Herðum afstöðuna til Breta

Greinar

Heldur er hljótt um landhelgismálið þessa dagana eftir orrahríðina á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsríkjanna. Varðskipin hafa hægt um sig og brezki ásiglingarflotinn er herra landhelginnar. Það er eins og íslenzk stjórnvöld viti ekki almennilega, hvað til bragðs eigi að taka, og séu að hugsa ráð sitt.

Á meðan eru leiðarar Tímans með fýlu og gremju í garð Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins fyrir að skorta mátt til að kúga Breta í landhelgismálinu. Þetta er heldur ómerkilegt, því að til þessa hafa leiðarar Tímans ekki lýst miklum áhyggjum út af gagnsemi varnarliðsins og bandalagsins. Atlantshafsbandalagið gerði það, sem það gat.

Við megum vera tiltölulega ánægðir með árangur utanríkisráðherrafundarins því að þar var Bretum greinilega stillt upp við vegg sem óþæga aðilanum. Einar Ágústsson utanríkisráðherra segist að vísu hafa orðið fyrir vonbrigðum með fundinn. En hann er áreiðanlega ekki svo einfaldur að meina það. Varla gat hann ætlazt til þess, að bandalagið segði Bretum stríð á hendur.

Staðreyndin er sú, að Bretar hafa bitið sig blýfast í vanhugsaðar aðgerðir sínar. Greinargóð röksemdafærsla manna eins og brezka stjórnarþingmannsins Laurence Reed fær ekki þokað brezku stjórninni. Hann bendir á, að ríkjandi venjur á hafinu séu mótaðar af hagsmunum gömlu auðþjóðanna og verði senn með góðu eða illu að víkja fyrir hagsmunum þriðja heimsins.

Hann bendir á, að enginn hafi falið brezku stjórninni að gerast alþjóðalögregla fyrir dómstólinn í Haag. Hann bendir á, hve mikinn hag Bretar hefðu á að færa sjálfir út landhelgi sína. Hann bendir á, að einhliða aðgerðir séu oft réttlætanlegar í neyðartilvikum, þar á meðal aðgerðir Íslendinga. Hann bendir á, að líklega muni Bretar tapa málinu á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og einangrast í sérvizku sinni.

Engar vinsamlegar ábendingar af þessu tagi fá þokað brezku stjórninni. Það er því mikið vafamál, hvort frekari viðræður við Breta eigi nokkurn rétt á sér, jafnvel þótt þeir slaki eitthvað á hernaðaraðgerðum sínum. Það er bara tímaeyðsla að standa í tilgangslausu þrasi. Miklu nær væri að beina kröftunum í stærri stíl að hafréttarráðstefnunni til að tryggja sigurinn þar.

Við verðum nú þegar að stórefla samstarfið við önnur ríki, sem hafa viðáttumikla landhelgi eða hyggjast taka hana upp. Við verðum að halda með þeim fundi og ráðstefnur til að samræma sjónarmiðin og undirbúa aðferðir til að vinna fleiri þjóðir til fylgis við málstaðinn. Þetta starf er það eina, sem skiptir verulegu máli í landhelgisdeilunni.

Ef okkur tekst vel að undirbúa hafréttarráðstefnuna, getum við staðið upp með fulla alþjóðlega heimild fyrir allt að 200 mílna landhelgi, án þess að við þurfum að veita Bretum hinar minnstu undanþágur. Til hvers ættum við þá að vera að semja við staurblinda einstefnumenn?

Við skulum ekki láta varnarliðið og Atlantshafsbandalagið gjalda fyrir Breta. Við skulum láta Breta gera það sjálfa. Við skulum halda áfram því þorskastríði á miðunum. sem bráðum hefur staðið í heilt ár. En við skulum herða afstöðu okkar til samninga við Breta og einbeita okkur fremur að fullum sigri á hafréttarráðstefnunni.

Jónas Kristjánsson

Vísir