Forgangsröðun

Greinar

Skemmtilegasti ágreiningur kosningabaráttunnar í Reykjavík er um skipulagstillögu um rándýran flutning á hluta Geldinganess vestur í Eiðisgrandafjöru til að stækka íþróttasvæði KR og fjölga stuðningsmönnum KR. Reykjavíkurlistinn vill þetta, en Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

Þar sem mikill meirihluti stuðningsmanna KR styður líka Sjálfstæðisflokkinn, mun flokkurinn fljótlega gefast upp á þessu kosningamáli og um síðir ekki treysta sér til annars en að framkvæma hina sérkennilegu landflutninga, ef hann fær til þess völd. Menn styggja ekki íþróttafélögin.

Ein helzta ástæða þess, að Reykjavíkurlistinn hefur haldið völdum í borginni og er enn samkeppnishæfur við Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum, er óbilandi stuðningur við smíði fleiri og stærri keppnishalla fyrir íþróttafélögin. Þetta er málið, sem selur í borgarpólitíkinni.

Hvor aðilinn, sem fær að stjórna borginni á næsta kjörtímabili, mun hafa keppnishallir efst í forgangsröð framkvæmda, helzt hallir, sem rúma löggilta fótboltavelli. Sjálfstæðisflokkurinn mun gleyma góðum áminningum sínum um skuldasöfnun, þegar kemur að þessu hjartans máli.

Vegna forgangsröðunar mun ganga hægt að koma hefðbundnum og heilsusamlegum máltíðum í alla skóla borgarinnar, þótt þær séu mjög brýnar, af því að foreldrar hafa almennt gefið uppeldi á bátinn og láta börnin ganga sjálfala í sælgæti og skyndibitum, sem skaða heilsuna.

Vegna þessarar sömu forgangsröðunar mun ganga hægt að færa fræðsluskyldu niður í fyrst fimm ára aldur og síðan fjögurra ára aldur, þótt þetta sé mjög brýnt, ekki sízt af því að það léttir leikskólakostnaði af þeim sem eru í óhagstæðri þegnskylduvinna við að fjölga þjóðinni.

Enn er það vegna þessarar sömu forgangsröðunar, að hvorugu stjórnmálaaflinu lízt á að byggja reykvíska tæknigarða, þar sem grasrótarfyrirtæki í tækni, tölvum, fjarskiptum og öðru nýstárlegu í atvinnulífinu geta fengið húsnæði, tölvur og góðar nettengingar fyrir málamyndaleigu.

Í þróun borgarinnar, einkum í samgöngumálum, hefur Reykjavíkurlistinn haldið uppteknum hætti Sjálfstæðisflokksins að láta lélega embættismenn borgarinnar ráða ferðinni og eyða tíma sínum og orku til að útskýra og afsaka vanhugsaðar og ófullnægjandi gerðir þeirra.

Klisjan um þéttingu byggðar hefur verið sérstök plága á valdaskeiði Reykjavíkurlistans, enda valda embættismennirnir ekki verkinu. Þéttingin flækir umferð, magnar deilur við nágranna og kemur í veg fyrir, að hvert hverfi fyrir sig haldi eðlilegum heildarsvip byggingatímans.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert Ríkissjónvarpið og DV að málgögnum og mun fá stuðning Morgunblaðsins, þegar í harðbakkann slær. Þetta hefur lítil áhrif. Póltískur áróður fjölmiðla er eins og rottuskítur í tæru vatni. Hann er ógeðfelldur, en hann er öllum sýnilegur, jafnvel kjósendum.

Kosningabarátta beggja aðila ber þess samt merki, að kjósendur eru ekki hátt skrifaðir. Reykjavíkurlistinn telur ekki taka því að hrósa sér af stóra holræsinu, sem er þó merkasta aðgerðin um langt árabil. Það selur betur að segjast vera memm með kjósendum en að tala um klóak.

Holræsi eru samt hornsteinn heilsufars og efnahags. Rómarveldi var byggt á Cloaca Maxima, sem enn er notað og sýnilegt ferðamönnum, af því að postular byggðaþéttingar fengu ekki að rífa.

Jónas Kristjánsson

FB