Frakkar úti að aka

Greinar

“Fyrst getum við kosið með hjartanu og síðan með höfðinu,” er meðal þess, sem Frakkar hafa sett fram til stuðnings tveggja þrepa kosningakerfi sínu. Þeir hafa nú fengið verðskuldaða ráðningu fyrir ábyrgðarleysi sitt og reyna væntanlega framvegis að haga sér eins og fullorðið fólk.

Svo virðist sem fjöldi franskra kjósenda hafi talið það skyldu einhverra annarra en þeirra sjálfra að sjá um, að Lionel Jospin forsætisráðherra kæmist í aðra umferð forsetakosninganna meðan þeir sjálfir skemmtu sér við að kjósa einhvern furðufuglinn á jaðri stjórnmálanna.

Enn aðrir virðast hafa talið sér trú um eða látið telja sér trú um, að kosningarnar skiptu engu máli, af því að Jacques Chirac og Jospin væru sami grautur í sömu skál. Þeir afsöluðu sér borgaralegum réttindum og skyldum og kölluðu yfir sig Marie le Pen sem úrslitaframbjóðanda.

Niðurstaðan af ábyrgðarleysi franskra kjósenda er sú, að menn úr öllum áttum neyðast til að sameinast um að endurkjósa spilltan lýðskrumara sem forseta landsins, svo að kynþáttahatari nái ekki kosningu. Þetta er versti álitshnekkir, sem Frakkland hefur beðið um langan aldur.

Þeir, sem annað hvort létu hjá líða að kjósa eða skemmtu sér við að kjósa einhvern jaðarmanninn, ganga núna berserksgang úti á götum til að mótmæla niðurstöðunni. Í rauninni eru þeir fyrst og fremst að mótmæla eigin aumu frammistöðu og gera sig að auknu athlægi umheimsins.

Jospin var síður en svo neinn vandræðakostur fyrir kjósendur. Í kosningabaráttunni forðaðist hann lýðskrum og kom fram sem ábyrgur stjórnmálamaður. Svo virðist sem franskir kjósendur hafi túlkað þennan góða kost sem litleysi. Jospin var of mikill prófessor fyrir þeirra smekk.

Niðurstaðan er sú, að franskir kjósendur hafa ekki bara hafnað alvörugefnum stjórnmálamanni sem forseta, heldur kastað honum út úr pólitík yfirleitt. Það sér hver maður, að Jospin verður að segja af sér sem forsætisráðherra og hætta í franskri pólitík eftir útreiðina um helgina.

Frakkar eru svo sem ekki einir um að taka lýðskrumara fram yfir alvörumenn sem þjóðarleiðtoga. Ekki verður samt séð, að þeir hafi neina frambærilega afsökun fyrir því að hafna Jospin á þeim forsendum, að hann væri litlaus og leiðinlegur. Voru þeir kannski að kjósa sér hirðfífl?

Niðurstöður frönsku forsetakosninganna sanna ekki aukið þjóðernislegt ofstæki. Víða í Evrópu er undirliggjandi útlendingahatur í fjórðungi kjósenda, sem fær misjafna útrás í fylgi eftir aðstæðum hverju sinni. Le Pen fékk næstum sama fylgi í forsetakosningunum fyrir sjö árum.

Þá dugði fylgið ekki til að koma honum í úrslitaumferðina, af því að nógu margir kjósendur voru á verði og kusu með heilanum. Þeir nenntu að fara á kjörstað og skemmtu sér ekki við að kjósa jaðarmenn. Nú dugði fylgið, af því að kjósendur sýndu ábyrgðarleysi fremur en útlendingahatur.

Frakkar eru ekki haldnir þjóðernisofstæki eða útlendingahatri umfram aðra, heldur hafa þeir sýnt ótrúlegt ábyrgðarleysi, að minnsta kosti að þessu sinni. Þeir gerðust fangar kröfunnar um, að stjórnmálamenn séu gífurlega hressir, þótt ekkert sanni, að slíkir komi að neinu gagni.

Frakkar og raunar aðrar vestrænar þjóðir hafa fengið viðvörun og þurfa nú að endurmeta, hvaða kostum þær telja menn þurfi að vera búnir til að vera gott efni í ábyrga þjóðarleiðtoga.

Jónas Kristjánsson

FB