Framsal fullveldis

Greinar

Stofnun Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag síðasta fimmtudag er eitt merkasta framsal fullveldis ríkja til fjölþjóðlegra stofnana, sem eiga að gera siði, lög og reglur beztu ríkja að algildri reglu fyrir jarðarbúa alla. Hann byggist á vestrænum hefðum og hefur að mestu vestræna dómara.

Dómstóllinn tekur á glæpum, sem framdir verða eftir 1. júní á þessu ári . Þá verða menn gerðir persónulega ábyrgir fyrir aðild sinni að stríðsglæpum og geta ekki skotið sér bak við stofnanir. Reiknað er með, að margir muni hugsa sig um tvisvar, þegar nýi siðurinn er hafinn.

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn er almennt framhald sértækra dómstóla fyrir Rúanda og Júgóslavíu. Réttarhöldin yfir Slobodan Milosevic gefa tóninn um framtíðina. Saddam Hussein og Ariel Sharon mega fara að gæta sín betur en Pol Pot og Augusto Pinochet gerðu á sínum tíma.

Sextíu ríki hafa skrifað undir stofnskrá dómstólsins og búist er við þrjátíu til fjörutíu undirskriftum til viðbótar. Í þessum ríkjahring verða fyrirmyndarríki heimsins, en utan við munu standa ofbeldishneigð stríðsglæparíki á borð við Rússland og Kína, Bandaríkin og Ísrael.

Ísland stendur að dómstólnum eins og öll ríki Vestur- og Mið-Evrópu. Þetta eru einmitt fyrirmyndarríkin, sem að undanförnu hafa haft frumkvæði að stofnun margvíslegra sáttmála um bætta stöðu mannkyns. Þau hafa í flestum tilvikum safnað um sig fylgi meirihluta ríkja heimsins.

Þannig verður Kyoto-bókunin um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofts innan tíðar staðfest af öllum þorra ríkja heims. Þannig verður sett bann við sölu jarðsprengja og hert eftirlit með framleiðslu eiturvopna. Öll slík mál sigra að frumkvæði Evrópu gegn andstöðu Bandaríkjanna.

Afsal fullveldis er hin yfirlýsta forsenda Bandaríkjanna fyrir andstöðu þeirra gegn fjölþjóðasáttmálum og fyrir misheppnaðri baráttu þeirra gegn fullgildingu slíkra sáttmála. Auðvelt er að selja kjósendum óttann við afsal fullveldis, svo sem ýmis dæmi sýna einnig hér á landi.

Ríkisvaldið á Íslandi hefur borið gæfu til dugnaðar við að afsala íslenzku fullveldi í hendur fjölþjóðlegra stofnana. Við erum aðilar að ótal reglum og erum að minnsta kosti vikulega að stíga skrefinu lengra, einkum með staðfestingu á stríðum straumi ákvarðana Evrópusambandsins.

Sumt af þessu afsali skiptir litlu eða engu máli og tæpast nokkurt skaðar okkur. Allur þorri afsalsins felur í sér gæfuspor. Það treystir stöðu Íslands í hópi beztu fyrirmyndarríkja heims við smíði almennra ramma, sem gera líf alls almennings betra og göfugra en það hefði ella orðið.

Að mörgu leyti er eðli íslenzkra stjórnmála frumstæðara en annars staðar í álfunni. Ráðherrar fá hér reiðiköst og leggja niður stofnanir eða flytja þær frá höfuðborgarsvæðinu. Rík tilhneiging er til geðþótta í stjórnkerfi og stjórnmálum. Margir eru í alvörunni dauðhræddir við ráðherra.

Því meira sem við tengjumst fjölþjóðlegu neti sáttmála og stofnana af vestrænum toga, þeim mun meira þrengist svigrúm frumstæðra og valdasjúkra ráðamanna okkar til að víkja frá grundvallarhefðum vestræns samfélags. Þannig höfum við fetað okkur fram eftir vegi.

Því fleiri ríki sem taka þátt í þessu neti, þeim mun víðari verður hringurinn, þar sem samskipti og viðskipti fara eftir vönduðum og viðurkenndum leikreglum, öllum málsaðilum til góðs.

Jónas Kristjánsson

FB