Hliðaráhrif sjúkrastofnana

Punktar

Uppskurður gegn krabbameini í blöðruhálskirtli minnkar dánarlíkur vegna sjúkdómsins um helming, en eykur um leið líkur á öðrum sjúkdómum, svo að dánarlíkur haldast óbreyttar. Niðurstöður sænskrar rannsóknar á þessu sviði voru birtar í The New England Journal of Medicine fyrir helgina og endursagðar í International Herald Tribune í gær. Krabbameinsleit, meðferð sjúkdómsins og uppskurður eru áhættuþættir, sem magna hættur á öðrum sviðum, svo sem hjartaáfalli eða lungnabólgu. Fáir gera sér grein fyrir heildarmynd heilsufarsins, þegar þeir samþykkja að gangast undir leit, meðferð eða uppskurð á afmörkuðu sviði. Vegna kostnaðar hefur í flestum rannsóknum hingað til verið vanrækt að meta hliðarverkanir aðgerða á sjúkrastofnunum, þegar mældur er árangur þeirra.