Greinar

Andhverfir ólympíuleikar

Greinar

Spilltu gamlingjarnir í alþjóða ólympíunefndinni munu koma saman á föstudaginn til að ákveða, að andhverfa gríska ólympíuandans og helztu óvinir mannkyns um þessar mundir fái að halda ólympíuleikana í Peking árið 2008 og blakkeppnina á Torgi hins himneska friðar.

Ólympíuleikarnir eru grísk arfleifð með rætur í opnu og gegnsæju þjóðfélagi laga og réttar, dreifðu valdi og vel skilgreindum mannréttindum. Þeir eru samofnir lýðræðinu, sem var fundið upp í Grikklandi hinu forna og hefur löngu síðar blómstrað á Vesturlöndum og víðar.

Gríski andinn blómstrar hins vegar engan veginn í Kína, lokuðu eins flokks ríki, þar sem valdi er safnað á einn stað og stjórnað með gerræði, aftökum og pyndingum í stærri stíl, en þekkist annars staðar í heiminum og þar sem stjórnvöld eiga í útistöðum við nágrannaríkin.

Harðstjórar á borð við stjórnendur Kína hafa alltaf viljað fá tæki til að breiða yfir muninn á stjórnarfari þeirra og vestræna lýðræðinu frá Grikklandi ólympíuleikanna. Frægasta dæmið um það er Hitler, sem tókst að halda ólympíuleika nazismans í Berlín árið 1936.

Þrátt fyrir mótbyr í árangri Jesse Owens tókst Hitler í stórum dráttum ætlunarverkið. Hann auglýsti þjóðskipulag nazismans heima og erlendis, þjappaði þjóðinni í kringum sig og veikti mótstöðuvilja annarra stórvelda. Ólympíuleikar hans voru upphaf stríðsins mikla.

Stjórnarfarið í Kína fer versnandi um þessar mundir. Ráðamenn hafa alveg afklæðst gamalli hugmyndafræði og stefna nú eingöngu að varðveizlu valda sinna. Þeir óttast, að tilslakanir í stíl Gorbatsjovs muni leiða til valdamissis og þess vegna herða þeir tökin jafnt og þétt.

Ofsóknir gegn trúuðu fólki fara vaxandi, einkum gegn kristnum kaþólikkum og Falun Gong. Fylgismenn slíkra hreyfinga eru fangelsaðir hundruðum saman og láta lífið í pyndingum tugum saman. Ofsóknir eru nýlega hafnar gegn vísindamönnum, sem hafa vestræn sambönd.

Kínastjórn berst líka gegn Internetinu og leggur mikla áherzlu á að loka aðgangi að vefútgáfum vestrænna fjölmiðla og samtaka, sem hafa pólitískt gildi. Hún lítur á alla samkeppni um trú, þekkingu og skoðanir sem árás á valdastöðu sína. Hún er óvinur mannkyns númer eitt.

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs lét ógnarstjórnin í Kína taka 1.780 menn af lífi, miklu fleiri en teknir voru af lífi í öðrum hlutum heimsins samanlagt. Hún lætur setja sjálfstætt hugsandi fólk á geðveikrahæli, þar sem persónur þeirra eru eyðilagðar með lyfjagjöf.

Meðferðin á Tíbetum er vel þekkt um heim allan, sömuleiðis ágengni Kínastjórnar gagnvart nágrannaríkjunum, einkum þeim, sem eiga lönd að Kínahafi. Kínastjórn er ekki aðeins ógnarstjórn inn á við, heldur einnig friðarspillir og óróaafl í fjölþjóðlegum samskiptum.

Tákn stjórnarfarsins í Kína eru skriðdrekarnir, sem óku yfir friðsama mótmælendur á Torgi hins himneska friðar fyrir tólf árum. Hafa má það til marks um niðurlægingu ólympíunefndarinnar, að ætlunin er að hafa keppnina í blaki ofan á tannaförum skriðdrekanna.

Alþjóða ólympíunefndin er heimskunn fyrir spillingu og mútuþægni, einkum á valdaskeiði núverandi formanns, Juans Antonio Samaranch, sem hefur breytt þeim í fjárhagslegt hóruhús, þar sem hlaupið með ólympíueldinn er selt á 3.000 dollara kílómetrann.

Þetta alþjóðlega einkennistákn spillingar mun á föstudaginn kunngera, að það ætli að leyfa hættulegustu harðstjórum heims að endurtaka leikana frá 1936.

Jónas Kristjánsson

DV

Réttarfarsbrestur

Greinar

Brotalöm er í einum af fimm hornsteinum vestræns lýðræðis hér á landi. Þótt þættir á borð við kosningar, mannréttindi, valddreifingu og gegnsæi séu með nokkrum undantekningum í þolanlegu lagi hér á landi, fer því fjarri, að sómasamlega sé haldið á lögum og rétti.

Stofnanir ríkisvaldsins tryggja ekki öryggi borgaranna nægilega vel. Dómar yfir ofbeldishneigðum síbrotamönnum eru vægir eins og ótal dæmi sanna. Nýlegur þriggja ára dómur í óvenjulega grófu ofbeldismáli er ávísun á meira af sama ofbeldi eftir skamman tíma.

Umræðu um væga dóma er drepið á dreif með deilu um, hvort fangelsisdómar eigi að vera uppeldi eða hefnd. Þeir hafa í rauninni hvorugt hlutverkið. Fangelsisdómum er ætlað að losa þjóðfélagið við hættulega menn, suma um tíma, meðan þeir ná áttum, en aðra ævilangt.

Tilgangslaust er að reyna að ala síbrotamenn til betri hegðunar, jafnvel þótt fangelsin væru rekin sem slíkar stofnanir með ærnum kostnaði. Fólk á hins vegar þá kröfu á hendur ríkinu, að það sjái um, að hættulega ofbeldishneigðir síbrotamenn verði ekki á vegi þess.

Vandinn er sumpart, að dómarar beita oft lægri kanti svigrúmsins, sem þeir hafa. Ennfremur hafa þeir tilhneigingu til að leggja ekki saman brot, þegar þeir dæma síbrotamenn, heldur veita þeim magnafslátt. Í færri tilvikum hefur Alþingi sett dómurum of þröngt svigrúm.

Alþingi þarf að fara yfir gildandi ákvæði laga um þyngd refsinga og færa ofar svigrúmið í lengd dóma í sumum tilvikum, einkum í síbrotum. Jafnframt þarf að mennta starfandi dómara betur til að fá þá til að skilja, að svigrúm í lögum er ekki aðeins sett til að nota neðri kantinn.

Framkvæmdavaldið á sinn þátt í öryggisleysi manna. Það rekur svo fámenna og lélega löggæzlu, að hún ein slíkra stofnana á Vesturlöndum getur ekki varið miðbæ höfuðborgarinnar fyrir drukknum skríl. Slíkt ástand er hvorki í London né New York, París né Amsterdam.

Virðingarleysi framkvæmdavaldsins fyrir limum og eignum fólk er slíkt, að nú er í alvöru ráðgert að halda hér að ári í einum rykk tvo fundi óvinsælla stofnana, sem eru samkvæmt reynslunni til þess fallnir að draga að sér athygli ofsafenginna mótmælenda af ýmsu tagi.

Framkvæmdavaldið rýrir á ýmsan annan hátt stöðu laga og réttar í landinu. Ríkið hefur lagt fram kröfur um bótalaust eignarnám í þinglýstum landeignum bænda víða um land. Slík árás á eignaréttinn væri óhugsandi í nokkru ríki, sem flokkast til lýðræðisríkja jarðar.

Sem betur fer hafa borgarar landsins öðlast mikilvægan búhnykk lýðræðis í aðgangi að yfirdómstólum úti í heimi. Þegar héraðsdómarar og jafnvel hæstaréttardómarar ganga erinda ríkisvaldsins gegn fólki, eiga menn kost á að kæra til Strassborgar, Bruxelles eða Haag.

Þess vegna nær ásælni ríkisins í eigur bænda ekki fram að ganga. Þess vegna hefur ríkið á ýmsum sviðum orðið að draga saman seglin í yfirgangi gegn borgurum landsins. Þess vegna hefur réttarstaða Íslendinga batnað og þessi fimmti hornsteinn lýðræðisins styrkzt að mun.

Réttarbótin að utan virkar aðeins í borgaralegum málum, þar sem einstaklingar eða samtök einstaklinga geta sótt rétt sinn til útlanda. Hún nær ekki til sakamála. Engin leið er fyrir fólk að kæra ríkið til Strassborgar, Bruxelles eða Haag fyrir að láta síbrotamenn ganga lausa.

Þessi vandamál eru margrædd. Endurbætur þurfa ekki að vera flóknar. Ráðamenn láta eigi að síður reka á reiðanum og efna í mesta lagi til enn eins fundarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Kommúnistar stjórna

Greinar

Ráðamenn Íslands eru uppteknir við að skipuleggja atvinnulífið. Þótt þeir neyðist stöku sinnum til að selja ríkisfyrirtæki, hafa þeir strangar skoðanir á, hverjir megi kaupa þau og reyna að beina sölunni í þá átt. Nú síðast mega bara útlendingar kaupa Landsbankann.

Mikið umstang ráðamanna og mikið fé skattgreiðenda rennur til að halda úti atvinnugreinum, sem stjórnvöld telja merkari en annan atvinnurekstur. Sérstakan áhuga hafa þeir á að koma hér upp nítjándu aldar stóriðju og varðveita forna atvinnuvegi til lands og sjávar.

Skjalfest erlend og hérlend reynsla er fyrir því, að vaxtarbroddur atvinnu og tækifæra er alls ekki í stórum fyrirtækjum í öldruðum greinum, heldur eingöngu í fámennum fyrirtækjum í nýjum greinum. Vaxtarbroddurinn er eðlis síns vegna óskipulagður niðri í grasrótinni.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, þyrftum við ekki að kvíða framtíðinni. Grasrótin mundi sjá um, að sífellt væri verið að stofna ný smáfyrirtæki í nýjum greinum. Þessi fyrirtæki mundu kalla eftir menntun við hæfi. Íslendingar yrðu með á nótum framtíðarinnar.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, mundu stjórnvöld sjá um heilbrigt rekstrarumhverfi, þar sem gamalt og gróið hefði engan forgang fram yfir nýtt og viðkvæmt. Þau mundu tryggja fulla aðild Íslands að öllum hugsanlegum efnahags- og viðskiptasvæðum auðþjóða jarðarinnar.

Ráðamenn þjóðarinnar eru ekki vaxnir upp í atvinnulífi, heldur ríkisforsjá. Að svo miklu leyti sem þeir hafa skoðanir á efnahags- og atvinnulífi, eru þeir kommúnistar í hjarta sínu. Þeir telja það vera hlutverk sitt að stýra vegferð atvinnulífsins og hafa vit fyrir fólki.

Dæmigert fyrir verndarstefnu kommúnistanna er, að það skuli vera opinber stefna stjórnvalda, að þátttaka í Evrópusambandinu skuli alls ekki vera til umræðu hér á landi, einkum af því að hún gæti hugsanlega skaðað forna atvinnuhætti til lands og einkum þó til sjávar.

Eitt meginatriðanna í stefnu stjórnvalda er, að hádegisverðurinn sé ókeypis. Ráðamenn telja það vera eitt meginhlutverk sitt að skipuleggja ókeypis aðgang tilgreindra aðila að auðlindum lands og sjávar. Frægasta dæmið um þetta er sovézka kvótakerfið í fiskveiðum okkar.

Nýjustu dæmin felast hins vegar í ókeypis aðgangi orkuvera og stóriðju að þeim fáu verðmætum í landinu, sem mölur og ryð fá ekki grandað. Hamingja kommúnistanna í ríkisstjórn yrði mest, ef Ísland fengi stóra reykháfa á borð við þá, sem eru í Novosibirsk í Rússlandi.

Eins og kommúnistar Sovétríkjanna sálugu eru ráðamenn Íslands uppteknir við að troða lausnum nítjándu aldar upp á þjóð, sem hefur þarfir tuttugustu og fyrstu aldar og biður ekki um aðra aðstoð stjórnvalda en að fá að vera í friði við að byggja upp framtíð sína.

Hér eru afdankaðir stjórnmálamenn að ramba um með gengi krónunnar, öllum hugsandi mönnum til skelfingar, meðan aðrar þjóðir fá tækifæri til að taka upp nothæfa fjölþjóðapeninga. Hér ráða afdankaðir stjórnmálamenn ferðinni í Landsvirkjunum ríkisrekins atvinnulífs.

Lögfræðimenntaðir kommúnistar eru aldir upp á opinberum kontórum frá blautu barnsbeini og þykjast geta stjórnað vegferð okkar inn í framtíð, sem verður ótrygg, en örugglega óralangt frá fornum atvinnuháttum og krampakenndri skipulagsáráttu kommúnismans.

Ef þið viljið tryggja framtíð barna ykkar í framtíð, sem verður gerólík fortíðinni, eigið þið að hætta að velja íhaldssama kommúnista til að fara með ríkisvaldið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki bjóða óeirðum heim

Greinar

Heimskulegt er að bjóða hættunni heim með því að halda hér á landi utanríkisráðherrafund Evrópusambandsins og utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í einum rykk í maí á næsta ári. Hvor fundurinn um sig er ávísun á vandræði, óeirðir og mannfall.

Fjölþjóðlegir yfirstéttarfundir hafa orðið að geigvænlegu vandamáli síðan ráðstefna Heimsviðskiptastofnunarinnar fór út um þúfur í Seattle fyrir tveimur árum. Hámarki náðu ósköpin, þegar Evrópusambandið hélt aðalfund sinn í Gautaborg um miðjan þennan mánuð.

Á þessum tveimur árum hafa mismunandi ófriðleg mótmæli einkennt fundi fjölþjóðlegra stofnana á borð við Alþjóðabankann, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, Davos-auðklúbbinn og Evrópska efnahagsklúbbinn, þar sem fundurinn í Salzburg hófst með óeirðum á sunnudaginn.

Tíðni vandamálsins fer ört vaxandi og er orðið vikulegt. Fyrir tveimur vikum urðu óeirðir og mannfall við fund Evrópusambandsins í Gautaborg. Fyrir viku urðu óeirðir við fund Alþjóðabankans í Barcelona og um þessa helgi við fund Evrópska efnahagsklúbbsins í Salzburg.

Í öllum óeirðaborgum mótmælaöldunnar hefur orðið gífurlegt eignatjón, sem mælt er í milljörðum króna, því að innan um mótmælendur eru róttækir hópar stjórnleysingja. Alls staðar hafa orðið líkamsmeiðingar og í Gautaborg varð lögreglan þremur mönnum að bana.

Svo alvarlegt er ástandið orðið, að Alþjóðabankinn hyggst ekki halda næsta ársþing sitt á neinum sérstökum stað, heldur á netinu. Rætt hefur verið um að halda fundi í óvinsælum fjölþjóðasamtökum um borð í flugmóðurskipum úti á rúmsjó, sem væri sannarlega táknrænt.

Hér á landi eru ekki til neinir innviðir löggæzlu, sem ráða við vandamál af þessu tagi. Hætt er við, að reynslulítið löggæzlufólk fari á taugum og verði til að hella olíu á elda mótmælanna. Sænska lögreglan klúðraði málum sínum í Gautaborg og við gerum varla mikið betur.

Við höfum til dæmis ríkislögreglustjóra, sem er svo fáfróður, að hann telur mótmælendur hafa “að skemmtun sinni eða atvinnu” að hleypa upp fjölþjóðafundum. Hann hefur engan skilning á hinni margvíslegu og fjölbreyttu hugmyndafræði, sem liggur óeirðunum að baki.

Hvort sem mótmælendur eru friðsamlegir eða ófriðlegir, eiga þeir það sameiginlegt að hafa mótmælin hvorki að skemmtun né atvinnu, heldur dauðans alvöru. Að baki mótmælunum er algert vantraust fjölmennra hópa á fjölþjóðamynd hins vestræna þjóðskipulags.

Þetta er sorglegt, því að vestrænt þjóðskipulag er bezta fáanlega þjóðskipulag. Það er auðvitað stórgallað eins og önnur mannana verk. Sérstaklega hafa verið misheppnuð ýmis skilyrði, sem Alþjóðabankinn hefur sett ríkjum þriðja heimsins fyrir vestrænni efnahagsaðstoð.

Vestrænar fjölþjóðastofnanir súpa seyðið af að hafa verið of seinar að átta sig á ýmsum vandamálum, sem hafa gerzt áleitin upp á síðkastið, svo sem spjöll á umhverfi og mannlífi af völdum tillitslausrar efnahagsstarfsemi, einkum af hálfu gírugra fjölþjóðafyrirtækja.

Í öllum fjölþjóðastofnunum vita menn, að Ísland er fámennt og friðsamt ríki, sem getur ekki tekið þátt í átaki vestrænnar yfirstéttar í að sanna, að kerfið gangi sinn vanagang, þrátt fyrir aðgerðir mótmælenda. Íslandi yrði fyrirgefið, þótt það segði pass með sín lélegu spil.

Ef ráðamenn landsins þrjózkast við að bjóða hættunni heim, taka þeir um leið á sig siðferðilega ábyrgð af vandræðum, sem þeir geta engan veginn staðið undir.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpamaður framseldur

Greinar

Framsal Slobodan Milosevic til stríðsglæpadómstólsins í Haag markar þáttaskil í sigurgöngu lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Einn af verstu glæpamönnum Evrópu er kominn bak við lás og slá og verður látinn svara til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Treglega hefur gengið að ná þeim, sem mesta ábyrgð bera á óhæfuverkum í arftakaríkjum Júgóslavíu. Friðargæzlusveitir Atlantshafsbandalagsins hafa ekki enn mannað sig upp í að handtaka Radovan Karadzik og vestræn stjórnvöld hafa þvælzt fyrir dómstólnum í Haag.

Helzti vandi vestræns lýðræðis er, að ríkisstjórnir sumra öflugustu ríkja þess vilja stundum ekki styðja lýðræði og mannréttindi í þriðja heiminum vegna meintra stundarhagsmuna. Þau beita ekki áhrifum sínum til að útbreiða árangursríkasta þjóðskipulag jarðarinnar.

Reynslan sýnir þó, að Vesturlönd hafa langtímahagsmuni af stuðningi við þættina, sem mynda vestrænt lýðræði, svo sem gegnsæi í stjórnsýslu, lög og rétt, frjálsar kosningar, dreifingu valdsins og frelsi fólks til að tjá sig og afla upplýsinga, koma saman og mynda samtök.

Gott er að eiga viðskipti og hafa samskipti í löndum, þar sem þessar undirstöður lýðræðis að vestrænum hætti eru í heiðri hafðar. Þar gilda leikreglur, sem farið er eftir og þar myndast traust í kaupsýslu og öðrum mannlegum samskiptum. Því borgar sig að styðja og efla lýðræði.

Sigurför lýðræðis í Mið-Evrópu og suður eftir Balkanskaga einkenndi þróun alþjóðamála á síðasta áratug. Þar hefur myndazt jarðvegur og svigrúm til að þróa einstaka þætti lýðræðis að vestrænum hætti og draga úr spillingu, sem enn er allt of mikil á þessum slóðum.

Handtaka og framsal Milosevic sýnir, að stjórnvöld í Serbíu eru með stuðningi meirihluta kjósenda reiðubúin að opna glugga inn í glæpsamlega fortíð og draga út óþrifnaðinn, svo að Serbar geti ákveðið, að martröð að hætti Milosevic gerist aldrei aftur á þeirra slóðum.

Svipuð sigurför lýðræðis að vestrænum hætti stendur yfir í Rómönsku Ameríku, þótt hægar fari. Vegna djarfrar framgöngu saksóknara á fjarlægum Spáni á Augusto Pinochet í vök að verjast í Chile þar sem verið er að gera upp fortíðina og kortleggja óhæfuverk hans.

Fyrir nokkrum dögum var Vladimiro Montesinos framseldur til Perú, þar sem hann verður væntanlega látinn svara til saka fyrir ótrúlega spillingu í skjóli Alberto Fujimori, fyrrum forseta landsins, sem nú hírist landflótta í Japan og verður framseldur þaðan um síðir.

Uppgjörið við fortíðina er mikilvægt í öllum löndum, sem eru að feta sig í átt til lýðræðis að vestrænum hætti. Menn fá tækifæri til að gera upp viðhorf sín og ákveða, hver fyrir sig, að óhæfan gerist aldrei aftur. Vestrænir stuðningsmenn harðstjóra fá verðskulduð kjaftshögg.

Óhjákvæmilegt er að glæpaslóðir verði raktar til áhrifamikilla stofnana og einstaklinga á Vesturlöndum. Innan stórvelda lýðræðisríkjanna mun fara fram hliðstætt uppgjör og í þriðja heiminum. Margir munu neyðast til að læðast með veggjum, þegar fréttirnar fara að leka.

Þannig verður ekki aðeins hreinsað til á nýjum svæðum vestræns lýðræðis, heldur einnig í kjarnalöndum þess. Minnka mun svigrúm skammtímamanna til stuðnings við glæpi og harðstjórn í þriðja heiminum. Lýðræði mun því knýja fastar að dyrum víðar í þriðja heiminum.

Við framsal Milosevic í hendur stríðsglæpadómstólsins í Haag rennur kalt vatn milli skinns og hörunds ýmissa harðstjóra, sem ranglega hafa talið sér alla vegi færa.

Jónas Kristjánsson

DV

Loksins spörum við

Greinar

Bezta fréttin úr efnahagsgeiranum er, að við erum loksins farin að spara eftir kaupæði undanfarinna ára. Innflutningur bíla er helmingi minni á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Í fyrsta skipti í langan tíma hefur dregizt saman innflutningur á fatnaði og heimilistækjum.

Fyrstu fjóra mánuði ársins var vöruskiptajöfnuðurinn hagstæður um rúmlega tvo milljarða, en var óhagstæður um tæplega tvo milljarða króna á sama tíma í fyrra. Batinn milli ára nemur nærri fjórum milljörðum á fjórum mánuðum. Þetta felur í sér feiknarleg umskipti.

Aukinn sparnaður þjóðarinnar kemur vafalaust fram í minni skuldum heimilanna í landinu og aukinni fjárfestingu almennings í pappírum af ýmsu tagi. Þar með félli um sjálfa sig sú kenning Seðlabankans, að of hátt kaup fólks sé ein helzta undirrót vandræða í hagkerfinu.

Ekki á að skaða hagkerfið neitt, þótt fólk hafi meiri tekjur en Seðlabankanum finnst það eiga skilið, ef það notar tekjurnar til skynsamlegra fjárfestinga í stað þess að kaupa bíla, tízkuföt og óþörf heimilistæki í gríð og erg. Við slíkar aðstæður er bara betra, að kaup sé hátt.

Að baki aukins sparnaðar liggur vafalaust aukin óvissa og raunar holl óvissa um framvindu efnahagslífsins. Að undanförnu hafa þeir haft meiri áhrif, sem tala efnahagslífið niður, en hinir, sem tala það upp. Þetta er hin séríslenzka aðferð að hafa vatnið ýmist í ökkla eða eyra.

Þegar forsætisráðherra hafði árum saman náð góðum árangri í að tala efnahagslífið upp, endaði sú himnaför með því að raunveruleikinn náði í skottið á sýndarveruleikanum. Við gengislækkun og verðbólguskot náðu hinir eyrum fólks, sem sjá heimsenda í hverju horni.

Veruleikinn er milli öfganna. Krónan getur náð jafnvægi á nýjan leik og verðbólgan getur reynzt vera eitt skot, sem fjarar út. Það fer meðal annars eftir, hvernig haldið verður á spilunum á næstunni. Til þess þarf ríkisstjórnin að koma út úr sýndarveruleikanum.

Við þurfum að fara að svara áleitnum spurningum. Er til dæmis forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, þegar stórveldi leggja niður eigin mynt? Er forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, sem kostar nokkrar aukaprósentur í vöxtum?

Við þurfum líka að spyrja okkur, hvernig standi á, að erlendir aðilar vilja ekki fjárfesta hér á landi, ekki einu sinni í nýjum álverum. Erlendar fjárfestingar eru hér á landi ekki nema brot af því, sem tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þótt miðað sé við íbúafjölda.

Við þurfum að spyrja okkur, hvort slíkar aðstæður séu heppilegar til að fara að reyna að ryksuga allt finnanlegt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði, sem útlendingar vilja ekki kosta. Hvernig á þá að fjármagna uppbyggingu atvinnuvega framtíðarinnar?

Við þurfum að komast úr gildrunni, sem felst í séríslenzkum aðferðum við rekstur efnahagslífsins. Við þurfum að losna við leifar sósíalismans, meðal annars eignarhald og ábyrgðir ríkisins í efnahagslífinu, svo og frumkvæði þess í gæluverkefnum á borð við stóriðju.

Við þurfum að læra af smáþjóðum Evrópu, sem líður vel í stórum efnahagsbandalögum og reka suma af öflugustu bönkum og fjármálafyrirtækjum heims, þótt þær hafi ekki eigin mynt. Þeim gengur vel, af því að þær eru ekki að rembast við sérþjóðleg atriði í efnahagnum.

Þegar við losnum úr gildru sérstöðunnar, minnka sveiflur, verðbólga hjaðnar og peningar fæðast, sem nýtast okkur framhjá sérþörfum gæludýra ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavík nauðhemlar

Greinar

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur sem stór eignaraðili Landsvirkjunar tekið af skarið um, að farið verði gætilegar en hingað til í ráðagerðum um stórvirkjun á Austurlandi. Undirbúningur hennar verði vandaðri og tekið verði meira tillit til hliðarverkana á umhverfið.

Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði rannsökuð miklu betur en hingað til. Niðurstöðurnar verði síðan kynntar almenningi rækilega, væntanlega á svipaðan hátt og Reykjavíkurborg kynnti flugvallarmálin í vetur.

Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að vandaðri arðsemisútreikningar verði gerðir um alla einstaka þætti málsins. Í þeim verði tekið tillit til áhrifa þeirra á umhverfi og náttúru, svo sem margsinnis hefur verið lagt til, en ekki verið hlustað á til þessa.

Mat á verðgildi ríkisábyrgðar er stór þáttur, sem hingað til hefur skort í útreikningum undirbúningsaðila. Í frjálsu markaðskerfi eru ábyrgðir á lánum metnar til fjár. Sá, sem veitir ábyrgð, fær í sinn hlut helminginn af mismun vaxta af lánum með ábyrgð og án ábyrgðar.

Hingað til hafa menn komizt upp með að skuldbinda ríkissjóð í þágu sérhagsmuna. Sá tími spillingar á að vera liðinn fyrir löngu. Ef ríkissjóður tekur fyrir hönd allra skattgreiðenda ábyrgð á stórframkvæmdum hlutafélaga, á hann að fá eðlilega ábyrgðarprósentu í sinn hlut.

Gersamlega marklausir eru allir arðsemisútreikningar, sem ekki gera ráð fyrir eðlilegum kostnaði af ríkisábyrgð. Sömuleiðis eru gersamlega marklausir allir arðsemisútreikningar, sem byggjast á leynilegu mati hlutafélags á verðinu, sem það telur muni fást fyrir söluvöruna.

Engin sátt getur náðst í þjóðfélaginu um útreikninga, sem ekki eru gegnsæir. Ef stærsti liður þeirra, söluverð orkunnar, er leyndarmál, þá eru útreikningarnir sjálfir marklausir frá grunni. Hlutafélag með slíkt viðskiptaleyndarmál á ekki að væla sér út ábyrgð ríkissjóðs.

Þegar búið er að taka tillit til greiðslu Landsvirkjunar fyrir ríkisábyrgð og gera arðsemisútreikninga Landsvirkjunar gegnsæja, er enn eftir að bæta við kostnaðinn greiðslum Landsvirkjunar til þjóðfélagsins vegna skaðlegra áhrifa virkjunarinnar á umhverfi og ferðaþjónustu.

Gerð hefur verið tilraun til að meta umhverfisskaða Kárahnjúkavirkjunar til fjár með því að spyrja fólkið í landinu, hvað það vilji borga í auknum sköttum til að vernda landið fyrir ágangi Landsvirkjunar. Niðurstaða athugunarinnar nemur 400 milljónum króna á ári.

Þjóðin er sjálf til í að greiða 400 milljónir króna á ári til að eiga svæðið norðan Vatnajökuls sem þjóðgarð. Þetta verð ber Landsvirkjun að greiða þjóðinni á hverju ári og bæta þeim kostnaði við arðsemisútreikninga. Að öðrum kosti eru þeir reikningar marklausir með öllu.

Aðeins ágizkanir eru enn til um tjón ferðaþjónustunnar af spjöllum á þessu svæði. Það er annað reikningsdæmi en dæmi þjóðgarðsins hér að ofan og niðurstöðurnar hrein viðbót við heildardæmið. Enn hefur þessi þáttur dæmisins ekki verið metinn til fjár á fræðilegan hátt.

Hér að ofan hafa verið rakin nokkur dæmi um, að núverandi arðsemisútreikningar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka eru út í hött. Hagfræðingar hafa bent á fleiri þætti, svo sem vanmat áhættuálags í ávöxtunarkröfu í þessum útreikningum og vísa til slíks álags í Noregi.

Þegar menn eru komnir á bólakaf í illa grundaðar ráðagerðir um stórvirkjanir, er gott, að einn opinber aðili, Reykjavíkurborg, vilji loksins stinga við fótum.

Jónas Kristjánsson

DV

Andstæða orða og verka

Greinar

Stjórnmálamenn eru oft réttilega sakaðir um að lofa upp í ermina á sér og tala jafnvel þvert um hug sér. Þessar ódýru aðferðir við að afla sér atkvæða eru smámunir í samanburði við þær aðferðir, sem upp á síðkastið hafa þróazt í framúrstefnulöndum áróðurstækninnar.

Þegar formaður Framsóknarflokksins gerði milljarð til fíkniefnavarna að höfuðmáli síðustu kosningabaráttu, var hann að lofa upp í ermina á sér og tala þvert um hug sér. Eftir kosningar hefur milljarðurinn ekki komið í ljós og ekki heldur nein viðleitni formannsins í þá átt.

Framganga formannsins var ekki annað en ýkt útgáfa ómerkilegheita, sem lengi hafa tíðkazt. Menn hafa löngum lofað því, sem þeir hafa ekki ætlað að efna. Nú er hins vegar farið að tíðkast að lofa einhverju, þótt menn stefni ótrauðir að því að framkvæma hið gagnstæða.

Bush Bandaríkjaforseti er fyrirtaks dæmi um skipulega notkun og mikinn árangur þessarar nýju tegundar áróðurstækni. Sem ríkisstjóri í Texas hafði hann slæman feril í umhverfismálum. Samt rak hann baráttuna fyrir forsetakosningarnar sem einlægur umhverfisvinur.

Í þeim tilgangi tefldi hann rándýrri áróðurshrinu gegn keppinaut sínum í forkosningum repúblikana, John McCain, þar sem því var haldið fram, að McCain mundi ekki standa sig í umhverfismálum. Þessi hrina réð úrslitum um, að Bush náði tilnefningu flokks síns.

Þegar Bush var setztur í forsetastól, sneri hann umsvifalaust við blaðinu. Hann leyfði umfangsmikla olíuborun í friðlöndum náttúruvinja í Alaska. Hann afturkallaði aðild Bandaríkjanna að Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Í kosningabaráttunni fann Bush upp slagorð “brjóstgóðrar” íhaldssemi og gaf í skyn, að hann mundi gæta hagsmuna þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þar með sló hann gamalkunnugt vopn úr höndum demókrata, sem hingað til hafa talið sig fulltrúa smælingjanna.

Eftir kosningar sneri Bush skyndilega við blaðinu. Hann hafði frumkvæði að nýjum skattalögum, sem eru eindregið höll undir þá, er breiðust hafa bökin í landinu. Hann hafði frumkvæði að stórfelldum niðurskurði útgjalda í málaflokkum velferðarþjóðfélagsins.

Aðferðina notar hann ekki bara á innlendum markaði. Ímyndar- og áróðursfræðingar hans telja, að aðgæzluleysi á þessu sviði sé ekkert einkamál bandarískra kjósenda, heldur sé umheimurinn yfirleitt haldinn botnlausri trúgirni, þar á meðal ráðamenn í Vestur-Evrópu.

Að undanförnu hefur Bandaríkjaforseti ferðazt um Evrópu og ekki notað neitt slagorð oftar en það, að hann sé að hafa “samráð” við leiðtoga evrópskra ríkja. Ætla mátti eftir þessu hugtaki, að hann ætlaði að taka tillit til evrópskra sjónarmiða í gerðum sínum á næstunni.

Þvert á móti kom í ljós í hverju einasta smáatriði, að Bush gaf ekki eftir tommu af þeim áformum, sem mestri andstöðu hafa mætt í Evrópu. Hann ætlar í öllum smáatriðum að fylgja nákvæmlega þeirri stefnu, sem hann fylgdi, áður en svokölluð “samráðs”-ferð hófst.

Andstaða hans við Kyoto-sáttmálann er nákvæmlega jafn hörð sem áður. Fyrri ákvarðanir hans um eldflaugavarnir standa nákvæmlega eins og þær voru. Hann ætlar hvorki að taka þátt í stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna né alþjóðabanninu gegn jarðsprengjum.

Alvarlegast er, að hvorki almenningur né leiðtogar virðast átta sig á, að framvegis má búast við, að í pólitík séu orð og verk ekki óskyld, heldur beinar andstæður.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturlönd hossa Pútín

Greinar

Ef Slobodan Milosevic, fyrrum forseti Júgóslavíu, er stríðsglæpamaður, þá er Vladimir Pútín, núverandi forseti Rússlands, enn meiri stríðsglæpamaður. Hernaður hans í Tsjetsjeníu er villimannlegri en hernaður hins fyrrnefnda var í löndum hinnar gömlu Júgóslavíu.

Miskunnarlaus hernaður Pútíns hefur árum saman beinzt gegn venjulegum borgurum í Tsjetsjeníu. Fréttir þaðan berast hins vegar svo seint og stopult og myndir alls ekki, því að vestrænir fjölmiðlar hafa þar mun lakari aðstöðu til að fylgjast með en í Bosníu og Kosovo.

Mestu máli skiptir þó, að vestrænir leiðtogar töldu Vesturlöndum ekki hag í að bera blak af Milosevic, en eru hver um annan þveran að reyna að vera í góðu sambandi við Pútín. Þeir telja nauðsynlegt að hafa hann góðan, af því að Rússland er öflugt ríki, öfugt við Serbíu.

Meðan ráðamenn Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna rífast nánast opinberlega í innri samskiptum sínum um allt sviðið frá Kyoto-sáttmálanum yfir dauðarefsingu og að eldflaugavörnum, eru þeir sammála um það eitt, að reyna að koma á sem beztum samskiptum við stjórn Pútíns.

Óveðursský leyniþjónustunnar eru að hrannast upp í Rússlandi, enda er Pútín alinn þar upp. Hvarvetna sjást merki þess, að arftakar KGB eru að taka völdin í landinu. Menn eru aftur byrjaðir að líta flóttalega kringum sig og tala í hálfum hljóðum eins og á tímum Stalíns.

Dæmin eru fjölbreytt. Stórgróðamenn eru látnir maka krókinn í friði, nema þeir séu fyrir Pútín, þá er skattalögreglan send á þá. Ef þeir eiga fjölmiðla, sem eru gagnrýnir á stjórnvöld, eru þessir fjölmiðlar afhentir öðrum, sem eru hallir undir forsetann og stjórn hans.

Vísindamenn eru handteknir vegna gruns um njósnir í þágu Vesturlanda og aðrir eru varaðir við ferðum til útlanda. Sama gildir um þá, sem hafa tekið að sér að fylgjast með framvindu umhverfismála í Rússlandi. Þeir eru þar á ofan hundeltir með opinberum ákærum.

Alexander Nikitin skipstjóri fann kjarnorkuvélar í ryðguðum kafbátahræjum við Kolaskaga. Á rúmum fimm árum hafa yfirvöld kært hann níu sinnum fyrir njósnir. Þar á meðal hefur hann bæði verið kærður fyrir brot gegn leynilegum lögum og gegn afturvirkum lögum.

Samstarfsmenn Pútíns úr leyniþjónustunni hafa undanfarið verið ráðnir hver á fætur öðrum til lykilstarfa í stjórnsýslunni. Þetta eru yfirleitt menn, sem eru heilaþvegnir í stalínskri kaldastríðshugsun. Helzti ofsækjandi Nikitins er orðin að lénsherra í Pétursborg.

Slysið í kafbátnum Kúrsk er dæmigert um aðvífandi myrkur í Rússlandi. Yfirvöld gáfu út margvíslegar yfirlýsingar um orsakir slyssins, sem allar voru mismunandi, en áttu allar þó það sameiginlegt að vera ekki bara rangfærðar eða rangar, heldur beinlínis fjarstæðar.

Almenningur í Rússlandi trúði auðvitað ekki einu orði í yfirlýsingum yfirvalda um slysið í Kúrsk. En menn hafa hægt um sig, því að þeir óttast hleranir á símum og tölvupósti. Smám saman eru Rússar að hverfa aftur inn í sjálfa sig eins og þeir urðu að gera á tímum Stalíns.

Eini munurinn á Stalín og Pútín er, að Stalín hafði áratugi til að móta ógnarstjórnina, en Pútín hefur aðeins verið við völd í hálft annað ár. Ef Vesturlönd halda áfram að moka peningum í Rússland, hefur Pútín góðan tíma til að reisa alræði leyniþjónustunnar að nýju.

Það er vestræn sjálfseyðingarárátta, að Bandaríkin og Vestur-Evrópa skuli koma sér saman um það eitt að veita arftaka Stalíns sem allra mestan stuðning.

Jónas Kristjánsson

DV

Verzlað með verin

Greinar

Gamall ferðamálafulltrúi Íslendinga í Þýzkalandi sagði nýlega í blaðaviðtali, að uppistöðulón á hálendinu gætu nýtzt til ferðamála, ef þar verði komið upp skipulögðum bátsferðum, svo að fólk geti hallað sér aftur á bak og drukkið í sig landslagið umhverfis lónið.

Þessi draumsýn er fjarri raunveruleikanum. Uppistöðulón eru engin stöðuvötn frá náttúrunnar hendi. Þau eru ætluð til miðlunar. Stundum eru þau full af vatni og stundum er lítið í þeim. Við Kárahnjúka er gert ráð fyrir, að mismunur vatnshæðar verði 75 metrar.

Hver metri í lóðlínu jafngildir fleiri metrum í landslagi. Þar sem land er tiltölulega flatt eins og í Þjórsárverum, getur hver lóðréttur metri jafngilt hundrað metrum í landslagi. Á öllu þessu svæði er land, sem stundum er á kafi í vatni og stendur stundum upp úr vatninu.

Gróður eyðist á þessu belti misjafnrar vatnshæðar. Eftir situr moldarflag, sem rýkur í þurrkum og rífur upp gróður í nágrenninu. Þannig verður til annað belti uppblásturs utan innra beltisins og venjulega margfalt stærra. Þannig mun fara fyrir friðlandi Þjórsárvera.

Við þekkjum lítið til uppistöðulóna við gróið land. Hingað til hafa aðeins verið gerð lítil lón, einkum á Tungnaársvæðinu, þar sem nánast enginn gróður var fyrir. Við Þjórsárver er hins vegar ráðgert að búa til þrjátíu ferkílómetra lón, sem liggur inn á friðaða svæðið.

Þetta er ekkert venjulegt gróðurlendi, sem þar er ráðgert, að fari undir vatn, moldarflög og uppblástur. Það eru sjálf Þjórsárver, sem eru stærsta gróðurvin íslenzka hálendisins og njóta alþjóðlegrar friðunar frá 1981 í samræmi við ákvæði fjölþjóðasáttmálans frá Ramsar.

Vandamál uppistöðulónsins við Kárahnjúka verða svipaðs eðlis, en í öðrum hlutföllum. Þar verður mismunur vatnsborðs meiri, en áhrif hvers dýptarmetra minni á landið í kring vegna meiri bratta. Heildaráhrifin á náttúruna verða geigvænleg á báðum þessum stöðum.

Í umhverfisskýrslu sinni um Kárahnjúka hefur Landsvirkjun skautað létt yfir þessi áhrif, einkum óbeinu áhrifin utan sjálfs fjöruborðsins. Væntanlega verður bætt um betur á síðari stigum málsins, enda njóta áróðursskýrslur þessarar illræmdu stofnunar einskis trausts.

Þjórsárveranefnd er enn að skoða tillögu Landsvirkjunar um uppistöðulón í jaðri Þjórsárvera. Landbúnaðarráðherra hefur lýst yfir, að ekki verði skertur metri af svæðinu. Því miður segir reynslan okkur, að ekki er mikið að marka digurbarkalegar yfirlýsingar hans.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun DV er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur uppistöðulóninu við Þjórsárver. Því miður er málið flokkspólitískt, lónið stutt af meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem ræður rúmlega öllu, sem hann vill ráða í ríkisstjórninni.

Naumur meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins er hins vegar andvígur lóninu. Því er hugsanlegt, að ráðherrar flokksins komi í veg fyrir hryðjuverk í Þjórsárverum til að bæta fyrir hnekkinn á ímynd flokksins, sem stafar af harðri baráttu hans fyrir Kárahnjúkalóni.

Þannig er farið um hálendið, sem þjóðin hefur til varðveizlu fyrir hönd ófæddra kynslóða. Það er orðið að pólitískri verzlunarvöru. “Ef ég fæ að eyðileggja þennan stað, skal ég ekki eyðileggja hinn staðinn”, gætu verið einkunnarorð Framsóknarflokksins þessa dagana.

Hvorugur glæpurinn er ráðamönnum þó svo fastur í hendi, að samstilltara átak þjóðarinnar geti ekki hindrað óafturkræf hryðjuverk á stærstu víðernum Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimmfaldir sóðar

Greinar

Bandaríkjamenn eru 5% af íbúum jarðar og bera ábyrgð á 25% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Að mati George Bush Bandaríkjaforseta er þetta afar fátæk þjóð, sem hefur ekki efni á að taka til hendinni í þessu efni. Vísar hann í staðinn á auðþjóðir Indlands og Kína.

Bush hefur dapurlegt veganesti með sér á ferð sinni um Evrópu. Ríkisstjórn hans hefur á skömmum tíma kippt Bandaríkjunum úr forustu vestrænna ríkja fyrir margvíslegum framförum í heiminum, þar á meðal í baráttunni gegn aukningu gróðurhúsalofttegunda.

Sinnaskiptin vestra stafa ekki af nýjum vísindum. Þvert á móti hefur Vísindaráð Bandaríkjanna nýlega staðfest þær niðurstöður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá í vetur, að loftslag og veðurfar á jörðinni sé af mannavöldum að breytast á afar skaðlegan hátt.

Á hvern íbúa eru Evrópubúar ekki nema hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn í þessum sóðaskap, en vilja fyrir sitt leyti taka til hendinni. Ríkisstjórnir Evrópu hafa gagnrýnt stefnubreytingu Bandaríkjaforseta, sem gengur þvert á yfirlýsingar hans í kosningabaráttunni.

Ráðgert hafði verið, að árið 2002 mundu aðildarríki Kyoto-sáttmálans frá 1997 vera búin að staðfesta hann. Evrópuríkin segjast enn vera reiðubúin til þess, þótt Bandaríkin hafi ákveðið að vera utangarðs með tveimur öðrum sóðaríkjum, sem heita Ástralía og Ísland.

Í rauninni eru hagsmunir olíufélaga í Texas, heimaríki Bush, að baki sinnaskipta forsetans. Að yfirvarpi er þó haft, að bandarískt atvinnulíf hafi ekki ráð á hreinsun og að ósanngjarnt sé að undanskilja fjölmenn ríki á borð við Indland og Kína frá fyrstu aðgerðum í málinu.

Í Kyoto var þó litið þannig á málið, að núverandi mengun andrúmsloftsins væri einkum gömlu iðnríkjunum að kenna. Því bæri þeim að taka til hendinni í fyrstu umferð. Í annarri umferð aðgerðanna kæmu svo þróunarlöndin, sem eru nýlega byrjuð að menga andrúmsloftið.

Kyoto-sáttmálinn er engin fyrirmyndarlausn, heldur niðurstaða langvinns samningaþjarks með þátttöku Bandaríkjanna. Sum atriði hans verða erfið í framkvæmd. Hann átti bara að vera fyrsta skrefið til stöðvunar á mengun andrúmsloftsins. Fleiri skref áttu að fylgja.

Það er svo alveg nýtt fyrir mönnum, að Bandaríkjamenn séu svo fátækir, að þeir hafi ekki sömu efni og aðrir á að hreinsa eftir sig skítinn. Auðvitað verður hver þjóð fyrir sig að meta, hvort hún hafi komizt í álnir eða ekki, en óneitanlega leggst lítið fyrir kappann.

Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að taka ekki frekar mark á Vísindaráði Bandaríkjanna en á vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur ákveðið að leggja ekki fram tillögur um betri lausn á málinu en fólst í Kyoto-sáttamálanum. Hann kemur berhentur til Evrópu.

Það eina, sem hann hefur til málanna að leggja, er að skipa enn einu sinni nefnd og reyna að finna, hvernig hægt sé að fá fyrirtæki til að laga stöðu sína á sjálfviljugan hátt. Meðan hann fer undan í flæmingi, versnar ástand heimsins stöðugt vegna bandarískrar mengunar.

Í kjölfar ákvörðunar forsetans er eðlilegt, að Evrópa setji mengunarskatt á bandarískar vörur, svo að þær njóti þess ekki á markaði að vera framleiddar á ódýrari og sóðalegri hátt en evrópskar vörur. Skattinn má svo nota til róttækari aðgerða gegn mengun andrúmsloftsins.

Valdataka Bush í Bandaríkjunum er áfall fyrir allt mannkyn og sérstaklega fyrir Vesturlönd, sem eru orðin höfuðlaus her síðan Bandaríkin hurfu inn í skelina.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkar úr fókus

Greinar

Einn stjórnmálaflokkur hefur umfram aðra flokka landsins ástæðu til að hafa áhyggjur af fylgiskönnunum á miðju kjörtímabilinu. Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn, sem mælist langt undir síðasta kjörfylgi í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Áhyggjur Framsóknarflokksins hljóta líka að vera nokkrar. Hver skoðanakönnunin á fætur annarri sýnir lakari stöðu hans en var í síðustu alþingiskosningum, sem voru flokknum þungbærar. Aðrir hlutar íslenzka fjórflokksins eru í sæmilega traustum fylgismálum.

Samfylkingin var stofnuð upp úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista með þeim yfirlýstu væntingum, að þetta yrði að minnsta kosti 40% flokkur. Niðurstaðan í kosningunum varð þó ekki nema 27%. Síðan hefur fylgið oftast mælzt 16­18% í skoðanakönnunum.

Meðan rólegum og miðlægum vinstri flokkum vegnar vel víðs vegar um Evrópu, þar á meðal í höfuðríkjunum Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, fellur miðlægi vinstri flokkurinn á Íslandi algerlega í skugga jaðarsins, eins og hann birtist í kannanafylgi vinstri grænna.

Að nokkrum hluta er vandamál Samfylkingarinnar svipað og Framsóknarflokksins. Þessir flokkar hafa ekki gætt veiðilendna sinna á rauða og græna jaðrinum og leyft nýjum flokki eindreginna og harðra sjónarmiða að hala sig á tveimur árum upp úr 9% í 25% fylgi.

Hefðbundnar kenningar segja, að flokkar eigi að stunda veiðiskap á miðjunni, af því að þar séu þorskarnir flestir. Þetta virðist síður eiga við á Íslandi en í nágrannalöndunum, nema þá að miðjan hafi færzt til, án þess að Samfylking og Framsókn hafi áttað sig á vilja kjósenda.

Græn sjónarmið eru ekki lengur jaðarmál. Þetta hafa systurflokkar Framsóknarflokksins á Norðurlöndum skilið og eru þar grænastir allra flokka. Hér á Framsókn við það skrítna böl að stríða að vera tveimur öldum of seint að reyna að troða Íslandi gegnum iðnbyltinguna.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem ætti að geta hossað sér á ýmsum stórmálum, sem fanga hugi þjóðarinnar í trássi við ríkisstjórnina. En fólk treystir bara ekki Samfylkingunni til að hindra Kárahnjúkavirkjun og afnema gjafakvótann í sjávarútvegi.

Spurning kjósandans er einfaldlega sú, hvort það taki því að falla frá stuðningi við stjórnarflokk og ánetjast ótraustri Samfylkingu á forsendum slíkra hitamála. Menn telja, að hún sé svo miðlæg, að hún muni fórna stóru hitamálunum í samningum um nýja ríkisstjórn.

Forustuvandi hrjáir báða flokkana. Formaður Framsóknar hefur átt einstaklega erfitt með að segja flokksfólki sínu, hvernig hann vilji láta skipa trúnaðarstöður og ráðherrastóla. Ennfremur er hann þungt haldinn af iðnbyltingar-sérvizku og smíðavinnu við gjafakvótann.

Málið er ekki svona einfalt hjá Samfylkingunni, sem hefur hvorki lagað stöðuna né spillt henni með því að skipta um formann. Ljóst er þó, að nýi formaðurinn virkar ekki á þann mynduga hátt, sem kjósendur ætlast sennilega til af leiðtoga stjórnarandstöðunnar á þingi.

Samfylkingin þarf að gera borgarstjórann í Reykjavík að formanni. Gallinn er bara sá, að hún þarf ekki að verða formaður, af því að hún er betur sett sem borgarstjóri Reykjavíkur, þar sem hún hefur einnig framsóknarmenn og vinstri græna undir víðum vængjum sínum.

Skoðanakannanir staðfesta, að Framsókn og Samfylking eru langt út úr fókus og eiga mikið verk fyrir höndum á þeim helmingi, sem lifir af kjörtímabilinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Trúgirni og óskhyggja

Greinar

Þessa dagana er fólk fúsara en nokkru sinni fyrr að trúa kenningum um, að grisja þurfi fiskistofnana í hafinu enn frekar, svo að þeir vaxi upp, enda hafi slíkt reynzt vera heppilegt í stöðuvötnum. Kenningasmiðir grisjunar hafa skyndilega fengið byr undir báða vængi.

Fólk vill trúa á heilbrigðan grisjunarmátt mikillar veiði, þótt hún hafi alls ekki gefizt vel á ýmsum hafsvæðum, svo sem í Norðursjó og við Færeyjar og Kanada, þar sem fiskistofnar hafa nánast eða alveg hrunið af völdum þeirrar grisjunar, sem felst í of mikilli veiði.

Fólk vill trúa á grisjun, þótt þorskveiðisaga síðustu aldar sýni, að hvíldin, sem þorskurinn fékk á tímum tveggja heimsstyrjalda, leiddi til stofnstækkunar og mikillar veiði á eftirstríðsárunum. Þá gat veiðin farið upp fyrir hálfa milljón tonna á ári, þrefalt hærra en núna.

Hafrannsóknastofnunin hefur gefið á sér höggstað með því að neyðast til að játa þriðjungs ofmat sitt á þorskstofninum. Í augum fólks hefur henni ekki tekizt að varðveita fræðilegan orðstír, þótt þar sé innan dyra að finna beztu fiskifræðiþekkingu, sem til er í landinu.

Stofnuninni hefur mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir þeim vanda, að heimilaður afli hefur flest ár verið töluvert meiri en sem nemur tillögum hennar. Henni hefur líka mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir feiknarlegum afla lítilla, en öflugra og vel búinna báta utan kvóta.

Enn fremur hefur henni mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir áhrifum brottkasts á fiskistofna. Síðast en ekki sízt hefur hún verið höll undir meintar þarfir þjóðfélagsins fyrir miklar tekjur af fiskafla, eins og þær hafa verið túlkaðar af aðgangshörðum stjórnmálamönnum.

Hafrannsóknastofnunin þarf að verða minna diplómatísk og meira fræðileg. Hún þarf að gera meira af því að setja viðurkennda fræðimenn sína í sviðsljósið og hún þarf að halda fjölþjóðlegar ráðstefnur, þar sem erlendir sérfræðingar leggja sitt af mörkum til málanna.

Þyngsti hluti vandans leynist þó utan stofnunarinnar. Í almenningsálitinu er aflatillögum hennar ruglað saman við svokallað gjafakvótakerfi, sem sætir almennri fyrirlitningu. Reiði fólks út í gjafakvóta stjórnmálamanna kemur niður á fiskveiðiráðgjöf vísindamanna.

Fólk er ósátt við, að auðlindir hafsins skuli án endurgjalds vera afhentar völdum aðilum, sem síðan selja öðrum kvótann fyrir morð fjár og flytja hagnaðinn úr landi. Almenningur er ósáttur við spillinguna, sem fylgir þessari skömmtun eins og svo margri annarri.

Spillingu gjafakvótakerfisins má afnema með því að leigja kvótann út á opinberu uppboði. Engin þörf er á að kasta barninu út með baðvatninu. Áfram þarf skömmtun á aðgangi að takmarkaðri auðlind hafsvæðanna við Ísland, þótt núverandi gjafakvóti verði lagður niður.

Jarðvegurinn er kjörinn fyrir kenningasmiði grisjunar og pólitíska plötuslagara, sem fylgja þeim fast eftir. Fólk vill trúa notalegum stöðuvatna-kenningum um, að aukin sókn stækki fiskistofnana í hafinu. Trúgirni og óskhyggja taka saman höndum í hugskoti almennings.

Kjarni málsins er hins vegar, að fiskveiðar við Ísland eru engan veginn sjálfbærar. Áratugum saman hefur verið stunduð ofveiði á flestum stofnum nytjafiska. Sjálfur þorskurinn hefur verið 25% ofveiddur í fjóra áratugi samfellt og nú er komið að skuldadögunum.

Hrunið er svo á næsta leiti, ef trúgirni og óskhyggja fólks leiðir til uppgangs pólitískra plötuslagara, sem magna sóknina í skjóli þægilegra grisjunarkenninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Málsgrein og myndskot

Greinar

“Ekki er ofmælt, að það sé lýðræðinu hættulegt, ef fólk treystir á sjónvarp sem helzta fréttamiðil sinn,” segir Walter Cronkite sjónvarpsstjarna í sjálfsævisögu sinni, þar sem hann fer rækilega yfir feril sinn sem frægasti fréttastjóri og fréttaþulur í sögu sjónvarpsins.

Í ævisögunni rekur Cronkite, hvernig sjónvarpsfréttir í Bandaríkjunum hafa smám saman verið að breytast úr upplýsingum yfir í að vera dægrastytting eins og annað sjónvarpsefni. Reynsla hans skiptir okkur máli, því að nýbreytni í vestri flytzt oftast austur um haf.

