Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin þurfa enga óvini, ef þau hafa ríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael að vinum. Þar hafa Bandaríkin trygga uppsprettu ógna við öryggi sitt, tvo eitraða vini.

Jónas Kristjánsson

DV

Æðruleysis er þörf

Greinar

Árásin á World Trade Center í fyrradag var árás á vestræna samfélagsgerð. Hún markar tímamót í samtímasögunni, af því að hún flutti óttann og öryggisleysið aftur til Vesturlanda eftir hálfrar aldar friðar- og blómaskeið. Ógnir stríðsins eru aftur komnar til iðnríkjanna.

Frelsið sjálft beið hnekki í árásinni. Vestræn stjórnvöld kunna núna að freistast til að hefta einmitt það, sem greinir Vesturlönd frá gróðrarstíum hryðjuverkahópa. Eftirlit með samskiptum og hreyfingum fólks verður aukið. Um leið aukast óþægindi venjulegra borgara.

Þetta er sérstakt áfall fyrir Bandaríkjamenn, sem hafa alltaf lagt manna mesta áherzlu á frelsi fólks fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Nú verða menn að sæta auknu eftirliti opinberra aðila, því að óvinurinn leynist í fjöldanum. Stóri bróðir mun hafa auknar gætur á þér.

Staðfest hefur verið, að ógnin mun ekki koma í eldflaug frá Afganistan. Ráðagerðir um stjörnustríð og regnhlíf yfir Bandaríkjunum hafa allt í einu reynzt vera heimskra manna ráð. Ógnin reyndist koma að innan, í flugvélum, sem tóku sig á loft frá bandarískum flugvöllum

Næst birtist ógnin í skjalatösku, sem vel klæddur maður setur við burðarsúlu í skýjakljúfi. Ef bandaríska þjóðfélagið hyggst bregðast við slíkri ógnun með öllum tiltækum ráðum, verður lífsstíll bandarískra borgara allur annar og lakari en hann hefur verið undanfarna áratugi.

Vesturlönd verða að reyna að verja líf og limi borgaranna. En þau verða líka að reyna að verja vestræna samfélagsmynztrið, sem gerir lífið eftirsóknarvert. Þess vegna verða innri varnir gegn hryðjuverkum framtíðarinnar ekki hámarkaðar, heldur fara bil beggja í umfangi.

Heimsmyndin hefur skyndilega breytzt. Yfirburðir Vesturlanda og einkum Bandaríkjanna hafa minnkað. Völdin í heiminum felast ekki lengur í að geta sent skæðadrífu eldflauga yfir heimshöfin til að refsa róttækum andstæðingum vestrænnar hugmyndafræði.

Svo mikil voru völd Vesturlanda orðin fyrir skömmu, að þau háðu stríð í Kosovo án þess að koma nærri vígvellinum og án þess að fórna eigin mannslífum. Nú hefur dæmið snúizt þannig, að nútímastríðið er komið heim til Vesturlanda sjálfra, einkum til Bandaríkjanna.

Enginn er óhultur í stríði nútímans. Menn geta ekki einskorðað sig við að láta sérfræðinga við tölvur heyja stríð í fjarlægð. Stríðið er komið heim í garð til þeirra, sem áður töldu sig óhulta í skjóli efnahagslegra og hernaðarlegra yfirburða vestræns samfélags.

Í fyrstu mun breytingin valda víðtækri vanstillingu fólks, sem fær útrás í kröfum um blóðugar refsiaðgerðir gegn blórabögglum, sem verða fundnir upp, ef raunverulegir sökudólgar finnast ekki í tæka tíð. Síðan munu viðhorf almennings hneigjast fremur til æðruleysis.

Fólk mun skilja betur en áður, að lífið er hættulegt og tilviljanakennt. Fólk getur farizt, ef einhver annar sofnar undir stýri á bíl, sem kemur úr gagnstæðri átt. Á sama hátt getur fólk farizt, ef það er statt í flugvél eða skýjakljúfi, sem lenda í atburðarás hryðjuverka.

Í öllum tilvikum eru tölfræðilega hverfandi líkur á, að menn verði fórnardýr hinnar nýju tegundar nútímastríðs. Forlögin hljóta að ráða, hvort þú vinnur í happdrætti eða verður fyrir bíl. Á sama hátt hljóta þau að að ráða, hver verður fórnardýr hryðjuverka og hverjir sleppa.

Ærðuleysi er dyggð, sem vestrænt samfélag verður að tileinka sér í auknum mæli til að svara breyttri heimsmynd með óskertu samfélagsmynztri Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt var það satt og rétt

Greinar

Magnaður hlýtur sá texti að vera, sem knýr Bandaríkin og Ísrael til að hverfa af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttamisrétti og fær ríki Evrópusambandsins til að hóta að gera slíkt hið sama, ef ekki verði mildaður. Önnur saga er svo af réttmæti hins magnaða texta.

Á Vesturlöndum hefur Ísrael einkum verið sakað um brot á fjölþjóðasáttmálum um framkvæmd styrjalda og meðferð fólks á hernumdum svæðum. Slík brot eru áþreifanleg og nægja til að setja Ísrael á aðra skör en Vesturlönd, en tæpast lægri en ýmis þriðja heims ríki.

Ný vídd kemst í umræðuna um Ísrael, er það er sakað um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu; þegar ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna fer næstum út um þúfur, af því að fulltrúar Vesturlanda telja ekki við hæfi að gera Ísrael að blóraböggli á þeim sviðum.

Við nánari athugun kemur þó í ljós, að efnislega er margt réttmætt í ásökunum um nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttastefnu Ísraels. Tökum fyrst nýlendustefnuna, eins og hún lýsir sér í landnámi ísraelskra borgara á hernumdum svæðum í Palestínu.

Þótt þessar byggðir landnema séu einn helzti þröskuldurinn í vegi friðarsamninga milli Ísraels og Palestínu, er sífellt haldið áfram að stofna til þeirra, hvaða stjórnmálaflokkar sem eru við völd í Ísrael. Land er tekið frá Palestínumönnum með valdi og afhent Ísraelsmönnum.

Þótt slíkt landnám hafi fyrr á öldum verið talið sjálfsagt á Vesturlöndum, þegar siðferði var á lægra stigi en það er nú, var nýlendustefna að mestu aflögð í heiminum á síðustu áratugum. Nú er Ísrael versta dæmið um stefnu, sem samkvæmt fjölþjóðasamþykktum er ólögleg.

Aðskilnaðarstefna er orð, sem áður var einkum notað um stefnu stjórnvalda í suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri hluta síðustu aldar og stjórnar hvítra manna í Suður-Afríku á síðari hlut aldarinnar. Orðið vísar til kerfisbundins aðskilnaðar og mismununar borgaranna.

Slík aðskilnaðarstefna hefur myndazt í Ísrael eftir trúarbrögðum. Svæði ríkistrúarfólks fá betri þjónustu ríkis og sveitarfélaga en svæði hinna, sem játa önnur trúarbrögð, einkum áhangenda Íslams. Ísrael er smám saman að breytast í ofsatrúarríki með aðskilnaðarstefnu.

Kynþáttastefna er mikil og vaxandi í Ísrael. Þeir, sem heimsækja landið, komast tæpast hjá að sjá, að mikill hluti almennra Ísraelsmanna lítur niður á Palestínumenn sem annars flokks og ómennskt fólk. Þessi kynþáttastefna er studd af stefnu og aðgerðum stjórnvalda Ísraels.

Ísraelsmönnum finnst ekki tiltökumál, að Palestínumenn séu drepnir og telja það nánast eðlilega afleiðingu þess, að nýlenduríkið fái ekki athafnafrið á hernumdum svæðum. Sé einn Ísraelsmaður hins vegar drepinn, kallar það að mati þjóðarinnar á margfaldar hefndaraðgerðir.

Venja er að kalla þessi viðhorf kynþáttahatur, þótt erfitt sé að skilgreina, hvað séu kynþættir, síðan fræðimenn komust að raun um, að líkamlega er meiri munur innan hópa en milli hópa. Skilgreining kynþáttahaturs hefur breytzt og nær greinilega til Ísraelsmanna.

Ísrael er ríki, land og þjóð stríðsglæpa og glæpa gegn fólki á hernumdum svæðum. Það er ríki nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og kynþáttahaturs, sem beinist einkum gegn fólki utan trúarbragða ríkisins. Magnaða orðalagið um Ísrael á ráðstefnunni var efnislega satt og rétt.

Hitt er svo flóknara, hvort skynsamlegt sé að setja Ísrael í gapastokkinn fyrir atferli, sem tíðkast víðar. Niðurstaðan varð því sú, að sannleikanum var kippt út.

Jónas Kristjánsson

DV

Palli er einn í heiminum

Greinar

Bandaríkin hafa siglt hraðbyri frá Evrópu á því hálfa ári, sem liðið er frá valdatöku George W. Bush forseta. Stjórn hans fer í vaxandi mæli fram eins og Palli, sem var einn í heiminum. Hún hefur þegar hafnað sex fjölþjóðasamningum, sem Evrópa styður eindregið.

Ráðamenn í Evrópu kvarta um, að samráð af hálfu Bandaríkjanna hafi lagzt niður við valdatöku Bush. Hann tilkynni einhliða, hvað hann hyggist gera og leyfi aðstoðarmönnum sínum að fara opinberlega háðulegum orðum um sjónarmið, sem fulltrúar Evrópu halda á lofti.

Bandaríkin vilja ekki stríðsglæpadómstól, af því að hann kynni að ákæra bandaríska ríkisborgara. Þau vilja ekki aðgerðir gegn loftmengun, af því að þær skerða svigrúm bandarískra olíufélaga. Þau vilja ekki bann við jarðsprengjum og eiturefnum vegna hagsmuna hersins.

Þetta er ekki gamla einangrunarstefnan, sem ríkti í Bandaríkjunum fram undir fyrri heimsstyrjöld og var síðan endurvakin eftir hana, er Bandaríkin vildu ekki taka þátt í Þjóðabandalaginu, sem þeirra eigin forseti hafði efnt til. Þetta er ný og einhliða heimsvaldastefna.

Bandarískir kjósendur hafa lítinn áhuga á kveinstöfum frá Evrópu. Hin nýja og einhliða heimsvaldastefna nýtur stuðnings heima fyrir, þótt menn skirrist enn við að taka orðið sér í munn. Bandaríkin telja sig einfaldlega vera himnaríki, sem sé hafið yfir fjölþjóðasamninga.

Hin nýja Bandaríkjastjórn styðst við gamlar upplýsingar um, að Evrópa sé lélegur bandamaður, af því að þar sé hver höndin upp á móti annarri, þegar til kastanna komi. Þetta er ekki lengur fyllilega rétt, því að Evrópa hefur fetað sig varlega í átt til aukinnar samræmingar.

Enn er Evrópa hernaðarlegur dvergur, sem getur ekki tekið til hendinni í eigin bakgarði á Balkanskaga án þess að hafa Bandaríkin með í spilinu. En það spillir líka metnaði og getu Bandaríkjanna sem heimsveldis að vilja alls ekki sjá blóð hermanna sinna í sjónvarpi.

Bandaríkin geta ekki stjórnað heiminum með ógnunum úr lofti. Þau verða að lokum að heyja styrjaldir sínar á jörðu niðri, þar sem blóð rennur óhjákvæmilega. Þau munu seint og um síðir átta sig á, að það kostar eigin mannslíf að reka heimsvaldastefnu forsetans.

Efnahagslega hafa Bandaríkin ekki forustu um þessar mundir, því að Evrópa er orðin stærri eining og vex örlitlu hraðar en Bandaríkin. Því væri skynsamlegt fyrir Bandaríkin að vera í góðu samstarfi við Evrópu og taka tillit til ýmissa sjónarmiða, sem þar ríkja.

Slíkt gerðu allir forsetar Bandaríkjanna á síðustu áratugum, þar á meðal faðir núverandi forseta. Nýja, einhliða heimsvaldastefnan í Bandaríkjunum er róttækt fráhvarf frá þeirri stefnu og virðist helzt hugsuð sem leið til að afla forsetanum vinsælda bandarískra sérstöðusinna.

Sennilegt er, að vikið verði frá þessari stefnu eftir fjögur ár, þegar nýr forseti tekur við. Ekki er víst, að samskipti Evrópu og Bandaríkjanna skaðist varanlega, þegar litið er til lengri tíma, til dæmis til áratugarins í heild. En skammtímaáhrifin eru óneitanlega óhagstæð.

Nýlegar skoðanakannanir um gervalla Evrópu sýna mikla og eindregna andstöðu evrópskra kjósenda við Bush Bandaríkjaforseta og mörg helztu stefnumið hans. Þær hvetja ráðamenn í Evrópu til að stinga við fótum og hindra framgang heimsvaldastefnunnar.

Meðan Palli er einn í heiminum á forsetastóli Bandaríkjanna verða erfið samskiptin yfir Atlantshafið, þar á meðal fyrir þjóðir, sem vanar eru að tvístíga.

Jónas Kristjánsson

DV

Hornsteinn í tilverunni

Greinar

Náttúruminjasafn Íslands er að hluta í nokkrum óvistlegum kompum við Hlemmtorg, en að mestu leyti niðri í kössum. Bráðlega verður því endanlega lokað, því að húseigandi þarf að koma þar fyrir gistiheimili. Þetta er einstæð umgerð náttúruminja á Vesturlöndum.

Virðingarleysi menntaráðuneytis og Alþingis við íslenzkar náttúruminjar endurspeglast í því, að Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki státar af nothæfu náttúruminjasafni. Innan um öll monthús ríkisvaldsins er ekki fjárhagslegt rými fyrir náttúruminjasafn.

Ekki stafar þetta af, að samband manns og náttúru sé eða hafi verið minna hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. Þvert á móti er öll saga þjóðarinnar samofin náttúrunni í blíðu og stríðu. Við höfum haft og höfum enn þá sérstöðu að búa í landi, sem er enn í mótun.

Á síðustu árum hefur þjóðin verið að vakna til vitundar um náttúruna og ganga á vit hennar. Ferðalög um hálendið eru orðin eitt af fremstu áhugamálum þjóðarinnar. Fólk fer um ósnortin víðerni á tveimur jafnfljótum, á hestbaki, á hjólum, í fjórhjóladrifsbílum og á vélsleðum.

Á ferðum þessum hafa menn lesið í náttúruna, fræðst um fjölbreyttan og litskarpan gróður hálendisins, lesið í jarðlög frá misjöfnum tímum og aðstæðum, virt fyrir sér sveitir fugla og skordýra og staðið í undrun andspænis risavöxnum gljúfrum, fossum og hömrum.

Þjóðin hefur komið til baka reynslunni ríkari. Menn hafa komizt í tæri við tign og dulúð öræfanna. Síazt hefur inn virðing fyrir víðerni landsins, sem ekki hefur skilað sér til ráðamanna þjóðarinnar. Fólk hefur á nýjan leik gert náttúruna að hornsteini í tilveru sinni.

Þetta endurspeglast í skoðanakönnunum. Helmingur þjóðarinnar, 45%­60% eftir orðalagi spurninga, er jákvæður í garð umhverfisverndar, til dæmis þegar spurt er um orkuver við Eyjabakka eða Kárahnjúka. Að baki þessum tölum er mikil viðhorfsbreyting á skömmum tíma.

Að vísu eigum við nokkuð í land til að verða eins vistvæn og íbúar Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem 60­80% fólks er samkvæmt skoðanakönnunum jákvætt í garð skilgreindra þátta umhverfisverndar. Við erum um það bil 15 prósentum og hálfum áratug á eftir.

Ekkert getur komið í veg fyrir, að Íslendingar fylgi í humátt á eftir vestrænum auðþjóðum, jafnvel þótt ráðamenn okkar prédiki, að þjóðin hætti að geta skaffað, ef hún fái of mikinn áhuga á umhverfismálum. Sultaráróður stjórnvalda hættir smám saman að hafa áhrif.

Menn vita af fenginni reynslu, að hvalaskoðun gefur margfalt meiri tekjur en hvalveiði. Menn eru smám saman að átta sig á, að ekki felst efnahagsleg byrði í að gæta hagsmuna náttúrunnar. Við erum farin að læra af þjóðum á borð við Svisslendinga og Þjóðverja.

Svisslendingar hafa losað sig við öll sín álver og eru grátfegnir, enda vegnar þeim betur en nokkru sinni fyrr. Í Alpalöndum dettur engum lengur í hug að reisa risavaxnar stíflur með breytilegri vatnsborðshæð. Norðmönnum dettur bara í hug að láta fremja slíkt á Íslandi.

Baráttan gegn eyðingu Eyjabakka sameinaði nývöknuð öfl umhverfisverndar hér á landi. Baráttan heldur áfram, því að þrautseig eyðingaröfl meðal ráðamanna þjóðarinnar vilja núna reisa stíflur, sem spilla Þjórsáverum sunnan Hofsjökuls og Miklagljúfri norðan Vatnajökuls.

Hafa má til marks um, að eyðingaröflin hafa beðið ósigur, þegar stjórnvöldum finnst vera sjálfsagt, að Íslendingar eigi náttúruminjasafn að hætti siðaðra þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV

Virkjað verður

Greinar

Flest bendir til, að virkjað verði við Kárahnjúka. Ríkisstjórnin mun hafna málefnalegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara” og leggja málið fyrir Alþingi á komandi vetri. Þar verður virkjunin samþykkt fyrir jól með öruggum meirihluta stjórnarflokkanna.

Þetta er eðlileg málsmeðferð í lýðræðisríki. Kjörnir fulltrúar taka endanlega ákvörðun eftir mikla umræðu í þjóðfélaginu. Þeir þurfa ekki að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða að hætti embættismanna. Þeir hafa pólitískt vald til að taka ranga ákvörðun, sem öðlast gildi.

Steinarnir í vegi virkjunarinnar eru annars eðlis og snúa fremur að fjármögnun álversins á Reyðarfirði. Ekki hefur reynzt kleift að fá erlendan ofurfjárfesti til að kosta verið. Niðurstaða Skipulagsstofnunar verður ekki til að efla áhuga manna á að taka þátt í harmleiknum.

Norsk Hydro vill bara eiga lítinn hluta í álverinu, en ætlar sér eigi að síður að hafa sömu viðskiptaeinokun og Alusuisse hefur gagnvart Ísal. Gróði Norsk Hydro verður til með því að sitja beggja vegna borðsins, selja Reyðaráli allt hráefnið og kaupa síðan allt álið frá því.

Mjög er horft til lífeyrissjóðanna. Þar sitja menn, er girnast persónulegar tekjur og persónuleg völd af setu í stjórnum fyrirtækja og hafa reynslu af því að láta sjóðina kaupa handa sér stjórnarsæti. Þeir munu eftir nokkurt hik fórna hagsmunum sjóðfélaganna fyrir sína eigin.

Lífeyrissjóðir eiga að festa peninga sína sem víðast til að tryggja öryggi sjóðfélaga. Heppilegast er að fjárfesta í erlendum safnsjóðum til að útiloka íslenzkar sveiflur. Heimskulegast er að fjárfesta mikið í stökum fyrirtækjum, því að það eykur áhættu sjóðfélaga of mikið.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða geta litið fram hjá slíkum málefnalegum sjónarmiðum alveg eins og íslenzkir stjórnmálamenn geta litið fram hjá málefnalegri úttekt Skipulagsstofnunar. Lýðræðið stendur hvorki né fellur af völdum rangra ákvarðana, sem teknar eru í nafni þess.

Ef við gerum ráð fyrir, að hægt verði að kría saman peninga í Reyðarál, er fátt, sem getur komið í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ekki er að vænta umhverfisstuðnings norskra stjórnvalda sem aðaleiganda Norsk Hydro, því að áhugi er lítill í Noregi á íslenzku umhverfi.

Ekki verður horft fram hjá þeirri staðreynd, að drjúgur meirihluti kjósenda ríkisstjórnarflokkanna tveggja á Íslandi er fylgjandi Kárahnjúkavirkjun. Ríkisstjórnin hefur því umboð fylgismanna sinna til að halda áfram með málið meðan þessi stuðningur grasrótarinnar bilar ekki.

Komið hefur í ljós, að ítarleg greinargerð og niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur ekki magnað andstöðuna við Kárahnjúkavirkjun í þeim mæli, sem búast hefði mátt við. Umhverfissjónarmið hafa ekki átt eins greiðan aðgang að hjörtum Íslendinga og ætla mætti af umræðunni.

Málið snýst ekki um val milli efnahags og umhverfis. Leidd hafa verið sterk rök að því, að virkjun og álver séu þjóðhagslega óhagkvæm, beini fjármagni og kröftum landsmanna inn á gamaldags brautir, sem hamli gegn sókn þjóðarinnar til atvinnuhátta framtíðarinnar.

Málið snýst frekar um gamla nítjándu aldar drauminn frá upphafi iðnvæðingarinnar, þegar menn vildu beizla náttúruna með valdi og knýja hana til fylgilags. Þetta er svipuð ranghugsun og felst í tröllslegum mannvirkjum, sem risið hafa í hlíðum yfir snjóflóðaplássum.

Hálf þjóðin er enn þeirrar skoðunar, að lifibrauðið felist í baráttu við náttúruöflin, og hefur ekki áttað sig á, að tækifæri nútímans eru allt önnur. Því verður virkjað.

Jónas Kristjánsson

DV

Af því bara

Greinar

Ferli Kárahnjúkamálsins er aðeins formsatriði í augum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra. Eftir 280 blaðsíðna vandaða úttekt og eindreginn úrskurð Skipulagsstofnunar lýsti hann yfir, að það hefði verið og væri enn stefna ríkisstjórnarinnar að reisa þessa virkjun.

Davíð Oddsson skýrði þetta viðhorf enn betur. Í hans augum er ferli Kárahnjúkamálsins þykjustuleikur til að fullnægja formsatriðum, sem tíðkast í útlöndum. Hér á landi eiga opinberar stofnanir hins vegar að þóknast ríkisstjórninni. Annars gefur hann þeim á kjaftinn.

Norsk Hydro er sama sinnis, enda er það fyrirtæki eini aðilinn, sem hagnast á vitleysunni. Henrik Andenæs, blaðafulltrúi fyrirtækisins, segir efnislega, að ferlið haldi áfram, ef Halldór og Davíð vilja láta það halda áfram. Málefnaleg bakslög skipta Norsk Hydro litlu.

Öðru máli er að gegna um íslenzku lífeyrissjóðina, sem áttu að verða dráttardýr Norsk Hydro. Forstjóri stærsta sjóðsins segir: “Það er ljóst, að ein af grunnforsendum fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að verkefninu var, að bæði álver og virkjun stæðust skoðun skipulagsyfirvalda.”

Úrskurður Skipulagsstofnunar er ítarlegri og eindregnari en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona. Þar er umhverfismat Landsvirkjunar á Kárahnjúkavirkjun hakkað svo rækilega í spað, að ekki stendur lengur steinn yfir steini í röksemdafærslu virkjunarsinna.

Mikilvægasta afleiðing úrskurðarins er, að hann kemur til með að sameina fólk gegn Kárahnjúkavirkjun eins og fólk sameinaðist gegn Eyjabakkavirkjun. Þá sameinuðust þeir, sem voru beinlínis andvígir Eyjabakkavirkjun og hinir, sem vildu fyrst umhverfismat.

Nú geta þeir sameinast í andstöðunni við Kárahnjúkavirkjun, sem hafa verið andvígir henni og hinir, sem vildu bíða eftir faglegri niðurstöðu, sem nú hefur verið fengin með úrskurði Skipulagsstofnunar. Endurvakinn hefur verið meirihlutinn gegn áformum stjórnvalda.

Sif Friðleifsdóttir mun sameina þjóðina gegn sér, þegar hún ákveður að hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Eina leiðin til að keyra málið áfram málefnalega væri að gera viðamikla úttekt á öllum þáttum úrskurðar Skipulagsstofnunar með ólíkri niðurstöðu.

Umhverfisráðuneytið getur ekki framleitt slíka úttekt og því mun ráðherrann hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Ekki þýðir síðan að treysta kærumálum fyrir dómstólum, því að þeir hafa hefðbundið þá skoðun, að æðstu stjórnvöld hafi alltaf rétt fyrir sér.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar munu hins vegar fá mikinn stuðning að utan, þegar kemur í ljós, að stjórnvöld ætla að hunza niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Norsk stjórnvöld og Norsk Hydro verða beitt miklum þrýstingi, sem mun valda þeim töluverðum áhyggjum.

Ekkert hindrar þó, að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson reisi Kárahnjúkavirkjun “af því bara”, annað en eindregin samstaða meirihluta þjóðarinnar um aðgerðir til að stöðva málið. Mál Kárahnjúka er því komið í svipaða stöðu og mál Eyjabakka var á sínum tíma.

Þá sameinaðist fólk um að heimta umhverfismat og felldi málið með mikilli fyrirhöfn. Nú getur fólk sameinast um að heimta, að tekið verði mark á umhverfisúrskurði Skipulagsstofnunar, og fellt málið, en aðeins með mikilli fyrirhöfn. Annars valtar ríkisstjórnin yfir alla.

Það er út í hött að halda, að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfdauð. Landið okkar verður aðeins varið með markvissu og fjölbreyttu átaki meirihluta þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

1-2 milljarða mengun

Greinar

Robert Watson, sérfræðingur Alþjóðabankans í mengunarmálum, metur verðgildi mengunarréttar fyrir koltvísýring á 15-30 dollara tonnið. Það eru tölurnar, sem bankinn miðar við, þegar hann er að reyna að meta mengunarþátt stórverkefna, sem hann fjármagnar.

Mengunarskattur er á næsta leiti í Evrópu. Frakkland byrjaði að nota slíkan skatt í tilraunarskyni fyrir ári. Búizt er við, að staðfesting Kyoto-bókunarinnar um takmörkun á útblæstri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda leiði til samevrópsks mengunarskatts.

Stórfyrirtæki eru byrjuð að búa sig undir skattinn, þar á meðal olíufélögin Shell og BP. Stjórnarformaður British Airways er formaður brezkrar nefndar af hálfu viðskiptalífsins, sem hefur mælt með mengunarskatti í Bretlandi. Menn hafa þegar sætt sig við hugmyndina.

Verðgildi mengunar með koltvísýringi er mikilvæg reikningseining, þegar ríki og fyrirtæki fara að verzla með réttinn til að menga. Flestir sérfróðir menn telja slíka verzlun með mengun gagnlega til að gera minnkun mengunar í heiminum sem hagkvæmasta í kostnaði.

Verðgildið ræðst auðvitað að lokum af framboði og eftirspurn. En nota má spátölur Alþjóðabankans til að verðleggja ýmis atriði, sem varða Ísland. Þannig er verðgildi íslenzka ákvæðisins í tengslum við Kyoto-bókunina frá 2,5 milljörðum upp í 5 milljarða króna á hverju ári.

Mengunarverð Reyðaráls eins verður samkvæmt tölum Alþjóðabankans 1-2 milljarðar króna á hverju ári. Það er skatturinn, sem Reyðarál þarf að bera, ef íslenzk stjórnvöld taka á sama hátt og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum á kostnaði við nýja mengun stórfyrirtækja.

Þótt Ísland fái ókeypis mengunarkvóta við frágang Kyoto-bókunarinnar, er ekkert, sem segir, að gefa eigi Reyðaráli þennan kvóta. Sjávarútvegurinn mun vafalaust telja sig standa nær slíkri fyrirgreiðslu ríkisvaldsins. Og bíleigendur telja sig þegar borga miklu meira.

Ísland verður fyrr eða síðar að leggja á mengunarskatta og leyfa verzlun með mengun eins og nágrannaríkin. Þar með verður fyrr eða síðar ekki komizt hjá því að skattleggja Reyðarál um 1-2 milljarða króna á ári, jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn vilji gefa skattinn eftir.

Nauðsynlegt verður fyrir íslenzka lífeyrissjóði og aðra stórfjárfesta í Reyðaráli að gera sér grein fyrir, að fyrr eða síðar kemur þessi skattur á fyrirtækið. Engin pólitísk samstaða er í landinu um að veita þessu fyrirtæki mengunarlegan forgang fram yfir önnur fyrirtæki.

Á allra næstu árum munu Vesturlandabúar vakna til meðvitundar um vandræðin í tengslum við gróðurhúsalofttegundir. Öll vísindaleg rök hafa á síðustu misserum hneigzt að sömu niðurstöðu, sem segir okkur, að minnka verði mengun til mikilla muna á næstu árum.

Evrópskir og amerískir framleiðendur mengunar í álfyrirtækjum munu ekki sætta sig við til lengdar að keppa við dótturfyrirtæki Norsk Hydro á Íslandi, sem hafi þá samkeppnisaðstöðu umfram önnur slík fyrirtæki að þurfa ekki að borga mengunarskatt á koltvísýring.

Þeir, sem gæla við hugmyndir um fjárfestingu í Reyðaráli, þurfa að gera ráð fyrir, að fyrirtækið verði fyrr eða síðar að borga 1-2 milljarða króna á ári fyrir réttinn til að menga andrúmsloftið í heiminum. Umheimurinn setur annars innflutningsbann á afurðir verksmiðjunnar.

Hingað til hafa málsaðilar ekki reiknað með að þurfa að borga slíkar upphæðir. Þeir hafa verið að leika sér með óraunhæfar tölur um rekstrarkostnað Reyðaráls.

Jónas Kristjánsson

DV

Tíu ár til hvers?

Greinar

Davíð Oddsson fann ekki margt afreksverkið í drottningarviðtali helgarblaðs DV um tíu ára feril sinn í forsætisráðuneytinu. Ríkisbáknið hefur gengið sinn vanalega gang með rólegum framförum, svo sem aukinni opnun þjóðfélagsins og aukinni aðild að umheiminum.

Margt það bezta, sem gert hefur verið þennan áratug, er afleiðing aðildar okkar að fjölþjóðlegum samtökum, sem gera kröfur til félagsmanna. Þannig hefur réttlæti aukizt í dómkerfinu og skilvirkni framkvæmdavaldsins aukizt með skýrari, opnari og réttlátari reglum að utan.

Forsætisráðherra hefur hins vegar sjálfur lítið gert til að láta rætast draum sinn um alþjóðlegt viðskiptaumhverfi á Íslandi. Það væri verðugt verkefni, sem mundi magna tekjur fólks, en til þess þarf markvissari aðgerðir en ríkisstjórnin hefur reynzt fær um að framkvæma.

Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að ný störf verði eingöngu til í nýjum og litlum fyrirtækjum, en ekki í grónum stórfyrirtækjum. Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að hátekjustörf verði helzt til í nýjum atvinnugreinum, en ekki í hefðbundnum greinum.

Stjórnvöld geta á ýmsan hátt stuðlað að framþróun af þessu tagi, en það hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki gert. Þvert á móti hefur hún verið upptekin af vandræðum hefðbundinna greina og reynt að binda fjármagn þjóðarinnar í málmbræðslu austur á fjörðum.

Stjórnvöld gætu til dæmis veitt öllum, sem hafa vilja, ókeypis gagnaflutning um símalínur innan lands og til útlanda, rétt eins og nú er ókeypis aðgangur að vegum landsins. Slíkt vegakerfi gagnaflutninga mundi stuðla að stofnun fjármála- og hátæknifyrirtækja hér á landi.

Stjórnvöld gætu til dæmis gefið öllum Íslendingum tölvur og látið kenna þeim að nota þær. Skólakerfið gæti breytt áherzlum sínum yfir í nám í fjármálum, stjórnun og tölvufræði á öllum stigum skólakerfisins til að gera Íslendinga gjaldgenga í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.

Stjórnvöld gætu til dæmis reynt að hafa kjark til að koma á flötum og lágum sköttum, til dæmis 25% tekjuskatti einstaklinga og 15% virðisaukaskatti, svo og lágsköttun fyrirtækja til að laða hingað aðila, sem vilja forðast hátekju-refsiskatta sumra nágrannaríkjanna.

Engu slíku hefur ríkisstjórnin sinnt að neinu gagni. Hún treður marvaðann í hvalveiðimálum, skipuleggur fiskveiðar niður í smæstu atriði, reynir kerfisbundið undanhald í landbúnaði og berst með klóm og kjafti fyrir bindingu dýrmæts fjármagns í nítjándu aldar iðnaði.

Ríkisstjórnin greip ekki einu sinni tækifæri mála Árna Johnsens til að auka gegnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu. Davíð Oddsson neitar að sjá, hvernig núverandi kerfi er ávísun á vandamál af tagi Árna, og heimtar að sjá eingöngu persónulegt vandamál eins manns í kerfinu.

Stjórnvöld gætu til dæmis komið upp traustari reglum og harðara eftirliti í stjórnsýslunni, svo sem með meiri útboðum ríkisins og gegnsærri fjármálum stjórnmála. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar neitar hins vegar staðfastlega að fylgja fordæmi Vesturlanda á þessum sviðum.

Af eyðunum í drottningarviðtalinu við Davíð Oddsson má sjá, að hann rekur fremur íhaldssama ríkisstjórn, sem er upptekin af fortíðarmálum og pólitísku þrasi við stjórnarandstöðuna um nánast einskisverða hluti. Forsætisráðherra kann raunar bezt við sig í leðjuslagnum.

Þegar fram líða stundir munu menn gleyma áratug Davíðs Oddssonar við stjórnvölinn. Ríkisstjórn hans hefur engan sérstakan framtíðartilgang. Hún er bara þarna.

Jónas Kristjánsson

DV

Árni hengdur fyrir alla

Greinar

Kerfið hefur ákveðið að fórna Árna Johnsen og honum einum. Ráðamenn embætta og stjórnmála keppast um að lýsa yfir, að velt verði við hverjum steini í fjármálaumsvifum Árna á vegum ríkisvaldsins. Þeir þegja hins vegar þunnu hljóði um kringumstæður spillingarinnar.

Árni var ekki einn í heiminum. Hann var aðili að kerfi, sem gerði honum kleift að leika lausum hala árum saman. Hann hefði áfram fengið að valsa um gullkistur ríkisins, ef DV og að nokkru Ríkisútvarpið hefðu ekki opnað gröftinn út með töngum, gegn vilja ráðamanna.

Hvarvetna reyndu ráðamenn embætta og einkafyrirtækja að slá skjaldborg um Árna og hylma yfir með honum. Það voru hins vegar óbreyttir starfsmenn á ýmsum stöðum, sem höfðu augun hjá sér, undruðust takmarkalausa ósvífni og gáfu fjölmiðlum upplýsingar.

Að baki Árna voru ráðuneyti menntamála og fjármála, svo og sérstök Framkvæmdasýsla ríkisins. Á öllum þessum stöðum vissu háttsettir embættismenn um fjármálaumsvif Árna, skrifuðu upp á reikningana og létu greiða þá, stundum eftir útskýringar til málamynda.

Rannsókn ríkisendurskoðanda ætti að beinast að þessu kerfi. Hún ætti að leita svara við, hvernig embættismenn samþykkja umsvif af því tagi, sem upplýst hafa verið undanfarna daga. Telja embættismenn sig stikkfrí, ef umsvifamaðurinn er flokksbróðir ráðherrans?

Eðlilega leikur nokkur forvitni á að vita, hvort háttsettir embættismenn ríkisins hafa sett kíkinn fyrir blinda augað í fleiri tilvikum en Árna eins. Hvað ræður því, hvenær og hvernig eðlileg stjórnsýsla er látinn lönd og leið og einum manni leyft að valsa um hirzlurnar?

Fyrstu ummæli ríkisendurskoðandans benda til, að honum hafi verið sagt að takmarka rannsóknina við Árna einan og láta umhverfi hans kyrrt liggja. Hann á að velta við hverjum steini í sögu Árna, en ekki rannsaka aðstæðurnar, sem gerðu harmsögu hans mögulega.

Efasemdarmenn hljóta að spyrja, hvort Árni sé eini stjórnmálamaðurinn, sem hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna. Þeir hljóta líka að spyrja, hvort fleiri einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki, t.d. verktakar hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna.

Fyrir þjóðfélagið og ríkið ætti að skipta miklu meira máli að finna orsakir meinsins en að ná sér niðri á Árna. Ef brotalamirnar finnast og vinnureglum stjórnsýslunnar verður breytt, höfum við lært af reynslunni og dregið úr líkum á hliðstæðri spillingu í framtíðinni.

Harmleikur Árna kemur að gagni, ef ríkiskerfið verður gert gegnsærra, ef fjölmiðlar fá betri og skjótari aðgang að gögnum embætta, ef enginn verður sinn eigin eftirlitsmaður í kerfinu, ef embættismenn verða látnir sæta ábyrgð fyrir vanrækslu og yfirhylmingar.

Í nágrannaríkjum okkar væru ráðherrar menntamála og fjármála búnir að segja af sér, ennfremur embættismenn ráðuneytanna, sem höfðu með Árna að gera, svo og forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Hér ber hins vegar enginn neina ábyrgð og allra sízt stjórnmálamenn.

Í staðinn keppast allir þessir valdaaðilar við að lýsa frati á Árna og heimta, að ríkisendurskoðunin valti yfir hann kruss og þvers, en bara hann einan. Markmið þeirra er að hindra, að almennar ályktanir verði dregnar af málinu og að vinnubrögð annarra verði skoðuð.

Málið er komið í þennan notalega farveg. Kerfið hefur ákveðið að fórna einum til að friða þjóðina, svo að hinir sleppi. Það hefur ákveðið að hengja Árna fyrir alla.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýr höfuðóvinur allra

Greinar

Ráðamenn fimmtánveldanna í Evrópusambandinu eru ákveðnir í að undirrita Kyoto-bókunina um aðgerðir gegn gróðurhúsalofttegundum og eru reiðir Bandaríkjastjórn, ekki bara fyrir fráhvarf hennar frá bókuninni, heldur einnig fyrir undirferli og svik í tengslum við hana.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fékk 180 þjóða fundinum í Bonn um Kyoto-bókunina frestað um tvo mánuði til að semja tillögur um breytingar á texta hennar. Hann lofaði þar á ofan, að fresturinn yrði ekki notaður til að grafa undan bókuninni.

Þegar fundurinn er nú hafinn seint og um síðir, kemur í ljós, að Bandaríkjastjórn hefur alls ekki notað frestinn til að semja neinar nýjar tillögur, heldur til að beita Japan, Ástralíu og Kanada þrýstingi til að falla frá Kyoto-bókuninni. Colin Powell var bara að ljúga að Evrópu.

Þar á ofan hefur Bandaríkjastjórn fallið frá loforði, sem hún gaf í tengslum við frestunina, um að borga 250 milljónir dollara í sjóð til aðstoðar þriðja heiminum við að hamla gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ekkert samband virðist lengur vera milli loforða og gerða.

Ýmsir ráðamenn í Evrópu hafa tjáð sig vafningalaust um undirferlið. Þar á meðal eru Jan Pronk, forseti ráðstefnunnar í Bonn, og Margot Wallström, umhverfisráðherra Evrópusambandsins. Ljóst er, að lygar Powells eru einnota, því að menn treysta honum ekki lengur.

Öll fimmtán ríki Evrópusambandsins styðja Kyoto-bókunina eindregið, þótt hún geri ráð fyrir meiri samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en í Bandaríkjunum og Japan. Þessir þrír heimshlutar bera mesta ábyrgð á uppsafnaðri loftmengun frá fyrri tímum.

Reiði ráðamanna Evrópu endurspeglar skoðanir almennings í þessum löndum. Mönnum finnst almennt lélegt hjá Bush Bandaríkjaforseta að segja Bandaríkin ekki hafa efni á aðgerðum í samræmi við Kyoto-bókunina og segja þriðja heiminn þurfa að taka meiri þátt.

Mikill meirihluti kjósenda í Evrópu styður öll umhverfissjónarmið núverandi fjölþjóðaumræðu, þar á meðal Kyoto-bókunina, sem nýtur til dæmis stuðnings 86% Þjóðverja. Raunar má segja, að pólitísk samstaða hafi náðst í Evrópu um öll helztu stefnumál grænu flokkanna.

Svipuð þróun hefur orðið í Bandaríkjunum, þar sem 71% kjósenda vill tafarlausar aðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Afturhvarf stjórnar Bush Bandaríkjaforseta til frekari rannsókna í stað aðgerða, nýtur því ekki stuðnings almennings í hans eigin landi.

Það er nú að renna upp fyrir mönnum í Bandaríkjunum, að Bush hefur logið sig inn á þjóðina. Hann er fyrst og fremst hagsmunagæzlumaður fyrirtækja í afmörkuðum geirum efnahagslífsins, svo sem olíuiðnaðarins og timburiðnarðarins, sem heimta meira svigrúm fyrir sig.

Ótrúlegt er, að kjósendur sætti sig lengi við ríkisstjórn, sem vill, að Bandaríkin verði áfram langmesti umhverfissóði veraldar og haldi ótrauð áfram að eitra framtíð barna okkar og barnabarna. Umhverfisbaráttan mun í vaxandi mæli snúast um að fella fylgismenn Bush af þingi.

Bandarískir kjósendur hljóta að fara að sjá vaxandi einangrun landsins á mörgum öðrum sviðum, í andstöðu Bandaríkjastjórnar við alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, við alþjóðabann við milliríkjaverzlun handvopna, við alþjóðabann við jarðsprengjum, svo að dæmi séu nefnd.

Eftir valdatöku Bush hafa Bandaríkin færzt óðfluga í stöðu einangraðs höfuðóvinar mannkyns um þessar mundir. Bandaríkjamenn munu ekki lengi þola það.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðstandendur harmleiks

Greinar

Harmleikur Árna Johnsen alþingismanns í Þjóðleikhúsinu vekur spurningar um, hvaða aðstæður í þjóðfélaginu valdi röð tilviljana af því tagi, sem þingmaðurinn hefur lýst í fjölmiðlum. Mistökin voru framin fyrir opnum tjöldum, án þess að viðvörunarbjöllur hringdu.

Sjaldgæft er, að íslenzkir stjórnmálamenn séu taldir skara eld að eigin köku á þann hátt, sem óttazt er, að gerzt hafi í bygginganefnd Þjóðleikhússins og hugsanlega víðar í fjölbreyttum stjórnarstörfum þingmannsins. Pólitísk spilling á Íslandi er yfirleitt allt annars eðlis.

Stjórnmálamenn reyna að vísu að koma sér í notalega stóla í stjórnkerfinu, þegar þeir eru orðnir þreyttir í pólitíkinni. Og margir eru mikið fyrir sértæka góðgerðastarfsemi á kostnað skattborgaranna, til dæmis þegar kosningastjórar þeirra fá ábúð á ríkisjörðum.

Hins vegar hefur á síðustu árum verið lítið um, að stjórnmálamenn rugli saman eigin vösum og vösum stofnana á valdasviði þeirra. Menn hafa því haldið, að stjórnsýsla ríkisins sé almennt í þeim skorðum, að harmleikur af tagi Árna Johnsen komist ekki á fjalirnar.

Umhverfis formann byggingarnefndar Þjóðleikhússins standa samt nokkrir menn, sem höfðu aðstöðu til að benda þingmanninum á að fara að stjórnsýslulögum. Þeir létu eigi að síður gott heita og bera því sameiginlega ábyrgð á frekari þróun málsins yfir í harmleik.

Athyglisverður er þáttur framkvæmdastjóra BYKO, sem neitaði að upplýsa um leiðréttingar og bakfærslur í bókhaldi fyrirtækisins, þótt þar væri að finna þau atriði, sem einna mestu ljósi gætu varpað á tilraunir manna til að mynda varnarmúr um mistök þingmannsins.

Auðvitað er alvarlegt, ef bókhald fyrirtækja úti í bæ er leiðrétt og bakfært til að draga úr líkum á frekari framvindu uppljóstrana í meintu spillingarmáli viðskiptaaðila. Því má búast við, að framkvæmdastjórinn þurfi að útskýra sumt, þegar málið fer í opinbera rannsókn.

Þjóðleikhússtjóri virðist hafa sofið á fundum í tveggja manna byggingarnefnd Þjóðleikhússins og látið formanninn um vinnuna. Hann kom af fjöllum, þegar málið sprakk í loft upp og er seint og um síðir að reyna að nudda stírurnar úr augunum og átta sig á dagsbirtunni.

Það boðar ekki gott, ef fínimenn taka sæti í nefndum án þess að vilja vinna í þeim og hafa ekki hugmynd um, hvort þar sé farið að reglum eða ekki. Menn verða sam-ábyrgir í framgöngu nefnda, þótt þeir hafi aðeins farið með þægileg grínhlutverk í harmleiknum.

Einna undarlegastur er þáttur framkvæmdastjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, sem virðist líta á sig sem eins konar bókara með það hlutverk að raða reikningum í möppur og skrifa nafnið sitt á þá, án þess að í því felist neitt samþykki fyrir innihaldi reikninganna.

Efasemdir hljóta að vakna um, hvort ríkið þurfi Framkvæmdasýslu, sem lítur á sig sem bókara fremur en eftirlitsaðila. Annaðhvort má leggja stofnunina niður eða draga hana til ábyrgðar fyrir að hafa látið viðgangast sérstæða starfshætti, sem eru ávísun á vandamál.

Alvarlegastur er þáttur menntaráðherra, sem skipar byggingarnefnd Þjóðleikhússins og leyfði, að formaður hennar væri sinn eigin eftirlitsaðili. Sú ákvörðun stríðir beinlínis gegn stjórnsýslulögum og var raunar upphafleg forsenda þess, að málið rambaði í núverandi stöðu.

Þingmaðurinn hefði aldrei lent í harmleik sínum, ef einn af ofangreindum aðilum hefði unnið vinnuna sína í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir.

Jónas Kristjánsson

DV

Jarðgöng í Reykjavík

Greinar

Umferðarræsi eiga heima niðri í jörðinni eins og önnur holræsi. Þau fækka umtalsvert vandamálunum, sem fylgja utanáliggjandi umferðarræsum á borð við Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut, er mynda eins konar einskismannsland milli hverfa.

Aukin bortækni við jarðgöng hefur gert þau að fjárhagslega álitlegum kosti við skipulag umferðar í stórborgum. Nýjar hugmyndir skipulagsyfirvalda um að bora gat á Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls eru í ánægjulegu samræmi við þessa tækniframför.

Með jarðgöngum undir Skólavörðuholt má tengja Sæbraut og Hringbraut. Með jarðgöngum undir Öskjuhlíð má tengja Hringbraut og Hafnarfjarðarveg. Með jarðgöngum undir Digranesháls má tengja Hafnarfjarðarveg og Reykjanesbraut. Allt væri þetta til þæginda.

Raunar má halda áfram á sömu braut. Væri ekki líka góður kostur að leggja Miklubraut gegnum Háaleitið til að losna við gatnamót Háaleitisbrautar? Og skipulagsyfirvöld eru raunar með ágæta hugmynd um að leggja Kringlumýrarbraut undir Miklubraut.

Umferðarholræsi eru efnahagsleg nauðsyn í stórborgum nútímans. Þau ein geta flutt mikinn fjölda fólks og mikinn varning milli borgarhverfa á skjótan og viðstöðulausan hátt. Þau draga líka úr menguninni, sem fylgir því að koma bílum úr kyrrstöðu við umferðarljós.

