Gagnslaust þýlyndi

Greinar

Ekki er hægt að sjá neinn árangur af gagnkvæmum heimsóknum íslenzkra og kínverskra ráðamanna í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum. Ekki er heldur hægt að sjá neinn árangur af sendiráði Íslands í Kína. Og allra sízt er hægt að sjá neinn árangur af því að skríða fyrir Kína.

Sem viðskiptavinur kemst Kína varla á blað Íslands. Um hálft prósent útflutnings okkar fer til Kína, miklu minna en til venjulegs smáríkis í Evrópu. Enda bjóðum við aðeins dýrar vörur, sem einungis ríkar þjóðir hafa efni á að kaupa, Evrópumenn, Bandaríkjamenn og Japanir.

Ekki er einu sinni jöfnuður í hinum sáralitlu viðskiptum Íslands og Kína. Þaðan kemur margfalt meira af vörum en fer þangað. Vöruskiptajöfnuðurinn er óvenjulega óhagstæður, þrátt fyrir sendiráð í Peking og endalausar tilraunir til að koma íslenzkum vörum á framfæri í Kína.

Samt hafa íslenzkir ráðamenn verið á stöðugum ferðalögum til Kína, stundum með fjölmennar sendinefndir kaupsýslumanna. Tilraun til að koma upp íslenzkri lakkrísverksmiðju þar í landi fóru frækilega út um þúfur. Og ekki er enn séð, að Orkuveita Reykjavíkur sjái aur fyrir sitt puð.

Ekki er nóg með, að íslenzkir peningar hafði verið lagðir undir í kínverska fjárhættuspilinu. Stjórnmálamenn hafa lagt orðstír sinn að veði með því að bjóða hingað illræmdum harðstjórum á borð við Li Peng og Jiang Zemin og efnt þannig til mótmæla og sundrungar í þjóðfélaginu.

Vigdís Finnbogadóttir klúðraði forsetatíð sinni með ógætilegum orðum á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking fyrir sjö árum. Þar sýndi hún þýlyndi og gagnrýndi þá, sem bentu á, að Kína hafði þverbrotið skilyrði, sem sett höfðu verið fyrir því að fá að halda ráðstefnuna.

Meira að segja hefur bilað teflon-húðin á Davíð Oddssyni forsætisráðherra, sem lét íslenzku stjórnsýsluna taka við 500 nafna svörtum lista frá kínverska sendiráðinu og lét senda lögreglumenn út um heim til að hindra friðsama sértrúarmenn í að trufla heimsókn Jiang Zemin til Íslands.

Eins og ýmsir fleiri ráðamenn í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum víðar í heiminum eru ráðamenn hér á landi uppnumdir af stærð og uppgangi Kína og telja þar vera mikil viðskiptafæri, þótt okkur væri nær að reyna að sinna betur nálægum mörkuðum, sem borga betur.

Kína er ofmetinn viðskiptavinur. Hagtölur þaðan eru stórýktar og marklausar með öllu. Vond reynsla er af fjárfestingum þar í landi. Mestu máli skiptir þó, að Kína á eftir að ganga gegnum hríðir aðlögunar að lýðræði, sem Indland og ýmis fleiri þriðja heims lönd hafa þegar komizt yfir.

Kommúnistaflokkurinn í Kína hefur það eitt að markmiði að bíða ekki sjálfur sömu örlög og systurflokkurinn í Sovétríkjunum sálugu. Vegna þessa þolir hann enga sjálfstæða hugsun í landinu, ekki einu sinni sértrúarflokka og góðgerðasamtök. Þess vegna er Kína tifandi tímasprengja.

Engin heilbrigð skynsemi er í dálæti íslenzkra ráðamanna á viðskiptum við þessa mestu tímasprengju nútímans, sem getur hvenær sem breytzt í vígvöll milli héraðshöfðingja. Helzt hefur verið bent á, að óhófsáhugi á ókeypis ferðalögum til Kínamúrsins valdi þýlyndi okkar manna.

Við skulum hætta kínversku þráhyggjunni, hver sem er orsök hennar, og beina kröftum okkar að vexti vannýttra markaða í auðugum nágrannalöndum okkar, þar sem leikreglur eru traustar.

Jónas Kristjánsson

FB