Þessa dagana er að koma betur í ljós, að Dagblaðið spáði rétt í leiðara 3. nóvember í fyrra, þegar það sagði Grænlendinga mundu ganga úr Efnahagsbandalagi Evrópu vegna búsifja þeirra, sem bandalagið hefði valdið þeim og mundi valda.
Jonathan Motzfeld, formaður grænlenzku heimastjórnarinnar, hefur boðað tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um bandalagsaðild, þegar landsþingið kemur saman 6. marz á þessu ári. Tillagan verður vafalaust samþykkt með miklum meirihluta.
Í tillögunni verður gert ráð fyrir ákveðnum kosningadegi. Reiknað er með, að hann verði árið 1982. Verða þá Grænlendingar komnir úr Efnahagsbandalaginu árið 1983, ef þjóðarviljinn verður áfram hinn sami og nú.
Efnahagsbandalagið gerði ljóta framkomu enn verri í síðustu viku, þegar það heimilaði Vestur-Þjóðverjum 3am tonna rányrkju á þorski við Austur-Grænland fram til 10. febrúar. Þessi síðasta misbeiting valds hefur valdið reiði í Grænlandi.
Danir beittu ekki neitunarvaldi gegn þessari heimild, bæði vegna hræðslu fulltrúa þeirra við froðufellandi ofsann í vestur-þýzka fiskimálaráðherranum og vegna hagsmuna danskra sjómanna í samskiptum bandalagsins og Noregs.
Grænlendingar hafa nú endanlega séð, að Danir eru ekki færir um að gæta hagsmuna þeirra á vettvangi Efnahagsbandalagsins, er þeir selja þá fyrir sína eigin. Úrsögn úr bandalaginu er því óhjákvæmileg niðurstaða framvindunnar.
Brottför Grænlendinga mun valda þeim miklum erfiðleikum vegna styrkjanna, sem þeir fá um Danmörku úr sjóðum bandalagsins. Þessir styrkir eru nú mikilvægur þáttur grænlenzks efnahagslífs, alveg eins og dönsku styrkirnir.
Af kaldri raunhyggju mætti segja, að samanlagt vegist þessir styrkir á við upptöku grænlenzkra auðlinda í hafi og vonina í upptöku þeirra, sem á landi eru, þar á meðal olíu og málma. Styrkirnir eru því ekki hrein gjöf.
Grænlendingar þurfa tíma til að koma fiskistofnum sínum í lag og ná tökum á hámarksnýtingu þeirra. Þeir þurfa líka tíma til að ná tökum á vinnslu olíu og málma úr jörðu. Þar er verkefni fyrir íslenzka þróunaraðstoð.
Matthías Bjarnason og fleiri hafa lagt fyrir alþingi frumvarp um Grænlandssjóð með 750 þúsund króna stofnfé. Gera þeir ráð fyrir, að fé þetta verði notað til samskipta Íslendinga og Grænlendinga á sviði menntamála.
Mjög er brýnt að alþingi samþykki þetta frumvarp, því að Danir hafa mjög látið undir höfuð leggjast að sjá til þess, að Grænlendingar fengju næga menntun. Háskólamenntaðir Grænlendingar eru til dæmis sárafáir.
Þessi sjóður er aðeins upphafið að því, sem við eigum að gera. Ráðstöfunarfé hans þarf að margfalda frá því, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ennfremur þurfum við að gera ráð fyrir að veita tækniaðstoð í fiskveiðum.
Vettvangur fyrir slíka aðstoð er að mótast í samstarfsnefnd Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga, sem senn kemst á fót. Þessir þrír aðilar hafa gífurlegra svæðishagsmuna að gæta í fiskveiðum og á öðrum sviðum.
Það fer saman við hagsmuni Íslendinga, að í Grænlandi mótist efnahagslega og menningarlega traust þjóðfélag. Aðstoð okkar við þriðja heiminn ætti einkum að beinast að því að hjálpa Grænlendingum að standa á eigin fótum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið