Hér er allt á fullu.

Greinar

Sparifé í bönkum hefur aukizt um 75% á einu ári, sem er töluvert meira en verðbólgan hefur aukizt á sama tíma. Hin opinbera vísitölubólga hefur ekki aukizt nema um 50% á þessum tíma og er núna komin niður í 40%.

Hinn mikli sparnaður í þjóðfélaginu sýnir, að stefna fullrar verðtryggingar fjárskuldbindinga var rétt. Nú loksins sjá menn sér hag í að spara peninga, þegar þeir sjá, að verðbólgan hefur verið hindruð í að éta þá upp.

Þetta hlýtur að hvetja ráðamenn þjóðarinnar að stíga skrefið til fulls á þessu ári, svo sem lofað hefur verið. Í rauninni átti full verðtrygging að vera komin um síðustu áramót, en var þá frestað vegna hugleysis.

Verðtrygging lána hefur að vísu gert húsbyggjendum erfitt fyrir og kallar á samræmdar aðgerðir til að lengja lánstíma og auka hlut lána í heildarkostnaði. Þetta er verkefni, sem ríkisstjórnin verður að leysa.

Verðtryggingin hefur lagt miklar byrðar á ýmsa þætti atvinnulífsins, en ekki verður þó séð, að það sé hennar vegna á neinni heljarþröm. Á flestum sviðum snúast hjólin af fullum hraða og víða vantar hendur til starfa.

Fiskveiðarnar og fiskvinnslan njóta í senn óvenjulegra góðra aflabragða og yfir 20% hækkunar á gengi dollarans frá áramótum. Þessi þróun hefur bætt verulega hina áður erfiðu stöðu þessara hornsteina þjóðfélagsins.

Því miður er ekki hægt að reikna með miklu framhaldi á hækkun dollarans. Eftir áramótin má hvenær sem er búast við, að dollarinn fari að síga niður á við, þegar þar vestra verður hætt tímabundnum fjármálaaðgerðum.

Einnig verður að hafa í huga, að töluverður hluti hins almenna útflutningsiðnaðar selur til Evrópu í annarri mynt en dollurum og hefur á þessum sama tíma orðið að sæta tæplega 10% lækkun á gengi evrópskra gjaldmiðla.

Þessi lækkun kemur líka illa við þann iðnað, sem keppir hér á heimamarkaði við innflutning, sem nú fer lækkandi í verði í fyrsta skipti í manna minnum. Má raunar furðulegt telja, hvað iðnaðurinn stendur sig vel í þessari keppni.

Hækkun dollarans og lækkun gjaldmiðla Evrópu vegast ekki alveg á. Í heild hefur gengi íslenzku krónunnar þó ekki lækkað nema um 4% á þessu ári, sem út af fyrir sig má telja frábæran árangur, þótt ekki sé hann varanlegur.

Með ýmsum aðgerðum og töluverðri heppni hefur ríkisstjórninni tekizt að fresta frekari gengislækkunum. Fyrr eða síðar kemur þó að því, að spennan milli 40% verðbólgu og 4% gengislækkunar hlýtur að brjótast út.

Iðnaðurinn hefur verið að krefjast gengislækkunar með vaxandi þunga. Til skamms tíma var búizt við henni í ágúst. En málin hafa þróazt þannig, að ríkisstjórnin virðist munu geta leyft sér að draga hana á langinn.

Allt hjálpar þetta ríkisstjórninni við að ná markmiði 40% vísitölubólgu á þessu ári í stað 60% á tveimur undanförnum árum. Og er það líklega í fyrsta skipti í meira en áratug, að ríkisstjórn nær einhverju mikilvægu markmiði!

Enda ríkir mikill pólitískur friður á þessu sumri. Allur þorri manna hefur það bara sæmilegt. Víðast hvar er nóg að gera, – og fer slíkt senn að teljast einsdæmi í kreppuhrjáðum Vesturlöndum um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið