Að undanförnu hefur heldur sigið á ógæfuhliðina í stappi okkar við Breta í landhelginni. Það er ekki aðeins, að herskipaverndin geri togvíraklippingar örðugri en áður. Verst er, að brezku eftirlitsskipin hafa greinilega náð nokkrum árangri í skipulegri viðleitni sinni við að koma íslenzku varðskipunum úr leik. Londhelgisgæzlan er lömuð vegna þess, að sum varðskipin liggja til viðgerða í höfnum eftir árekstra við brezku skipin. Við höfum ekki efni á að missa mörg skip úr leik á þennan hátt. Skip gæzlunnar eru svo fá.
Það var því ánægjulegt, að varðskipinu Þór skyldi takast í fyrradag að klippa vörpuna aftan úr brezkum togara. Freigátan breska á staðnum fékk ekki við neitt ráðið. Þór reyndist henni snúningaliprari. Þetta sýnir brezku togaraskipstjórunum, að við látum ekki deigan síga, þótt sum beztu skip landhelgisgæzlunnar séu í lamasessi. Þeir geta því ekki verið óhræddir um sig, meðan nokkur fleyta gætir landhelginnar.
Það er mikils virði, ef unnt er að halda merki okkar á lofti með þessum hætti. Það er minni hætta á, að brezku togaramennirnir telji þorskastríðið vera komið í viðunandi horf, þar sem þeir þurfi hvorki að óttast veiðarfæramissi né aflaskort. Þar með er minni hætta á, að þeir leggi að ríkisstjórn sinni, sem þeir virðast hafa i vasanum, að flýta sér ekki tilsamninga við Íslendinga, heldur viðhalda núverandi ástandi á miðunum. Kannski sjá þeir nú, að þrátt fyrir allt sé skynsamlegra að reyna að semja við Íslendlnga.
Velheppnuð togvíraklipping Þórs var ágætur sólargeisli í annars þungbúnu veðri landhelgisdeilunnar.
Jónas Kristjánsson
Vísir