Umferðarræsi eru hins vegar rúmfrek á yfirborði jarðar. Slaufur við gatnamót taka mikið rými og draga úr hlýju í yfirbragði borgar. Mannvirkin þvælast fyrir gangandi fólki, sem þarf að bíða lengi við gangbrautarljós og fara yfir hverja reinina á fætur annarri.

Núverandi lausnir fyrir gangandi vegfarendur gera takmarkað gagn. Það kostar fólk fyrirhöfn að príla upp á göngubrýr, sem liggja yfir umferðarræsi. Og göngubrautir við mislæg gatnamót ná ekki til hættulegra hliðar-akreina, þar sem bílar eru oft á nokkurri ferð.

Með því að færa umferðarræsin niður í jörðina eru því margar flugur slegnar í einu höggi. Við náum kostum umferðarræsanna og losnum við þungbærustu galla þeirra. Yfirborð jarðar verður skipulagslega og fagurfræðilega betri heild. Borgin fær mýkra yfirbragð.

Fjármálin eru einföld. Jarðgöng höfuðborgarsvæðisins eiga að hafa forgang. Þau verða svo mikið notuð, að þau verða langsamlega arðbærasta vegagerð, sem hugsast getur í landinu, hundraðfalt arðbærari en önnur jarðgöng, sem nefnd hafa verið í fjölmiðlaumræðunni.

Jarðgöng undir Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls mynda sameiginlega einn umferðarás, sem styttir ferðatímann milli Kvosar og Smára niður í lítinn hluta af því, sem hann er núna. Þetta skapar nýja möguleika í almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins.

Stjórnarformaður Strætó hefur lagt til að flutt verði hingað erlend nýjung, sem leysir neðanjarðarlestir af hólmi á fjárhagslega hagkvæman hátt. Það eru litlir, sjálfvirkir rafbílar, sem ganga á gúmhjólum á eins konar teinum í göngunum og tengja saman hverfismiðstöðvar.

Þegar miðstöðvar helztu byggðakjarna svæðisins hafa verið tengdar með viðstöðulausum samgönguæðum, sem að töluverðu leyti eru neðanjarðar, verður orðið einkar fljótlegt og ódýrt að ferðast langar leiðir á svæðinu, hvort sem er í einkabílum eða almenningsvögnum.

Umferðarholræsi í jarðgöngum undir höfuðborgarsvæðinu eru ein skynsamasta hugmyndin í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins um langan aldur.

Jónas Kristjánsson

DV

Innansveitarkronika

Greinar

Hæstiréttur hindraði í fyrradag það gerræði fyrrverandi stjórnar Lyfjaverzlunar Íslands að afhenda einum aðila nærri 40% af hlutafé fyrirtækisins og leyfa honum síðan að samþykkja söluna sem 40% hluthafi, áður en hluthafafundur gæti tekið afstöðu til sölunnar.

Ýmis sérkennileg ummæli féllu í hita aðdragandans. Meðal annars kom fram sú kenning, að þeir, sem hindra gróða, séu skaðabótaskyldir, af því að þeir valdi tjóni. Hugsunin er sú, að maður verði fyrir tjóni, ef hugmyndir hans um skjótan gróða ná ekki fram að ganga.

Tjón er í rauninni mælanlegt mat á rýrnun efnislegra verðmæta. Takmarkanir í umhverfinu á möguleikum manna til að láta drauma sína verða að veruleika, verða seint flokkaðar undir tjón. Fjölmiðill væri tæpast skaðabótaskyldur, þótt hann varaði við skottulækni.

Tengd þessu var sú fjarstæðukenning, að verðgildi felist í gróðadraumum, sem menn setja niður á blað með morgunkaffinu. Ýmsa óra af því tagi megi flokka sem eins konar viðskiptavild og verðleggja í áætlunum og bókhaldi á hundruð milljóna króna, jafnvel tvo milljarða.

Í þriðja lagi kom fram sú undarlega skoðun, að þjónustusamningur við ríkið feli í sér skjóttekinn gróða, sem jafngildi stórum hluta veltunnar. Samt vita þeir, sem hafa gert þjónustusamninga við ríkið, að harðsótt er að ná jöfnu í slíkum viðskiptum, hvað þá meiru.

Staðreyndin á bak við allar þessar fullyrðingar var, að fyrrverandi stjórn Lyfjaverzlunarinnar afhenti hlutabréf fyrir loftkastala í draumaheimi og skaðaði þannig hagsmuni fyrirtækisins. Hæstaréttardómur og hluthafafundur hindruðu þessi róttæku afglöp í fyrradag.

Lága planið í röksemdafærslu þeirra, sem stóðu að grófri og misheppnaðri tilraun til yfirtöku Lyfjaverzlunarinnar er ekki einstakt í sinni röð. Ótrúlega margir virðast telja almenning vera bjána. Í fjölmiðlum má sífellt lesa hundalógík og útúrsnúninga af hálfu málsaðila.

Nýlega sagði grófyrtur formaður Lánasjóðs námsmanna, að sjóðurinn þyrfti ekki að taka mark á aðfinnslum umboðsmanns Alþingis, af því að hann væri bara fimmti lögfræðingurinn, sem hefði fjallað um málið. Hinir fjórir voru lögfræðingar á vegum lánasjóðsins.

Þetta minnir á fleyg ummæli fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forstjóra Landsvirkjunar, þegar hann taldi ríkið ekki þurfa að hlíta hæstaréttardómi, af því að samtals hefðu fleiri dómarar á ýmsum dómstigum stutt málstað ríkisins en verið á móti honum.

Einna djarfast og skemmtilegast komst forstjóri deCODE genetics að orði í umræðuþætti í sjónvarpi, þegar hann sagði, að fræðimaðurinn, sem sat á móti honum, væri ekki marktækur í málinu, því að hann ynni hjá háskólastofnun og gæti því haft hagsmuna að gæta.

Sjónvarpsmaðurinn, sem stjórnaði umræðunni, staðfesti skoðunina um, að Íslendingar væru bjánar, með því að láta hjá líða að spyrja forstjórann að því, hver væri meiri hagsmunaaðili í hagsmunamálum deCODE genetics en sjálfur forstjóri þess sama fyrirtækis.

Halldór Laxness gaf í Innansveitarkroniku ágæta lýsingu á sterkri stöðu útúrsnúninga og hundalógíkur í hugarheimi Íslendinga. Innansveitarkronika Lyfjaverzlunar ríkisins er enn ein birtingarmynd fjölbreytts frjálslyndis manna í umgengni við málsefni og málsrök.

Sérstaklega þarf varast ýmsa meinta sérfræðinga í fjármálum, sem framleiða marklaus gögn eftir þörfum og meta verðgildi til að þjónusta hóflausa gróðafíkn.

Jónas Kristjánsson

DV