Cronkite bendir á, að hálftíma sjónvarpsfréttir flytji fólki “fáránlega lítið fréttamagn”, það er svipað fréttamagn og tveir þriðju hlutar úr einni síðu í erlendu dagblaði, sem jafngildir tæplega hálfri annarri síðu í dagblaði af þeirri síðustærð, sem við þekkjum hér á landi.

Fréttir bandarískra sjónvarpsstöðva hafa minnkað niður í “soundbite” og “photo opportunity”, það er að segja málsgrein og myndskot. Þetta sést vel í kosningabaráttu, þar sem spunastjórar forsetaefnanna gefa sjónvarpinu færi á einni málsgrein og einu myndskoti á dag.

Forsetaefnin haga ferðum sínum á þann hátt, að á hæfilegum tíma dagsins fyrir sjónvarpsfréttir kvöldsins gefa þeir færi á að mynda sig við einar heppilegar kringumstæður, þar sem þeir slá fram einni málsgrein, sem spunastjórarnir telja skipta máli þann daginn.

Árið 1992 var þessi breyting sjónvarpsfrétta svo langt leidd í Bandaríkjunum, að allra lengsta beina tilvitnun sjónvarpsfréttar í málflutning forsetaframbjóðanda nam átta sekúndum. Þið getið prófað þetta sjálf og reynt að segja eitthvað af viti á átta sekúndum.

Samhliða þessum samdrætti upplýsingamagns hefur fréttainnihaldið breytzt. Ekki er lengur fjallað um málefni og rök, heldur meintan persónuleika. Í fyrrahaust var endalaust fjallað um, hvort frambjóðandinn Bush væri heimskur og frambjóðandinn Gore væri ýkinn.

Af notkun bandarískra sjónvarpsfrétta hefði maður getað haldið, að Bush væri sífellt einni málvillu frá heimskunni og Gore væri einni hagtöluvillu frá lyginni. Fréttaflutningurinn snerist meira eða minna um samanburð við fyrri væntingar sjónvarpsfrétta um persónubresti.

Þannig hafa stjórnmálafréttir sjónvarps verið að færast í sama farveg og sjónvarpsfréttir af frægðarfólki á borð við kvikmyndaleikara. Fréttaneytendur þykjast vita allt um persónusögu þeirra, persónubresti og fjölskyldulíf, en vita ekkert um, hvað þeir muni gera á valdastóli.

Þetta þrengir sjóndeildarhring þeirra Bandaríkjamanna, sem eingöngu nota sjónvarp sem fréttamiðil. Hinir, sem nota dagblöð og fréttatímarit, hafa aðgang að miklu meiri breidd upplýsinga, þar sem bæði magn og gæði fara langt fram úr því, sem sést í sjónvarpi.

Það kostulega er svo, að sérhæfing sjónvarpsins í persónum frekar en málefnum leiðir ekki til aukins skilnings notenda á persónum sjónvarpsfréttanna. Dæmin hrannast upp um, að persónur stjórnmálamanna eru meira eða minna ímyndir, framleiddar af spunastjórum þeirra.

Varnaðarorð Cronkite skipta miklu, því að hann varð heimsfrægur einmitt í þessu umhverfi, sem hann gagnrýnir svo hastarlega í ævisögu sinni. Hann bendir þó ekki á neina einfalda leið úr fréttagildru þeirra, sem treysta á sjónvarpið sem helzta fréttamiðil sinn.

Fyrsta skrefið til að losna úr gildrunni er, að fólk átti sig á, að málsgrein og myndskot verða aldrei ígildi fréttar og að persónuímynd verður aldrei ígildi persónu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þráhyggja þéttingar

Greinar

Ekki voru undirskriftir 35.000 Reykvíkinga fyrr búnar að stöðva byggingu skrifstofu- og bíóhúss í Laugardal en borgarstjórn er farin að gæla við hugmyndir um byggingu menntaskóla á svæðinu. Þannig er ekkert lát á þráhyggju borgaryfirvalda, þótt skoðun borgarbúa sé ljós.

Með undirskrift sinni mótmæltu 35.000 Reykvíkingar hvers kyns óskyldri starfsemi í Laugardalnum, ekki aðeins skrifstofum og bíói, heldur öllu því, sem takmarkar opna svæðið í Laugardal. Mótmælin gilda því einnig um nýju ráðagerðirnar um menntaskóla á svæðinu.

Er þráhyggja borgarstjórnar svo blind, að borgarbúar þurfi að mótmæla sams konar ráðagerðum á tveggja ára fresti? Er þessi þráhyggja skynsamlegt nesti borgarstjórans og meirihluta borgarstjórnar á leiðinni að næstu borgarstjórnarkosningum að einu ári liðnu?

Hugmyndir um menntaskóla á opna svæðinu í Laugardal stafa eins og aðrar slíkar hugmyndir af, að byggð hefur verið skipulögð of þétt í borginni. Skipulagsmenn borgarinnar renna hýru augu til opinna svæða til að létta á þrýstingi vegna fyrri mistaka þeirra sjálfra.

Við sjáum slík mistök sums staðar við mislæg gatnamót, sem eru aðkreppt, af því að hús hafa verið skipulögð þétt við þau, til dæmis við Höfðabakkabrúna yfir Suðurlandsveg. Við vitum, að senn verður að rífa hús við Miklatorg vegna of þéttrar byggðar við torgið.

Ef ráðagerðir borgaryfirvalda um bryggjuhverfi við Ánanaust og Eiðisgranda verða að veruleika, mun koma í ljós, að rífa verður húslengjur við Hringbraut til að þjóna aukinni umferð vegna aukinnar byggðar. Nýr miðbær í Vatnsmýri mundi hafa enn skelfilegri áhrif.

Steypuvæðing opinna svæða er stundum varin með því, að borgarbúar noti þau ekki. Þannig er hugmynd um listaháskóla á Klambratúni varin með því, að fólk sé ekki mikið þar á ferli. En opin svæði hafa ekki aðeins útivistargildi, heldur eiga þau að auka svigrúm og víddir.

Raunar er steypuvæðing Skeifu og Fenja bein ástæða of lítillar útivistar í Laugardalnum. Með þessum hverfum hefur dalurinn verið klipptur úr eðlilegu sambandi við útivist í Skerjafirði, Fossvogi, Elliðaárdal og Heiðmörk. Þétting byggðar í Blesugróf olli svipuðum skaða.

Þótt bezt sé að gera strax í fyrsta skipulagi ráð fyrir endanlegum nýtingarstuðlum, getur þétting byggðar verið gagnleg við sérstakar aðstæður. Til dæmis eru áhugaverðar hugmyndir um svipmikil háhýsi við Skúlagötu, enda virðist umferðarsvigrúm vera gott við ströndina.

Sumir vilja búa þröngt að evrópskum hætti, en aðrir vilja búa dreift að amerískum hætti. Borgin á að hafa misjafna nýtingarstuðla og þjóna báðum sjónarmiðum í senn. Þráhyggja í áherzlu á annað sjónarmiðið á kostnað hins má ekki vera í andstöðu við borgarbúa sjálfa.

Dreifð byggð gerir gatnakerfið og almenningssamgöngur dýrari en ella, en það eru ekki einu hagsmunirnir, sem skipta máli í samanburði þéttrar og dreifðrar byggðar. Borgarbúar þurfa líka svigrúm og græn lungu í umhverfinu, hvort sem þeir stunda útivist eða ekki.

Nóg pláss verður fyrir alla þjóðina á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga, þegar hún hefur náð hámarksfjölda. Reykjavík er ekki skylt að taka við fastri hlutdeild af íbúafjölgun svæðisins. Sveitarfélög á jaðarsvæðum byggðar geta tekið aukinn hlut í fjölguninni.

Sífelldar hugdettur borgarstjórnar og skipulagsfólks um þéttingu byggðar eru fyrir löngu orðnar að þráhyggju, sem sumpart stríðir gegn yfirlýstum vilja borgarbúa.

Jónas Kristjánsson

DV