Verkefnasnauð þjóðarljós í heilbrigðisráðuneytinu hafa bannað sölu á kjúklingum hér á landi öðruvísi en frystum. Birt hefur verið reglugerð um þessa björgun heilsufars þjóðarinnar, enn eitt skrefið til ríkis stóra bróður.
Um kjúklinga gildir eins og um fisk, að fersk vara er mun betri og næringarmeiri. Flestar menningarþjóðir taka ferska vöru fram yfir frysta, svo sem Íslendingum má vera ljóst, ef þeir bera saman ferskan fisk og freðfisk.
Norðmenn eru undantekning á þeirri reglu, að menningarþjóðum þyki gaman að borða góðan mat. Þeir eru svo grátt leiknir af langvinnu heimatrúboði, að áhugi á mat þykir nánast ósiðlegur. Þaðan er líka fyrirmynd ráðuneytisins.
Íslenzkir landbúnaðarmenn hafa áttað sig á, að hér á landi blundar áhugi á góðum mat. Þeir hafa tekið upp á að selja ófryst lömb á stórhátíðum á borð við páska, hvítasunnu og jól. Margir neytendur hafa tekið þessu fegins hendi.
Frysting er auðvitað mikilvæg aðferð til að brúa bil framboðs og eftirspurnar, einkum þegar framleiðsla er árstíðabundin eða flytja þarf matvælin um óravegu. Hún er næstbezti kosturinn, þegar ekki er hægt að fá ferska vöru.
Hitt er verra, að frystingu er beitt í vaxandi mæli til að spara mönnum rétta og vandaða meðferð viðkvæmrar vöru. Þegar allt er stílað á frystingu, dregur úr tilfinningu manna fyrir meðferð þeirrar vöru, sem ekki er fryst.
Slíkt mun einmitt vera áhyggjuefni ráðuneytisins. En það velur ekki þann kost að fræða menn og upplýsa um meðferð ferskrar vöru, heldur bannar það fersku vöruna yfirleitt. Þar er reitt hátt til höggs af litlu tilefni.
Fræðilega séð er mögulegt, að salmonella berist með ófrystum kjúklingum til manna. Er þá gert ráð fyrir, að menn annaðhvort nagi kjúklingana hráa eða borði með tólum, sem áður voru notuð við meðferð hrárra kjúklinga.
Slys af slíku tagi gerast að sjálfsögðu hjá fólki, sem er orðið svo gegnsýrt af færibandahætti frystingar, að það gerir sér ekki lengur grein fyrir natni og nákvæmni í meðferð matvæla. Þannig er vítahringur ráðuneytisins.
Í framhaldi af þessu er eins víst, að stóri bróðir í ráðuneytinu taki upp á að banna sölu á lunda og svartfugli öðruvísi en frystum. Það er nefnilega ekki hægt að fortaka, að á þeim leynist einn eða tveir koli-gerlar úr fjörunni.
Svo að ekki sé nú minnzt á þau ósköp, að hingað eru fluttir ferskir ávextir úr öllum heimshornum, þar sem grassera hinir verstu gerlar, mun verri en aumingja salmonellan, sem ekki hefur einu sinni mannslíf á samvizkunni.
Þegar við erum orðnir svo afsiðaðir af færibandastefnu frystingar, að við erum hættir að þvo ferska ávexti, má búast við, að þjóðarljós heilbrigðisráðuneytisins gefi út reglugerð um bann við sölu ávaxta, annarra en niðursoðinna.
Sumt mataráhugafólk hefur haft mikið fyrir að ná sér í ferska kjúklinga, alveg eins og það kaupir ferskan fisk í stað freðins. Þá ánægju hefur stóri bróðir nú afnumið af misráðinni umhyggju fyrir velferð þessa fólks.
Óþarfi ætti að vera að éta upp allar reglur Norðmanna sem af færibandi. Einhver önnur leið hlýtur að vera til að bæta úr atvinnuástandi þeirra íslenzkra embættismanna, sem hinum megin verða látnir naga frysta kjúklinga.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið