Vestmannaeyingar ætla að halda sína þjóðhatíð úti í Eyjum á þessu sumri eins og endranær. Þeir láta hvorki eldgos né eignamissi aftra sér frá að halda siðvenjunni eins og ekkert hafi í skorizt.
Vestmannaeyingar hafa lagfært golfvöll sinn úti í Eyjum til bráðabirgða. Þeir vilja ekki fara á mis við þá íþrótt, sem löngum hefur verið stunduð af meira kappi í Eyjum en annars staðar á landinu. Þegar menn leggja þvílíka áherzlu á að rækta félagslíf sitt og sameiginlegt frístundagaman, er hvorki vonleysi né uppgjöf á ferðinni, heldur bjartsýni og baráttuvilji.
Gesið í Heimaey hefur rénað jafnt og þétt. Jarðfræðingar telja litla hættu vera á, að það taki sig upp aftur með miklum krafti. Þetta hafa Vestmannaeyingar ekki látið segja sér tvisvar. Þeir eru þegar komnir á heimleið.
Nokkrar fjölskyldur búa nú þegar úti í Eyjum. Sú búseta er að vísu formlega séð aðeins til bráðabirgða. Kerfið segir, að næsta vetur verði aðeins verstöð í Eyjum, og eðlilegt fjölskyldulíf hefjist ekki fyrr en næsta vor. En mannfólkið hefur undarlegt lag á að láta kerfið ekki segja sér fyrir verkum.
Svo kann að fara, að kerfið standi andspænis því í haust, að úti í Eyjum vanti skóla fyrir börn og unglinga og ýmsa aðra þjónustu, sem þarf að fylgja venjulegri búsetu. Kerfið getur að vísu reynt að banna heimflutning fjölskyldna. En slík bönn eru venjulega vita tilgangslaus.
Allt er þetta vissulega háð þvi, að gosið taki sig ekki upp aftur í sumar og haust, heldur haldi áfram að fjara út. En á því eru nú betri horfur en nokkru sinni fyrr.
Þeir bræddu loðnu í Eyjum, meðan hraunið rann. Í atvinnulífinu er alltaf reynt að klóra í bakkann, þótt útlitið sé svart. Og nú eru fyrirtækin farin að vakna til lífsins, hvert af öðru. Fiskiðnaðurinn er smám saman að taka til óspilltra málanna. Og á eftir fylgja þjónustufyrirtækin.
Þessi sjálfvirka þróun kallar á skjóta endurreisn opinberrar þjónustu. Póst- og símamálastjórnin verður að vakna til meðvitundar um, að hjólin eru farin að snúast í Eyjum. Og rafmagnskerfinu þarf að koma í samt lag hið bráðasta.
Eftir því sem líflegra verður í Eyjum, verður erfiðara fyrir kerfið að halda þeirri stefnu, að þar eigi næsta árið aðeins að vera verstöð fyrir einstaklinga. Fjölskyldurnar halda innreið sína, án þess að við verði ráðið. Þannig rísa Vestmannaeyjar úr ösku fyrr en varir.
Sumir munu ekki snúa heim aftur. Hinir verða þó vafalaust fleiri, sem endurreisa búskap sinn í Eyjum, kannski 70% eins og bæjarstjórinn þeirra heldur fram. Kjarninn í þjóðfélagi Vestmannaeyinga hefur ekki rofnað í dreifingunni á meginlandinu. Þegar náttúruöflin hafa lokið kraftasýningu sinni, kemur maðurinn til baka og byrjar að sópa stéttina sína, eins og ekkert hafi í skorizt.
Þegar menn eru farnir að hugsa um golfvöllinn sinn og að skipuleggja þjóðhátíð sína, er heimferð þeirra hafin.
Jónas Kristjánsson
Vísir